Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 16:45:00 (4926)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Eftir hálfsmánaðar fjarveru hafði ég misreiknað mig á tíma en það sem ég vildi sagt hafa er þetta: Á fundi með EFTA-nefndunum 16. mars sl. urðu miklar umræður um hvernig Evrópubandalagið gæti tekið við nýjum þjóðum. Þar flutti langan fyrirlestur Marcelino Oreja sem er formaður allsherjarnefndar Evrópuþingsins. Hann er fyrrverandi utanríkisráðherra Spánar og fyrrverandi aðalritari Evrópuráðsins. Ég hygg að margir hér inni þekki þann mann. Hann lýsti erfiðleikum Evrópubandalagsins við að taka við nýjum þátttökuþjóðum. Í umræðum á eftir spurði ég hann hvort Íslendingar fengju inngöngu ef þeir sæktu. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Páll Pétursson og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson ættu að vera vitni hér í salnum. Þeir heyrðu spurninguna og svarið. Marcelino Oreja sagði: Þetta er óhugsandi. Síðan lýsti hann í mörgum orðum hvernig Evrópubandalagið reyndi að bregðast við því að smáríki kæmu og gerðu kröfur um stöðu innan Evrópubandalagsins. Hugmyndin er sú að komi til þess að Malta, Ísland, og fleiri þjóðir af þessum stærðargráðum sæki um aðild þá þarf að fara að búa til búnt af þjóðum og skella þessum þjóðum saman því að Þjóðverjar ætla ekkert að hafa einhverja Íslendinga og einhverja Möltubúa í formennsku fyrir Evrópubandalaginu. Svar þessa manns var ósköp hreint og skýrt: Þátttaka Íslendinga kemur ekki til greina og vafasamt um Norðmenn. Og varð nú uppi nokkur fótur og fit meðal sumra norsku fulltrúanna.
    Ég held því að menn séu með dagdrauma um eigin mikilleik sem á sér enga stoð í raunveruleikanum --- og gengur nú í salinn hv. 4. þm. Reykv. sem heyrði orðaskipti okkar Marcelino Oreja sem segir: Það kemur ekki til greina að Ísland fái inngöngu í Evrópubandalagið. Ég held því, herra forseti, og mun koma að því í ræðu minni síðar í þessari umræðu, að hæstv. utanrrh. ætti að fara heim og hvíla þreytta bakið sitt. Það verður hvorki um að ræða Evrópskt efnahagssvæði né að Ísland gangi í Evrópubandalagið.