Friðun Landnáms Ingólfs fyrir lausagöngu búfjár

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 13:51:00 (4866)

     Auður Sveinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til að koma aftur í ræðustól til þess að ítreka afstöðu mína í þessu máli. Þessi till. sem hér er lögð fram fellur í raun og veru alveg að þeim markmiðum sem nefnd sú, sem landbrh. setti á laggirnar sl. haust, er að vinna eftir og í þeirri nefnd eru fulltrúar umhvrn. og landbrn. ásamt fleira fólki.
    Ég dreg ekkert úr því að gróðureyðing á þessu svæði er mikil og það þarf að grípa til aðgerða. Hins vegar held ég að í ljósi þess hvernig þær breytingar eru sem hafa átt sér stað á undanförnum þremur árum og jafnvel enn skemur í sambandi við viðhorf manna til að leysa þessi mál, og þá á ég ekki síst við viðhorfsbreytingu hjá bændastéttinni og einnig hjá landgræðslufólki, sé afar slæmt að koma með svona tillögu sem tekur aðeins yfir afmarkað svæði vegna þess að eins og fram hefur komið hér hvað eftir annað eru mjög breytt viðhorf í þessu máli. Og það er vilji til þess að taka á málinu í heild. Svæðið sem um er að ræða er ákaflega breytilegt. Sums staðar er gróður í framför, jafnvel á þessu illa farna Hengilssvæði er gróður í framför en hann er líka þar í afturför. Það er því ekki hægt að alhæfa um þetta. Þarna eru ákaflega mismunandi staðhættir. Og ég ítreka aftur að það er ástæða til að skoða hrossabeitina á þessu svæði.
    Ég er ekki í neinum vafa um að það er hægt að leysa þessi mál og þá í sambandi við girðingar, með einhvers konar beitarhólfum, en það þarf að fara mjög nákvæmlega í þá vinnu og það er alveg ljóst að það þarf að koma til aðstoð við bændur til þess að framkvæma þetta.
    Ég er sannfærð um það að á öllu landinu, ef tekin er hver sveit fyrir sig --- það verður að gera þetta þannig, það þarf að skipuleggja þetta --- þá eiga hólf sums staðar rétt á sér og sums staðar er hægt að slá saman svæðum sem er þá hægt að friða. Ég nefni t.d. þær aðgerðir sem hafa verið gerðar á Fljótsdalshéraði, með því að skipuleggja það vel og fara yfir það allt saman hefur verið hægt að friða mjög stórt svæði og einfalda girðingarmálin og sú vinna er öll til hinnar mestu sæmdar.
    En til þess að ítreka það sem ég hef sagt áður þá er ég ekki í neinum vafa um að orðið hefur hugarfarsbreyting í þessum efnum og það er ekki til bóta að leggja fram ályktun um eitt einstakt svæði. Við verðum að halda áfram að vinna að þessu í heild.
    Að lokum, virðulegi forseti, fagna ég þeim áhuga sem hv. 17. þm. Reykv. virðist vera farinn að hafa á gróðurverndarmálum.