Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 21:25:00 (4929)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 8. þm. Reykn. lagði áðan út af fréttaviðtali við áhrifamesta þingmann Alþfl. utan ráðherraliðsins, hv. 6. þm. Reykn., og ályktaði af þeim ummælum að nú væri hið mikla samsæri afhjúpað, nú lægi fyrir hvert væri stefnt og ekki nein tvímæli lengur á því að Alþfl. hefði lýst því yfir að sækja bæri um aðild að Evrópubandalaginu fyrir áramót. Þetta eins og flest annað sem fram kom í maraþonræðu hv. þm. er ofmælt af þeirri einföldu ástæðu að við umræðu um utanríkismál 30. mars 1990 lýsti hv. þm. Karl Steinar Guðnason, vissulega áhrifamikill þingmaður, ekki ofmælt hjá hv. 8. þm. Reykn., sömu viðhorfum og fram komu í þessu fréttaviðtali. Hann sagði þá orðrétt í umræðum um utanríkismál, með leyfi forseta:
    ,,Ég tel að Íslendingar verði af fullri alvöru að hugsa um mögulega inngöngu í Evrópubandalagið. Ef nágrannar okkar, t.d. Norðmenn, helstu keppinautar okkar á fiskmörkuðunum, gerast aðilar er líklegt að rödd Íslands utan þess bandalags verði afar veik.``
    Þetta gefur til kynna þá afstöðu sem hv. þm. hafði áður lýst. Síðan hefur Alþfl. haldið flokksþing. Þar var tillaga borin upp um það að flokkurinn lýsti yfir fylgi við inngöngubeiðni í Evrópubandalagið. Hún var felld með öllum greiddum atkvæðum gegn einu. Síðan hefur flokkurinn gengið til kosninga og birti þar stefnuskrá sína. Þar stendur vissulega eins og frægt var að Alþfl. útilokaði ekki þennan kost fyrir fram frekar en aðra, en setti ströng skilyrði.
    Með öðrum orðum hefur engin ákvörðun verið tekin fyrir hönd Alþfl. Ég vil taka það skýrt fram svo að það vefjist ekki fyrir mönnum í umræðunni að stefna Alþfl. er óbreytt, að stefna ríkisstjórnarinnar er óbreytt og þessi ummæli gefa ekki tilefni til þess að túlka eða álykta neitt annað.
    Enn fremur liggur alveg ljóst fyrir að það sem sagt var fyrir seinustu kosningar er jafnrétt nú og það var þá. Með öðrum orðum jafnvel þótt meiri hluti Alþingis kæmist að þeirri niðurstöðu eftir vandlega skoðun á kostum að rétt væri að leggja fram aðildarumsókn að Evrópubandalaginu þá mun engin slík ákvörðun verða tekin á þessu kjörtímabili af tæknilegum ástæðum. Þar að auki lægi það fyrir að um það færu fram kosningar, þjóðaratkvæðagreiðsla og annað þess háttar þannig að öll eru þessi ummæli út í hött.