Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:19:00 (4844)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Árna M. Mathiesens vildi ég aðeins segja eftirfarandi: Það er staðfest í blöðum, ég held einnig hér á Alþingi og í viðtölum við útvarp og sjónvarp, að hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur hvað eftir annað sagt að á valdatíma hans ríkisstjórnar væri aðild Íslands að Evrópubandalaginu ekki á dagskrá. Ég held að hann hafi síðast sagt það í viðtali við Morgunblaðið fyrir skömmu síðan. Það hvarflaði ekki að nokkrum manni að telja að orð forsrh. í Helsinki væru á þann veg að hann væri að draga til baka þar, í hinni erlendu borg, margítrekaðar yfirlýsingar sínar hér heima. Auðvitað er það ljóst að orðin ,,í næstu framtíð`` geta þýtt allt mögulegt. Geta þýtt hálft ár, geta þýtt fimm ár, geta þýtt tíu ár. Það vita auðvitað allir. Ég ætla hæstv. forsrh. ekki það að hann sé svo óábyrgur að hann sé með slíkum hætti í stuttri ræðu í Helsinki að breyta grundvallaryfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er vettvangur Alþingis og íslenska lýðveldisins að breyta slíkum grundvallaryfirlýsingum, en ekki í stuttum andsvörum á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki. Og þar til ég heyri hæstv. forsrh. lýsa því yfir hér heima að hann sé búinn að draga til baka það fyrirheit sem hann gaf íslensku þjóðinni þegar ríkisstjórnin var mynduð, að aðild að Evrópubandalaginu væri ekki á dagskrá sem athugunarefni eða viðfangsefni, hvað þá heldur ákvörðunarefni hjá þessari ríkisstjórn, þá kýs ég að treysta orðum hæstv. forsrh. Ég kýs að gera það. Mér þykir hins vegar mjög merkilegt að hv. þm. Árni M. Mathiesen skuli fara að túlka þessa setningu í Helsinki á þann veg að hún taki til baka slíkar grundvallaryfirlýsingar sem hæstv. forsrh. hefur gefið hér heima og sem hafa orðið til þess að engin umræða hefur verið hér í þinginu, í utanrmn. eða innan stjórnmálaflokkanna um aðild að Evrópubandalaginu vegna þess að menn treystu því að orð forsrh. stæðu, að á yfirstandandi kjörtímabili mundi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki gera aðildina að Evrópubandalaginu að umfjöllunarefni.
    Ég mun þess vegna bíða eftir nýrri yfirlýsingu hæstv. forsrh. og þar til hún kemur kýs ég að treysta þeim orðum hans að íslenska þjóðin geti starfað í trausti þess að innan hans ríkisstjórnar verði aðild að Evrópubandalaginu ekki tekin á dagskrá.