Seðlabanki Íslands

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 14:02:00 (4890)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Í frhnál. á þskj. 666 gerir minni hluti nefndarinnar grein fyrir ástæðum þess að hann treystir sér ekki til að standa að þessu máli nema að brtt. á þskj. 645 verði samþykkt. Ef hún fellur í atkvæðagreiðslu munum við sitja hjá við atkvæðagreiðslu í málinu.
    Það kemur mjög skýrt fram í greinargerð Seðlabanka Íslands um ECU-tengingu íslensku krónunnar að það þurfa að verða miklar breytingar í íslensku efnahagslífi til að unnt sé að tengja íslensku krónuna við ECU.
    Það hefur vakað í máli viðskrh. að slík tenging kunni að fara fram þegar á árinu 1993. Í umræðum þann 16. mars 1992 sagði hæstv. viðskrh. eftirfarandi: ,,Þetta er eingöngu hugsað til þess að þingið sé að gefa alveg skýrt umboð til að ákveða slíkar breytingar þótt þingið sé ekki þar með að ákveða þær.`` Það virðist því vaka í máli viðskhr. að hann líti á samþykkt frv. sem umboð til ríkisstjórnarinnar og hans fyrir hönd ríkisstjórnarinnar til að taka upp þessa tengingu. Og það vakir stöðugt í máli hans að svo kunni að verða þegar á næsta ári. Minni hluti nefndarinnar vill enga ábyrgð bera á slíku og telur ekki unnt að veita ríkisstjórninni slíkt umboð. Og í ljósi túlkunar viðskrh. munum við sitja hjá við afgreiðslu málsins ef brtt. okkar verður felld en ef hún verður samþykkt erum við tilbúin að standa að málinu. Við erum efnislega samþykk þessu máli í öllum aðalatriðum en teljum hins vegar ótímabært að ræða um ECU-tenginu með þeim hætti sem vakað hefur í máli hæstv. viðskrh.