Enska sem fyrsta erlenda tungumálið

112. fundur
Föstudaginn 27. mars 1992, kl. 14:44:00 (4877)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég þakka flm. fyrir að hreyfa þessu máli. Það er alltaf gott að fá umræður um það hvort það sé rétt að enskan eða danskan eða Norðurlandamálin hafi forgang. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég hef í sjálfu sér ekkert á móti ensku, síður en svo. Hv. flm. upplýsti hér áðan að danskan væri kennd frá 6. til 10. bekkjar en enskuna væri ekki byrjað að kenna fyrr en í 7. bekk. Þetta er að vísu alveg rétt. Það munar þarna einu ári á milli dönskunnar og enskunnar en á móti kemur að enskan hefur ákveðinn forgang vegna þess að þróunin undanfarin ár hefur verið í þá átt að auka kennslu í ensku. Fyrir allmörgum árum síðan var það nánast á síðasta stigi grunnskólamenntunarinnar sem enskan kom inn í og þá hafði danskan e.t.v. verið kennd í tvö til þrjú ár áður. Þróunin hefur verið í þá átt að enskan er alltaf að sækja á. Ég tel þess vegna að það þurfi ekkert að vera að gera enskunni hærra undir höfði en er í dag, bæði í skólakerfinu og í þjóðfélaginu yfirleitt. Það eru mikil áhrif ensku á börn og unglinga í sjónvarpi, mikil áhrif í kvikmyndahúsunum, á vinnumarkaðnum einnig. Það fólk sem hingað kemur frá öðrum löndum til að vinna er margt enskumælandi og er yfirleitt farið út í það að það ræða við það fólk á ensku vegna þess að enskan er það mikið notuð, þá finnst Íslendingunum sjálfsagt að ræða við þetta fólk á ensku, þannig að þar fá unglingarnir líka æfingu í þessu tungumáli. Og enskan er vissulega alþjóðamál, það er alveg rétt. En enskan hefur ákveðinn forgang svo víða í þjóðfélaginu að ég tel ekki að það þurfi að gefa henni enn þá meiri forgang en hún hefur. Reyndar kom hæstv. flm. inn á það að alls staðar væri enskan ráðandi, það er alveg rétt. En eins og fyrri ræðumenn hér á undan mér vil ég einnig leggja áherslu á þá samstöðu sem við verðum að hafa með Norðurlöndunum og sem við höfum haft í gegnum árin. Við megum ekki draga úr þeirri samstöðu með því að minnka þá kennslu eða seinka henni svo við getum haft eðlileg samskipti við Norðurlandaþjóðirnar. Okkur er ákaflega vel tekið þegar við komum til Norðurlandanna og getum mælt á skandinavísku og gert okkur skiljanleg við frændur okkar þar. Og þegar þeir koma hingað til lands eru þeir einnig mjög ánægðir að heyra hversu margir geta talað við þá á þeirra eigin tungumáli. Það er mjög gott að vera Íslendingur á Norðurlöndunum, maður er svona hærra skrifaður þar en margir aðrir.
    Ég vil einnig benda á þá þróun sem nú er að verða eins og margoft hefur komið fram hér í þinginu undanfarna daga, það er jú að verða ákveðin þróun í alþjóðamálum og breytingar. Við vitum ekki hvaða breytingar það hefur í för með sér á norræna samvinnu. Ég held þó að það sé engin spurning að norræn samvinna muni halda áfram þó hún verði e.t.v. í breyttu formi. Alla vega munu menningarleg og félagsleg samskipti halda áfram, ekki minni en verið hafa. Þess vegna verðum við að leggja áherslu á að halda þeim og ég held að liður í því sé m.a. sá að styrkja heldur kennslu í Norðurlandamálum en að draga úr vægi þeirra. Það er alveg nægilegur áhugi fyrir ensku inni í skólakerfinu og ég tel ekki þörf á að auka hana. Ég mun þess vegna ekki leggja það til að enskan fái enn þá frekari forgang í skólakerfinu en hún hefur í dag þar sem, eins og ég hef verið að benda á, hún hefur nægilega mikinn forgang alls staðar í þjóðfélaginu og engin þörf á að hún fái enn meira í skólakerfinu.
    Hins vegar vil ég benda á það að eins og komið hefur fram hér áður er það vissulega danskan sem mest áhersla hefur verið lögð á þó að lítils háttar hafi verið tekin upp kennsla í norsku og sænsku. En það hefur e.t.v. fælt nemendur nokkuð frá að það er dálítið ólíkt hljómfall í dönskunni miðað við okkar hörðu íslensku. Ég hef nú oft hugsað um það hvort ekki væri tímabært að gefa meira val um það hvort kennd væri norska eða danska í grunnskólum.
    Ég vil einnig benda á að í framhaldsskólunum er aftur komið þetta val um það hvaða tungumál lögð er mest áhersla á og nemendur geta þá valið um það. Og mjög snemma á framhaldsskólastiginu er

lokið stúdentsprófi í dönsku en eftir það getur fólk haldið áfram að læra önnur tungumál og enskuna auðvitað líka.
    Ég held þess vegna, þó að það sé gott og gilt að fá þessa umræðu upp á borðið, að þá mundi ég leggja það til að þessu væri ekki breytt í skólakerfinu heldur hefðu Norðurlandamálin vissan forgang fram yfir enskuna.