Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 14:51:00 (4960)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér kemur fram að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson telur að hann sé enn í fullu hlutverki sem formaður Evrópustefnunefndar. Það þykja kannski einhver tíðindi, ég veit það ekki. Ég gat þess að nefndin hefur ekki verið lögð niður formlega en hitt getur ekki talist viðunandi eða sæmilegt miðað við allar aðstæður að nefndin blundi umboðslaus einhvers staðar undir yfirborðinu í rauninni án þess að sinna nokkrum verkum miðað við allt það sem á hefur gengið síðan hún var síðast kvödd til fundar, líklega í marsmánuði á árinu 1991. Það er að sjálfsögðu ákvörðunarefni formanns sem og þeirra flokka sem að ríkisstjórninni standa hvort þau vilja nýta slíkan vettvang. Þegar nefndin var síðast að störfum lágu fyrir veruleg drög að næsta þætti í ritsafni hennar, hefti nr. 8 með útgáfu á öllum meginsamþykktum á vettvangi Evrópubandalagsins sem sneri að EES-umræðum á árinu 1990. Það er upplýsingagjöf að þessu leyti, þó ekki væri meira fyrir nú utan stefnumótun, sem náði það langt að flokkarnir sameinuðust um þá yfirlýsingu sem hv. þm. las upp úr bókum frá nefndinni. Auðvitað hefði nefndin átt að vinna af auknum þrótti eða annar vettvangur settur á laggirnar ef menn voru ekki sammála um að hún héldi áfram starfi með þessum hætti.
    Ég hef haft þá skoðun að tæpast væri á utanrmn. þingsins leggjandi ofan á öll önnur störf að sinna þessu verki með þeim hætti sem þyrfti að vera. Út af fyrir sig er ekki of seint að bæta þarna úr. Hins vegar hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan nefndin var að störfum.