Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 15:24:00 (4911)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er víðar sviðin jörð en í Austur-Evrópu. Það er alveg augljóst að það er sviðin slóðin eftir hæstv. utanrrh. og viðleitni hans til þess að tengja Ísland Evrópubandalaginu gegnum Evrópskt efnahagssvæði á undanförnum þremur árum. Hér hefur hæstv. utanrrh. og formaður EFTA-ráðsins verið að kasta rekunum á samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Hann hefur gert það af mikilli stílfimi og jafnframt vísað mönnum á það að nú verði að halda í næstu stöð. Það var dálítið sérkennilegt undir lok ræðunnar þegar hann þurfti að fara að lesa saman breytingarhugmyndirnar frá hæstv. forsrh. inn í texta sinn um þetta efni, það var svolítið torlæst. Og það er mjög merkilegt að hæstv. utanrrh. skuli velja þetta tækifæri nú til þess að kveða upp þennan dauðadóm. Það er heldur ósmekklegt gagnvart hæstv. forsrh. sem lýsti því yfir hér fyrir jólin að það þyrfti kraftaverk til þess að bjarga þessum samningi. En þá kom utanrrh. upp

í þennan ræðustól og staðhæfði að það væri alveg ástæðulaust að dæma þennan samning af. Nú velur hann tækifærið í þessari umræðu til þess og án þess að hafa samráð um það við forsrh. áður en hann gefur yfirlýsingar um það á Alþingi. Svona er komið meðferðinni á utanríkismálum landsins, stærstu viðfangsefnum sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir síðan stofnað var lýðveldi. Þetta er alveg hörmulegt. Og það er athyglisvert með hvaða hætti hæstv. utanrrh. réttlætir þetta. Hann er að fara yfir þróun mála sl. þrjú ár og segja: Það er þessi breytta staða sem veldur þessum sinnaskiptum. Hann hefði mátt sjá þetta fyrr. Það eru orðin nokkur ár síðan Berlínarmúrinn hrundi og þær breytingar sem fylgdu í kjölfarið hafa gengið yfir. Nei, þetta eru satt að segja ömurleg leiktjöld sem hér eru dregin frá og vísa Íslandi að mati ráðherrans inn í Evrópubandalagið. En ég er nokkuð sannfærður um það að íslenska þjóðin er honum ekki sammála.