Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 14:48:00 (4959)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. alþm. Hjörleifur Guttormsson gat um það að lítið hefði verið starfað að undanförnu í svokallaðri Evrópustefnunefnd en hún var sett á laggirnar með þál. 11. maí 1988 og átti að kanna samskipti Íslands og þróunina í Evrópu. Það er rétt sem hv. þm. sagði að nefndin hefur ekki formlega verið lögð niður. Þetta er níu manna nefnd og það er út af fyrir sig hægt hvenær sem er að kalla hana saman. Ég hafði raunar hugsað mér að gera það við gott tækifæri en náttúrlega eru Evrópubandalagsmálin langstærstu málin í utanrmn. og þá er það að sumu leyti tvíverknaður að vera með tvær nefndir sem ræða það sama.
    Ég hef ekki verið ásakaður fyrir að nenna ekki að halda nefndarfundi eða víkja mér undan því. Þvert á móti reyni ég að halda fundi í þeim nefndum sem ég hef verið formaður fyrir hvenær sem menn þess óska. ( Gripið fram í: Og oftar.) Og oftar. Já, ég hef verið gagnrýndur töluvert fyrir það að boða óþarfa fundi í utanrmn. t.d., það er alveg rétt hjá hv. þm. En þessi nefnd er við lýði en hún lauk störfum að mestu leyti með þessari merku bók sem mun fást í bókabúðum og flestir Íslendingar þyrftu að lesa til þess að kynna sér þessi mál. Niðurstöðurnar eru dregnar saman og það geri ég sem formaður nefndarinnar. Það er dags. 7. des. 1990. Og niðurstaðan um aðild Íslands að Evrópubandalaginu er ósköp einfaldlega þessi, með leyfi forseta:
    1. Aðild að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá.``
    Og síðan segir: ,,Enginn íslensku stjórnmálaflokkanna hefur á dagskrá sinni aðild að Evrópubandalaginu. Sumir flokkanna orða það svo í stefnuyfirlýsingum sínum og samþykktum að umsókn um aðild sé ekki á dagskrá. Aðrir kveða svo að orði að aðild komi ekki til greina.``
    Ég veit ekki til að stjórnmálaflokkarnir hafi breytt þessu áliti. Ef svo væri, þá væri að sjálfsögðu fullt tilefni til miklu lengri, strangari og meiri fundahalda.