Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 14:55:00 (4962)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég þakka hæstv. utanrrh. skýrslu hans um utanríkismál sem nú er til umræðu. Með henni hefur verið dregin upp heildarmynd sem að mínu mati gefur gott yfirlit yfir stöðu alþjóðamála um þessar mundir. Þar eru einnig dregin fram áhersluatriði varðandi stefnumótun sem er í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar á þessum miklu óvissutímum. Ég vil einnig þakka hæstv. forsrh. ræðu hans í gærkvöldi. Með henni var tortryggni eytt sem stjórnarandstaðan leitaðist við að skapa með túlkun sinni á skýrslu utanrrh. Ég skil orð forsrh. á þann veg að undir forustu hans og ríkisstjórnarinnar væri markvisst kannað hvernig staða Íslands verði best tryggð með hliðsjón af þeim miklu breytingum sem eru að verða á samstarfi Evrópuþjóðanna þar sem Evrópubandalagið er eins og segulstál. Jafnframt verði haldið fram þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að aðild að Evrópubandalaginu er ekki á dagskrá.
    Í ræðu minni ætla ég að ræða um stöðuna í öryggismálum og Evrópumálunum eins og hún blasir við mér. Áður en tekið verður til við það langar mig í stuttu máli að drepa á það hvernig staðið er að umræðum um utanríkismál á Alþingi og fortíðarvandann í þeim umræðum.
    Hinar hörðu deilur, sem settu svip sinn á umræður um íslensk utanríkismál frá því á árinu 1946 þegar nýsköpunarstjórnin sprakk vegna deilna um Keflavíkursamninginn og allt fram á miðjan áttunda áratuginn, setja svip sinn á meðferð skýrslu utanrrh. og umræðurnar um hana. Við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að stefna kommúnista og síðan Alþb., sem hefur gengið þvert á meirihlutaviðhorf þjóðarinnar í utanríkismálum og vilja hennar til að eiga náið og gott samstarf við nágrannaþjóðirnar í austri og vestri, olli mikilli tortryggni í samskiptum stjórnmálamanna þegar utanríkismál og öryggismál voru annars vegar. Ekki eru nema rúm 10 ár liðin frá því að utanrrh. Alþfl. í ríkisstjórn með Alþb. lýsti því yfir hvað eftir annað að sér dytti ekki í hug að ræða um öryggis- og varnarmál þjóðarinnar í ríkisstjórn ef það fæli í sér að sýna samráðherrum sínum úr Alþb. trúnað. Um langt árabil má segja að hv. utanrmn. Alþingis hafi verið næstum óstarfhæf vegna þess að þar voru ekki borin upp viðkvæm utanríkismál af ótta við að með því væri hagsmunum þjóðarinnar stefnt í voða. Ástæðan var sú að menn treystu þeim ekki er aldrei sáu neitt athugavert við framgöngu ráðamanna í Sovétríkjunum hvort heldur var á heimavelli eða á alþjóðavettvangi. Smátt og smátt hefur málum þokað í þá átt að allir flokkar hafa orðið virkir þátttakendur í trúnaðarviðræðum um stefnumótunina í utanríkismálum. Slíkar viðræður eru að mínu mati forsenda þess að víðtæk pólitísk samstaða náist um þessi mikilvægustu viðfangsefni stjórnmálamanna. Ég tel að skipan öryggismálanefndar í ársbyrjun 1979 og störf nefndarinnar hafi verið mikilvægur liður í þróuninni en nefndin var lögð niður um síðustu áramót svo sem kunnugt er. Þar sátu fulltrúar fjögurra stjórnmálaflokka sem áttu menn á Alþingi árið 1979. Mér finnst enn eima eftir af því í störfum hv. utanrmn. að þar sitji menn í svipuðum stellingum og þeir gerðu áður fyrr. Sú spurning hefur einnig vaknað í mínum huga hvort nægur trúnaður sé á milli ríkisstjórnarinnar og utanrmn.
    Kem ég þá að þeirri gagnrýni sem ég vil láta í ljós vegna vinnubragða við skýrslugerð utanrrh. Mér finnst fráleitt að hvað eftir annað skuli umræður um skýrsluna á Alþingi hafa þann aðdraganda að þeir sem eru utan ríkisstjórnar þurfi að spyrja hvort skoða beri skýrsluna sem stefnu ríkisstjórnarinnar eða ekki. Auðvitað á að standa að skýrslugerð sem þessari með þeim hætti að þar séu samræmd sjónarmið þeirra sem starfa saman í ríkisstjórn á hverjum tíma. Eins og kunngt er hefur sú hefð skapast að skýrslan er að verulegu leyti upprifjun á staðreyndum um þróun alþjóðamála. Að svo miklu leyti sem um stefnumótandi atriði er að ræða þarf að halda þannig á málum að um þau sé rætt í ríkisstjórn og að sjálfsögðu helst í þingflokkum stjórnarflokka þannig að tryggð sé sem víðtækust samstaða. Þá hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé ástæða til að taka skýrsluna til sérstakrar umræðu í utanrmn.
    Nú hefur verið farið inn á þá braut að vísa skýrslum umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar fyrst til þingnefnda áður en þær eru ræddar í þingsalnum. Væri ekki ástæða til að hafa svipaðan hátt á með skýrslu utanrrh.? Kynni slík málsmeðferð að leiða til þess að auka gildi þessarar mikilvægu skýrslugjafar?
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að varpa þessum spurningum fram nú þegar ég hef í fyrsta sinn tækifæri til að taka þátt í umræðum um slíka skýrslu á hinu háa Alþingi.
    Ég minntist á að mér fyndust umræðurnar á þinginu um utanríkismál enn í gömlum skorðum. Það stafar m.a. af því að Alþb. forðast fortíð sína eins og heitan eldinn og neitar að viðurkenna að í rúma fjóra áratugi hefur það fylgt stefnu í öryggis- og varnarmálum sem nú er hrunin til grunna.
    Þegar það blasti við að kommúnisminn var að hverfa úr sögunni sem áhrifavald á alþjóðavettvangi eða í lífi einstakra þjóða, hófust deilur um það í Bandaríkjunum hvort það markaði endalok sögunnar, eins og komist var að orði í tímaritsgrein. Að sjálfsögðu höfðu þeir betur í þessum deilum sem voru á þeirri skoðun að sögunni væri alls ekki lokið. Á þetta er minnt hér vegna þess að mín skoðun er sú að með hruni kommúnismans hafi kafla í Íslandssögunni lokið og deilum um þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi sem hafa að verulegu leyti átt rætur að rekja til þess að hér hefur starfað stjórnmálaafl sem hefur verið hluti af alþjóðlegu neti heimskommúnismans. Þegar rætt er um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi við nýjar aðstæður verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd. Vandinn við uppgjör á þessum kafla í stjórnmálasögunni er einkum sá að þeir sem jafnan hafa haft rangt fyrir sér við meginákvarðanir um íslensk utanríkismál og þar að auki látið stjórnast af hugmyndafræði og hagsmunum kommúnismans vilja ekki líta á fortíðina og ræða um hana í hreinskilni. Lítum á hvaða áhrif þessi kaflaskil hafa með hliðsjón af ágreiningsefnum í íslenskum utanríkismálum undanfarna áratugi.
    Það hefur löngum verið krafa andstæðinga aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu að hernaðarbandalögin tvö í Evrópu yrðu lögð niður. Nú er sú krafa úr sögunni með brotthvarfi Varsjárbandalagsins og með óskum aðildarríkja þess fyrrverandi um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Ýmsir hafa rætt um að eðlilegt væri fyrir Ísland að skipa sér stöðu í sveit hlutlausra ríkja eða óháðra sem eru utan hernaðarbandalaga eða á milli þeirra. Þessi kostur er ekki lengur fyrir hendi. Hlutlaus ríki á borð við Svíþjóð og Finnland hafa t.d. horfið frá þeirri skoðun að hlutleysisstefna komi í veg fyrir aðild þeirra að Evrópubandalaginu sem stefnir óðfluga í átt til meira samstarfs á sviði öryggis- og utanríkismála og utanrrh. Finnlands hefur orðað þann möguleika að Finnar gerðust aðilar að Atlantshafsbandalaginu.
    Helsta hættan af dvöl varnarliðsins í landinu hefur af andstæðingum þess verið talin sú að það gerði Ísland að skotmarki ef til hernaðarátaka kæmi. Við núverandi aðstæður hefur þessi átylla um að Ísland sé skotmark misst gildi sitt. Enginn getur lengur litið á varnarliðið sem segul fyrir árás frá Sovétríkjunum eins og herstöðvaandstæðingar hafa gert. Sovétríkin eru ekki lengur til sem ríki.
    Síðustu vikur og mánuði hafa þeir sem hafa viljað ýta undir hræðslu almennings með því að ala á ótta við að kjarnorkuvopn kunni að vera hér á landi eða í skipum við landið beint athygli sinni að herskipum. Fjölmiðlamenn og þingmenn hafa haldið því á loft að hingað hafi komið bandarísk herskip með kjarnorkuvopn án vilja og vitundar íslenskra stjórnvalda. Ekkert hefur þó verið sannað í þessu efni. Þessum hræðsluáróðri er ekki lengur hægt að halda að okkur eftir að George Bush Bandaríkjaforseti tilkynnti að Bandaríkjamenn mundu hætta að hafa þau kjarnorkuvopn sem hingað kynnu að verða flutt um borð í herskipum sínum samkvæmt þessum órökstuddu fullyrðingum. Bandaríkjastjórn hefur einnig ákveðið að falla frá áformum um að beita djúpsprengjum með kjarnahleðslum ef til átaka kynni að koma. Þar með heyra þau kjarnavopn sögunni til sem sagt var á sínum tíma að yrði beitt héðan úr kafbátaleitarflugvélum.
    Fleiri atriði mætti tíunda ef ætlunin væri að gefa tæmandi yfirlit yfir áróðursefni andstæðinga þátttöku Íslendinga í varnarsamstarfi vestrænna þjóða á undanförnum áratugum. Ástæðulaust er að hafa upptalninguna lengri því að ekkert af hræðsluáróðrinum hefur ræst. Ef hrakspárnar hefðu gengið eftir stæði íslensk menning eftir ekki með blóma heldur hefði hún verið kaffærð í amerískri lágmenningu og við værum ekki lengur sjálfstæð þjóð.
    Með hliðsjón af framvindu umræðna um varnar- og öryggismál síðan 1949 er furðulegt til þess að hugsa ef andstæðingar virkrar aðildar Íslands að samstarfi og samruna Evrópuþjóðanna ætla að grípa til svipaðs hræðsluáróðurs í umræðunum sem eru fyrir dyrum um þátttöku í evrópskri samvinnu. Við heyrðum ávæning af því í ræðu hv. 4. þm. Austurl. næst á undan mér. Ef þetta verður gert kemur enn í ljós að þeir sem vilja ekki læra af reynslunni eða sögunni átta sig aldrei á raunveruleikanum fyrr en þeir reka sig sjálfir á. Fyrir einstaklinga geta slíkir árekstrar orðið sársaukafullir en fyrir þjóðir geta þeir orðið stórhættulegir. Þess vegna er full ástæða til að gjalda varhug við hræðsluáróðrinum um framtíð íslensku þjóðarinnar í náinni samvinnu við vina- og frændþjóðir nú eins og áður.
    Hernaðarlegt mikilvægi Íslands hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum í réttu hlutfalli við hernaðaruppbyggingu Sovétmanna á Kólaskaga. Nú hefur orðið mikil breyting á afstöðunni til víghreiðranna á Kóla. Þótt Sovétríkin séu úr sögunni er hins vegar ekki unnt að segja hið sama um þörfina fyrir þá er ráða ríkjum í Rússlandi fyrir aðgang að höfnum. Og hafnirnar á Kólaskaganum eru mikilvægari nú en áður eftir að þrengt hefur að við Svartahaf og á Eystrasalti. Stöðu Íslands verður að skoða áfram í þessu ljósi. Landið tengist hvers konar viðleitni til að stuðla að stöðugleika á Norður-Atlantshafi. Sagan sýnir að evrópskt meginlandsveldi sem sækist eftir að auka áhrif sín leitar fyrr eða síðar út á Atlantshaf. Á meðan Sovétstjórnin hafði tögl og hagldir innan Varsjárbandalagsins var tiltölulega auðvelt að skýra hvaða hlutverki Ísland gegndi í varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins. M.a. var dregin lína frá Grænlandi um Ísland til Noregs eða Skotlands þegar rætt var um varnir NATO á Atlantshafi. Varðstaða á Íslandi var nauðsynleg til að tryggja öryggi á siglingaleiðinni um Norður-Atlantshaf. Einnig kom aðstaða á Íslandi til álita við mat á stöðugleikanum í kjarnorkuvopnakerfinu milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Nú er ekki unnt að draga upp jafnskýra mynd þegar litið er á hernaðarlegt gildi Íslands. Staðan á Atlantshafi breytist eins og annars staðar. Kjarnorkuvopn í skipum munu hverfa eins og ég gat um. Það á þó ekki við um ,,strategíska`` kjarnorkukafbáta. Þeir eiga eftir að gegna mikilvægu hlutverki áfram. Tilvist þeirra hefur áhrif á það eftirlit sem stundað er frá Íslandi. Þegar öryggishagsmunir Íslands eru metnir á hið sama við nú og áður um gæslu þeirra að náið samstarf sé á milli þjóða Evrópu og Norður-Ameríku. Versti kostur Íslands og Íslendinga í öryggismálum væri að þurfa að velja á milli samstarfs við ríki Norður-Ameríku annars vegar og Evrópu hins vegar. Þess vegna hlýtur það áfram að vera höfuðmarkmið skynsamlegrar stefnu Íslands í utanríkis- og öryggismálum að Atlantshafsbandalagið starfi áfram. Í þessu markmiði felst jafnframt að Bandaríkin haldi úti herafla á meginlandi Evrópu.
    Í umræðum um samstarf Íslands og Bandaríkjanna hefur verið minnst á að á þeim breytingatímum sem nú eru þurfi ríkin að efla samráð sín á milli um framtíð varnarsamstarfsins og hvernig því skuli háttað. Að þessu er vikið í skýrslu hæstv. utanrrh. og hann tilkynnti í ræðu sinni í gær að ætlunin væri að setja niður nefnd til þess að ræða um tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Ég fagna þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að taka þetta mál upp með þeim hætti sem tilkynnt var í ræðu ráðherrans. Íslendingar hafa kynnst því að Bandaríkjamenn telja sig geta einhliða tekið ákvarðanir um ýmis atriði í starfsemi varnarstöðvarinnar í Keflavík sem æskilegra væri að bera undir stjórnvöld beggja ríkjanna. Og ég er þeirrar skoðunar að efla beri tvíhliða samskipti íslenskra og bandarískra stjórnvalda að þessu leyti og tel að það verði gert með þeirri nefndarskipan sem utanrrh. kynnti í ræðu sinni í gær og með þeim áformum sem kynnt eru í skýrslu ráðherrans. Ég tel einnig nauðsynlegt að betri sátt takist milli Íslands og samaðila okkar innan Atlantshafsbandalagsins um varnarframkvæmdir í landinu og greiðslu kostnaðar við þær. Og ég vil taka undir með þeim sem mæltu þau orð hér í gær, að æskilegt væri að utanrrh. hefði fjallað nánar um þann þátt í skýrslu sinni en gert er, sérstaklega með hliðsjón af því að hann boðaði á sínum tíma að hann mundi flytja munnlega skýrslu um þessi málefni en af því varð ekki af óviðráðanlegum orsökum eins og okkur öllum er kunnugt. Ég tel að mál þetta þurfi að ræða ítarlega og með opnum huga og það eigi að stefna að breytingum í þessu efni og ég fagna þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið um það og vona að skipulega verði unnið að framkvæmd hennar.
    Í ræðu, sem forsrh. flutti á vegum Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs, fyrir rúmum tveimur vikum, rakti hann ítarlega viðhorf ríkisstjórnarinnar til þátttöku í Vestur-Evrópusambandinu, varnarsamtökum sem starfa meðal Evrópuþjóða og munu fá aukið hlutverk nú þegar samstarf þessara þjóða í varnar- og öryggismálum eykst, hvort heldur litið verður á sambandið sem evrópska stoð innan Atlantshafsbandalagsins eða brú frá Evrópubandalaginu til Atlantshafsbandalagsins. Það skiptir í sjálfu sér ekki meginmáli. Hitt skiptir höfuðmáli að á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Kaupmannahöfn á sl. sumri var ákveðið af ráðherrunum að skilgreina bæri evrópska öryggishagsmuni innan Atlantshafsbandalagsins og síðan hefur verið ákveðið að þetta samband, þetta gamla þjóðasamband, Vestur-Evrópusambandið, sinnti þeim málaflokki af hálfu Evrópuþjóðanna. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að Ísland eigi þar aðild að og fagna þeim ákvörðunum sem þegar hafa verið teknar í því efni og ég vona að viðræður milli íslenskra stjórnvalda og Vestur-Evrópusambandsins leiði til þess að unnt verði að koma á skipulegu samstarfi á þessum vettvangi. Ég tel þetta ekki aðeins brýnt vegna öryggishagsmuna Íslendinga heldur einnig til þess að beina athygli Evrópuþjóðanna út á Atlantshafið og minna þær á að öryggi og stöðugleiki á Atlantshafinu er ekki síður hluti af evrópsku öryggi en samstarfið við Bandaríkin sem er mikilvægast, en þá er ekki hitt síður mikilvægt fyrir Evrópuþjóðirnar að huga að öryggisgæslu á Atlantshafinu.

    Á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina mótuðu lýðræðisríkin markvissa stefnu um það hvernig snúist skyldi gegn útþenslustefnu kommúnismans. Segja má að framkvæmd þessarar stefnu hafi krafist þátttöku Íslands vegna landafræðinnar. Stefnan skilaði þeim árangri sem að var stefnt og á grundvelli hennar var komið á fót alþjóðastofnunum og samstarfsneti þjóða sem enn eru við lýði og ástæðulaust að leggja niður. Nú er ekki lengur um neina sambærilega stefnumótun að ræða sem nær til Atlantshafssvæðisins alls.
    Sterkustu pólitísku kraftana, sem setja svip sinn á ríkjasamstarf í okkar heimshluta, er að finna í Evrópu og þar er Evrópubandalagið öflugast og dregur ríkin til sín eins og segulstál. Þetta sterka aðdráttarafl hefur mikil áhrif á Norðurlöndunum eins og annars staðar í Evrópu. Það riðlar hefðbundnu samstarfi ríkja og gengur þvert á gamalgrónar, pólitískar hugmyndir þjóða og stjórnmálaflokka. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að meiri hluti Norðurlandanna verður innan fárra ára í Evrópubandalaginu. Norðurlandasamstarfið á eftir að gjörbreytast við þetta og þeir, sem fyrir utan EB standa, eiga einnig á hættu að einangrast, ekki einvörðungu frá samstarfi Evrópuþjóðanna heldur einnig svæðisbundnu samstarfi eins og samvinnu Norðurlandaþjóðanna. Hér er ég ekki að boða neina stefnu heldur einvörðungu að lýsa staðreyndum sem við blasa og menn hafa brugðist við á öllum Norðurlöndunum hver með sínum hætti. Hér á landi höfum við brugðist við með þeirri stefnu sem fram kemur í skýrslu utanrrh. og fram kom í hinni ágætu ræðu hæstv. forsrh. á Alþingi í gær.
    Þessar þjóðir á Norðurlöndunum hafa með misjöfnum hætti tekið á þessu máli. Þær hafa látið rannsaka stöðu sína og þær hafa metið hagsmuni sína í ljósi athugana og komist að niðurstöðu og það hefur gerst með undravert skjótum hætti, t.d. í Finnlandi, eins og ég hef raunar gert grein fyrir í blaðagrein og hv. 4. þm. Austurl. vitnaði til í sinni ræðu áðan. Ég vil, þar sem sá hv. þm. lýsti því hvernig hann metur stöðuna á Norðurlöndunum, leyfa mér við þetta tækifæri að fara nokkrum orðum um afstöðu Norðurlandanna og lýsa því hvernig hún blasir við mér. Að vísu var ég ekki á Norðurlandaráðsþingi eins og hv. 4. þm. Austurl. en eins og þingmenn geta séð í ritinu Nordisk kontakt lét hv. 4. þm. Austurl. að sér kveða á þingi Norðurlandaráðs með þeim hætti að í blaðinu segir: ,,Hjörleifur Guttormsson var sá ræðumaður í almennu umræðunum sem hafði uppi þyngst viðvörunarorð gegn EB og EES.`` Það má segja að hann hafi þar verið samkvæmur sjálfum sér. Hann er á ysta kanti þegar rætt er um þessi mál, samstarf Evrópuþjóðanna, hvort heldur er hér á Alþingi Íslendinga eða innan Norðurlandasamstarfsins og ræður hans á Norðurlandaráðsþingi vekja athygli fyrir það hvað hann er andvígur þessu evrópska samstarfi og skipar sér þar algera sérstöðu eins og mér virðist hann ætla að gera hér á hinu háa Alþingi þar sem hann hleypur upp á eftir ræðumönnum til þess að yfirheyra þá um afstöðu þeirra til Evrópumálanna ef honum finnst að skoðanirnar séu eitthvað öðruvísi heldur en hann þóttist geta vænst í ræðum manna. En það er nú aukaatriði. Hann metur þessi mál frá þeim sjónarhóli sem þannig er lýst í ritinu Nordisk kontakt og hans niðurstaða var eins og fram kom að þótt rétt stjórnvöld í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi hefðu tekið ákvarðanir um að efla samstarf sitt við Evrópubandalagið þá mundi þeim ákvörðunum öllum verða hnekkt af þjóðum þessara landa þegar þær yrðu bornar undir þjóðaratkvæðagreiðslu í löndunum.
    Ég vil aðeins líta á þetta og hefja yfirferðina í Danmörku þar sem 2. júní nk. verður þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Danir ætli að samþykkja Maastricht-samkomulagið sem gert var í desember á milli þjóðarleiðtoga Evrópubandalagsríkjanna.
    Þeir atburðir hafa gerst í Danmörku að þetta er í þriðja sinn sem þjóðaratkvæðagreiðsla fer þar fram um þátttöku Dana í Evrópubandalaginu. Hún fór fram um þátttökuna sjálfa 1972, síðan 1986 um það hvort Danir vildu samþykkja evrópsku einingalögin og svo núna í þriðja sinn 1992, 20 árum eftir að aðildin var samþykkt, um það hvort Danir vilji stíga næstu skref í þessu samstarfi. Sú breyting hefur orðið, ef litið er á stjórnmálaflokkana í Danmörku á þessum tíma, að Jafnaðarmannaflokkurinn, sem jafnan var klofinn í þessu máli og beitti sér frekar gegn þátttöku í Evrópubandalaginu, stendur núna heils hugar að þeirri ákvörðun að styðja Maastricht-samkomulagið og allir stærstu flokkarnir eru þannig hlynntir því. Ég held að það séu aðeins flokkurinn yst til hægri, gamli flokkur Glistrups, og síðan flokkurinn lengst til vinstri sem eru á móti þessu þannig að allir stærstu stjórnmálaflokkar Danmerkur styðja þetta og það er meiri einhugur meðal forustusveitar danskra stjórnmálamanna um þetta atriði nú heldur en var og hefur nokkru sinni verið. Enginn getur spáð fyrir um úrslit kosninga en ég tel ákaflega vafasamt að þau verði á þann veg sem hv. þm. taldi, að þetta yrði fellt. Ég tel að líkurnar bendi frekar til þess að stjórnmálaforustan muni sækja á þegar nær dregur og fá þetta samþykkt eins og jafnan hefur verið. Menn verða að hafa það í huga hve hratt það gengur fyrir sig á hinum pólitíska vettvangi í öllum þessum löndum að ríkisstjórnirnar og stjórnmálaflokkarnir taka ákvarðanir, standa að ákvörðunum og síðan er það borið undir þjóðina og á vissu stigi í þessari baráttu kemur upp andstaða og kemur hún þá fram meðan þrýstihópar og hagsmunasamtök láta að sér kveða og síðan er eins og sú bylgja falli að nýju og síðan náist niðurstaðan í samræmi við hinar stórpólitísku ákvarðanir þegar til kosninganna sjálfra kemur.
    Þetta gerðist að vísu ekki í Noregi 1972, enda setur það mjög sterkan svip sinn á umræðurnar í Noregi og viðhorf norskra stjórnmálamanna til þessa máls og það sem athyglisverðara er --- ég hafði tækifæri til þess í síðustu viku að sækja fund í norska utanrrn. Þar er starfandi nefnd á vegum norsku ríkisstjórnarinnar til þess að kanna allar hliðar Evrópusamstarfsins og sérstaklega Evrópubandalagsins. Þessi nefnd kallaði til fundar við sig menn frá öllum Norðurlöndunum til að ræða um málið og það er athyglisvert að fylgjast með því í Noregi hvað þar ber hæst núna í umræðunum. Skoðanabræður hv. 4. þm. Austurl., sem voru andvígir þátttöku Noregs í Evrópubandalaginu 1972, flykkjast nú fram og gefa út bækur og skrifa greinar og láta hafa við sig viðtöl í fjölmiðlum þess efnis að þeim hafi snúist hugur og þeir sjái að skynsamlegasta leiðin fyrir Noreg sé að gerast aðilar að Evrópubandalaginu. Þetta held ég að gefi réttari mynd af stöðunni í almennum umræðum í Noregi t.d. heldur en sú mynd sem hv. þm. dró upp og það er alveg ljóst að í norska Stórþinginu er andstaðan við EES-samkomulagið úr sögunni og það verður samþykkt þar og engin ástæða til að efast um að aukinn meiri hluti skapist í norska Stórþinginu til stuðnings því samkomulagi sem var talinn vafi á um tíma. Þróunin í Noregi er þannig alls ekki í þá átt að þar sé andstaða við evrópskt samstarf að aukast. Þvert á móti held ég að hún minnki og ég tek undir það með hv. 4. þm. Austurl. að það verður fróðlegt að heyra hvað Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, hefur um þetta mál að segja um næstu helgi. Þess er beðið með mikilli eftirvæntingu hvernig hún leggur málið upp en allar umræður benda til þess að innan norska Verkamannaflokksins hafi verið tekin ákvörðun um að mæla með þátttöku Noregs í Evrópubandalaginu. Þannig er aðstaðan allt önnur þar heldur en hér á landi þar sem við höfum kynnst og vitum hver stefna ríkisstjórnarinnar er, þar sem málið er ekki á dagskrá hjá ríkisstjórninni þá er líklegt að nú um næstu helgi muni norski forsætisráðherrann setja þetta mál á dagskrá sinnar ríkisstjórnar. Það er á dagskrá innan norska Verkamannaflokksins og verður tekin endanleg ákvörðun á vegum flokksins á flokksþinginu í nóvember í haust eins og fram kom í ræðu hv. þm.
    Í Finnlandi gerðist þetta eins og fram hefur komið. Allir stærstu stjórnmálaflokkarnir eru hlynntir þátttöku Finnlands í Evrópubandalaginu. Jafnaðarmannaflokkurinn greiddi ekki atkvæði með ríkisstjórninni í þingi út af því að hann taldi að þau skilyrði, sem stjórnin setti og sérstaklega kröfur hennar varðandi stöðu finnsks landbúnaðar, væru of stíf og þess vegna taldi hann sér ekki fært að greiða atkvæði með stjórninni. Hún fékk 108 atkvæði af 200 í finnska þinginu og 55 þingmenn Jafnaðarmannaflokksins studdu í raun aðild Finnlands að Evrópubandalaginu þótt þeir væru ekki sammála málatilbúnaði finnsku ríkisstjórnarinnar. Við skulum ekki gleyma því að síðan var umsókn Finna um aðild að bandalaginu afhent í Brussel án nokkurra skilyrða. Það komu engin skilyrði fram í þessari umsókn og er hún undirrituð af forseta Finnlands og forsætisráðherra sem mér finnst athygisvert og ástæða til að nefna með hliðsjón af þeirri spurningu, sem fram kom í umræðunum í gær, um hvar á að draga mörkin í þessu máli milli utanríkismála og innanríkismála, en það hefur vakið athygli að finnski utanríkisráðherrann skrifaði ekki undir þessa umsóknarbeiðni með forseta Finnlands heldur forsætisráðherrann.
    Einnig í Noregi er það forsætisráðuneytið og forsætisráðherrann sem hafa frumkvæði í þeirri athugun sem fram fer á vegum norskra stjórnvalda varðandi Evrópubandalagið. Og spurningin er, eins og ég raunar sagði í upphafi máls míns, hver eigi að hafa forræði ef ríkisstjórnin ætlar út í þá könnun sem bæði forsrh. og utanrrh. hafa nefnt og er eðlilegur hluti af athugunum okkar um stöðu okkar á alþjóðavettvangi við þessar breyttu aðstæður, hvort sá málatilbúnaður eigi ekki að vera þannig að hún sé undir forustu forsrn. eins og hefur verið í öðrum löndum að stýra slíku starfi.
    Í mínum huga er þessi mynd af stöðunni á Norðurlöndunum allt önnur en hjá hv. 4. þm. Austurl. enda lítur hann á það mál frá þeim ysta kanti sem hann stendur þegar hann talar á þingi Norðurlandaráðs og metur stöðuna í ljósi þess. Hins vegar er spurningin hvort sú áhersla, sem Norðurlöndin leggja á að gera þetta með svona skjótum hætti, eigi við rök að styðjast og hvort menn mikli fyrir sér þann hraða sem verður á öllum ákvörðunum innan Evrópubandalagsins varðandi útvíkkun bandalagsins. Það voru hugmyndir um að ákvarðanir yrðu teknar á fundi í Lissabon núna í sumar um þetta mál en líkur benda til þess að það verði ekki. Fjárlög bandalagsins fyrir næstu fimm ár hafa ekki hlotið samþykki og verða vafalaust ekki samþykkt fyrir þennan fund í Lissabon og þess vegna frestast nú allar ákvarðanir, held ég, um þetta.
    Við höfum kynnst því í samskiptum okkar við Evrópubandalagið að hraðinn þar er frekar lítill og frestanirnar vegna Evrópska efnahagssvæðisins ættu að segja okkur að það geta komið upp margvísleg vandamál í samningum eins og þeim, hvað þá heldur þegar fjallað er um aðild nýrra þjóða eða breytingar á Rómarsáttmálanum, þá tekur það allt ákaflega langan tíma og ekki ástæða til þess, held ég, af hálfu Norðurlandanna að óttast að þeir komist í tímaþröng að þessu leyti. Norðmenn hafa sagt að þeim dugi, ef þeir taki ákvörðun um aðild að Evrópubandalaginu, að tilkynna ákvörðun um það fyrir lok þessa árs og þá geti þeir haft samflot með Finnum, Svíum og Austurríkismönnum og komist inn í þá samningalotu sem Evrópubandalagð hefur boðað að muni hefjast. En hvenær þeirri samningalotu lýkur er allt annað mál því að það er talið líklegt að önnur þjóðarleiðtogaráðstefna bandalagsins þurfi að fara fram áður en slíkar ákvarðanir verða teknar og næsta slík ráðstefna er ekki ráðgerð fyrr en 1996 þannig að tíminn í þessu, sem skiptir verulega miklu máli í hugum margra, kann að vera rýmri en við áttum okkur á núna. Þetta snertir þau ríki sem hafa ákveðið að slást í þennan hóp og á ekki eins við um okkur. Hins vegar á það við um okkur hvað varðar framgang Evrópska efnahagssvæðisins. Þar er einnig tíminn að hlaupa frá mönnum ef ætlunin er að hann verði staðfestur og gangi í gildi 1. jan. 1993 eins og að hefur verið stefnt.
    Enn er óvíst hvenær Evrópudómstóllinn skilar sínu áliti um Evrópska efnahagssamninginn og e.t.v. verður það ekki fyrr en í maí. Þegar þessi mál voru til umræðu í október 1991 þá sögðu Svisslendingar að þeir gætu ekki efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu í landi sínu um þetta mál fyrr en 6. des. 1992 og töldu sig þurfa svo langan frest til þess að undirbúa þá þjóðaratkvæðagreiðslu.
    Á undanförnum vikum hefur magnast upp spenna í samskiptum Svía og Svisslendinga út af þessu máli þar sem Carl Bildt, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur lýst því yfir að hann teldi Svisslendinga tefja fyrir því að endanleg niðurstaða næðist um Evrópska efnahagssvæðið ef þeir kæmu í veg fyrir að það tæki gildi 1. jan. 1993. Svissneskur ráðherra kom til Svíþjóðar í hálfopinbera heimsókn og sérstaka athygli vakti að forsætisráðherrann neitaði að hitta manninn og var það talið til marks um reiði Svía yfir því hvernig Svisslendingar drægju lappirnar í þessu máli. Þetta varð að töluverðu stórmáli í Sviss þar sem menn eru mjög óvanir því að standa í pólitískum, sérstaklega utanríkispólitískum, deilum við aðrar þjóðir og þóttu það mikil tíðindi að svissneskum ráðherra væri sýnd slík móðgun að forsætisráðherra neitaði að tala við hann. Ástæðan er sú, og við skulum hafa það í huga og einnig þegar við metum stöðu annars staðar á Norðurlöndunum og afstöðu þjóða til Evrópubandalagsins, að það eru ekki síst sænskir efnahagshagsmunir sem ráða þar ferðinni. Ef einhver eimreið dregur þessar þjóðir inn í Evrópubandalagið þá er það sænski stóriðnaðurinn. Hann hefur mikilla hagsmuna að gæta að því leyti að honum séu tryggðar greiðar leiðir að Evrópska efnahagssvæðinu frá og með 1. jan. 1993. Sænska ríkisstjórnin telur að hagsmunum Svíþjóðar kunni að vera stefnt í voða ef tafir verða á evrópska efnahagssamningnum og hann geti ekki tekið gildi 1. jan. 1993.
    Ef ég má lýsa persónulegri skoðun minni á málinu þá tel ég að það hljóti að frestast. Ég sé ekki hvernig það getur orðið raunhæft að búast við því. Ef samningurinn verður ekki undirritaður fyrr en í maí, en eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra hér í gær er líka vafi á hvort hann verði undirritaður, þá finnst mér ekki ólíklegt að það taki lengri tíma en fram að áramótum að ganga frá málum þannig að hann geti tekið gildi 1. jan. 1993. Það á eftir að koma í ljós og er náttúrlega miklu nær fyrir okkur ef við ætlum að fjalla um tíma í þessu evrópska samstarfi að huga að þessum þáttum.
    Ég er hjartanlega sammála hv. 4. þm. Austurl. um það að ég hefði kosið að unnt hefði verið að nota tímann betur á Alþingi í vetur til þess að undirbúa þingmenn og vonandi einnig þjóðina undir þátttökuna í Evrópska efnahagssvæðinu með þeim hætti að umræður hefðu farið fram um mál í nefndum en um leið og ég segi þetta minni ég á að hvað eftir annað í vetur hafa þingmenn úr stjórnarandstöðunni risið upp og lýst því yfir að þessum samningaumleitunum væri í raun lokið. Samningurinn yrði aldrei að veruleika. Mig minnir að hv. 4. þm. Austurl. hafi talað um að EES-skútan væri komin á sker og hún mundi aldrei losna aftur. Í ljósi slíkra yfirlýsinga er fráleitt að sitja í þinginu og leggja mikla vinnu í gögn ef menn eru þeirrar trúar í hinu orðinu að það sé alveg gagnslaust af því að samningur verði aldrei gerður. En ef hv. 4. þm. Austurl. hefði viljað vinna að málinu og haft trú á því að það næði fram að ganga og væri þess vegna að leggja á sig erfiði í því skyni að fjalla um eitthvað sem yrði að veruleika þá hefði málið kannski horft öðruvísi við. Þess vegna kom mér á óvart miðað við fyrri yfirlýsingar hans í málinu að hann skyldi nú kvarta undan því að við hefðum ekki setið undir slíkum skjölum hér í vetur.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú farið yfir ýmsa þá megindrætti sem ég tel að hljóti að að setja svip sinn á það þegar við metum stöðu Íslands á alþjóðavettvangi um þessar mundir. Ég tel í fyrsta lagi að til þess að umræðurnar á Alþingi geti verið á þeim grunni sem skynsamlegt er þá þurfi þeir sem hafa haft rangt fyrir sér varðandi töku ákvarðana um utanríkismál Íslands allt frá því að lýðeldið var stofnað að líta í eigin barm og skoða hug sinn og velta því fyrir sér hvar þeir fóru út af sporinu og hvers vegna þeir gerðu það um leið og þeir lýsa því yfir hvað það var sem afvegaleiddi þá í umræðunum um utanríkismálin að mati þeirra og stöðu öryggismálanna og hluta okkar Íslendinga í þeim. Það mundi auðvelda mjög allar umræður um þessi mál. Þess vegna finnst mér ákaflega sorglegt þegar sömu aðilar koma nú upp í ræðustólinn og tala raunverulega alveg í sama dúr og þeir hafa gert um alþjóðamál þótt það sé að sjálfsögðu að breyttu breytanda. En það eru sömu hrakspárnar, sami hræðsluáróðurinn, sömu viðhorfin til þess að samstarf við önnur ríki muni verða íslenska sjálfstæðinu að fjörtjóni, muni svipta þjóðina fullveldi, muni eyðileggja menningu þjóðarinnar o.s.frv. Þeir tala ekki lengur um það eins og þeir gerðu að þeir hefðu rétt fyrir sér því að allar þjóðir heims vildu frið og friðarhreyfingarnar stæðu með þeim og menn mundu sjá það að ákvarðanir um aukinn vígbúnað, andsvar Atlantshafsbandalagsins við vígbúnaði Sovétríkjanna mundi aldrei ná fram að ganga því að hvað sem ríkisstjórnir segðu þá mundu friðarhreyfingar koma og grípa fram fyrir hendurnar á þeim og stoppa slíka uppbyggingu o.s.frv. Nú er talað um að ef ríkisstjórnir taki ákvarðanir í Evrópumálum þá muni þjóðirnar koma og taka ákvarðanir og ganga fram fyrir skjöldu og verjast þessu ofríki valdhafanna. Að breyttu breytanda er því sami tónninn í umræðunum. Undirtónninn er nákvæmlega sá sami. Annars vegar er lagt upp eins og valdhafarnir séu slitnir úr tengslum við þjóðirnar þegar rætt er um þessi mikilvægu utanríkismál og höfðað til þess að þeir sem vilja kannski skoða málin í heild, ræða þau af raunsæi og reyna að taka afstöðu til þeirra með hliðsjón af þeim ákvörðunum sem aðrir hafa tekið, hafi bara einfaldlega rangt fyrir sér því að þeir menn sem hafi tekið ákvarðanir, þjóðkjörnir menn í öðrum löndum komist ekkert upp með að hrinda þeim í framkvæmd af því að það muni einhverjir aðrir koma og grípa fram fyrir hendurnar á þeim. Þessi tegund af umræðum átti sér stað um öryggismálin og endurspeglast síðan í kröfunni um það að alltaf þegar á að taka einhverjar slíkar ákvarðanir hér á landi þá er talað um að það eigi að bera þær undir þjóðina. Þegar það er síðan ekki gert þá sé alveg sannað að ákvarðanir séu í óþökk þjóðarinnar. Ég tel að allt þetta tal heyri fortíðinni til. Hvað eftir annað hefur komið fram hér á landi að slíkur áróður er gersamlega marklaus.
    Þegar Íslendingar gerðust aðilar að EFTA árið 1970 urðu miklar deilur um það mál hér á Alþingi. Eins og ævinlega þegar skynsamlegar ákvarðanir hafa verið teknar um utanríkismál þjóðarinnar snerist Alþb. gegn aðild að EFTA. Alþb. treysti sér að vísu ekki til þess að fjalla um það málefnalega heldur flutti um það rökstudda dagskrá að úr því að aðild að EFTA væri ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þá vildi það vísa málinu frá. Mér virðist eitthvað svipað í uppsiglingu í sambandi við EES. Alþb. skoraðist undan því á síðasta landsfundi sínum eins og fram kom í ræðu hv. 4. þm. Austurl. að taka afstöðu til Evrópska efnahagssvæðisins. Mér kæmi ekki á óvart miðað við forsöguna þegar þessir samningar koma til ákvörðunar á lokastigi að Alþb. kæmi fram með þá tillögu í þinginu að þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla færi ekki fram þá mundi það ekki taka afstöðu til málsins. Þessi leikur í utanríkismálaumræðum hér á landi hefur runnið sitt skeið. Það verður að gera aðra kröfu til stjórnmálaflokka en að þeir fari í þessar stellingar og neiti í raun og veru að taka á málum nema á einhverjum allt öðrum forsendum en þarf að leggja til grundvallar þegar um þessi mál er rætt.
    Ég vil ljúka máli mínu eins og ég hóf það með því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þá skýrslu sem hann hefur gefið og þá ræðu sem hann flutti í gær og einnig hæstv. forsrh. Ég tel að með þessum ræðum og með skýrslunni hafi umræður um Ísland og Evrópusamstarfið þokast inn á rétta braut og það sé eðlilegt að halda áfram á þeim forsendum sem ráðherrarnir greindu frá í ræðum sínum í gær. Það mun reynast okkur best í framtíðinni eins og hingað til að taka ákvarðanir um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna á grundvelli skynsamlegs mats á öllum aðstæðum. Ég treysti því að núv. ríkisstjórn muni skapa okkur þingmönnum þær forsendur í umræðum okkar um stöðu Íslands í Evrópu að við getum lagt slíkt mat til grundvallar þeim ákvörðunum sem við tökum.