Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 14:28:01 (4894)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að spyrja hæstv. forsrh. að því hvað núv. ríkisstjórn hyggist gera til að tryggja að kjarasamningar náist hér í landinu og þar með festa í sessi stöðugleika, lága verðbólgu og koma á nýju framfaraskeiði í íslensku atvinnulífi.
    Þau slæmu tíðindi bárust okkur á sunnudagsmorgun að slitnað hefði upp úr kjaraviðræðum og í fréttum síðan hefur það komið fram að samningamenn eru farnir til síns heima. Þeir sem voru hér í höfuðborginni í nokkrar vikur til að vinna að kjarasamningum eru aftur farnir til heimkynna sinna víðs vegar um landið. Enginn fundur hefur verið boðaður hjá sáttasemjara og enginn veit hvenær aðilar munu á ný koma saman til fundar. Afleiðing þess að slitnað hefur upp úr kjarasamningum er að óvissa mun áfram víkja í efnahagslífi okkar Íslendinga. Stöðnun í atvinnulífi verður það svipmót sem við blasir vegna þess að forustumenn fyrirtækjanna munu hika við að leggja í fjárfestingar og almenn deyfð og atvinnuleysi verður afleiðingin. Markmið okkar er að tryggja hér í sessi stöðugleikann og hina lágu verðbólgu og það er mjög vont að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur með margvíslegum hætti orðið til þess að kjarasamningar hafa ekki náðst. Það er þess

vegna óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsrh. hér og nú: Hvað hyggst hans ríkisstjórn gera til þess að koma kjarasamningum á? Ef mér leyfist vil ég leggja einnig fram nokkrar tillögur og hugmyndir um það hvað ríkisstjórnin eigi nú að gera til þess að koma kjarasamningum á.
    Í tíð síðustu ríkisstjórnar náðust þjóðarsáttarsamningar. Þá var tryggður hér stöðugleiki í efnahagslífinu og núverandi ríkisstjórn var afhent forræði fyrir íslenska efnahagslífinu með því óvenjulega góða ástandi að hér ríkti 3--4% verðbólga. Núv. ríkisstjórn hefur hins vegar setið senn í eitt ár og það eru um átta mánuðir síðan kjarasamningar voru lausir. Engu að síður hefur núv. ríkisstjórn ekki tekist að ná kjarasamningum þótt hún sé í senn æðsta stjórnvald og stærsti vinnuveitandinn á landinu og annar aðalsamningsaðilinn við samtök launafólks. Forustumenn Alþýðusambandins og BSRB hafa sagt skýrt um helgina að sök ríkisstjórnarinnar í þessum efnum sé stór. Ríkisstjórnin hafi með fjárlagafrv. sínu, með bandorminum, með aðför að velferðarkerfinu og margvíslegum öðrum hætti gert kjarasamninga mun erfiðari en ella. Hæstv. forsrh. sagði hér í síðustu viku, þegar hann var spurður um kjarasamningana, að þeir væru á svo viðkvæmu stigi að hann vildi beiðast undan því að skýra afstöðu og fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar. Nú eru samningarnir ekki á viðkvæmu stigi. Nú hefur viðræðunum einfaldlega verið slitið. Þess vegna er óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. geri þinginu grein fyrir því með hvaða hætti ríkisstjórnin hyggst bæta fyrir og tryggja að kjarasamningar náist og viðræður hefjist á ný. Íslenska hagkerfið þolir það ekki í vaxandi atvinnuleysi að búa hér áfram í allt sumar og haust við þá óvissu sem fólgin er í því að kjarasamningar hafi ekki tekist, hvað þá heldur ef hér fara að verða verkföll, skæruverkföll eða lengri verkföll, vegna þess að samtök launafólks eiga enga aðra aðferð í baráttu sinni gegn ríkisvaldinu og atvinnurekendum.
    Hverjar eru ástæður þess að slitnað hefur upp úr viðræðunum og kjarasamningar ekki tekist þrátt fyrir átta mánaða lotu? Skýring mín er tvíþætt. Aðferð ríkisstjórnarinnar hefur verið röng og stefna ríkisstjórnarinnar hefur verið röng. Ég skal rökstyðja þetta nokkrum orðum.
    Ríkisstjórnin beitti þeirri aðferð að hafa lengi vel engin afskipti af kjarasamningum. Sú aðferð var réttlætt í nafni frjálshyggjukenningarinnar um að ríkisstjórn ætti að standa utan og ofan við kjarasamninga og þá fyrst koma að þeim þegar þeir væru á lokastigi. Slík aðferð hefur aldrei skilað árangri á Íslandi enda getur ríkisvald sem er stærsti vinnuveitandinn í landinu og annar aðalsamningsaðili launafólks ekki beitt slíkri aðferð. Enda hefur komið í ljós að hún hefur mistekist.
    Í tíð síðustu ríkisstjórnar var allt annarri aðferð beitt. Þá lögðum við margra mánaða vinnu í það að ræða við forustumenn launafólks á formlegum fundum, á óformlegum fundum, með persónulegum hætti og notuðum margvísleg önnur tækifæri til þess að reyna að þróa samstöðuna áfram stig af stigi. Mér hefur verið tjáð að frá því að ríkisstjórnin var mynduð og þar til viðræðufundir áttu sér stað milli t.d. forsrh., formanns Verkamannasambandsins eða forseta ASÍ hafi liðið margir mánuðir og margir mánuðir einnig liðið á milli funda. Og fjmrh., sem er samningsaðili BSRB, hefur að mér skilst ekki átt marga fundi ef þá nokkurn með forustu BSRB í þessum efnum. Það er auðvitað ekki hægt að ná hér kjarasamningum með því að ríkisstjórnin vill alls ekki koma nálægt málinu. Sú aðferð sem við beittum skilaði hins vegar þeim árangri að hér náðust þjóðarsáttarsamningar og voru endurnýjaðir í febrúar á síðasta ári með mjög góðum árangri. En það er ekki aðeins að stefna ríkisstjórnarinnar hafi verið röng og að aðferðin hafi verið röng. Stefnan hefur einnig verið röng, þ.e. sú stefna að leggja í aðdraganda kjarasaminga upp í margvíslega aðför að velferðarkerfinu og kaupmætti almennings í landinu með margvíslegri skattahækkun, hækkun á tekjuskatti, lækkun barnabóta, margvíslegum þjónustugjöldum, gjöldum fyrir lyf og heimsóknir á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar. Með þessu hafa verið lagðar af hálfu ríkisstjórnarinnar stórfelldar nýjar byrðar á launafólk. Það var sagt: Þetta er nauðsynlegt vegna ástandsins í ríkisfjármálunum. Látum það liggja á milli hluta. En ef það var nauðsynlegt þá snýst spurningin um aðferðina. Sú aðferð var valin að leggja byrðarnar á venjulegt launafólk. Byrðarnar voru ekki lagðar á hátekjufólkið. Ríkisstjórnin hafnaði hátekjuskatti. Ríkisstjórnin hafnaði þá líka að leggja byrðarnar á fjármagnseigendur. Ríkisstjórnin hafnaði líka að leggja byrðarnar eignafólkið í landinu heldur kaus að fara þá leið að láta venjulegt launafólk bera þessar byrðar þannig að úr launaumslögum fólksins í landinu hafa verið teknar 50--70 þús. kr. hjá venjulegum launamönnum.
    Niðurstaðan af þessu varð sú, bæði með hinni röngu aðferð og eins með stefnu ríkisstjórnarinnar í fjárlögunum og í bandorminum að þrengja mjög svigrúmið fyrir nýja kjarasamninga. Við bentum hæstv. ríkisstjórn á þetta fyrr í vetur á Alþingi. Í ræðu hér á Alþingi 12. des. í 2. umr. um fjárlögin hvatti ég hæstv. ríkisstjórn til að hefja þá þegar viðræður við samtök launafólks og alla aðila launamarkaðarins til að gera breytingar á fjárlagafrv. sem gætu tryggt kjarasamninga þá strax í des. Þessu var hafnað. Síðar í þeim mánuði rétt fyrir jól, 21. des., var þessi ábending til ríkisstjórnarinnar enn á ný áréttuð. En enn á ný ákvað ríkisstjórnin að hafa hana að engu.
    Í umræðum um lánsfjárlögin í janúar og í umræðum um bandorminn var ríkisstjórnin af mér og öðrum enn á ný hvött til þess að hefja viðræður við verkalýðshreyfinguna og ákveða breytingar á bandormsfrv. sem gætu orðið til að tryggja kjarasamninga en því var líka hafnað. Öllum ábendingum á Alþingi og utan þings til ríkisstjórnarinnar um að gera breytingar á stefnu sinni til þess að tryggja kjarasamninga var hafnað enda hefur ríkisstjórnin nú uppskorið. Hún hefur uppskorið það að samningum hefur verið slitið, samningamenn eru farnir til síns heima og enginn veit hvað við tekur.
    Ríkisstjórnin sagði fyrir áramót að fjárlagafrv. og bandormurinn væri kjölfestan í því að kjarasamningar tækjust og vaxtalækkanir yrðu. Dómur reynslunnar hefur nú verið kveðinn upp undir lok marsmánaðar. Þessi tilraun hefur mistekist. En hvað á þá að gera? Hvað á að gera nú? Á bara að sigla út í óvissuna? Á bara að láta vorið koma með kjarasamninga lausa, hugsanlega verkföll í maí og óvissu til haustsins? Nei, auðvitað ekki. Íslenska hagkerfið má ekki við því. Við þurfum í senn að festa stöðugleikann og lága verðbólgu í sessi og tryggja að hjól atvinnulífsins geti farið að snúast á nýja leik. Ég vil þess vegna leggja fram tillögur í fjórum liðum um það með hvaða hætti ríkisstjórnin getur nú komið inn í kjarasamninga til að tryggja að þeir geti náðst á næstu dögum. Ég vil ekki bara gagnrýna ríkisstjórnina fyrir það sem hún hefur gert og henni hefur mistekist heldur vil ég einnig svara því með jákvæðum hætti hvað eigi nú að gera. Hvað við hefðum gert ef við værum nú í þessum sporum og með hvaða hætti er hægt að leiðbeina ríkisstjórninni til að feta sig út úr því öngstigi sem hún er komin í og sem reyndar þjóðin öll er komin í.
    1. Ég legg til að ríkisstjórnin breyti um aðferð. Í stað þess að standa utan og til hliðar við viðræðurnar hefji hún strax alvarlegar og nánar viðræður við samtök launafólks um breytingar.
    2. Ríkisstjórnin lýsi því yfir að hún sé tilbúin að ráðstafa tekjunum af fjármagnstekjuskattinum í samráði við samtök launafólks í kjarasamningunum sem nú standa yfir þannig að frá og með næstu áramótum fái launafólk kaupmáttaraukningu í gegnum tekjuskattskerfið með hækkun barnabóta, með hækkun skattleysismarka og með húsaleigubótum sem fjármagnaðar verði með þeim skatti á fjármagnstekjur sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka upp.
    3. Ríkisstjórnin lýsi því yfir að hún sé reiðubúin frá og með næstu áramótum að taka upp sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti og ákveði ráðstöfun þess fjármagns nú í kjarasamningum í samráði við ASÍ, BSRB og Kennarasambandið þannig að sá afrakstur geti aukið kaupmátt launafólks strax frá og með næstu áramótum.
    4. Ríkisstjórnin ákveði að taka frumkvæði í kjarasamningunum sem samningsaðili og semji við BSRB í samráði við ASÍ og Kennarasambandið þar sem ljóst sé að Vinnuveitendasambandið hafi gefist upp á að gera þessa samninga. Það var aðferð sem við beittum vorið 1989 með góðum árangri þannig að þeir kjarasamningar urðu forleikur að þjóðarsátt sem þá tókst. Það er mun skynsamlegra fyrir ríkisstjórnina að ákveða nú í samráði við samtök launafólks að ráðstafa tekjunum af fjármagnstekjuskattinum í stað þess að fara þá leið sem fjmrh. boðaði á blaðamannafundi á örlagastundu í kjarasamningunum að nota tekjurnar til þess að lækka skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði eða afnema hann og

lækka hinn sérstaka stóreignarskatt. Auðvitað hleypti það illu blóði í samningamenn launafólks þegar ríkisstjórnin hafði sagt við launafólkið vikum saman: Við getum ekki gert neinar breytingar í skattamálum til þess að auka kaupmátt ykkar. En svo kemur hún með fjmrh. í broddi fylkingar og segir: Jú, jú, við erum tilbúin til að afnema skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði fyrir fyrirtækin í landinu og við erum tilbúin til að afnema þennan sérstaka stóreignarskatt og nota tekjurnar af fjármagnstekjuskattinum til þess. En við erum ekki tilbúnir til að ráðstafa þeim tekjum í samvinnu við samtök launafólks.
    Þessar fjórar leiðir yrðu örugglega vænlegt skref til þess að koma kjarasamningum á á nýjan leik og ég skora á hæstv. ríkisstjórn að hugleiða þessar tillögur í alvöru, taka nú frumkvæðið, kalla á forustu ASÍ, BSRB og Kennarasambands Íslands, lýsa sig reiðubúna til þess að ræða ráðstöfun á arðinum af fjármagnstekjuskattinum í þágu kjarasamninganna og launafólks og taka þannig frumkvæði í málinu. Ríkisstjórnin hefur skapað þennan vítahring sjálf. Það er þess vegna skylda hennar að rjúfa hann. Það eru til aðferðir í því máli, það eru til leiðir sem menn geta farið ef þeir hafa viljann til þess, leiðir sem munu tryggja að á þessu ári yrði verðbólgan á Íslandi um eða undir 2% svo að við tryggðum í sessi þann einstæða árangur í verðlagsmálum og efnahagslegan stöðugleika sem síðustu ríkisstjórn tókst að ná.