Skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 14:13:00 (4892)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nú því miður orðið ljóst að hæstv. viðskhr. hefur með málflutningi sínum í þessum málum tekist að rjúfa samstöðu Alþingis um afgreiðslu þeirra. Það var ljóst og er út af fyrir sig enn að ekki var efnislegur ágreiningur um tilteknar tæknilegar lagfæringar á lögum um Seðlabanka Íslands og á lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Það upphófst hins vegar ágreiningur um meðferð þessara mála þegar hæstv. viðskrh. trekk í trekk gerði ósvífnar tilraunir til þess að afflytja afstöðu manna til málsins og afgreiðslu Alþingis á því. Sem sagt læða því að í framhjáhlaupi í ræðum sínum að með afgreiðslu þessara tæknilegu lagfæringa væri Alþingi að veita hæstv. ríkisstjórn umboð til ECU-tengingar krónunnar.
    Vegna þessa málflutnings og endurtekinna tilrauna hæstv. viðskrh. í þessa átt er það því miður orðin óhjákvæmileg niðurstaða að leiðir stjórnar og stjórnarandstöðu skiljast í málinu af skiljanlegum ástæðum. Bæði með vísan til efnislegra raka sem fyrir liggja, samanber skýrslur Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar og álit fleiri aðila um að slík ECU-tenging sé ótímabær, og eins með vísan til þess hvernig hæstv. viðskrh. hefur hagað málflutningi sínum og ætlað að lesa meira út úr umfjöllun Alþingis en efni standa til þá er stjórnarandstöðunni ekki annar kostur búinn en að hverfa frá stuðningi við málið til að tryggja með þeim eina hætti sem óumdeilanlegur er að stuðningur við það yrði ekki affluttur með þeim hætti sem hæstv. viðskrh. hefur endurtekið reynt að gera.
    Þetta er út af fyrir sig, hæstv. forseti, heldur dapurleg niðurstaða þegar svo tekst til að menn geta ekki orðið samferða við afgreiðslu mála sem í sjálfu sér er ekki umtalsverður efnislegur ágreiningur um.
    Ég vil við lokaafgreiðslu frv. vekja athygli á þessari staðreynd og skýra það enn betur en gert hefur verið hingað til hvers vegna við í minni hluta efh.- og viðskn. höfum ákveðið að leggja til við fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna að sitja hjá við væntanlega afgreiðslu málsins. Ábyrgðina á því að svo tókst til að samstaða Alþingis um þessa afgreiðslu rofnaði ber hæstv. viðskrh.