Utanríkismál

114. fundur
Þriðjudaginn 31. mars 1992, kl. 22:17:00 (4940)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Séum við hv. þm. Ingibjörg Gísladóttir sammála um það að aðild að Evrópubandalaginu sé óæskileg sem og að Evrópsku efnahagssvæði erum við því miður ekki sammála um það hvernig eigi að berjast gegn því að svo fari. Hv. þm. er að ýta undir að það verði farið ofan í saumana á þessu máli með tilliti til þess að sótt verði um aðild að Evrópubandalaginu og telur að slík umræða sé þjóðinni holl og nauðsynleg. Ég held að hv. þm. ætti að átta sig á því hvernig beislinu var smeygt upp á Svía og Finna í þessum málum. Ætli það hafi verið með það í huga að leiða þjóðina í allan sannleikann? Nei, ónei, það var til að geta hafið samningaviðræður við Evrópubandalagið og það á svo fölskum forsendum að ekki var einu sinni haft fyrir því að skýra það fyrir Finnum og Svíum hvað til stæði í Maastricht og raunar ekki eftir að það var búið.
    Það er hægt að hafa frómar óskir uppi og stunda akademíska umræðu en þegar til kastanna kemur er það spurningin um valdið og valdakerfið á Íslandi og hvort því leyfist að draga Íslendinga að þessu samningaborði um aðild að Evrópubandalaginu. Gegn því verðum við að beita okkur sem erum raunverulega þeirrar skoðunar að það sé óæskilegt fyrir íslenska þjóð. Það gerum við ekki með því að hjálpa hæstv. utanrrh. og hans skoðanabræðrum með því að framleiða skýrslur um að slíkt geti verið æskilegt eins og þegar er boðað að gert skuli.