Rannsókn Kjörbréfs

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 13:34:00 (4882)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Borist hafa nokkur bréf varðandi varaþingmenn. Hið fyrsta er svohljóðandi og er dagsett 27. mars 1992:
    ,,Þar sem ég vegna aðalstarfs míns get ekki lengur setið á Alþingi í veikindaforföllum Jóns Baldvins Hannibalssonar utanrrh. fer ég fram á að 1. varamaður Alþfl. í Reykjavík, Magnús Jónsson veðurfræðingur, taki sæti á Alþingi að nýju í dag.
Valgerður Gunnarsdóttir,

2. varaþingmaður Alþfl. í Reykjavík.``


    Eins og kemur fram í bréfinu hefur Magnús Jónsson áður tekið sæti á Alþingi á þessu þingi og er hann boðinn velkominn til starfa á ný.
    Þá er annað bréf sem hljóðar svo og er dagsett 30. mars 1992:
    ,,Þar sem ég vegna anna get ekki sótt þingfundi næstu tvær vikur leyfi ég mér með vísun til 2. mgr. 53. gr. laga um þingsköp Alþingis að óska eftir því að 1. varamaður Alþfl. í Austurl., Hermann Níelsson íþróttakennari, Egilsstöðum, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.
    Þetta er yður hér með tilkynnt, virðulegi forseti.
Gunnlaugur Stefánsson, 5. þm. Austurl.``


    Hermann Níelsson hefur áður tekið sæti á Alþingi á þessu þingi og er hann boðinn velkominn til starfa á ný.
    Þriðja bréfið hljóðar svo og er dagsett 27. mars 1992:
    ,,Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og get því ekki sótt þingfundi næstu tvær vikur leyfi ég mér með vísun til 2. mgr. 53. gr. laga um þingsköp Alþingis að óska eftir því að 1. varamaður Framsfl. í Vestf., Pétur Bjarnason fræðslustjóri, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.
    Þetta er yður hér með tilkynnt, virðulegi forseti.
Ólafur Þ. Þórðarson, 2. þm. Vestf.``


    Kjörbréf Péturs Bjarnasonar hefur verið rannsakað og samþykkt. Hann hefur áður tekið sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili og unnið drengskaparheit að stjórnarskránni. Hann er boðinn velkominn til starfa á Alþingi á ný.
    Loks eru hér tvö bréf. Hið fyrra er dagsett 26. mars 1991 og hljóðar svo:
    ,,Þar sem ég get ekki sótt þingfundi á næstunni vegna veikinda leyfi ég mér með vísun til 2. mgr. 53. gr. laga um þingsköp Alþingis að óska eftir því að þar sem 1. varamaður Alþb. í Vestf. getur ekki af persónulegum ástæðum tekið sæti sitt á Alþingi, taki 2. varamaður Alþb. í Vestf., Bryndís Friðgeirsdóttir kennari, Ísafirði, sæti á Alþingi í fjarveru minni.
    Þetta er yður hér með tilkynnt, virðulegi forseti, með ósk um að fram fari á Alþingi rannsókn á kjörbréfi varaþingmannsins.
Kristinn H. Gunnarsson, 5. þm. Vestf.``


    Hér er einnig bréf frá 1. varaþingmanni Alþb. í Vestf., dagsett á Suðureyri 25. mars 1992.
    ,,Forseti Alþingis. Af persónulegum ástæðum get ég ekki að sinni tekið sæti á Alþingi í forföllum Kristins H. Gunnarssonar, 5. þm. Vestf.

Lilja Rafney Magnúsdóttir.``


    Þar sem rannsaka þarf kjörbréf Bryndísar Friðgeirsdóttur skv. 4. gr. þingskapa verður nú gert fimm mínútna fundarhlé meðan kjörbréfanefnd starfar og er fundinum frestað í fimm mínútur. --- [Fundarhlé.]