Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 21:40:00 (4937)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa skýrslu sem er að mörgu leyti fróðlegt og merkilegt plagg þótt þar orki vissulega margt tvímælis. Ég lít svo á að skýrslan, sem er mikil að vöxtum, gefi okkur þingmönnum tækifæri til að ræða málefnalega og af hreinskilni um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna í dag og hverra kosta við eigum völ í því efni.
    Margir hafa sagt það á undan mér og það er vissulega rétt að við Íslendingar stöndum núna á krossgötum og við verðum að endurmeta stöðu okkar. Fyrir því eru tvær ástæður sem eru raunar mjög samtengdar.
    Í fyrsta lagi þá stöndum við andspænis nýrri heimsmynd sem varð til við hrun Sovétkerfisins. Annar póllinn í heimspólitíkinni varð að engu og það þarf, ef svo má að orði komast, ,,umpóla`` allt kerfið. Múrar hrundu, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkinu og menn, sem sáu ekki lengra en nef þeirra náði, fengu allt í einu nýtt útsýni. Órækasti vitnisburður um þetta er að allt í einu mátti gagnrýna Íslenska aðalverktaka harkalega án þess að eiga á hættu að vera kallaður kommi. Meira að segja Morgunblaðsritstjórarnir voru eins og kálfar að vori og tóku fullan þátt í gagnrýninni. Allt er þetta jákvætt og við skulum vona að nýfengið hugsanafrelsi í utanríkismálum haldist sem lengst.
    Eftir hrun Sovétkerfisins fór fólk úti um allan heim að reyna að átta sig á þeirri breytingu sem orðin var í heimsmálunum og þeirri hugmyndalegu gerjun sem hún hlýtur að hafa í för með sér. Þetta var önnur ástæðan fyrir því að við stöndum á krossgötum.
    Í öðru lagi má nefna að hrun Sovétkerfisins hefur breytt landakortinu og þar með dregið úr þeirri mikilvægu stöðu sem Ísland hafði á landakorti eftirstríðsáranna. Óvinurinn í austri er kominn að fótum fram og líklega er það að verða álíka fáránlegt fyrir Bandaríkin að miða hernaðaruppbyggingu sína og skipulag við óvininn í austri og það hefði verið í upphafi þessarar aldar fyrir Breta að miða uppbyggingu sína við Frakka sem þeim hefur engin ógn stafað af alla þessa öld. Þetta þýðir með öðrum orðum að íslensk stjórnvöld geta ekki lengur spilað á hernaðarlegt mikilvægi landsins í samskiptum sínum við grannana í vestri. Heimurinn í dag er með öðrum orðum allt annar en hann var að stríðslokum og það kallar á pólitískt endurmat, bæði hjá einstaklingum og þjóðum. Slíkt mat er ekkert einfalt og hefur aldrei verið.
    Í skýrslu sinni segir hæstv. utanrrh., með leyfi forseta:
    ,,Sá margslungni veruleiki sem tekið hefur við af einfaldri heimsmynd eftirstríðsáranna hefur í för með sér áður óþekkt tækifæri í alþjóðamálum. Jafnframt hefur hann þó skapað nýja óvissu.``
    Þessi fullyrðing hæstv. utanrrh. er rétt að því leytinu til að við stöndum vissulega andspænis óþekktum tækifærum og nýrri óvissu, en hún er röng hvað það varðar að heimsmynd eftirstríðsáranna hafi verið einföld. Hún var áreiðanlega ekki einföld í augum þeirra sem þurftu að átta sig á henni að stríðslokum. Hún var áreiðanlega ekki einföld í augum íslenskra stjórnmálamanna sem þurftu að taka afstöðu til utanríkismála á árunum 1946--1951.
    Sú reynsla að verða vitni að fjörbrotum valdstjórnarinnar í Austur-Evrópu hefur aukið bjartsýni Vesturlandabúa og trú okkar á getu mannsins til að brjótast undan kúgun og ótta. En á sama tíma höfum við fyllst sjálfumgleði og ákveðinni siðblindu. Við höfum sannfærst um að samfélag okkar sé hin ókjósanlegasta fyrirmynd sem þurfi að eignast spegilmyndir í öllum heimshlutum. Hagkerfi okkar sé hið besta allra hagkerfa. Menning okkar annarri menningu æðri. Stjórnmál okkar öðrum stjórnmálum fremri. En er það svo? Hvar á hugmyndafræði alræðisins í austri upptök sín ef ekki í vestrænni menningu okkar og hugmyndaheimi? Hver var viðmiðun Sovétríkjanna í iðnvæðingu ef ekki Vesturlönd? Hvar á hugmyndin um að hægt sé að skapa hagkerfi sem standi utan og ofan við manninn sér sterkari rætur en einmitt á Vesturlöndum? Hagkerfi þar sem einhver ópersónuleg velsæld mæld í hagvexti er keppikeflið. Hagkerfi þar sem menn trúa því að fái hin ósýnilega hönd markaðarins að ráða mun hún tryggja bestu fáanlegu niðurstöðu.
    Ofurseld þessari trú eða blekkingu skipuleggur nú allur hinn vestræni heimur nýja hagvaxtarsókn sem kemur líklega hvergi skýrar fram en í Evrópubandalaginu. Boðorð dagsins er að steypa saman fyrirtækjum og byggðum til að ná fram sérhæfingu og hagkvæmni svo hægt sé að lækka vöruverð. Framleiða vöruna þar sem það hagkvæmast er og flytja hana þaðan til neytenda um alla Evrópu og jafnvel vítt og breitt um heim allan. Til þess að knýja öll þau farartæki sem til þess þarf ganga menn á olíuforða heimsins sem senn er á þrotum. Með því að skipuleggja framleiðsluna með þessum hætti eykst kaupgeta fólks og neysla sem leiðir til meiri framleiðslu og veltu sem aftur skapar meiri hagvöxt í tölvum og pappírum reiknimeistarana. Enda þótt auðlindir séu þurrausnar, rigningin súrni, fiskurinn hætti að klekjast út í sjónum, skógar eyðist, súrefnisforði okkar minnki og frjósamt land breytist í eyðimörk þá hefur það ekki áhrif á hagvöxtinn. Náttúran er ekki færð til bókar, hún mælist ekki í hagtölum. Menn reikna með að náttúran láti þjónustu sína í té endurgjaldslaust og það gerir hún vissulega, en aðeins tímabundið. Jörðin og auðlindir hennar eru höfuðstóll sem hefur takmarkaða stærð og þess vegna ríkir þar lögmálið um takmarkaðan vöxt. Trú okkar á endalausan vöxt mætir takmörkunum sínum í náttúruheiminum. Þegar okkur skilst þetta og þegar við hættum að ganga á höfuðstólinn og tökum aðeins vextina hefur fyrst myndast það sem við getum kallað þegnskapur milli okkar og náttúrunnar. En ef okkur skilst þetta ekki fljótlega hrynur hið vestræna velferðarríki senn til grunna líkt og alræðiskerfið fyrir austan. ,,Þá er maðurinn ekki lengur mannsins skjól, heldur versti óvinur mannsins``, eins og Halldór Kiljan Laxness orðaði það.
    Þetta vitum við öll í hjarta okkar, almenningur jafnt sem stjórnmálamenn og athafnamenn. En þessar staðreyndir eru einfaldlega of erfiðar til að við viljum horfast í augu við þær. Við treystum okkur ekki til að leita lausna. Þess vegna segjum við eins og hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni, með leyfi forseta:
    ,,Margvíslegar hömlur á milliríkjaverslun hafa tafið stórlega fyrir iðnvæðingu þriðja heims landa.``
    Hafa menn velt því fyrir sér hvað iðnvæðing þriðja heims landa mundi þýða? Vitum við ekki öll hvernig færi ef bílar og ísskápar breiddust út um heimsbyggð alla? Þó að þessar spurningar séu erfiðar þá eru svörin það ekki síður. Við Vesturlandabúar getum auðvitað ekki látið þriðja heiminn súpa seyðið af neyslufylliríi okkar. Þeir sem búa í suðurhluta heimsins geta auðvitað ekki sætt sig við það að nýfengin umhverfisvitund okkar í norðrinu eigi að verða til þess að þeim séu allar bjargir bannaðar. Við þessu er í rauninni ekki nema eitt svar og það er að við Vesturlandabúar lærum að minna er betra. Við þurfum ekki að auka kaupmáttinn á Vesturlöndum, hann er ærinn, en honum er bara misskipt. Vesturlönd verða að beina kröftum sínum að því að þróa og nota nýja tækni og bæta nýtingu náttúruauðlinda.
    Ég var að tala um þriðja heiminn og það sem þar þyrfti að gerast. En ef litið er til framlags Íslendinga til þróunarhjálpar verður það ekki beinlínis til að auka bjartsýni á að við Íslendingar viljum leggja eitthvað á okkur til að bæta stöðu þriðja heimsins. Enn er framlag okkar til þróunarhjálpar aðeins 0,13% af þjóðarframleiðslunni en ætti að vera um tífalt meira eins og kemur fram í skýrslu utanrrh. Það dapurlega er, ef marka má kannanir sem nýverið hafa verið gerðar hér á landi, að stórum hluta þjóðarinnar finnst að nóg sé að gert og hefur satt að segja ekki mikinn á huga á að auka framlög sín. Þetta þýðir þó ekki að þjóðin sé ekki, ef svo má að orði komast, raungóð á þrautastundu því á undanförnum missirum hefur hún slegið öll met í fatasöfnunum handa Kúrdum og öðrum þjóðum sem eru klæðalitlar og illa haldnar.
    Ég hlýt engu að síður að vekja athygli á því að í raun eru þessar safnanir til vitnis um þá miklu neyslu sem við Íslendingar eins og aðrar Vesturlandaþjóðir ástundum. Þjóð sem getur gefið og sent frá sér fleiri tonn af góðum fatnaði er ekki á neinni vonarvöl eins og stundum mætti ætla af umræðunni.
    Eins og ég sagði þá er Evrópubandalagið í hagvaxtarsókn. Liður í henni er innri markaður bandalagsins sem EFTA-ríkin hafa lagt alla áherslu á að komast inn á, fyrst í formi EES-samnings og þegar fram líða stundir sem fullgildir aðilar að EB. Ég er sjálf býsna sannfærð um að grunnhugmyndin á bak við stór og þurftafrek efnahagskerfi eins og EB er manninum ekki vinsamleg og ég hef reynt að færa rök fyrir því hér á undan. Það breytir þó ekki því að EB er staðreynd sem hvorki við Íslendingar eða aðrir komast fram hjá. Við erum öll sammála um að við þurfum að tengjast bandalaginu með einum eða öðrum hætti, en okkur greinir á um hverra kosta við eigum völ í því sambandi. Hvaða kostir eru farsælastir þegar til lengri tíma er litið?
    Undanfarin þrjú ár hafa menn einblínt á hið Evrópska efnahagssvæði og allir stjórnmálaflokkar nema Kvennalistinn vildu láta reyna á þá leið til að tengjast EB. Við kvennalistakonur höfum hins vegar alltaf haldið því fram að EES sé anddyrið að EB og það þarf ekki okkur til að segja það. Martin Bangemann, varaforseti framkvæmdastjórnar EB, var að því spurður nú nýlega í svissnesku tímariti hvort menn gætu gleymt EES, hvort það væri búið að vera og þjónaði ekki tilgangi lengur. Hans svar var, svo vitnað sé orðrétt, með leyfi forseta: ,,Svo talað sé táknrænt þá er EES anddyrið að stóra, upplýsta veislusalnum þar sem kvöldverðurinn mikli verður framreiddur.`` --- Þetta voru orð Martins Bangemanns.
    En vegna þess að við kvennalistakonur höfum litið svo á að þetta væri anddyrið að EB hafa margir furðað sig á ítrekuðum yfirlýsingum mínum um að ég telji eðlilegt að ræða aðild að EB sem einn af þeim kostum sem við Íslendingar eigum núna í utanríkismálum. En því skyldi ég neita að taka þátt í umræðu um EB fremur en EES þegar ég er þeirrar skoðunar að EES leiði til aðildar að EB? Við kvennalistakonur höfum aldrei neitað þeirri umræðu.
    Það sem gæti kannski komið í veg fyrir beint orsakasamhengi þar á milli, þ.e. á milli EES og EB og orðið okkur til bjargar ef að af EES verður þá á annað borð, væri lítill áhugi innan EB til að fá í sinn hóp 250 þúsund manna málsamfélag sem nyti hlutfallslega sömu réttinda og aðrar og stærri þjóðir innan bandalagsins. Ég held að það þjóni ekki hagsmunum Íslendinga að ræða EES einangrað og án þess að gera sér sæmilega grein fyrir því sem líklega mun gerast þegar og ef önnur EFTA-ríki ganga inn í EB. Hin einangraða umræða er vissulega einfaldari og auðveldar ýmsum að taka afstöðu til EES-samningsins en við getum tæplega gert út á þægindin í þessum málum. Það er vissulega ríkt í okkur öllum að firra okkur pólitískum óþægindum, ekki síst í utanríkismálum þegar margvíslegir stimplar eru á lofti og menn sem ekki rekast með réttum hætti í umræðunni eru ýmist stimplaðir sem einangrunarsinnar eða landsölumenn. En til þess eru vítin að varast þau. Íslensk þjóð er nýskriðin upp úr skotgröfum sem mynduðust á fimmta áratugnum vegna ágreinings í utanríkismálum og það er mikilvægt að við reynum í lengstu lög að koma í veg fyrir að hún skríði ofan í þær aftur.
    Að ýmsu leyti stendur þjóðin í svipuðum sporum og hún gerði að stríðslokum, þ.e. hún verður að finna stað sinn í breyttum heimi. Að vísu voru aðstæður að því leytinu til öðruvísi þá en nú að menn og þjóðir voru enn í sárum eftir mannskæða styrjöld og milli herveldanna í austri og vestri ríkti svikalogn og ótti gróf um sig. Á árunum 1946--1951 átti sér stað atburðarás hér á landi sem menn sáu ekki fyrir og sem leiddi til þess að hér settist að bandarískur her og hefur verið æ síðan.

    Árið 1945 höfnuðu Íslendingar staðfastlega þeirri málaleitan Bandaríkjamanna að leigja til langs tíma bækistöðvar fyrir herlið á þremur tilgreindum stöðum á landinu. Um þetta voru fulltrúar allra þingflokka sammála. Árið 1946 var hinn svokallaði Keflavíkursamningur gerður sem mörgum virtist harla saklaus en aðrir töldu að í raun fæli í sér að Bandaríkjamenn fengju herstöðvar á Íslandi. Heimildir sýna svo ekki verður um villst að margir íslenskir stjórnmálamenn, sem að samningnum stóðu, voru sannfærðir um að hann mundi duga og að á Íslandi yrðu aldrei herstöðvar á friðartímum. En atburðarásin var hröð í heiminum þá sem nú og eftir því sem upptakturinn að kalda stríðinu var sleginn fastar þeim mun fleiri stjórnmálamenn komust að þeirri niðurstöðu að Keflavíkursamningurinn dygði ekki einn og sér. Næsta skref var þá að ganga í NATO 1949 og í kjölfar Kóreustríðsins þótti ýmsum sem nauðsynlegt væri að auka enn hervernd landsins og árið 1951 var gerður samningur við Bandaríkin um varnir Íslands. Það var með öðrum orðum búið að semja um þær herstöðvar sem menn höfðu svo staðfastlega neitað Bandaríkjamönnum um aðeins sex árum áður og voru þá allir sammála um.
    Því er þetta rifjað upp hér að ástæða er að hafa í huga hvernig eitt skref leiðir til og réttlætir að næsta skref sé stigið. Þess vegna er rétt að hafa það hugfast þegar fyrsta skrefið er stigið hvert ferðinni er heitið. Það sakar a.m.k. ekki að gera sér nokkra hugmynd um það.
    Sem betur fer þurfum við hér inni ekki að ræða um utanríkisstefnu Íslendinga og stöðu Íslands í alþjóðamálum við sömu aðstæður og þeir sem sátu á Alþingi á árunum 1945--1951 og einmitt þess vegna er engin ástæða til að setja strax á sig hlekki í umræðunni. Við stöndum andspænis nýfengnu frelsi til að skoða og skilgreina heiminn og við megum ekki afsala okkur því við fyrstu hentugleika.
    Eina hefðin sem við Íslendingar eigum í umræðum um utanríkismál er hefð sjálfstæðisbaráttunnar og hefð herstöðvabaráttunnar. En þessar tvær hefðir eru reyndar sérkennilega samofnar. Þær duga okkur ekki lengur til að takast á við veruleikann, þær eru ekki lengur í takt við breytta tíma. Við sem tökum þátt í umræðum um utanríkismál í dag verðum því að leitast við að móta nýja hefð og ég vil leyfa mér að segja hefð sem ekki er eins frumstæð og hefð sjálfstæðisbaráttunnar og hefð herstöðvabaráttunnar sérstaklega þegar þær samtvinnast.
    Hæstv. utanrrh. skilgreinir í skýrslu sinni, sem er til umræðu, hver hafi verið og skuli vera grundvallarmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu eða eins og segir: að standa vörð um fullveldi og sjálfstæði lýðveldisins og tryggja öryggi og velferð þjóðarinnar, verja auðlindir landsins og efla atvinnuvegi og samgöngur.
    Þetta eru vissulega göfug markmið, en standast þau? Hvernig er komið sjálfstæði lýðveldis sem á síðasta ári tók við um 14 milljarða kr. greiðslum vegna reksturs og framkvæmda bandaríska herliðsins hér á landi?
    Um 10% af gjaldeyristekjum Íslendinga komu frá hernum og fjárfesting hans var jafnmikil og öll fjárfesting í fiskveiðum og vinnslu sjávarafurða samanlagt. Ef skoðuð eru margfeldisáhrifin af gjaldeyristekjunum vegna herliðsins má áætla að 40--45 milljarða króna af þjóðarframleiðslunni megi rekja til beins eða óbeins arðs, ef svo má að orði komast, af herliðinu á árinu 1991. Það ár var bara eitt af fjörutíu svo að tekjurnar sem Íslendingar hafa haft af hernum eru ekki litlar þegar allt er saman talið.
    Margt bendir nú til þess að Bandaríkjamenn muni draga úr umsvifum sínu á Íslandi á komandi árum og reyndar eru þeir þegar byrjaðir á því. Þetta munu þeir gera bæði vegna minnkandi hernaðarmikilvægis landsins og vegna krafna heima fyrir um að skera niður útgjöld til hermála. Auðvitað ættum við Íslendingar að fagna því enda stóð aldrei til að gera þetta land að herstöð, eða hvað? En hvað á að koma í staðinn fyrir öll eggin sem látin voru í þessa körfu? Enginn flokkur á Alþingi hefur svar við því, það verður að segjast eins og er, og þetta er einmitt eitt af þeim málum sem við verðum að taka á sameiginlega þó að þeir flokkar sem stóðu að þessari efnahagslegu samtvinnun og hafa staðið að henni í gegnum árin beri vissulega ríkari ábyrgð en aðrir.
    Það hversu efnahagslega háð við erum Bandaríkjamönnum sýnir að sjálfstæðishugtakið er ekki einhlítt. En hvað er það þá sem skiptir máli í öryggis- og utanríkismálum þjóðarinnar? Ég er sannfærð um að lífríki sjávarins er stærsta öryggismál þjóðarinnar og ég hef reyndar margsagt það hér á Alþingi og þess vegna hljótum við að leggja alla áherslu á að vernda það og endurheimta þau gæði sem þegar hafa tapast. Til þess að ná því markmiði er ýmsu fórnandi og þar á meðal misskildu stolti ráðamanna og reyndar stórs hluta þjóðarinnar í hvalamálinu. Við þurfum að ná samstöðu við eins marga og kostur er um að það lífshagsmunamál þjóðarinnar að vernda lífríki sjávarins fái staðist. Í því sambandi vaknar auðvitað sú spurning hvernig stjórnvöld ætla að verjast umhverfisslysi í hafinu umhverfis Ísland. Á það er ekki minnst einu orði í skýrslu utanrrh. en hins vegar er enn þá verið að velta því fyrir sér hvernig æfingu bandarísks liðsafla hér á landi skuli hagað eða ,,til varnar Íslandi`` eins og segir í skýrslunni. Og ég spyr: Hverju eiga þessir hermenn að verjast? Hvaðan kemur hættan? Kemur hún úr austri?
    Hvernig sem allt veltist og snýst í samskiptum okkar Íslendinga við aðrar þjóðir verðum við að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir helstu auðlindum okkar, ekki síst fiskimiðunum og fallvötnunum. Um þau yfirráð má ekki vera neinn vafi. Þessi yfirráð skipta ekki síst máli ef og þegar hinar stóru heildir leysast upp því að það geta þær sannarlega gert. Eignarréttur á auðlindum skiptir litlar þjóðir mun meira máli en stórar. Það skiptir okkur máli að valdið yfir mikilvægustu auðlindum okkar og fyrirtækjum sé ekki í höndum manna eða afla sem eru ósýnileg og víðs fjarri íslenskum veruleika. Þeir sem með þetta vald fara þurfa

að vera þekktir og tiltækir og deila kjörum með þjóðinni. Síðast en ekki síst er það umhverfi okkar, menning og tunga sem við verðum að passa upp á þó ekki væri vegna annars en þess að fjölbreytni er kostur í sjálfu sér og öflug menning er einhver mikilvægasti aflvaki þjóðar. Ég held að tengsl okkar við aðrar þjóðir verði menningu okkar ekki skeinuhætt. Þau hafa aldrei verið það. Það sem gæti hins vegar sem best gert út af við menninguna væri andvara- og aðgerðarleysi stjórnvalda í menningar- og menntamálum.
    Það er mín skoðun að allt þetta og fleira til þyrfti að kanna og leggja til grundvallar umræðu um stöðu Íslands í breyttum heimi. Sú umræða er ekki einföld og hún verður að fara fram í þjóðfélaginu öllu. Utanrrh. leggur til í skýrslu sinni að í ráðuneytum og stjórnarstofnunum fari fram ítarleg úttekt á því hvað EB-aðild hefði í för með sér. Hann segir, með leyfi forseta: ,,Að lokinni slíkri úttekt verður fyrst hægt að hafna aðildarkostinum að vandlega athuguðu máli.`` Og síðar í skýrslunni segir hann: ,,Fyrst og fremst verður að kanna mælanleg áhrif EB-aðildar á íslenskt efnahagslíf og stjórnkerfi. Því fer fjarri að slík könnun jafngildi meðmælum með aðild að EB en hitt væri ábyrgðarleysi að kanna ekki hvaða afleiðingar hún hefði í för með sér.``
    Með þessum yfirlýsingum hefur hæstv. ráðherra komið umræðu um EB-aðild á dagskrá með öðrum og meira afgerandi hætti en hingað til. Til skamms tíma voru svör hans og forsrh. á þá lund að málið væri ekki á dagskrá. Utanrrh. var vanur að segja að því aðeins væri rétt að skoða aðild að EB að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði fengist ekki samþykktur hér á landi eða af EB. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort hann sé e.t.v. að komast á þá skoðun að ekkert verði af samningnum um EES, hvort hann meti kröfur þingmanna á EB-þinginu um að dómstóllinn skoði fleira en dómstólaþátt samningsins sem svo að þeir muni ekki tilbúnir til að samþykkja samninginn. Þessar athugasemdir hafa nýverið borist í pósti til þeirra þingmanna sem sitja í þingmannanefnd EFTA. Þar kemur auðvitað fram að þær eru mjög alvarlegar en þær eru í rauninni ekki aðrar en þær hafa verið nú um langt skeið. Þeir hafa alla tíð gert alvarlegar athugasemdir við þennan samning og eitt af því sem þeir hafa bent á er að ekki sé hægt að hafa lýðræðislegt eftirlit með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Laganefnd Evrópuþingsins tekur í rauninni talsvert afgerandi afstöðu til samningsins í athugasemdum sínum sem nú eru fram komnar. En það er kannski ekkert nýtt og þess vegna hlýtur sú spurning að vakna hvort ráðherra hafi í höndunum einhverjar upplýsingar sem við hin höfum ekki og sem bendi til þess að samningurinn verði ekki samþykktur af Efnahagsbandalaginu. Þessum spurningum hljóta bæði utanrrh. og forsrh. að þurfa að svara hér í dag vegna þess að ef svo er hafa þau svör afgerandi áhrif á umræðuna. Mig langar í því sambandi að minnst orða utanrrh. hér fyrr í dag þegar hann sagði: ,,Aðalatriðið við EES-samninginn er að hann er ekki í höfn.`` Telur hæstv. utanrrh. að þessi samningur muni ekki nást í höfn? Hefur hann einhverjar þær upplýsingar í höndunum sem benda til þess?
    Forsrh. hefur hingað til hliðrað sér hjá öllum svörum og svarað því til að hann leggi ekki í vana sinn að svara yfirlýsingum meðráðherra sinna í fjölmiðlum. Þetta eru auðvitað engin rök hjá hæstv. forsrh. því að yfirlýsing utanrrh. voru ekki orð í gáleysi töluð í hita leiks heldur vandlega úthugsaðar setningar í skýrslu ráðherrans sem er væntanlega skýrsla ríkisstjórnarinnar allrar til Alþingis. Hafði hæstv. forsrh. kannski ekki séð þessa skýrslu eða umræddar yfirlýsingar? Er skýrslan prívatframtak utanrrh.?
    Í þessu sambandi skulum við hafa það hugfast líka að allir, nema kannski íslenskir ráðamenn, líta á Evrópska efnhagssvæðið sem mikla skammtímalausn. Nú síðast hafa heyrst háværar raddir frá Svisslendingum um að þeim beri að sækja um aðild að EB og þess má geta að ungliðahreyfingar sex stjórnmálaflokka þar í landi hafa sameinast um tvö baráttumál: Í fyrsta lagi að berjast gegn fíkniefnum og í öðru lagi að vinna að því að Sviss sæki um aðild að EB. Verði það raunin er lítið orðið eftir af EFTA-stoðinni á Evrópska efnahagssvæðinu. Og ég segi og tek undir orð hæstv. utanrrh.: Varla trúa menn því að litla Ísland geti orðið eitthvert burðarvirki í EFTA. Þess vegna segi ég nú og það höfum við kvennalistakonur alltaf sagt: Ef menn ætla á annað borð að ræða EES þá verður EB að vera inni í þeirri mynd. Að öðrum kosti eru menn hugsanlega að gangast undir það, meðvitað eða ómeðvitað, að leiða þjóðina bakdyramegin inn í EB. Eftir aðlögunarferlið að Evrópska efnahagssvæðinu gætum við staðið í þeim sporum að EB hefði ráð okkar í hendi sér og hverra kosta ættum við þá völ?
    Um þá tillögu utanrrh. að láta fara fram úttekt á EB-aðild í stjórnarstofnunum og ráðuneytum vil ég segja það eitt að ég óttast að út úr slíkum úttektum komi pantaðar niðurstöður, þ.e. ráðuneyti og stofnanir lagi sig að vilja þeirra sem með völdin fara og úttektirnar panta. Við höfum því miður séð allt of mörg dæmi um slíkt. Eigi slík úttekt að fara fram þarf hún bæði að vera víðtækari en ráðherra leggur til og pólitískir flokkar og félagshreyfingar þurfa að koma að henni. Og það þarf að taka almennt á því hverra kosta Íslendingar eiga nú völ í alþjóðamálum og með hvaða hætti við ætlum að tengjast grannríkjum okkar. Við þurfum m.a. að skoða stöðu okkar gagnvart Norðurlandaráði, NATO, Vestur-Evrópusambandinu og EB. Sú spurning vaknar í þessu sambandi hvort ekki sé ástæða til að dusta nú rykið af Evrópustefnunefndinni sem starfaði á Alþingi og útvíkka verksvið hennar þannig að hún geti tekið til þessara þátta allra.
    Talandi um Vestur-Evrópusambandið þá vaknar m.a. upp sú spurning hvernig á því standi að ríkisstjórnin hafi ekki rætt hugsanleg tengsl Íslands við Vestur-Evrópusambandið á vettvangi utanrmn. Íslandi hefur verið boðin aukaaðild að þessu sambandi sem er, ef að líkum lætur, öryggis- og varnarbandalag Evrópu í framtíðinni. Segir í skýrslu utanrrh. að íslenskir embættismenn hafi átt fundi með þýskum starfsbræðrum sínum og aðalframkvæmdastjóra Vestur-Evrópusambandsins til að fá frekari upplýsingar um merkingu aukaaðildar. Utanrmn. hefur engar upplýsingar fengið um þessar umræður og ég hlýt að nota tækifærið og mótmæla því og vil ég í því vitna til 24. gr. þingskapalaga þar sem skýrt er kveðið á um að ríkisstjórnin skuli hafa samráð við utanrmn. við mótun utanríkisstefnu.
    Um Norðurlandaráð, sem er eitt af því sem Íslendingar þurfa að taka til skoðunar núna, og framtíð þess væri auðvitað hægt að tala langt mál en ég læt það ógert, a.m.k. að sinni. Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af Norðurlandasamstarfinu, ekki síst vegna afstöðu forustumanna í ríkisstjórnum á Norðurlöndum til þessa samstarfs. Því miður virðist gæta mikils tvískinnungs hjá þeim gagnvart samstarfinu á vettvangi Norðurlandráðs og þeim menningarlegu rótum sem þetta samstarf byggir á. Segja má að þeir tali tungum tveim þegar að Norðurlandaráði kemur. Annars vegar segja þeir eins og Carl Bildt að tími norræna módelsins sé liðinn eða eins og Esko Aho að norræna módelið sé dautt, svo að vitnað sé beint til þessara tveggja heiðursmanna, og hins vegar segja þeir að norrænt samstarf og norrænt gildi eigi framtíð fyrir sér innan EB. Ætla þeir að flytja lík í þeirri hraðlest sem á að fara inn í EB árið 1995? Er það það sem þeir hafa hugsað sér ef þetta módel er dautt og ekki nothæft? Og af hverju segja menn að norræna módelið sé búið að vera?
    Á Norðurlöndum hefur jöfnuður og jafnræði verið meira en víða annars staðar og þetta tvennt, þ.e. jöfnuður og jafnræði, hefur í raun verið kjarni og inntak hins norræna módels. Þar hefur atvinnuleysi verið minna en í EB-löndum. Þar hefur staða kvenna verið betri. Þar hefur velferðarkerfið verið þróaðra. Finnst mönnum þetta ekki nokkurs virði? Ef þeim finnst það ekki hvað eru þeir þá að tala um að gera þessi gildi að útflutningsvöru til EB? Er það þá ekki frekar markmið þeirra að nota aðild eða aðlögun að EB til að veita norræna módelinu náðarhöggið því að þetta módel á satt að segja mjög undir högg að sækja eftir að hægri stjórnir settust að völdum á öllum Norðurlöndum nema í Noregi. Ég óttast að í röðum ráðherranna í ríkisstjórn Íslands sé mismikill skilningur og áhugi á norrænu samstarfi þó að stuðningur við þetta samstarf sé mikill bæði í orði og verki meðal þjóðarinnar eins og utanrrh. sagði í dag.
    Virðulegi forseti. Skýrsla utanrrh. er mikil að vöxtum og því fer víðs fjarri að ég hafi gert henni þau skil sem þyrfti. En væntanlega gefast fleiri tækifæri kvöld, í nótt eða á morgun eða hvenær sem það verður til að taka til máls um þessa skýrslu og ræða fleiri atriði. En áður en ég fer úr ræðustól vil ég nota tækifærið og vekja athygli á þögn utanrrh. um Íslenska aðalverktaka í skýrslunni. Þegar velvilji þeirra til sjálfra sín varð opinber í janúar sl. boðaði utanrrh. að hann mundi flytja Alþingi munnlega skýrslu um málefni fyrirtækisins en vegna veikinda hans varð aldrei af því. Nú hefði hins vegar verið tækifæri fyrir ráðherrann til að ræða þetta mál og gera grein fyrir því í skýrslu sinni hér á Alþingi en hann gerir það ekki. Ég hlýt því að spyrja hvenær von er á umræðu um Íslenska aðalverktaka hér á Alþingi eða ætlar utanrrh. að senda þjóðinni skilaboð um að þetta hafi bara verið eins milljarðs króna bóla sem nú er sprungin?