Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 15:31:00 (4900)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Hv. 9. þm. Reykv. sem talaði síðast sagði að slitnað hefði upp úr kjaraviðræðum. Ég held að við vitum það öll hér inni að hann þekkir innviði verkalýðshreyfingarinnar og ég held við megum reikna með að þá séu það fleiri innan verkalýðshreyfingarinnar sem líti svo á málin. Við þær aðstæður höfum við hlustað á forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., forustumenn ríkisstjórnarinnar.

Heldur var það þunnur þrettándi sem þeir höfðu fram að færa fyrir okkur við þessar aðstæður.
    Hæstv. utanrrh. sagði að kjarninn í þessu máli væri lækkandi tekjur þjóðarbúsins og um það er ekki ágreiningur að tekjur þjóðarbúsins hafa og munu að öllum líkindum lækka á þessu ári. Um það er ekki ágreiningurinn. Ágreiningurinn hefur staðið um það á Alþingi í allan vetur og stendur nú um það við verkalýðshreyfinguna hvernig við eigi að bregðast. Og hvernig bregðast menn við sem standa í því að tekjur heimilanna minnki, við skulum segja um 6%? Menn bregðast við því með því að skera niður lúxus og þeir bregðast við með því að láta þá greiða sem mest hafa.
    Hæstv. forsrh. sagði hér að megingrundvöllurinn mætti ekki raskast í þessum kjarasamningum, það yrði að halda stöðugu gengi og halda hlutum þannig að vextir mættu fara lækkandi. Festu þyrfti að ná í atvinnulíf og þjóðlíf. Um þetta getum við svo sem verið sammála. En hver á að borga? Hver á að borga nú sem fyrr? Það er launafólk sem á að borga. Fyrst átti að ná niður verðbólgunni og síðan áttu þá að skapast aðstæður til þess að hækka launin. Nú á fyrst að ná niður vöxtunum og þá skapast forsendur fyrir launahækkanir að því er manni skilst. Ég held að það sé orðið ljóst af þessu og auðvitað veit launafólk það, að því verður ekki fært neitt á silfurfati, það verður að sækja þessa hluti. Ég ætla að fullyrða það af samtölum mínum við fólk og sérstaklega ungt og fullvinnandi fólk að það er orðið býsna þreytt á því hvernig á kjaramálum hefur verið haldið, ekki síst af hálfu ríkisvaldsins á undanförnum árum. Verðbólgan var lækkuð, hún náðist niður og það var launafólk sem greiddi það niður. Þá var fólki sagt að skuldir þess mundu auðvitað ekki vaxa eins ört og þær höfðu gert fram að því og þær gerðu það ekki, þær hafa ekki vaxið eins ört síðan. En í staðinn eru komnir háir vextir og fólk finnur ekki fyrir lækkun verðbólgunnar í afborgunum sínum af lánunum. Það finnur ekki fyrir því og meira að segja er það svo að þrátt fyrir að fólk hafi borgað hundruð þúsunda af vísitölutryggðum lánum á sl. ári þá hafa lánin ekkert lækkað í krónum talið.
    Í þjóðarsáttarsamningunum var samið um vextina. Við skulum ekki gleyma því. Það var samið um vextina í þeim samningum. Kaupkröfum var stillt í hóf vegna þess að það átti að ná niður vöxtunum. Nú á að selja fólkinu vextina aftur. Nú á aftur að semja um vextina. Nú á aftur að halda kaupinu niður út af vöxtunum.
    Ég var að tala um ungt og fullvinnandi fólk sem hefur tekið á sig háar skuldir vegna húsnæðislána. Þetta fólk hefur borgað hundruð þúsunda af þessum lánum á undanförnum árum en því gengur ekkert að eignast íbúðir sínar. Þetta fólk hefur þurft að leggja talsvert á sig í vinnu á undanförnum árum til að geta borgað af húsnæðinu sem það eignast þó afskaplega hægt. Þetta fólk lendir af þeim sökum m.a. í tekjutengingu barnabótanna sem núv. ríkisstjórn var að samþykkja um áramótin í þeirri jöfnunaraðgerð ríkisstjórnarinnar að tekjutengja barnabætur. Þetta fólk greiðir engu að síður jafnvel hálft bílverð á ári í barnagæslu fyrir börnin sín til að geta sótt sér þær tekjur. En hvaða tillit er tekið til þess? Ekki nokkurt. Þetta fólk er ekki tilbúið til að samþykkja samninga sem skila því engu. Ég held að ég þori næstum því að fullyrða það hér að þetta fólk er ekki tilbúið til þess og það er þetta fólk sem mundi gera verkalýðsforustuna afturreka með slíka kjarasamninga og sem verkalýðsforingi einn minntist á, bæði í dagblöðum í dag og í hádegisútvarpinu eftir því sem mér skilst.
    Ég get sagt það sem mína skoðun að ég er almennt ekki hrifin af því að ríkisvaldið sé notað til að greiða niður launakostnað fyrirtækjanna. En við þær aðstæður sem nú eru verðum við að hafa í huga að ríkisstjórnin breytti öllum forsendum við gerð síðustu fjárlaga. Hún setti nýjar leikreglur. Hún lagði þá línu að hefja í auknum mæli gjaldtöku fyrir veitta þjónustu. Sá straumur sem ríkisstjórnin fer þarna eftir að taka í auknum mæli upp þjónustugjöld er mjög þungur í ríkisfjármálum alls staðar í Evrópu um þessar mundir. Þetta er ekkert einsdæmi hér. Hverju hefur það skilað? Menn tala mikið um Danmörku og Danmörk á að vera orðið eitthvert fyrirmyndarland í ríkisfjármálum eftir því sem manni skilst og það hefur verið talað um að heilbrigðisþjónustan hjá Dönum sé ódýr. En heilbrigðiskerfi Dana, sem á að vera svo ódýrt, er líklega gífurlega dýrt fyrir samfélagið í heild

sinni engu að síður. Það er kerfi sem hefur ekki efni á því að taka fólkið þegar það þarf á því að halda. Fólk er óvinnufært. Það er á bótum, það missir atvinnu sína, jafnvel fólk á miðjum aldri. Danska skólakerfið er eftir því sem manni skilst að verða ein rjúkandi rúst vegna stöðugs niðurskurðar í því kerfi. Þetta eru fyrirmyndirnar. Ég ætla að leyfa mér að segja mönnum það hér og hæstv. ráðherrum að þeir þurfi ekki að halda að þeir geti velt þjónustugjöldum yfir á almenning án þess að fólk spyrni við fótum, án þess að fólk geri þá kröfu um mannsæmandi laun sem hægt er að greiða þjónustugjöldin með. Það verður eitthvað að koma í staðinn. Það er alveg ljóst. Þegar ríkisstjórnin er ekki tilbúin í þessum kjaraviðræðum til að leggja meira af mörkum er ekki nema eðlilegt að fólk fari þá til atvinnurekenda og segi: Við verðum þá að sækja það hingað. Fólk tekur þetta ekki á sig þegjandi.
    Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra en ég verð að lýsa því yfir að mér finnst dálítið furðuleg ummæli fjmrh. í DV í dag þar sem hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Náist ekki samningar mun ríkisstjórnin hins vegar halda áfram sinni vinnu. Verst er að verði dráttur á samningum kann vaxtalækkun að frestast eitthvað.``
    Ég á dálítið erfitt með að skilja þetta vegna þess að ef hóflegir kjarasamningar, eins og menn eru alltaf að tala um hérna, hefðu stuðlað að vaxtalækkun, af hverju er þá ekki hægt að ná niður vöxtunum ef engir samningar eru gerðir? Hvernig stendur á því að það er ekki hægt? Er í raun og veru verið að segja það að menn hafi ætlað að nota handaflið ef kjarasamningar hefðu verið gerðir en þeir ætli ekki að nota handaflið ef engir samningar eru gerðir? Er það það sem verið er að segja? Á að skilja þetta sem hótun? Ég hlýt að spyrja ríkisstjórnina að því almennt þar sem fjmrh. er ekki staddur í salnum.