Hæstv. forseti. Ég verð því miður að segja það að mér finnst þessi till. sem fyrir liggur bera vott um ákveðið vanmat og jafnvel þekkingarleysi flm. á gildi þekkingar í norrænum málum. Það er alveg rétt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns að sumir eru þeirrar skoðunar að rétt sé að láta enskuna ryðja brautina eins og hefur verið sagt, enskan sé tungumál sem börnin hafi heyrt og jafnvel þekki svolítið í þegar þau byrja í skólanum og hafi jákvætt viðhorf gagnvart og geti mjög fljótt nýtt sér hana. En aðrir, og þar með talin undirrituð, telja nauðsynlegt fyrir dönskuna að fá ákveðið forskot. Forskot af því að danskan hefur aldrei notið þeirrar almennu viðurkenningar í hugum barna og unglinga sem enskan gerir. En ef maður á annað borð leggur þetta mat á hlutina þá gengur maður líka út frá því að það sé hagkvæmt og nauðsynlegt fyrir Íslendinga að kunna norræn mál.
Ég get talað af mikilli reynslu um þessi mál af því að ég er enskukennari, hef kennt ensku í rúm tíu ár. Ég hef líka kennt dönsku á framhaldsskólastigi. Það þarf engar áhyggjur að hafa af enskunni því hún nýtur mikilla vinsælda, eins og ég sagði. Það verður að vera alveg tryggt að ef við gerum breytingar á þessum málum þá séum við ekki að gera það til að rýra hlut dönskunnar. Það má alveg skoða það að breyta þessum málum en við verðum þá líka að hafa það í huga að verið sé að gera þær breytingar til að bæta hlut dönskunnar, ekki hið gagnstæða.
Við skulum muna það að danskan eða Norðurlandamál, hvert svo sem það væri, er lykill okkar að Norðurlöndum og til Norðurlandanna höfum við margt að sækja. T.d. sækir stór hluti Íslendinga sem fer í framhaldsnám námið til Norðurlandanna. Það er miklu ódýrara að sækja nám til Norðurlandanna en annað, við höfum greiðan aðgang að skólum þar. Kennsluefni í íslenskum framhaldsskólum er oft á Norðurlandamálum. Síðan má benda á það að í síðasta hefti Nordisk Kontakt bendir Dani á það að með hugsanlegri inngöngu Norðurlandaþjóða, einnar eða fleiri, í EB aukist enn vægi Norðurlandamála sem sameiningartákn okkar, norrænna þjóða, í hinu risastóra samfélagi sem EB er.
Auk hinna menningarlegu áhrifa skulum við ekki gleyma því að við eigum mikil viðskipti við Norðurlönd, þetta er 23 millj. manna markaður og í því sambandi er kunnátta í norrænum málum mjög nauðsynleg. Sem dæmi um það hve Danir líta á það sem mikilvægt að kunna tungu þess sem eiga á viðskipti við má nefna að þegar Danir ætluðu að fara inn á Japansmarkað með danskar vörur þá var það þeirra fyrsta verk að kenna sölumönnum og öðrum lykilmönnum japönsku. Norðurlandabúar eru líka stór hluti þeirra ferðamanna sem hingað koma árlega og íslenskur leiðsögumaður sagði mér það að einhverra hluta vegna væri ein sveit á Íslandi mun betur stæð en aðrar hvað varðar kunnáttu í dönsku. Og þessi leiðsögumaður segir mér að það hafi verið mjög áberandi hvað viðhorf ferðamannanna var miklu jákvæðara og ánægjulegra gagnvart þessari sveit þar sem menn gátu tjáð sig og átt samskipti á sínu eigin tungumáli. Auk
þessa er alls staðar í kringum okkur verið að auka mikilvægi annarra menningaráhrifa en einmitt hinnar engilsaxnesku. Eins og flm. benti réttilega á sjálfur eru engilsaxnesk áhrif alls staðar í kringum okkur. Og ekki síst beinast þessi áhrif að unga fólkinu.
Ég óttast breytinguna sem lögð er til með þessari þáltill. ekki síst þar sem mér finnst greinargerð flm. mjög grunn og byggjast á allt öðrum forsendum en ég a.m.k. mundi vilja setja fram í þessu sambandi. Það er algjörlega farið fram hjá kennslufræðilegum rökum og það er vanmat á menningarlegu og fjárhagslegu gildi þess að Íslendingar kunni Norðurlandamál.
Ég tel mjög mikilvægt að við frekari umfjöllun málsins verði leitað álits margra aðila sem geta haft um þetta að segja, t.d. nefni ég skólamálaráð bæði HÍK og KÍ, Samtök tungumálakennara, Útflutningsráð, Ferðamálaráð, SÍNE og Stúdentaráð. Þetta eru allt aðilar sem málið snertir.
Síðan ætla ég aðeins að uppfræða hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur um kennaramenntun. Það er rétt sem hún segir að það er ekki skylda að læra dönsku í Kennaraháskólanum eða annars staðar þar sem réttindi fást til kennslu á grunnskólastigi, en þeir kennarar sem læra tungumál fá sömu uppræðslu í aðferðafræði tungumála og það er sama aðferðafræði sem er notuð við kennsku ensku og dönsku og reyndar annarra tungumála mikið til. Þannig að ég held að það sé ekki kennaramenntunin í rauninni sem háir þessu heldur kannski fyrst og fremst þetta viðhorf sem danskan hefur alltaf átt við að glíma, þ.e. það neikvæða viðhorf að hún sé leiðinlegt tungumál. Það er það sem við þurfum að berjast á móti og við þurfum að reyna að styðja við bakið á dönskunni, hvort við gerum það með því að setja enskuna sem fyrsta tungumál, það getur verið. En við þurfum að fá álit fagmanna á því hvort það verður.