Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 13:16:00 (4861)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um þá tillögu sem hér liggur frammi. Ég ætla í upphafi að nefna það að umræðan um gróðurvernd og umhverfismál hefur að mínu mati tekið mjög jákvæðum breytingum nú á síðustu mánuðum. Það kom mjög vel í ljós á ráðstefnu sem haldin var á Húsavík um síðustu helgi af áhugasamtökum þar, Húsgulli. Þar kom það mjög skýrt fram og umræðan og umfjöllunin er að mínu mati komin á það stig að það er fullur grundvöllur til þess að allir aðilar málsins, bændurnir sem nytja landið, áhugafólkið um gróðurvernd og stjórnvöld, geti tekið höndum saman og unnið að sameiginlegu markmiði, að bæta gróðurfar í landinu og forða því frá frekara tjóni.
    Það hefur ekki alltaf verið á þennan veg og ég hafði af því verulegar áhyggjur þegar umræðan fyrir nokkrum árum var þannig að menn ræddu út frá þeim forsendum að það að forða landinu frá sauðfjárbeit væri lausnarorðið og það sem gæti læknað öll mein í þessu. Ég hafði af þessu áhyggjur vegna þess að þeir sem þannig töluðu á þeim tíma hefðu væntanlega staðið uppi rökþrota og í ráðleysi ef síðasta sauðkindin hefði verið fallin en landið haldið áfram að blása upp. Það er mjög ánægjulegt að menn skuli vera farnir að líta á málið í víðara samhengi.
    Ég vil í þessu sambandi benda á það að á rúmum áratug hefur sauðfé í landinu fækkað um tæplega helming, frá því að vera þegar flest var 1978 eða 1979 yfir 900.000 niður fyrir 500.000 í dag. Þannig að sauðfjáreign landsmanna þarf ekki að standa í vegi fyrir því að menn nái víðtækri samstöðu um gróðurvernd og endurheimt gróðurlands. Ég get hins vegar tekið undir þau sjónarmið að beitarmálin megi skipuleggja betur en gert er í dag og eins og fram kom í ræðu hv. 14. þm. Reykv. hér áðan er unnið að því af fullum krafti á vegum landbrn. í fullu samstarfi við bændur og önnur hagsmunasamtök að svo megi verða.
    Ég vil einnig benda á það að á þessum málum hefur víða verið tekið. Ég get upplýst það hér að í minni heimasveit, Eyjafjarðarsveit, sem í dag er langfjölmennasti sveitahreppur landsins, er lausaganga búfjár á stofnbrautum og þjóðvegum bönnuð. Það var ekki gert vegna þrýstings utan frá, það var gert af heimamönnum einfaldlega vegna þess að menn sáu þörfina til þess. Í því sambandi, til þess að undirstrika það að bann við lausagöngu búfjár getur verið af margvíslegum orsökum, þá er það ekki svo að þar væri um að ræða gróðureyðingu. Þetta er nú því betur ein af fáum sveitum landsins þar sem menn þurfa ekki að glíma við þann vágest. Ástæðan var einfaldlega sú að menn töldu það ekki fara saman með svo þéttri byggð sem þar er. Þannig geta ástæðurnar fyrir þessu verið margvíslegar.
    En ég vil ítreka það sem ég var að reyna að segja í upphafi ræðu minnar að til þess að ná þarna árangri þarf samvinnu allra aðila. Þetta kom m.a. mjög skýrt fram í ræðu dr. Björns Sigurbjörnssonar, eins af framkvæmdastjórum FAO, á Húsavíkurráðstefnunni þar sem hann sagði: Menn mega ekki líta á bændurna sem vandamál, það verður að líta á þá sem lykilinn að lausninni. Öðruvísi náum við ekki árangri.
    Að lokum, virðulegi forseti, örfá orð um ábendingu hv. 5. þm. Suðurl. um hvert vísa ætti málinu. Ég get ég tekið undir með honum að samkvæmt þeirri stjórnskipun sem er í gangi í landinu í dag væri e.t.v. eðlilegra að málið færi til landbn. Ég vil hins vegar ekki gera neitt stórt mál úr þessu þar sem ég vil ekki vekja upp þær deilur sem hafa verið eilítið í láginni núna um það hvar gróðurverndarmálin, landgræðslan, eigi að vera vistuð í stjórnkerfinu. Það er mjög viðkvæmt mál. Ég get fallist á að ef við lítum til lengri tíma þá eigi í það minnsta eftirlitsþátturinn varðandi gróðurvernd og uppgræðslu að vera hjá umhvrn. en menn eiga að fara sér hægt þar, einfaldlega vegna þess að það hefur myndast gott samband á milli Landgræðslunnar sem er undir landbrn. og bændanna í landinu. Þetta er mjög viðkvæmt samband og allar snöggar breytingar á þessu stigi gætu orðið til þess að raska því sem þó hefur náðst.