Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 13:01:00 (4859)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu tillaga frá nokkrum hv. þm. og er 1. flm. hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Tillagan er um friðun ,,Landáms Ingólfs`` fyrir lausagöngu búfjár. Ég er einn af meðflm. tillögunnar og styð hana því að sjálfsögðu, en mig langar til þess að segja hér nokkur orð í upphafi umræðu um þetta mál.
    Ég geri mér grein fyrir því að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða sem snertir vissulega lífsafkomu fólks og í þessu tilfelli bænda þó svo að hér sé ekki verið að tala um það að banna búfjárhald, heldur að banna lausagöngu. En þar sem hér er ekki verið að tala um valdboð frá Alþingi heldur verið að leggja til samstarf eða samvinnu við viðkomandi sveitarfélög sem eigi að hafa það að markmiði að koma í veg fyrir lausagöngu, þá finnst mér málið vera miklu betra. Ég sem sagt legg áherslu á að þarna verði um samvinnu að ræða enda hefur það komið fram í máli hv. flm. að það er einmitt það sem hún er að tala um líka.
    Einnig þarf að vera samvinna og samstarf hvað snertir kostnað því að það gefur auga leið að það að viðkomandi bændur þurfi að færa sitt sauðfé inn í beitarhólf eða girðingar kostar peninga.
    Mér er kunnugt um það að hér er ekki um mörg stórbýli að ræða heldur miklu frekar um smærri bú og þeim hefur verið að fækka þannig að e.t.v. má segja sem svo að eftir einhvern ákveðinn tíma séu líkur á því að búfjárhald á þessu svæði verði orðið miklu minna. Ég er ekki að segja að það leggist af en alla vega er þróunin í þá átt.
    Ég vil taka undir það sem kom fram hér í máli flm. að svæðin eru misjafnlega illa á sig komin þannig að það þarf kannski að athuga það í nefnd hvort ástæða er til þess að einskorða sig við Landnám Ingólfs eða hvort eitthvert annað svæði öðruvísi afmarkað er álitlegra í þessu efni, en mín skoðun er sú að einhvers staðar sé rétt að byrja á þessu verkefni. Ég lít svo á að þetta svæði sé tiltölulega einfalt að afmarka, og sennilega er það þess vegna sem það hefur verið tekið út úr og svo ekki síst sú ástæða að hér á þessum landshluta, á þessu svæði býr stærstur hluti þjóðarinnar.
    Ég veit ekki hvort það er alveg sanngjarnt að halda fram því sem kom fram í máli hv. 14. þm. Reykv. að gróðureyðing sé um allt land. Ég veit ekki alveg hvernig hún skilgreinir allt land, hvort það eru allir landshlutar eða öll kjördæmi en væntanlega ekki allir hreppar. Nú vitum við það að málið er mjög mismunandi alvarlegt eftir því hvar litið er á landið. Það er kannski allra alvarlegast í mínu kjördæmi, Norðurl. e. Við hljótum öll að hafa af því áhyggjur hvernig ástandið er í sambandi við okkar land, við erum að tapa því og það er nokkuð sem við getum ekki horft á án þess að reyna að grípa til aðgerða og vissulega hefur verið gripið til aðgerða og vissulega er langt frá því að hér sé sauðkindinni einni um að kenna eins og kom fram í máli þeirra tveggja ræðumanna sem hér hafa talað.
    Ég vil taka undir það með hv. 14. þm. Reykv. að hrossin eru líka stórt vandamál en eru vinsælli skepna alla vega hjá borgarbúum heldur en sauðkindin. Þess vegna finnst okkur sveitafólkinu stundum að borgarbúar séu svolítið ósanngjarnir gagnvart sauðkindinni þegar litið er á þær skemmdir sem hrossin valda.
    Ég er einn af flm. þessarar tillögu og styð hana en hún verður eflaust skoðuð í nefnd eins og öll önnur mál og ekki þar með sagt að tillgr. sem slík geti ekki litið einhvern veginn öðruvísi út þegar hún kemur þaðan, en ég þakka hv. flm. fyrir að hafa frumkvæði í málinu.