Utanríkismál

114. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 00:04:00 (4952)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. þm. spurði hvort verið gæti að yfirlýsing þess sem hér stendur þess efnis að æskilegt væri að Eystrasaltsþjóðirnar fengju aðild að Norðurlandaráði, hefði getað leitt til þeirrar niðurstöðu að Íslendingum var synjað um áheyrnaraðild á stofnfundi þess, þ.e. stofnfundi Eystrasaltsráðs. Svar við því er fráleitt já, m.a. vegna þess að sá sem til fundarins boðaði, danski utanríkisráðherrann, hafði einmitt lýst sig samþykkan þessari skoðun íslenska utanrrh. og tók það fram einnig að þetta væru persónuleg viðhorf hans. Svo ekki getur það verið skýringin.
    Það kynni að vera hluti skýringarinnar, þótt ekki sé það staðfest, að synjun meiri hlutans í Norðurlandaráði á því að veita Eystrasaltsþjóðunum viðtöku, hefði leitt til þess að hinni hugmyndinni var raunverulega hrundið í framvkvæmd með þeim hætti sem gert var.
    Hv. þm. hvatti utanrrh. Íslands til þess að ferðast meira, koma á Norðurlandaráðsfund og upplifa lífsreynsluna. Hæstv. forsrh. skýrði á eftirminnilegan hátt frá upplifun sinni á þeirri reynslu í fyrsta sinn og komst reyndar að því af þeirri upplifun að margt benti til þess í andrúmslofti og ummælum og samtölum að ákveðin gliðnun væri í þessu samstarfi. En það eru margir aðrir til vitnis um það. Ég vitnaði áðan í norska utnaríkisráðherrann sem hv. þm. sagði að væri góður maður og kæmi iðulega á Norðurlandaráðsþing. Sá góði maður hefur einmitt sagt að ein meginástæðan fyrir þeirri afstöðu hans að hvetja í Noregi til aðildar að Evrópubandalaginu sé sú að hann sjái það fyrir fram að ef Noregur fari ekki þá leið þá verði hann viðskila við kjarnann í Norðurlandasamstarfinu vegna þess að þegar Norðurlandaþjóðirnar þyrpast inn í EB og verði þar undirsvæði, og þá verði þar reistir múrar milli þeirra Norðurlandaþjóða sem eru innan og hinna sem eru fyrir utan. Ég gæti haldið áfram að þylja tilvitnanir í fjöldann allan af norskum stjórnmálamönnum sem hafa lýst þeirri skoðun. Ég veit ekki til þess að þeir sem taka þátt í norrænu samstarfi séu endilega taldir ekki með réttu ráði eða ekki mark á þeim takandi þrátt fyrir þetta.
    Ástæðan fyrir því að ekki er ítarlegar fjallað um Norðurlandasamstarfið í skýrslu utanrrh. er að sjálfsögðu sú að fyrir liggja á borðum þingmanna tvær skýrslur frá samstarfsráðherra um norrænt samstarf og ekki þótti ástæða til að endurtaka þá skýrslu.