Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 15:39:00 (4901)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð því miður að lýsa miklum vonbrigðum með svör hæstv. forsrh. og svör hæstv. utanrrh. Greinilegt er að núv. ríkisstjórn hefur engar hugmyndir og engar tillögur um það hvernig á að koma kjarasamningaviðræðum í gang á nýjan leik og það sem meira er, hún ætlar ekkert að gera. Hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. eru að reyna að sækja sér rök í umræðunum fyrir því að gera ekki neitt. Það eru falsrök og það eru rangfærslur. Hæstv. forsrh. sagði að lausn mín og tillögur mínar hefðu fólgist í skattahækkun. Þetta er rangt, hæstv. forsrh. Ég sagði að ríkisstjórnin hefur nú samþykkt að taka upp skatta á fjármagnstekjur. Ég fagna því að Sjálfstfl. er loksins kominn í sveit okkar hinna hvað það efni snertir. En fjmrh. sagði að hann ætlar að nota tekjurnar af fjármagnsskattinum til að afnema skattinn á skrifstofu- og verslunarhúsnæði sem er um 500--600 millj. og til þess að afnema hinn sérstaka háeignaskatt. Það sem ég er að segja er að í stað þess að lækka skattana á fyrirtækjunum og á háeignafólkinu á að nota fjármagnstekjurnar til að lækka tekjuskattinn, hækka barnabæturnar, hækka persónuafsláttinn hjá launafólkinu. Heildarupphæð skattanna í landinu yrði óbreytt engu að síður, hæstv. forsrh. Það er því beinlínis rangt að þær tillögur sem ég lagði hér fram feli í sér skattahækkanir. Þær fela hins vegar í sér að launafólkið fái að njóta ávaxtanna af tekjunum af fjármagnsteknaskattinum en ekki stórfyrirtækin í landinu, verslunin eða háeignastéttin. Það er auðvitað athyglisvert að formaður Alþfl. skuli ekki treysta sér til að mótmæla því hér að háeignastéttin í landinu og verslunarfyrirtækin eigi að fá sérstaka skattalækkun en ekki láglaunafólkið, ekki dagsbrúnarmennirnir, ekki sóknarkonurnar og ekki konurnar í fiskvinnslunni.
    Þess vegna er staðreyndin sú, hæstv. forsrh., að ríkisstjórnin hefur lykil að því að koma kjarasamningunum í gang á nýjan leik og tryggja þá í höfn að mínum dómi. Því það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði hér áðan: Það þarf kannski ekki svo mikið í upphæðum til að gera þessa kjarasamninga ef ríkisstjórnin vill leysa málið og vill ganga til móts við óskir launafólks um kjarajöfnun. En kannski vill ríkisstjórnin ekki kjarajöfnun og það er kannski skýringin að ríkisstjórnin stendur á bak við fjmrh. sem ætlar að létta byrðarnar hjá verslunarfyrirtækjunum og létta byrðarnar hjá háeignastéttunum í landinu. Ef ríkisstjórnin vill ekki kjarajöfnun fer maður að skilja hvers vegna kjarasamningarnir eru í strandi. En ef ríkisstjórnin vill hlusta á óskir Alþýðusambandsins, BSRB og

Kennarasambandsins um kjarajöfnun liggur það fyrir að fjmrh. hefur boðað 1.500 millj. kr. í nýjar tekjur frá og með næstu áramótum af skattlagningu fjármagnstekna. Þá segi ég enn á ný við hæstv. ríkisstjórn: Tillögur okkar og ráð eru þau að ríkisstjórnin lýsi því yfir t.d. á fundi sínum á morgun að hún sé tilbúin að ræða við ASÍ, BSRB og Kennarasambandið um að ráðstafa tekjunum af fjármagnstekjuskattinum til skattalækkunar á launafólki. Þá gæti ríkisstjórnin opnað þetta samningaferli á nýjan leik og jafnvel tryggt nýja kjarasamninga í þessari viku. Þótt það kunni að vera rétt að einhverjir innan raða samtaka launafólks séu ekki fylgjandi hátekjuskatti er það ljóst að yfirgnæfandi meiri hluti félagsmanna Alþýðusambandsins, BSRB og Kennarasambandsins eru fylgjandi þeirri stefnu. Ríkisstjórnin getur þess vegna breytt málum ef hún vill og ef hún vill leggja fram þá stefnu sem launafólk kann að meta.
    Hæstv. utanrrh. sagði hér að núv. ríkisstjórn hefði beitt sömu aðferð og við gerðum á sínum tíma. Það er einfaldlega ekki rétt, hæstv. ráðherra. Ég ætla ekki að rekja það mjög nákvæmlega en ég vil bara spyrja hér: Hvenær hefur hæstv. forsrh. rætt við formann Verkamannasambandsins á síðustu sex til sjö mánuðum á sérstökum trúnaðarfundi öðruvísi en á einhverjum fjöldafundum þar sem aðrir hafa verið viðstaddir? Hefur forsrh. átt slíkan trúnaðarfund með formanni Verkamannasambandsins? Ég hugsa ekki. Ég spyr: Hvenær hefur fjmrh. rætt við formann BSRB og aðra stjórnarmenn BSRB í trúnaðarviðræðum milli fjmrh. og þeirra? Mér þætti fróðlegt að vita það. Ég held nefnilega að það liggi töluvert í því að ríkisstjórnin hefur ekki lagt þessa vinnu í málið. Enda lýsti forsrh. því yfir hvað eftir annað þangað til fyrir mánuði að hann ætlaði sér ekki að gera það, hæstv. utanrrh. Það er margyfirlýst af hæstv. forsrh. að hann ætli ekki að gera það. Vegna þess að núv. ríkisstjórn ætli sér ekki að beita sömu aðferðum og við beittum á sínum tíma. Enda er niðurstaðan sú að eftir átta mánaða tilraunir er kjaraviðræðum slitið. Hæstv. utanrrh. segir: Við ætlum ekki að bera fé í dóminn. Það getur vel verið. En hæstv. ríkisstjórn ætlar að bera fé í verslunar- og skrifstofufyrirtækin. Hæstv. ríkisstjórn ætlar að bera fé í eignastéttina sem býr í stóru einbýlishúsunum og borgar háa eignarskattinn. Það ætlar ríkisstjórnin að gera. Fjmrh. var svo smekkvís að halda sérstakan blaðamannafund í ögurviku kjarasamninganna til að tilkynna að ríkisstjórnin ætlaði vissulega að bera fé í dóminn, hæstv. utanrrh., en það voru bara fjármunir sem áttu að fara, 600 millj., til skrifstofu- og verslunarfyrirtækja og síðan rúmur milljarður til háeignastéttarinnar í landinu sem hefur borgað hinn sérstaka háeignaskatt. Þá er hægt að bera fé í dóminn, hæstv. utanrrh., þegar eignastéttin og verslunarfyrirtækin eiga hlut að máli. Eða er kannski bannað að bera fé í dóminn þegar það gagnast launafólki? Stendur Alþfl. á bak við þessa yfirlýsingu fjmrh.? Kannski ekki, ég spyr. Fjmrh. gat ekkert um að hann væri að túlka sína sérskoðun þegar hann flutti þennan boðskap. Þess vegna er auðvitað alveg ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að gera breytingar á skattamálum frá og með næstu áramótum. Hún ætlar sér að gera breytingar á skattamálum á gildistíma nýrra kjarasamninga. Þá er bara spurningin: Hverjir fá að njóta þeirra breytinga? Ég legg til hér og nú og enn á ný að ríkisstjórnin tilkynni að hún vilji ræða við Alþýðusambandið, BSRB og Kennarasambandið um þær skattabreytingar. Það er lykillinn að stöðugleika og árangri.
    Hæstv. forsrh. getur farið í orðaleiki um að hvort hafi slitnað upp úr samningum. Ég hlustaði á Þórarinn V. Þórarinsson lýsa því yfir í hádegisfréttum að slitnað hefði upp úr samningum. Við hlustuðum á formann Landssambands iðnverkafólks, hv. þm. Guðmund Þ Jónsson, sem nú á sæti hér á Alþingi, lýsa því yfir að upp úr samningum hefði slitnað. Kannski er forsrh. með einhvern sérstakan skilning á þessum málum sem hvorki forustumenn Vinnuveitendasambandsins eða forustumenn samtaka launafólks hafa áttað sig á.
    Hæstv. forsrh. gerði lítið úr vilja mínum til að gefa ráð í þessum efnum. Það fannst mér skrítin afstaða. Ég hélt satt að segja að það væri sameiginlegt hagsmunamál íslensku þjóðarinnar að ná hér stöðugleika og lágri verðbólgu. Ég tel skyldu mína að gagnrýna ekki bara núv. ríkisstjórn heldur líka leggja fram tillögur um það hvað eigi að gera. Ríkisstjórnin verður svo að eiga það við sig hvort hún vill hafa þær tillögur að engu. En ég hef lagt þær hér fram. Það hafa komið fram fleiri hugmyndir frá öðrum. Ég er sannfærður um það

að með því að gera fernt, breyta um vinnuaðferð í fyrsta lagi, í öðru lagi lýsa yfir vilja til að ráðstafa skattinum af fjármagnstekjum í samráði við ASÍ, BSRB og Kennarasambandið, í þriðja lagi taka upp meiri tekjujöfnun innan tekjuskattsins að öðru leyti og í fjórða lagi lýsa því yfir að ríkisvaldið sé reiðubúið að gera kjarasamning á grundvelli þeirra hugmynda sem ASÍ og BSRB hafa lagt fram, þá væri hægt að gera nýjan kjarasamning á næstu dögum. Kjarasamning sem tryggði 2% verðbólgu. Er það ekki markmiðið að tryggja 2% verðbólgu þegar hægt er að gera kjarasamning við ASÍ og BSRB sem tryggir 2% verðbólgu? Af hverju vill þá ríkisstjórnin af getuleysi eða hugmyndafræðilegri kreddu neita sér um það? Það má vel vera að mótsagnirnar innan Vinnuveitendasambandsins séu með þeim hætti að Vinnuveitendasambandið sé ekki fært um að gera það m.a. vegna þess að ákveðin öfl innan Vinnuveitendasambandsins eru að reyna að knýja á um gengislækkun. En ef svo er þá verður þessi ríkisstjórn að gera það sama eins og við gerðum vorið 1989, höggva á hnútinn, rjúfa vítahringinn og gera kjarasamning með þessum hætti.