Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 15:27:00 (4912)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta andsvar er ákaflega stutt. Hér talaði áðan hv. 4. þm. Austurl. sem að öðrum hv. þm. ólöstuðum hefur alla tíð verið eindregnastur andstæðingur samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, hefur fundið honum allt til foráttu, hefur gagnrýnt hann harkalegar en flestir aðrir, hefur talið hann vera íslenskri þjóð til hinnar mestu óþurftar, telur hann fela í sér framsal á valdi, landsréttindum o.s.frv. Þess vegna ætti það væntanlega að vera mikið fagnaðarefni hv. þm. ef horfir illa um það að þessi samningur nái fram að ganga.
    Hér talar hins vegar sá maður sem hefur beitt sér hvað mest fyrir því að þessir samningar náist fram. Það er rangt hjá hv. þm. að í ræðu minni hafi falist að ég hafi gefið upp von um það. En það væri óheiðarlegt af mér ef ég hins vegar talaði hér á þeirri forsendu að það væri sjálfgefið að samningurinn væri í höfn. Ég vísa einungis til staðreynda. Samningurinn er því miður ekki í höfn. Það er staðreynd að við höfum orðið fyrir bakföllum og vonbrigðum vegna þess hversu samningarnir hafa dregist á langinn og við höfum orðið þess áskynja að víða er andstaða við samninginn. Því miður er það svo að við eigum það bara ekki í hendi okkar sjálfra að ná samningnum fram. Við eigum það undir atkvæðum og atfylgi annarra, bæði í þjóðþingunum 19 eða hinum 18 sem og á Evrópuþinginu þannig að það er ástæða til þess að spyrja: Hvar er rökrétt samhengi milli þessara orða sem hv. þm. fór hér með áðan? Það sem ég sagði hér áðan af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar er þetta: Við teljum það forgangsverkefni eftir sem áður að ná samningnum. En við berum nokkurn ugg í brjósti um að það takist ekki. Það væri óheiðarlegt og ábyrgðarlaust að leyna því og einnig hinu að fari á versta veg, þá er það hygginna manna háttur að hafa rætt það fyrir fram.