Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 15:12:00 (4897)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ljóst er að þær samningaviðræður sem staðið hafa yfir að undanförnu eru komnar í strand og allt óljóst um framhaldið. Þótt það sé að sjálfsögðu hlutverk aðila vinnumarkaðarins að semja um kaup og kjör síns fólks og ríkisins að ná samningum við starfsmenn sína þá hafa þeir atburðir gerst á undanförnum mánuðum sem valda því að gera verður sérstakar kröfur til þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Með stjórnarstefnu sinni og aðgerðum í skattamálum, heilbrigðis- og menntamálum hefur ríkisstjórnin lagt nýjar álögur á heimilin í landinu og því er ekki að undra að samtök launafólks bregðist við og reyni að fá álögunum hnekkt. Ríkisstjórnin gat ekki búist við öðru. Það kann ekki góðri lukku að stýra í samningum að tala tungum tveim, bjóða tilslakanir með annarri og hóta svo enn meiri samdrætti með hinni.
    Niðurskurðarstefna ríkisstjórnarinnar á öllum sviðum bætist ofan á almennan samdrátt og þess er ekki að vænta að uppsveifla eigi sér stað þótt samningar náist. Það er stefna hins hæfilega atvinnuleysis, eins og það var einu sinni kallað, sem virðist vera að halda innreið sína. Í það minnsta bólar ekkert á aðgerðum ríkisins til að bægja atvinnuleysisvofunni frá. Hinni ósýnilegu hönd markaðarins er ætlað að stjórna för. Því er ekki aðeins tekist á um kaup og kjör eða varðveislu kaupmáttar, heldur grundvallarhugmyndir um gerð þjóðfélagsins og þau mannréttindi að fólk hafi vinnu og geti séð sér farborða. Því hljótum við enn og aftur að beina sjónum að ríkisvaldinu, hlutverki þess og viðbrögðum. Óhjákvæmilegt er að ríkisstjórnin komi til móts við launþega og það er einkum þrennt sem þar ber að setja efst á blað að mínum dómi.
    Í fyrsta lagi aðgerðir til að bæta hag hinna lægst launuðu. Má þá minna á kosningaloforð um hækkun skattleysismarka. Tekjutapi ríkissjóðs má mæta með hærra skattþrepi á hæstu tekjur.
    Í öðru lagi að draga til baka vanhugsaðar og handahófskenndar aðgerðir í heilbrigðis-, trygginga- og skólamálum.
    Í þriðja lagi aðgerðir af hálfu ríkisins til að skapa atvinnu í landinu.
    Enn einu sinni minni ég á þá tillögu Kvennalistans að tekin verði erlend eða innlend lán og þeim varið til arðbærra framkvæmda. Slíkt er fullkomlega réttlætanlegt á tímum eins og þessum. Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar við þær aðstæður sem nú ríkja að beita sér í þágu síns fólks og nota tiltæk ráð til að liðka fyrir samningum. Enn og aftur segi ég að atvinnulífið verður að geta boðið fólki mannsæmandi laun. Það stenst ekki til lengdar að senda reikninginn til ríkisins.
    Að mínu dómi er það ríkisstjórnin sem á næsta leik. Bæði gagnvart launafólki í landinu og atvinnurekendum. Atvinnulífið verður að búa við viðunandi skilyrði, en þar nefni ég lækkun vaxta sem aðgerð númer eitt, tvö og þrjú. Ef ríkisstjórnin notar ekki tækifærið strax í stað þess að sitja með hendur í skauti er hún að kveikja elda ófriðar sem kunna að loga lengi og valda miklum skaða.