Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 21:31:00 (4933)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína við ræðu hv. 8. þm. Reykn. og formanns Alþb. að hann

lagði mikið upp úr því að forsrh. hefði sagt að aðild að EB væri ekki á dagskrá á þessu kjörtímabili. Ég vil benda þingmanninum á að aðeins eru þrjú ár þangað til þessu kjörtímabili lýkur og ég tel aðild að EB hvorki koma til greina á þessu kjörtímabili né heldur því næsta. Ég heyrði ekki að þingmaðurinn gerði nokkuð með það að það kemur annað kjörtímabil eftir þetta kjörtímabil. En það sem kannski var merkilegast við ræðuna var það sem ekki var sagt, nákvæmlega sama og hann orðaði með hæstv. forsrh., að hann hefði ekki talað. Það var það sem hann sagði á föstudaginn var og reyndar í hádegisfréttum þann sama dag að búið væri að koma í veg fyrir þann möguleika að á næstu mánuðum mundi nást víðtæk samstaða allra flokka um Evrópskt efnahagssvæði. Ekkert slíkt kom fram í ræðu þingmannsins og ég fagna því að hann hafi áttað sig á því, kannski við nákvæman lestur skýrslu hæstv. utanrrh. og að hlusta á hann hér og hlusta á fleiri eins og t.d. hv. þm. Karl Steinar Guðnason sem sagði svo sem ekkert nýtt núna í kvöld því að þetta hefur hann sagt oft áður. Hann hefur kannski áttað sig á því að Evrópskt efnahagssvæði er ekkert annað en stoppistöð á leiðinni inn í Evrópubandalagið og þó að það verði ekki á þessu kjörtímabili þá verður það á því næsta og þess vegna verðum við að stöðva að Alþingi staðfesti samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Þessu hlýtur þingmaðurinn að gera sér grein fyrir.