Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 21:38:00 (4936)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nokkuð sérkennilegt að ég skuli þurfa að koma hér hvað eftir annað til þess að verja hæstv. forsrh. fyrir ummælum hv. þm. Kristínar Einarsdóttur, en ég ætla að gera það engu að síður því það er rangt hjá þingmanninum að ég sé nú orðinn þeirrar skoðunar að hæstv. forsrh. hafi eingöngu sagt það að það væri ekki á dagskrá að fara inn í Evrópubandalagið á þessu kjörtímabili. Ég hef alls ekki sagt það. Ég hef þvert á móti vitnað í fjölmargar yfirlýsingar hæstv. forsrh. þar sem hann hefur sagt það að það væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að fjalla um aðild --- ekki einu sinni að fjalla um aðildina. Ég vil nefna ræðuna sem hæstv. forsrh. flutti 16. maí þar sem þetta kom skýrt fram að ekki væri einu sinni á dagskrá ríkisstjórnarinnar að fjalla um aðild, hvað þá heldur að ganga inn. Ég vil líka nefna ummæli hans frá 5. mars, frá 14. mars, þar sem skýrt kemur fram að ekki sé á dagskrá ríkisstjórnarinnar að fara að kanna eða ræða eða fjalla um aðild að Evrópubandalaginu. Þar til annað kemur í ljós kýs ég að láta yfirlýsingar hæstv. forsrh. standa enda er ég sannfærður um það að yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar styður þessar yfirlýsingar og ég mun ekki breyta þeirri afstöðu minni fyrr en ég heyri

hæstv. forsrh. lýsa því yfir að nú sé hann kominn með aðra skoðun. Þar til hæstv. forsrh. kemur með slíka yfirlýsingu kýs ég að telja að hann tali fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar.