Kjarasamningar

113. fundur
Mánudaginn 30. mars 1992, kl. 15:49:00 (4902)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ræða hv. 8. þm. Reykn. um fjármagnstekjuskattinn var kannski ágætt leikrit út af fyrir sig en því miður skrum. Þingmenn munu kynnast því á næstunni hverjar eru helstu staðreyndir þessa máls. Hver er skattstofninn? Ef við ætlum að framkvæma skattinn sem skatt á raunvaxtatekjur, hvernig verðum við þá að hafa ákveðið frítekju- eða fríeignamark í þeim skattstofni til þess að vinna ekki á móti tveimur meginmarkmiðum sem eru þau að draga ekki úr sparnaðarvilja og annars vegar stuðla ekki að hækkun vaxta sem gengi þvert á það meginmarkmið okkar núna m.a. í tengslum við kjarasamningana? Sannleikurinn er sá að ef litið er á þessi dæmi þá getum við kannski gert okkur vonir um eftir að skatturinn kemst á, í ársbyrjun 1993 í fyrsta lagi, að hann skili um 1,5 milljörðum á ársgrundvelli. Út af fyrir sig var það sniðugt hjá hv. formanni Alþb. að segja: Þarna er fundið fé en fjmrh. ætlar að nota þetta í annað. Um það er eftirfarandi að segja: Ef þessi skattur yrði lagður á núverandi eignarskattsprósentu ásamt með eignarskattsauka og þjóðarbókhlöðuskatti ber öllum saman um að þá yrði jaðarskatturinn það hár að hann væri ekki til samræmingar á tekjum af eignum heldur mundi hann draga úr sparnaði og ýta undir hækkun vaxta. Það gengi því ekki upp. Með öðrum orðum þarna er um að ræða tekjuvon upp á tiltölulega lága upphæð en hvernig á að verja henni? Ríkisstjórnarflokkarnir voru samamála um að það bæri að hafa samræmt kerfi. Það væri fyrst og fremst gat og veila í kverfinu að eignatekjur væru skattfrjálsar að hluta til. Það órættlæti ber að afnema. Hitt er svo annað mál að við verðum að sjálfsögðu þegar um þennan skattstofn er að ræða að gæta að því að það er engum í hag fyrir skulduga þjóð að draga úr sparnaði eða ýta undir vaxtahækkun. Ekki er búið að ræða það til hlítar innan stjórnarflokkanna að þessi skattur eigi að upphefja skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði enda mundi þessi tekjustofn ekki duga til þess. Hitt er svo annað mál að þessi upphæð, 1,5 milljarðar, er um það bil það sem fjmrn. reiknaði að væri verðgildi þerra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur reyndar þegar boðið, ekki fyllilega þó því það var reiknað á um tíu hundruð millj. Tekjuáætlunin af þessum skatti er um fimmtán hundruð millj. á ársgrundvelli og munar nú ekki miklu.
    Ein spurning var hér borin fram af hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur var: Hvernig stendur á því að vextir lækka þá ekki ef ekki takast kjarasamningar? Svar mitt við því er þetta: Þegar verðbólga er jafnlág og hún er núna eru forsendur fyrir lækkun vaxta, raunvextir eru of háir miðað við þessi skilyrði. Hitt er svo annað mál að vel má búast við því í ljósi reynslunnar að forsvarsmenn bankakerfisins tregðist við í ljósi þeirrar óvissu að samningar hafa ekki tekist. Ég er ekki í vafa um að vextir hefðu lækkað snarlega í kjölfar frumkvæðis ríkisins um leið og samningar hefðu náðst til eins eða eins og hálfs árs. Þetta kann hins vegar að valda okkur meiri erfiðleikum við að keyra þá vaxtalækkun niður.