Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 11:48:00 (4834)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að bjóða hæstv. utanrrh. velkominn til þings og óska honum góðs bata í sínum veikindum. En það mál sem hér er til umfjöllunar, till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja EFTA og lýðveldisins Tyrklands, er mér nokkuð hugstætt eftir að hafa lesið þessa þáltill. og fylgst með og tekið þátt í umræðum um skýrslu Íslandsdeildar Norður-Atlantshafsþingsins fyrir nokkru.
    Það er ljóst hvað þessa ályktun varðar að hagsmunir Íslendinga eru ekki stórir í þessu máli. Það kemur fram að útflutningur Íslendinga til Tyrklands á síðasta ári voru 253 þús. kr. Hins vegar eru hagsmunir Tyrkja nokkru meiri því að innflutningur frá því ríki voru um 120 millj. Þetta þýðir að við þurfum í sjálfu sér ekki að knýja mjög fast á um samning af þessu tagi við Tyrki nema menn telji sig eiga einhver ónýtt sóknarfæri í útflutningi á sjávarútvegssviði. Það er líka ljóst af efni ályktunarinnar að meginatriðið er að færa EFTA-löndum sambærilegar tollaívilnanir í Tyrklandi og EB-löndin hafa.
    Ég vil varpa fram því sjónarmiði sem hér hefur reyndar áður komið fram að ég tel ekki einhlítt að líta einvörðungu á viðskiptalega hagsmuni, bendi þó á að þeir eru óverulegir fyrir okkur Íslendinga, heldur verðum við líka að líta á málið í öðru og víðara samhengi. Þar vil ég nefna til sögunnar stjórnarfarið í Tyrklandi og afstöðu þeirrar stjórnar til þjóðar sem þar býr.
    Þetta er ekki nýtt viðhorf, ekki fyrir vestræn ríki sem á undanförnum árum hafa mjög blandað þessum málum saman til þess að ná fram réttarbótum í þeim ríkjum sem aðgerðir þeirra hafa beinst gegn. Það gildir um ríki Vestur-Evrópu, Bandaríkin, það gildir um NATO-ríkin, þar sem þessi ríki hafa sett pólitísk skilyrði fyrir stuðningi og fyrirgreiðslu og viðskiptahagsmunum ríkja í Austur-Evrópu og í Suður-Afríku. Hér er því ekki um að ræða neitt nýmæli að menn nýti viðskiptalega hagsmuni til að knýja fram pólitískar réttarbætur í þeim ríkjum sem aðgerðirnar beinast að. Það hefur hins vegar orðið mér nokkurt undrunarefni að samtök sem Íslendingar eiga aðild að, t.d. NATO, skuli ekki hafa beint spjótum sínum að mannréttindabrotum í ríkjum þeirra sem eiga aðild að NATO. Það er greinilegt að hér gera menn mannamun hvort heldur það er í Tyrklandi eða Grikklandi annars vegar eða í Austur-Evrópu hins vegar.
    Ég vil minna á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og vil, með leyfi forseta, lesa úr upphafi þeirrar yfirlýsingar:
    ,,Hafi mannréttindi verið fyrir borð borin og lítilsvirt hefur slíkt haft í för með sér siðlausar athafnir er ofboðið hafa samvisku mannkyns enda hefur því verið lýst yfir að æðsta markmið almennings um allan heim sé að skapa veröld þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu.``
    Enn fremur vil ég bæta við orðum sem Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður lét falla á ráðstefnu Rauða krossins 4. maí á síðasta ári, með leyfi forseta:
    ,,Á því leikur að mínu viti enginn vafi að skilyrði varanlegs friðar er að mannréttindum verði aflað fylgis og framkvæmdar um heimsbyggðina alla. Þá fyrst getum við vænst þess að búa við óttaleysi. Þess vegna er það skylda okkar að berjast ekki einungis fyrir framfylgd mannréttinda í heimalandi okkar heldur hvarvetna.``
    Ég vil einnig benda á það varðandi Atlantshafsbandalagið að það kemur fram að eitt af markmiðum þess er að tryggja stöðugleika og öryggi er byggist á því að lýðræðið dafni. Ég hygg því að stefna þess bandalags, stefna Íslendinga innan þess bandalags og stefna þeirra þjóða sem í því bandalagi eru, þótt þær hafi sótt fram undir fána Sameinuðu þjóðanna á síðasta ári við Persaflóa, hafi leitt til þess að Kúrdum í Írak voru ekki tryggð þau mannréttindi sem öll staða var þá til að gera. Það er mitt mat að herir þessara þjóða höfðu það í hendi sinni að setja af stalli einræðisherra Íraks og tryggja réttindi Kúrda í því ríki. Það gerðu þau ekki og situr því sá einræðisherra á valdastóli þar á ábyrgð þessara þjóða. Ég hygg að ástæðan fyrir því hafi einmitt verið sú, virðulegi forsti, að Kúrdar búa ekki bara í Írak heldur líka í Tyrklandi og að NATO-þjóðirnar sem þarna voru saman komnar undir fána Sameinuðu þjóðanna hafi ekki viljað grípa til aðgerða sem bættu stöðu og efldu mannréttindi Kúrda einnig í Tyrklandi. Það þykir mér miður ef NATO hagar sinni stefnu þannig að mannréttindi eru ekki fyrir alla.