Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 15:38:00 (4918)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá bók sem við höfum fengið um utanríkismál og fyrir ítarlega ræðu hans. Bæði í bókinni og í ræðu hans er margt að finna sem vert er að ræða og undir sumt af því get ég tekið. Mér þykir þó undarlegt og vekur satt að segja furðu mína hve miklu efni er varið, bæði í bókinni og í ræðunni, til að fjalla um hugsanlega aðild okkar Íslendinga að Evrópubandalaginu. Að vísu get ég ekki sagt að þetta komi mér algerlega á óvart. Ég vakti athygli á þessu fyrir kosningar þegar ég benti á það að í stefnuskrá Alþfl. segir að ekki beri að útiloka aðild að Evrópubandalaginu, enda ráðum við áfram sjávarútvegsmálum okkar. Þessu var þá mótmælt af mikilli hörku og lögð á það áhersla að Evrópubandalagið væri alls ekki á dagskrá og það mátti svo sannarlega ekki aðeins skilja heldur var lögð áhersla á að fullvissa þjóðina um það að Evrópubandalagið yrði alls ekki rætt á því kjörtímabili sem þá væri fram undan. Nú kveður við allt annan tón. Nú er Evrópubandalagið og hugsanleg aðild að því orðið megininntak bæði skýrslu og ræðu hæstv. utanrrh. Ég get ekki neitað því að mér finnst sem hæstv. utanrrh. hafi jafnvel dáleitt sjálfan sig inn í Evrópubandalagið eins og ég heyrði það orðað nýlega í umræðuþætti í Ríkisútvarpinu. Ég mun að sjálfsögðu koma töluvert að þeim málum en ég ætla áður að rekja nokkur önnur atriði sem eru í skýrslunni.

    Ég vil taka undir það með hæstv. utanrrh. að gífurlegar breytingar hafa orðið í heiminum í kringum okkur, breytingar sem við Íslendingar getum alls ekki látið fram hjá okkur fara eins og við séum ekki aðilar að þeim. Vitanlega erum við aðilar að þessum litla heimi sem nú er orðinn og allt það sem þar gerist hefur áhrif á okkur. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að hraði þessara breytinga hefur orðið meiri með hverju ári. Mér kemur oft í hug að það er rétt sem einn mikill spekingur sagði eitt sinn að hraði breytinganna tvöfaldist á hverjum 10 árum. Án þess að ég fari að endurtaka það sem hæstv. utanrrh. sagði um þessar breytingar vil ég þó leggja áherslu á að þeim er langt frá því að vera lokið.
    Lítum bara á Evrópubandalagið. Þar eru fram undan afar miklar breytingar. Samkomulagið í Maastricht boðar sumar þessar breytingar eins og sameiginlega utanríkisstefnu, sameiginlegan gjaldmiðil og fleira mætti nefna. Einnig má vekja athygli á því að ákveðið var að halda næstu ráðstefnu valdamestu manna Evrópubandalagsins 1996 minnir mig frekar en 1995, en þegar er rætt um að hraða henni og halda hana 1993. Ég vek athygli á þeim yfirlýsingum frá mestu ráðamönnum bandalagsins sem fara ekki leynt að því skuli breyta á næstunni frá því að vera bandalag 12 jafnráðandi þjóða í bandalag nokkurra voldugra þjóða sem ráða þar langsamlega mestu.
    Nú er boðað að takmarka skuli neitunarvaldið og að það skuli helst vera í höndum Þjóðverja og Frakka og e.t.v. tveggja til þriggja annarra stórvelda. Þannig bendir allt til þess að Þjóðverjum sé að takast nú, eins og ég hef sagt áður, það sem Hitler tókst ekki, að leggja undir sig Evrópu. Enda kveður í vaxandi mæli við þennan tón hvar sem komið er hjá smáríkjum Evrópu.
    Við höfum hlustað á það í fréttum að t.d. í Danmörku er andstaðan við Evrópubandalagið nú vaxandi. Fleiri og fleiri skoðanakannanir lýsa efasemdum Dana um að þeir eigi heima í Evrópubandalaginu og þá að sjálfsögðu með tilvísun til þess sem þar er að gerast. Fleira sem boðar gífurlega miklar breytingar gæti ég nefnt. Ég tek undir það sem segir í inngangsorðum þessarar skýrslu, þar sem áhersla er lögð á það í fyrstu málsgreininni að í hinum breytta heimi sé það höfuðverkefni íslensku utanríkisstefnunnar að tryggja sjálfstæði landsins og tryggja og varðveita yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar. Ég tek heils hugar undir þetta. En spyr, hvernig var unnt að skilja vangaveltur, svo ég taki ekki dýpra í árinni, hæstv. utanrrh. um hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu sem viðleitni til þess að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar og yfirráð yfir auðlindum hennar? Ég held að enginn maður, hversu góðviljaður sem hann er, geti túlkað orð hæstv. utanrrh. sem tilraun til þess.
    Ég vil fara orðum um nokkur atriði sem minnst er á aftarlega í skýrslunni. Ég tek undir það sem hæstv. utanrrh. sagði um þróunaraðstoðina. Við höfum að vísu rætt um það í æðimörg ár að hana þurfi að auka og að hún sé okkur til háborinnar skammar. Ég vona að loksins verði af þeim orðum sem hæstv. utanrrh. mælti áðan og að við aukum þróunaraðstoð. Í þessu sambandi vil ég leggja áherslu á að við Íslendingar getum aukið þróunaraðstoð þannig að hún komi okkur sjálfum að gagni. Ekki er nokkur vafi á því að við Íslendingar getum staðið að miklu meiri útflutningi á þekkingu heldur en við höfum gert til þessa, þekkingu t.d. á sviði jarðhitanotkunar sem við höfum vissulega gert í nokkrum stíl en getum aukið og margfaldað, og ekki síður þekkingu á sviði sjávarútvegs sem fjölmargar þjóðir þurfa á að halda, vanþróaðar þjóðir og þjóðir sem eru að brjótast úr viðjum eins og hér er t.d. talað um Rússland og samvinnu sjálfstæðra ríkja sem berjast nú í bökkum og þurfa á mikilli aðstoð að halda. Ég lýsi ánægju minni með þá ákvörðun að beina nokkru fjármagni til þess að auka tækniaðstoð Íslendinga við slíkar þjóðir.
    Í skýrslunni er fjallað um GATT sem von er. Ég sakna þess hins vegar að í henni er ekkert minnst á, ég gat a.m.k. ekki fundið það við hraðlestur skýrslunnar, þá fyrirvara sem við Íslendingar settum eftir hina heitu umræðu sem varð hér á landi um hugsanlegan samning við GATT um landbúnaðarfurðir og afhent var með sérstöku bréfi af sendiherra okkar sem gegnir málefnum GATT. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvernig er þeim fyrirvörum fylgt eftir? Ég tel afar mikilvægt að við fáum svör við þeim. Við heyrum að á GATT-samkomulagi kunni að verða nokkur frestur vegna þess að samstaða næst ekki enn á milli Evrópubandalagsins og Bandaríkjanna. En ég legg áherslu á að GATT-samkomulag er langtum meira en samkomulag milli risaveldanna. Frá eigin sjónarmiði séð erum við alveg eins stórir í GATT-samkomulagi og þau. Það getur vel verið að GATT-samkomulagið varði okkur Íslendinga langtum meira en þessi veldi þegar upp er staðið. Margt bendir til þess að Bandaríkin og Evrópubandalagið fái í málamiðlun sættir sem tryggja að þau fái að halda verulegum hluta af því sem í raun samræmist ekki frjálsri verslun með landbúnaðarafurðir en aðrir sem smærri eru gleymist.
    Ég vil einnig spyrja að því hvort athugað hafi verið það sem ekki var upplýst í umræðunni um GATT, þ.e. hvort unnt sé að vera aðili að GATT-samkomulagi með ýmsum fyrirvörum vegna stöðu smáþjóðar í því samkomulagi sem þarna er um að ræða. Hefur fengist svar við því frá GATT? Ef samstaða á að nást um GATT tel ég mjög nauðsynlegt að þessum spurningum verði svarað sem fyrst.
    Ég tek það fram að við framsóknarmenn teljum að viðskiptafrelsi sé þjóðinni afar nauðsynlegt og styðjum aðild Íslendinga að GATT. Við erum sannarlega tilbúnir til þess að fórna einhverju til þess að víðtækt viðskiptafrelsi um afurðir okkar geti orðið. En ég legg hins vegar áherslu á að um svo stóra hagsmuni er að ræða, ekki síst í íslenskum landbúnaði, að taka þarf hvert skref með varúð og tryggja þá hagsmuni eins og frekast verður gert.
    Í skýrslunni er töluvert rætt um þau vandamál sem nú steðja að heiminum og get ég tekið undir þau, ekki síst vandamál eins og umhverfismál og dýpkandi gjá á milli norðurs og suðurs. Ég er þó þeirrar skoðunar að í skýrslunni og ræðu hæstv. utanrrh. hafi þau mál ekki verið skoðuð nægilega ítarlega og ekki komið fram sú áhersla á mikilvægi þessara mála sem nauðsynleg er. Við Íslendingar hljótum að vera þátttakendur í allri viðleitni til að leysa þessi mál. Þau varða okkur öll. Ég held að ekki sé nokkur vafi á að í efnahagsþróun þessa heims og í allri áætlun sem gerð er um efnahagsmál verður núna að taka tillit til þess hvað kosti að vernda umhverfið og að brúa þá miklu gjá á milli ríkra og fátækra sem hæstv. utanrrh. lýsti. Það verður alls ekki lifað í hinum litla heimi lengur án þess að þessa sé gætt. Ljóst er að ganga þarf töluvert lengra en bara að halda umhverfinu í því horfi sem það er nú. Ekki er nokkur vafi á því að við þurfum að gera ráð fyrir að af þeim tekjum sem við fáum af efnahagsþróuninni verði að verja mjög stórum hluta til þess að bæta tjón sem orðið hefur á umhverfinu og við sjáum svo mjög í landinu. Mér þykir ástæða til að leggja töluverða áherslu á þetta vegna þess að fleiri og fleiri aðhyllast þá skoðun að sú hraða efnahagsþróun sem verið hefur í vestrænum heimi á undanförnum áratugum hljóti að hægja mjög á sér ef ekki stöðvast ef tekið er það tillit til þessara vandamála sem er nauðsynlegt. Sumir hafa gengið svo langt að heimsbylting sé orðin að þessu leyti og menn lifi í allt öðrum heimi en áður.
    Í skýrslunni er töluvert rætt um Atlantshafsbandalagið, sem von er og Vestur-Evrópubandalagið. Ég tek undir þær miklu breytingar sem orðið hafa að þessu leyti og að við hljótum að skoða okkar mál þar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum afar lítið erindi jafnvel sem aukaaðilar að Vestur-Evrópubandalaginu. Ég tel að við eigum að auka aðild okkar og starfa innan RÖSE, leggja áherslu á að RÖSE verði það sem undir var skrifað og gert ráð fyrir í París 19. nóv. 1990 og gera okkar til þess að RÖSE komi sem allra mest í staðinn fyrir þau varnarbandalög sem smám saman hafa verið að gufa upp.
    Einnig tek ég undir það með hæstv. utanrrh. að sjálfsagt er að taka upp viðræður við Bandaríkin um breytingar á varnarsáttmála Íslands og Bandaríkjamanna með tilliti til hinna gerbreyttu viðhorfa sem nú eru. Ég tel að með tækjakosti okkar, m.a. nýjum ratsjárstöðvum, getum við Íslendingar gætt þeirra hagsmuna sem við og aðrir eigum með öllu eftirliti í Norður-Atlantshafinu með langtum minni umsvifum varnarliðs hér á landi en verið hefur. Mér sýnist að í skýrslunni sé nú loksins viðurkennt að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hlýtur að draga mjög saman seglin. Reyndar hefur allt bent til þess lengi en hæstv. utanrrh. hefur lagt sig fram við að halda starfseminni gangandi og að sjálfsögðu ber að meta það með tilliti til atvinnumála á Suðurnesjum. En ég tel að lengi hafi þó verið ljóst að það var haldlítil viðleitni, jafnvel vonlaus viðleitni og mér sýnist það vera viðurkennt í skýrslunni. Í skýrslunni kemur einnig fram að hæstv. utanrrh. hefur látið undan, að því er mér virðist, í skipulagningu verktakastarfseminnar á Keflavíkurflugvelli. Sú yfirlýsing er gefin, sem reyndar hefur komið fram áður í fréttum frá hæstv. ríkisstjórn, að á þessu kjörtímabili yrði starfsemi Aðalverktaka lokið, a.m.k. einkaréttur þeirra til þess að framkvæma fyrir varnarliðið. Ég skil það svo að Aðalverktakar í núverandi mynd yrðu nánast leystir upp eða a.m.k. yrði tilboð í alla verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli opin, ekki aðeins fyrir íslensk fyrirtæki heldur öll fyrirtæki innan Atlantshafsbandalagsins sem kjósa að bjóða í. Ég heyrði hæstv. utanrrh. ekki koma að þessu í ræðu sinni en vel má vera að það hafi þó verið, en ég vildi gjarnan að hann lýsti þessu nánar. Hér er um gífurlega stórt verkefni að ræða. Að vísu má vera að nýbyggingar á Keflavíkurflugvelli verði stórum minni í framtíðinni en hingað til. Allt bendir vissulega til þess en ég hygg að viðhaldsstarfsemi verði þar mikil og því er æskilegt að vita hvort útboð á viðhaldi falli einnig undir þetta og sömuleiðis gaman að vita hvort hæstv. ríkisstjórn hafi skoðað það hvaða áhrif þetta hljóti að hafa á atvinnuástand á Suðurnesjum sem nú er hvað verst á öllu landinu. Eins og menn vita á mikill fjöldi manna afkomu sína undir starfsemi á Keflavíkurflugvelli, því miður leyfi ég mér að segja. Þessi yfirlýsing er því mjög mikilvæg og nauðsynlegt að fá hana rædda nánar. Ég er þeirrar skoðunar að um leið og hún er gefin hljóti hæstv. ríkisstjórn að gera ráðstafanir til þess að það fólk sem vinnur þarna hafi kost á öðru. Að vísu starfar hæstv. ríkisstjórn undir kjörorðunum ,,kemur-mér-ekki-við`` en hve langt má ganga að þessu leyti? Með þessari ákvörðun gerbreytir hún því atvinnuástandi sem þarna hefur verið og hefur þannig afskipti af því og hlýtur því að teljast ábyrg að nokkru leyti ef ekki öllu fyrir því sem fram undan er og af því sem það leiðir til. Þetta eru fyrst og fremst þau atriði sem ég kaus að minnast á áður en ég kem að því máli sem bar hæst í orðum hæstv. utanrrh., þ.e. samningi um Evrópskt efnahagssvæði og ekki síst hugsanlegri aðild okkar Íslendinga að Evrópubandalaginu.
    Ég sagði áðan að út af fyrir sig kom mér ekki á óvart að hæstv. utanrrh. skyldi hreyfa þessu máli, þ.e. aðild að Evrópubandalagi. Þetta hefur augljóslega verið mjög ofarlega í huga hans jafnvel lengi og kannski fleiri manna í Alþfl. Vitanlega er nauðsynlegt að fá að heyra hvernig hæstv. forsrh. lítur á málið, hvort hann telji t.d. koma til greina eins og ýjað er að, að við ættum að fylgjast með Norðurlöndunum og sækja um aðild til að fá á það reynt hvaða kostir okkur eru boðnir. Ég tel hins vegar að það hafi verið afar óheppilegt að fá þessa umræðu núna þegar menn hafa vænst þess að umræðuna um Evrópskt efnahagssvæði beri hvað hæst. Ég vek athygli á því að fullyrt hefur verið að niðurstaða Evrópudómstólsins eigi að liggja fyrir fyrir páska. Það eru því ekki nema tvær vikur þangað til að við höfum niðurstöðu Evrópudómstólsins, ef það stenst. Hefði ekki verið skynsamlegra að bíða með umræðuna þar til hugsanleg neitun Evrópudómstólsins lægi fyrir? Ég hefði getað skilið að hæstv. utanrrh. hefði þá vakið máls á þessu atriði. En ég efa hins vegar ekki að með umræðunni nú er stórlega spillt fyrir því að breið samstaða náist um Evrópskt efnahagssvæði. Ég vek athygli hæstv. utanrrh. á því að við í síðustu ríkisstjórn stóðum saman að þeim samningum sem síðan hafa verið um Evrópskt efnahagssvæði. Við stóðum saman

að þeim fyrirvörum sem ákveðið var að setja um Evrópskt efnahagssvæði. Þessu höfum við ekki fengið fullnægt, við höfum ekki fengið svör við ýmsum atriðum. Ég sakna þess t.d. að hafa hvorki heyrt þessa fyrirvara rakta í ræðu hæstv. utanrrh. né fundið þá í skýrslunni. Ég spyr sjálfan mig að því: Getur verið að hæstv. utanrrh. sé búinn að gleyma þeim eða skeyti þeim engu? Ég verð að nefna þessa fyrirvara hér.
    Við settum í fyrsta lagi fyrirvara um að við Íslendingar hefðum full yfirráð yfir íslenskum sjávarútvegi. Við settum fyrirvara um að erlendir aðilar fengju ekki fjárfest í íslenskum sjávarútvegi. Við settum fyrirvara í sambandi við fjármagnsflutninga til landsins m.a. að ekki mætti kaupa hér upp land í stórum stíl nema land sem væri nauðsynlegt vegna atvinnustarfsemi sem heimiluð er samkvæmt samningnum. Við settum líka fyrirvara um aðild útlendinga að orkufyrirtækjum, eignarhlut þeirra að orkufyrirtækjum og fyrirvara um fólksflutninga til landsins. Eftir því sem ég fæ séð er aðeins einum þessara fyrirvara enn þá fullnægt. Það er fjárfesting erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og ég lít svo á að þeim lögum verði ekki breytt því að bann við fjárfestingu í sjávarútvegi er viðurkennt í þeim drögum sem við höfum séð að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Ég vona að þetta muni halda.
    Ég hef ítrekað spurt að því hvað líði fyrirvara eða girðingu eins og við höfum gjarnan kallað það, gegn því að erlendir aðilar geti keypt hér upp land, jarðir, dali, fjöll o.s.frv. Ég hef engin svör fengið við því. Ég hef í besta falli fengið góðlátlegt bros frá hæstv. utanrrh. þegar ég hef spurt um þetta í utanrmn. Í skrá sem við höfum fengið, a.m.k. í utanrmn., yfir þau frumvörp sem þarf að leggja fyrir Alþingi er sagt að hæstv. landbrh. muni leggja fram frv. um jarðalög. Hins vegar segir þar að óvíst sé hvenær frv. verði lagt fram. Ég vil leyfa mér að spyrja: Er þetta sú girðing sem við í síðustu ríkisstjórn a.m.k. vorum ákveðnir að setja upp til að fyrirbyggja að erlendir aðilar gætu keypt hér upp land? Ég vek athygli á því að við höfum, nokkrir þingmenn Framsfl., flutt á Alþingi frv. sem á að koma í veg fyrir slíkt. Við töldum rétt að leggja það fram þar sem við höfum ekki séð nein merki þess að þetta væri að koma frá ríkisstjórninni. Ég vona að það sé enn þá skoðun a.m.k. hæstv. utanrrh. og alþýðuflokksmanna að fyrirbyggja þurfi slík jarðakaup.
    Hvað um eignaraðild að orkufyrirtækjum? Ég sé að hæstv. iðnrh. hyggst flytja frv. um eignaraðild að jarðhita og um orkumálin. Ég spyr: Er þarna um að ræða það sama og áður var um rætt, að flytja yrði frv. sem tryggði eignarrétt hins opinbera að jarðhita fyrir neðan ákveðna dýpt?
    En það er fleira sem þarf að skoða í þessu sambandi. Í hvítri bók hæstv. ríkisstjórnar er boðað að einkavæða eigi orkufyrirtækin. Ég hef spurt að því hér á hv. Alþingi hvort ríkisstjórnin ætli að standa við þau fyrirheit þrátt fyrir Evrópskt efnahagssvæði, ef úr því verður, sem mundi heimila aðilum í Evrópu eða aðilum innan þess svæðis, jafnt og Íslendingum að kaupa hlutabréf í slíkum einkavæddum orkufyrirtækjum. Ég sé ekki betur en að með því sé raunar til lítils að ætla ríkinu einkarétt á t.d. jarðhitanum eins og það hefur nú á virkjun fallvatna fyrir ofan ákveðna stærð orkuvers. Þetta er mál sem ég hefði gjarnan viljað fá að heyra um frá hæstv. utanrrh. ef hann hefði fjallað eitthvað að ráði um þessi stóru mál sem varða Evrópskt efnahagssvæði.
    Hæstv. utanrrh. hefur lýst því áður hér í umræðum um Evrópskt efnahagssvæði að almennur fyrirvari eigi að gera Íslendingum kleift að stöðva fólksflutninga til landsins en því miður eru ýmsir lítt sannfærðir um það.
    Ég hefði líka viljað heyra frá hæstv. utanrrh. ítarlegri lýsingu á þeim breytingum sem urðu eftir afstöðu Evrópudómstólsins og þeim hugmyndum sem hafa verið um gerðardóm og um vald hinnar svokölluðu pólitísku nefndar. Mér sýnist að þótt Evrópskt efnahagssvæði eða samningurinn kunni að koma hér fyrir fljótlega verði einnig að ræða þetta í almennri umræðu um utanríkismál.
    Loks er eitt gífurlega stórt atriði sem ég hefði gjarnan viljað fá að heyra um frá hæstv. utanrrh. Hverju gerir hæstv. utanrrh. ráð fyrir í tengslum við samninginn um fiskveiðar erlendra aðila hér? Þar er fjöldamörgum spurningum ósvarað. T.d. er því ósvarað hvernig verður með eftirlitsmenn í þessum skipum. Hvað verða þeir margir? Hvað verða skipin mörg? Hver greiðir fyrir þann kostnað? Hvernig verður ef við náum ekki allri þeirri loðnu sem við höfum heimild til að veiða? Og þannig gæti ég haldið áfram að telja. Hvenær á að gera þann samning? Liggur sá samningur fyrir áður en umræðan um Evrópskt efnahagssvæði verður tekin fyrir á Alþingi eða telur hæstv. utanrrh. að þessi samningur skipti engu máli í því sambandi? Ég vek athygli á því að fulltrúar sjávarútvegsins íslenska hafa a.m.k. sagt að þeir geti ekki tekið afstöðu til samnings um Evrópskt efnahagssvæði án þess að sá samningur liggi fyrir.
    Á ég að skilja hæstv. utanrrh. svo þegar hann talar svo lítið um þessi stóru mál að hann sé í raun í hjarta sínu búinn að gefa Evrópskt efnahagssvæði upp á bátinn og stefni markvisst að aðild að EB? Lái mér hver sem vill að hugsa þannig. Mér þykir sú hugsun að vísu afar leið og hefði vart trúað því fyrir ári eða svo en ég hef nefnt hér fjölmörg atriði sem varða Evrópskt efnahagssvæði mjög sem hæstv. utanrrh. minntist ekki á.
    Hins vegar, eins og ég sagði, fjallaði mest eða mjög mikið af ræðu hæstv. utanrrh. um hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu. Hæstv. utanrrh. segir hér einhvers staðar í þessari skýrslu að nú sé svo komið að menn séu hættir að spyrja: Hvers vegna ættum við að ganga í EB? Menn spyrji í staðinn: Hvers vegna ættum við að standa utan við það?
    Það er dálítið furðulegt að leggja svona spurningar til grundvallar. Ég held að staðreyndin sé sú að menn þurfa að skoða þetta hvort tveggja. Ég vil vekja athygli á því sem hér hefur verið nokkuð í umræðunni: Menn fara ekki að máta flík ef þeir þurfa enga flík eða ef þeir eru fyrir fram sannfærðir um að hún passar ekki. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um það að flíkin EB passar okkur Íslendingum alls ekki og við eigum þar við allt aðrar aðstæður að búa en sum þau lönd sem hafa ákveðið að sækja um aðild að EB. Hæstv. utanrrh. fór nokkrum orðum um það og ég skal lýsa mínum sjónarmiðum til þess. T.d. kom fram í umræðu innan EFTA þegar ákveðið var að Austurríkismenn ætluðu að sækja um aðild að EB og sýndu þá minni áhuga fyrir hugsanlegum samningum við Evrópubandalagið að Austurríkismenn töldu sér bókstaflega ekki annað kleift. Þegar ég hlustaði á ástæðurnar fyrir því þá þóttu mér þær afar skiljanlegar. Austurríkismenn sögðu sem svo: Við erum þarna inni í miðri Evrópu, við erum landlukt land, við eigum hvergi aðgang að umheiminum nema fara annaðhvort yfir Sovétríkin eins og þá var eða austurblokkina eða í gegnum Evrópubandlagið. Viðskiptin eru nánast öll við Evrópubandalagið. Þarna er tungumál talað sem er talað í stórum hluta Evrópubandalagsins. Mér þóttu rökin satt að segja afar sannfærandi fyrir því að Austurríki gæti ekki staðið fyrir utan.
    Svíar skoðuðu þetta mál einnig mjög vandlega og komust smám saman að niðurstöðu. Mér þótti afstöðu Svía hvað best lýst í viðtali sem ég átti einu sinni við hinn þekkta sænska iðnjöfur og fjármálamann Curt Nicolin þegar hann lýsti því að Svíar ættu í raun varla um annað að ræða en að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Og hvers vegna? Hann sagði að 80% af fjárfestingum sænsks iðnaðar væri í Evrópubandalaginu og svo að segja öll fjárfesting sænska stóriðnaðarins. Þetta eitt, og hann nefndi reyndar fleira, gerir það nauðsynlegt að við fylgjumst sem vandlegast með því sem þar er að gerast og leitum allra leiða til að hafa áhrif á ákvarðanir Evrópubandalagsins sem skipta sænskt atvinnulíf svo miklu.
    Hann sagðist hins vegar, í þessari sömu umræðu, ekki skilja þær raddir sem hann hafði þá heyrt, þetta var fyrir tveimur árum, að sumir Íslendingar teldu að við ættum að sækja um aðild að EB. Ég veit satt að segja ekki við hverja hann hefur þá talað. Íslendingar verða aldrei stórir fjárfestingaraðilar í EB, a.m.k. ekki þannig að nokkru máli skipti og nokkurn tímann komi upp á borðið í Brussel. Þvert á móti taldi hann allar líkur til þess að það yrði öfugt og ekki þyrfti mikla fjárfestingu stórfyrirtækjanna í Evrópu til að kaupa upp allt sem einhverju máli skipti hér á Íslandi. Staðreyndin er nefnilega sú að við Íslendingar erum slíkir dvergar í þessu samstarfi að við mundum hverfa í mannhaf 370 milljón manna samveldis.
    Ég skil einnig mæta vel þá niðurstöðu sem Finnar komust að. Margir lýsa mikilli aðdáun á ákvörðun þeirra og hvernig þeir sneru þar við spilunum. En mér sýnist að menn gleymi alveg þeirri gífurlegu breytingu sem varð á allri stöðu Finna. Finnar glata u.þ.b. 25% af sínum útflutningi á örfáum dögum. Finnar eru þar staddir að þeir eru nánast lokaðir á milli annars vegar hrynjandi Rússaveldis og baltnesku landanna, hrynjandi markaðar þar og hins vegar EB þar sem Svíar ætla einnig að loka Finna af með aðild. Finnar urðu að velja á milli þess að verða háðir viðskiptum í austur, sem eru afar ótrygg á þessari stundu, eða sækja um aðild að EB. Finnar gera það að vísu með ýmsum fyrirvörum sem ég held að langflestir telji að þeir muni ekki fá heldur muni þeir fá aðlögunartíma og ég kem að því nokkru síðar.
    Við Íslendingar erum að sjálfsögðu í allt annarri stöðu. Við Íslendingar erum ekki í stöðu sem líkist stöðu Finna sem betur fer. Við erum staðsettir langt frá þessum átakapunktum í Evrópu. Engin hætta er á því að við einangrumst hér. Við erum nokkurn veginn miðja vegu á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Við höfum góðan aðgang einnig að löndunum í Austur-Asíu. Við getum spilað á þetta kerfi sem betur fer, kerfi heimsvelda, á ótrúlega góðan máta ef við höfum til þess manndóm.
    Ég er algjörlega ósammála því sem kemur bæði fram í bók þeirri sem við höfum fengið og í ræðu hæstv. utanrrh. að það sé heldur metnaðarlítil sýn, svo ég noti hans orð, að við Íslendingar verðum fyrir utan þennan samruna sem er að verða í Evrópu, þennan sogkraft sem er að verða í Evrópu þar sem allt sogast undir miðstýringuna í Brussel sem fáir hafa fordæmt meir en hæstv. utanrrh., ég er honum sammála um það, að sogast inn í miðstýringu sem er komin þegar með 2.000 nefnda fargan. Hvernig hugsar hæstv. utanrrh. sér að þessi smáþjóð taki þátt í því til þess að hafa einhver áhrif? Jú, við höfum haft nokkur áhrif í EFTA. Hæstv. utanrrh. hefur gegnt þar formennsku og gert það vel. En ímyndar hæstv. utanrrh. sér að hann hafi einhver áhrif eða annar utanrrh. innan EB eins og þróunin er þar? Það er náttúrlega hin mesta firra. Getur verið að þetta sé einhvers konar mikilmennskudraumur sem hrjáir hæstv. utanrrh.? Það eru einhver hættulegustu veikindi sem þekkjast og menn falla stundum fyrir björg þegar þeir ætla sér of hátt í þeim efnum. Getur þetta verið? Ég spyr.
    Það er alltaf sagt með EB og Ísland: Jú, að sjálfsögðu ætlum við að ráða okkar sjávarútvegsmálum. Í 38. gr. í Rómarsáttmálanum er mjög skýrt kveðið á um það að stefnan í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum skuli vera sameiginleg og það er ekki nokkur skapaður hlutur í greinunum sem þar fara á eftir sem gefur til kynna að jafnvel í Brussel megi gera þar nokkrar undantekningar. Þeir hafa ekki gert það, það er bara tímabundið. Það er tímabundið sem öðruvísi er farið með Miðjarðarhafið en önnur höf sem Brussel hefur aðgang að með svokölluðum tilkynningum frá Brussel sem eru eiginlega tilskipanir þaðan. En framkvæmd þessarar stefnu innan ramma Rómarsáttmálans er ákveðin til tíu ára í senn. Það getur vel verið að hún verði önnur tíu ár óbreytt þannig að viðkomandi strandríki fái að veiða innan 12 sjómílna. En nægir það okkur? Ég spyr hæstv. utanrrh. Dettur einhverjum það í hug að við höfum barist til þess að losna við þessar þjóðir, stórveldin, út úr 200 sjómílum til að láta okkur nægja 12 sjómílur? Nei, mér dettur ekki í hug að hæstv. utanrrh. hugsi þannig.
    Eftir hverju er hæstv. utanrrh. að sækjast? Að hvaða leyti passar þessi flík okkur? Að hvaða leyti?

Ég sé ekki eitt einasta atriði, ekki eitt einasta. Hentar það okkur að loka okkur innan tollmúranna í EB? Getur verið að menn telji það og vera háðir því viðskiptastríði sem hæstv. utanrrh. hefur réttilega lýst sem viðskiptastríði þríhöfða þursa? Þetta er alveg hárrétt hjá honum. Það er ekki til meira afturhald í heiminum í viðskiptamálum en EB. EB rekur enn þá nýlendustefnuna. Hentar okkur Íslendingum að verða fangar slíkrar stefnu? Ég held að það komi ekki til mála að hæstv. utanrrh. sjái þar eitthvað sem passar okkur af flíkinni. Mér dettur það ekki í hug.
    Mig langar til að spyrja hæstv. utanrrh. að því --- nefni hann eitt atriði: Hvað það er sem við þurfum að sækjast eftir innan EB sem réttlætir það að við sækjum um aðild að Evrópubandalaginu með öðrum Norðurlöndum? Eitt atriði. Jafnvel þótt við fengjum nú, sem er alls ekki inni í myndinni, undanþágu frá þessari sjávarútvegsstefnu. Við getum fengið aðlögun í tíu ár, við fáum aldrei undanþágu og það vita allir. Til hvers? Til að komast út úr þessari meðalmennsku? Ég vil bara segja fyrir mitt leyti að ég er fullkomlega sáttur við að við séum meðalþjóð og frjáls og sjálfstæð hér úti í Atlantshafinu og það er kannski miklu, miklu betra en þessi stórveldi sem ógna heiminum hvert af öðru og hafa gert undanfarna áratugi og aldir.
    Ég fæ bókstaflega ekki, hvernig sem ég skoða þetta, einn einasta hluta af þessari flík til að passa okkur Íslendingum. En svo er náttúrlega líka það að í öllum þeim fyrirvörum sem settir hafa verið, eins og t.d. fyrirvaranum í stefnuskrá Alþfl., á bls. 54 minnir mig, er eingöngu fyrirvari um sjávarútveginn. Er hann það eina sem við Íslendingar þurfum að passa okkur á? Hvað um landakaupin sem við vorum sammála um? Hvað um orkulindirnar? Og hvað um fjárfestinguna í sjávarútveginum og að komast þannig bakdyramegin inn?
    Nokkrir spekingar hér á landi hafa boðað það, í takt við þennan boðskap og dáleiðslu hæstv. utanrrh., að það sé allt í lagi fyrir okkur að gerast aðilar af því að annars vegar muni þeir í Brussel vera svo góðir við okkur Íslendinga að þeir muni leyfa okkur að veiða meira en öðrum þjóðum. Kannski er það rétt, í tíu ár eða svo. Eða hins vegar að það geti enginn keppt við okkur ef við tökum upp auðlindaskatt, við munum geta keypt upp skattinn og það verði meiri hagkvæmni hjá okkur en öðrum. Hvílíkur barnaskapur er þetta. Mig langar til að heyra hvort hæstv. utanrrh. tekur undir þessi sjónarmið. Dettur hæstv. utanrrh. í hug að risafyrirtæki í matvælaiðnaðinum, eins og Nordsee, mundi hika við að kaupa upp kvótann jafnvel þótt þeir tapi einhverju á honum til að byrja með? Og þegar spurt er af þessum aðilum: Hvað um fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi og að komast þannig bakdyramegin inn? Þá yppta menn öxlum því við getum ekki útilokað fjárfestingu í sjávarútveginum ef við gerumst aðilar. Ég hygg að það sé slíkt grundvallaratriði að í EB fengist aldrei undanþága frá því. Menn segja: Við fáum viðurkennt núna að erlendir aðilar fá ekki heimild til að fjárfesta í sjávarútvegi. Við skulum bara gæta þess að sjávarútvegurinn er ekki með í fríversluninni, hann er raunar sér kafli. Það var ekki fallist á að verslun með sjávarafurðir yrði frjáls. EB féllst ekki á það hreinlega vegna þess að þeir vilja halda áfram sinni styrkjapólitík, sem er gífurlega mikil, og þeir munu verja mörgum milljörðum á næstu tveimur árum til að styrkja sinn sjávarútveg og fiskiðnað. Að sjálfsögðu, ef við erum komnir inn, þá er málið orðið allt annað. Við getum fengið einhverja ölmusu af borði Brussel í einhvers konar styrkjum, þó veit ég það ekki því okkar sjávarútvegur er líklega langtum þróaðri en það sem er víðast þar sem menn verka fiskinn með pípu í kjaftinum og derhúfu á hausnum sem er ekki leyft hér eins og við höfum stundum séð myndir af. Mig langar sem sagt til að fá svör við þessum spurningum. Er nokkur ástæða til að ætla að við fáum þarna nokkrar undanþágur? Eða er þessi boðskapur fræðimannanna eitthvað sem hæstv. utanrrh. tekur undir?
    Ég segi líka að í þessu öllu er ekki minnst á önnur atriði sem við vorum sammála um að tryggja yrði að ekki næðu hér fótfestu, eins og t.d. kaup á landi, svo ég nefni það aftur, og fjárfestingu í orkulindum og fleira þessa háttar.
    Ég sé ekki að við höfum neitt að sækja á ýmsum sviðum eins og t.d. í félagsmálum. Ætlum við Íslendingar að fara að taka á okkar herðar að lyfta Suður-Evrópuþjóðum upp í félagsmálum? Er það það sem við eigum að sækjast eftir? Er okkar mikilmennska fólgin í því eða halda menn virkilega að við mundum hafa einhver áhrif á utanríkismálastefnu Evrópubandalagsins? Dettur einhverjum það í hug? Dettur mönnum í hug að við hefðum svo þungt neitunarvald, eitt atkvæði af 90, sem á nú að því er mér skilst á þessum ráðandi mönnum eins og Kohl og fleirum að takmarka mjög? Halda menn að við getum beitt því og staðið gegn öllum breytingum sem þeir vilja gera? Margrét Thatcher hrökklaðist frá þegar hún hugðist beita neitunarvaldi. Ég held að þetta sé allt saman slík draumsýn að ég spyr enn einu sinni: Vill ekki hæstv. utanrrh. benda okkur bara á eitthvað sem við ynnum með því að gerast aðili að EB?
    Svo kemur að hinu atriðinu sem við þurfum vitanlega að ræða: Hvernig eigum við þá að haga okkar málum? Ég tel að okkar metnaði væri sannarlega fullnægt að öllu leyti ef þessir samningar um EES næðust og allir þessir fyrirvarar yrðu tryggðir og sjávarútvegssamningurinn, sem kannski verður því miður að gera og greiða þannig aðganginn með, yrði þannig að við gætum sætt okkur við hann, haft öruggt eftirlit jafnvel þótt það verði Spánverjar sem hér munu veiða sem fáum hefur tekist að fylgjast með. Við skulum segja að það tækist að ganga svo vel frá þeim samningi. Þá tel ég að okkar framtíð og metnaður væri best tryggð í því að leita nánari viðskiptasamninga við Bandaríkin, eins og hæstv. utanrrh. nefndi, leita viðskiptasamninga við Japan, leita t.d. að því hvort þessi lönd vilji koma hér í iðnað til þess að tryggja sér þannig aðgang að Evrópubandalaginu. Ég tel satt að segja að við höfum miklu, miklu meiri möguleika

þannig heldur en að loka okkur innan viðskiptahindrana og tollmúra Evrópubandalagsins.
    En ef svo fer að dómstóllinn hafnar því samkomulagi sem nú er rætt um þurfum við vitanlega að skoða okkar mál á ný, ég er sammála því. Ég er að vísu ekki þeirrar skoðunar að þá sé slík vá fyrir dyrum að hér muni allt saman hrynja. Áætlað er að um það bil 1 milljarð megi spara með þeim tollum sem falla niður. Þó að ég viðurkenni að það sé sannarlega eða vonandi töluvert meiri vinningur í því að losna við toll af ferskum flökum, þ.e. að meira af fiski verði unnið hér heima, þá er það alls ekki gefið mál. Ég bendi þar sérstaklega á þá styrki sem fiskvinnslan í Evrópubandalaginu fær og er enn þá hindrun sem þarf að yfirstíga í þessu sambandi. En við skulum segja að það kunni að vera þróun sem getur orðið jákvæð þegar til lengri tíma er litið. Hvað með iðnaðinn? Gera menn sér vonir um það eftir að iðnaðurinn hefur því miður ekki vaxið, eins og við gerðum okkur vonir um þegar gengið var í EFTA, hann hefur átt erfitt uppdráttar satt að segja og átt erfitt í samkeppninni, að hann muni þar finna stærri markaði? Það er alls ekki tryggt. Og reyndar er það jafntryggt í þeim samningi sem við höfum nú og í þessum samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Ég trúði því lengi vel að í þessum samningi um Evrópska efnahagssvæðið yrði tryggt að við stæðum jafnfætis þessum löndum í skipasmíðum. Mér þótti því sorglegt að sjá í samantekt frá iðnaðarmönnum nú nýlega að í þessum samningi náðist það ekki. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvort þetta sé rétt. Er það rétt að það hafi ekki náðst fram að skipasmíðaiðnaðurinn yrði á sambærilegum samkeppnisgrundvelli, þ.e. ríkisstyrkjum yrði þar hætt? Við höfum að vísu barist mikið innan EFTA fyrir þessu og orðið nokkuð ágengt og fengið þar nokkur loforð sem ekki hafa öll verið efnd og menn hafa skotið sér þar á bak við byggðasjónarmið og fleira.
    Ég held sem sagt að þótt við næðum ekki þessum samningi getum við Íslendingar borið höfuðið hátt og leitað á önnur mið. En ég tek það skýrt fram að ef allir fyrirvarar sem við settum um Evrópskt efnahagssvæði eru tryggðir og samningurinn um veiðarnar hér er tryggður, þá er vissulega töluverður fengur viðskiptalega að því að ná þessum samningi. Það munum við framsóknarmenn skoða mjög grannt en við viljum þá fá svör við þeim spurningum sem við höfum þegar sett fram og ég hef endurtekið hér. Ég fæ a.m.k. ekki séð að það væri nokkur minnsta ástæða til þess að krjúpa á kné fyrir altarinu í Brussel og biðja þá að taka okkur upp í sína faðma og fórna því öllu sem ég hef hér nefnt og þó er ekki nema fátt eitt talið. Ég tel að ef þessi samningur næst ekki eigum við að leita sérsamninga við Evrópubandalagið, alveg tvímælalaust. Ég á dálítið erfitt með að sjá að Evrópubandalagið geti neitað okkur um sérsamninga í svipuðum dúr og við höfum nú á borðinu í drögum að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Ég viðurkenni að ef við fellum samninginn um Evrópskt efnahagssvæði yrði líklega erfitt að sækja samninga í svipuðum dúr til Brussel. Ef þessi samningur er felldur eða bannfærður af dómstólnum finnst mér að það fyrsta sem við ættum að gera væri að setjast niður og athuga hvort við getum náð sérsamningi en alls ekki að örvænta og sækja um aðild með hinum löndunum.
    Eitt atriði hef ég ekki nefnt í þessu sambandi en er verðugt að ræða og þyrfti að ræða miklu betur hér á Alþingi. Lærðir menn ýmsir halda því fram að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði stangist á við íslensku stjórnarskrána. Ég er ekki nógu fróður um þau mál til að fullyrða eitt eða neitt en mér sýnist alveg ljóst að hæstv. ríkisstjórn beri skylda til þess að ganga úr skugga um það atriði. Því höfum við nokkrir þingmenn flutt þáltill. um það atriði og ég vildi gjarnan spyrja hæstv. utanrrh. að því hvort hann hefur nokkuð á móti því að slík óháð athugun fari fram. Ég held að honum hljóti að vera það jafnmikið kappsmál og öllum öðrum að það verði vandlega athugað. En ég hygg að hæstv. utanrrh. hljóti að geta samþykkt það án nokkurrar athugunar að ef um aðild að Evrópsku efnahagssvæði á að vera að ræða, jafnvel það að sækja um aðild að Evrópubandalaginu, þá hljóti það að stangast á við íslensku stjórnarskrána. Það er slíkt fullveldisafsal. Ég held að það sé alveg óumdeilanlegt mál og hlýtur því að athugast mjög vandlega.
    Ég skal ekki lengja þessar umræðu fyrir mitt leyti. Satt að segja eru fjölmörg atriði í þessari skýrslu sem ég hefði gjarnan viljað ræða nánar um og sem mér þykja vissulega umræðuverð. Sum eru kannski smá. Ég merkti t.d. við hér atriði eins og Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem sagt er að sé mikið tap á en þegar dæmið er gert upp fær ríkissjóður meira í tekjur af starfseminni þar en hann greiðir í tapið. Ég hefði í því sambandi gjarnan viljað ræða um gjörbreytt fyrirkomulag á rekstri þessarar flugstöðvar og reyndar fugvallarins, einkavæða hann að vissu leyti eða losa hann undan viðjum ríkisvaldsins og gera hann að fyrirtæki sem keppir við aðrar flugstöðvar í heiminum um lendingar, um þjónustu við flugvélar o.s.frv. Ég tel að það væri mjög athugandi að hætta þessum skollaleik um tap eða hagnað af Flugstöðinni og láta hana spjara sig sem allra best. Það er líka umhugsunarvert að ég fann t.d. ekki nema á einum stað í einni setningu minnst á Kúrda. Þeirra vandamál sem minni hluta er þó ekki nýtt og þó að hæstv. utanrrh. hafi sagt að hann sé að afla gagna um það sýnist mér að málefni þeirra hafi gleymst hér. Sannarlega væri full ástæða til að taka það mál upp og athuga hvernig við Íslendingar getum stuðlað að réttlæti á því sviði einnig.
    Það hefði einnig verið fróðlegt að ræða hér um þá yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar, sem við öll stöndum að, að hún virði sjálfsákvörðunarrétt þjóða og fróðlegt væri að ræða t.d. um sjálfsákvörðunarrétt Palestínumanna líka, ekki bara Kúrda heldur Palestínumanna og fleiri og hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst stuðla að því. Ég tel einnig að við Íslendingar þurfum að skoða miklu betur en við höfum gert hvernig okkar starf innan Sameinuðu þjóðanna getur orðið virkt. Sameinuðu þjóðirnir eru vitanlega hornsteinn í okkar utanríkisstefnu og við þurfum að skoða það mjög vandlega, t.d. utanrmn. með hæstv. utanrrh., hvernig við getum beitt okkur þar langtum betur. Kemur t.d. til greina fyrir okkur Íslendinga að taka sæti í öryggisráðinu? Við höfum hafnað því hingað til. Ef við ætlum að hefja okkur upp yfir meðalmennskuna væri það mál sem við ættum að skoða. Þannig eru það ýmis atriði í utanríkismálunum sem við þurfum að taka vandlega til meðferðar og væntanlega vinnst tími til þess.
    Ég læt þessu nú senn lokið. Ég fagna því að okkar starfsemi í utanríkismálum hefur orðið töluvert virkari en hún var hér áður fyrr. Ég held að það megi sannarlega færa rök að því að svo hefur verið á undanförnum fjórum árum og ég er þeirrar skoðunar að við höfum komið ýmsu góðu til leiðar. Við höfum getað beitt okkur t.d. í afvopnunarmálum og áreiðanlega haft einhver áhrif þar. Það má segja að dropinn holar steininn. Það var mjög ánægjulegt að taka þátt í því að skrifa í París hinn 19. nóv. undir sáttmála um það, ásamt hæstv. utanrrh., að við Íslendingar mundum ekki bera vopn á aðrar þjóðir o.s.frv. Það má kannski segja að það hafi þótt nokkuð undarlegt að við rituðum undir slíkt en þátttakan er mjög jákvæð. Því miður óttast ég að öll umræða um slíkt verði ofurliði borin af þessari ótímabæru og raunar að mínu mati óafsakanlegu umræðu um EB, af frumhlaupi sem hefði mátt spara og raunar engin ástæða var til.