Fríverslunarsamningur EFTA við Tyrkland

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 12:21:00 (4845)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að fyrst gerist það að hv. 8. þm. Reykn. kemst upp með það óátalið af forseta að brjóta þingsköp með því að ræða hér í löngu máli mál sem ekki var á dagskrá, og, það sem verra er, í skjóli þessara þingskapabrota að halda fram röngum fullyrðingum um að skýrsla sem ekki er á dagskrá kveði upp úr um stefnubreytingu af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar. Nú hefur hann að vísu viðurkennt að svo sé ekki vegna þess að það er alveg ljóst og hafið yfir vafa, að stefna íslensku ríkisstjórnarinnar er óbreytt um forgangsmálið að ná samningunum um EES og það er hvergi boðuð sú stefnubreyting að Íslandi beri að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Jafnvel sú réttlæting um það að nauðsyn bryti þingskapalög, að hér væri svo stórt mál á dagskrá að það yrði að fá að brjóta þingsköp út af því, stenst ekki heldur. Og þótt sú staðreynd blasi við að bandalagsþjóðir okkar í EFTA og innan Norðurlandaráðs, Svíþjóð, Finnland og fyrirsjáanlega Noregur, muni taka ákvarðanir um það að hefja samninga um aðild að Evrópubandalaginu, sem er sú eina breyting sem kallar á það að við skoðum á ný hvort ákvarðanir þessara bandalagsþjóða hafi einhver áhrif í þá átt að við skoðum álitamál aftur, það er ekki stefnubreyting. Það að spyrja spurninga er ekki stefnubreyting. Það er fyrst þegar fyrir liggja svör við spurningum og menn hafa tekið stefnumarkandi ákvarðanir um niðurstöður sem stefnubreyting er boðuð. Öll er þessi umræða þess vegna út í hött. Það er byrjað á því að brjóta þingsköp og það er endað á því að fara í þingskapaumræðu að tilefnislausu og mætti þetta verða forsetum og stjórnendum

þingsins til umhugsunar.