Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 20:30:00 (4967)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska eftir því að utanrrh. og forsrh. verði gert viðvart um að umræðan sé að hefjast. Ég þykist vita að þeir séu í húsinu. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að hæstv. utanrh. og forsrh. mæti í salinn og er þess að vænta að ekki líði löng stund þar til að þeir koma.) Þá kýs ég að bíða, herra forseti. --- Herra forseti. Þar sem hæstv. utanrrh. er genginn í salinn þá ætla ég að byrja ræðu mína.
    Í upphafi máls míns get ég ekki stillt mig um, sem fyrrverandi sögukennari, að benda á villu í skýrslu hæstv. utanrrh. og verð að segja að þeir, sem gengu frá þessari skýrslu, hefðu ekki fengið hátt hjá mér á söguprófi eða í ritgerð en það er í fyrstu setningu skýrslunnar sem þessa villu er að finna. Þar stendur:
    ,,Á þeim tæplega fjórum áratugum sem liðnir eru frá stofnun lýðveldisins,`` o.s.frv., en eins og flestir ættu að vita þá eru þessir áratugir að verða fimm. Menn vilja kannski fara tíu ár til baka.
    Herra forseti. Í u.þ.b. 100 ár hafa Íslendingar fyrst og fremst átt sér eina hugsjón sem hefur yfirgnæft allar aðrar, en hún er sú að selja fisk. Þegar horft er yfir sögu þessarar aldar hafa Íslendingar ýmislegt lagt á sig til að koma sínum fisk á markað og það er athyglisvert þegar lesið er um þá atburði sem gerðust á tímabilinu 1945--1951, sem nokkuð hafa komið við sögu hér í þessari umræðu, þegar Íslendingar tóku mjög afdrifaríkar ákvarðanir, að þá lá þar ekki síst að baki hvernig nýta mætti svokallaða öryggishagsmuni þjóðarinnar til þess að selja fisk og þess voru dæmi að Íslendingar notuðu umræður um Keflavíkursamninginn og aðild að NATO til þess að koma fiski til Bretlands á uppsprengdu verði allt í nafni öryggisins. Ég vil meina að þessi hugsjón sé enn í fullu gildi og það séu sterk rök í því sem fram undan er í íslenskum stjórnmálum hvernig bæði fiskveiðum okkar og fisksölu muni vegna. En mig langar fyrst til að taka til umræðu stöðu Íslands í heiminum eins og hún kemur mér fyrir sjónir eða réttara sagt velta fyrir mér þeirri spurningu hvaða stöðu við eigum að taka okkur í heiminum í ljósi allra þeirra breytinga sem átt hafa sér stað að undanförnu.
    Umræðan um skýrslu utanrrh. hefur að miklu leyti snúist um afstöðuna til hins Evrópska efnahagssvæðis og Evrópubandalagsins og ég ætla að koma að því máli undir lok ræðu minnar, en þetta hvort tveggja, hið Evrópska efnahagssvæði og Evrópubandalagið, boðar mikil tíðindi í evrópskri sögu. Þarna eru á ferð miklar breytingar á ríkjaskipan og samskiptum ríkja og vissulega er það skiljanlegt frá sjónarhóli þeirra sem búa á meginlandi Evrópu hversu miklar vonir margir binda við Evrópubandalagið og þær breytingar sem þar eiga sér stað vegna þeirrar sögu sem Evrópa á að baki, sögu endalausra styrjalda og átaka. Það eru margir sem horfa á Evrópubandalagið sem tákn þess að friður megi haldast í Evrópu. Síðan eru aðrir sem gagnrýna margt sem þar er á ferð, uppbyggingu, pólitík, stöðu kynjanna og ýmislegt fleira.
    Við höfum horft upp á miklar breytingar í valdahlutföllum álfunnar, hernaðarbandalagið í austri var lagt niður en það sem var í vestri stendur enn og menn velta mjög fyrir sér hlutverki þess, þ.e. Atlantshafsbandalagsins. Á tímabili voru menn með hugmyndir um að breyta NATO í náttúruverndarsamtök. Ég veit ekki til að sú umræða hafi komist á alvarlegt stig en vissulega er hlutverk Atlantshafsbandalagsins mjög að breytast og ég held að menn hljóti að velta því fyrir sér hversu margfalt þetta kerfi er orðið. Það er Atlantshafsbandalagið, Vestur-Evrópubandalagið, það eru Sameinuðu þjóðirnar og eflaust á fleiri sviðum, t.d. RÖSE, eru menn að ræða um öryggismál og afvopnun og það vill oft verða þannig að þegar slík samtök eða slíkar stofnanir eru komnar á fót þá gengur hægt og illa að breyta þeim, en ég held einmitt að Íslendingar ættu að beita sér fyrir því að einhver sameining eigi sér stað og að það ætti að duga að hafa ein slík samtök fyrir Evrópubúa og auðvitað vildi ég helst sjá Sameinuðu þjóðirnar í því hlutverki að standa vörð um friðinn í heiminum eins og þeim var ætlað í upphafi.
    Í Bandaríkjunum eru ekki síður breytingar á ferð. Það veit reyndar enginn hvað þar er fram undan vegna forsetakosninga á þessu ári en greinilegt er að þar eru ýmsir hugmyndastraumar á ferð. Bandaríkjamenn gera sér að sjálfsögðu ljóst eins og aðrir hversu miklar breytingar eiga sér stað, þeirra ríkissjóður er rekinn með miklum halla og þeir vilja að sjálfsögðu nota sína skattpeninga til að byggja upp sitt eigið þjóðfélag í stað þess að vera að halda uppi einhvers konar heimslögreglu eins og stjórnvöld þar hafa gjarnan viljað.
    Allar þessar breytingar þýða að við sem hér búum stöndum frammi fyrir algjörlega nýju ástandi og að mínum dómi þarf að skoða alla kosti mjög rækilega. Þjóðin þarf að vita hverra kosta er völ og við þurfum að velta fyrir okkur öllum möguleikum. Ég sé aðallega þrjá möguleika stöðunni. Það er í fyrsta lagi að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Ég hafna þeim möguleika þegar í stað enda alls óvíst að yrði svo mikið sem tekið við umsókn frá okkur. Aðild að Evrópubandalaginu kemur ekki til greina að óbreyttu, en ég veit ekki hver telur sig þess umkominn að spá um stöðu Evrópusamvinnunnar og stöðu Íslandsmála eftir fimm til tíu ár.
    Í öðru lagi er um það að ræða að gera samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, halda áfram þeirri samvinnu sem við eigum í viðskiptum við Bandaríkin, Kanada og fleiri ríki. Ég er í þeirra hópi sem hafna hinu Evrópska efnahagssvæði, ég ætla að koma að því síðar hvers vegna. Þar við bætist að samkvæmt ræðu utanrrh., sem var haldin í gær, var að heyra að enn væru þar mörg ljón í veginum og alveg eins líklegt að þessi samningur verði ekki að veruleika.
    Í þriðja lagi eigum við þann kost að standa utan við öll efnahagssamvinnusvæði og gera tvíhliða samninga við þau ríki sem við viljum eiga hvað mest samskipti við en það er allsendis óvíst hvað af því mundi leiða og því er ekki að neita að sú hugsun læðist að manni að við séum komin í afar einkennilega stöðu og að það sé mikil hætta á því að við munum einangrast og það er kannski það sem svona lítil þjóð eins og við má ekki við.
    Að mínum dómi er ekki skynsamlegt að svara þessum spurningum, um það hvaða stöðu Íslendingar eigi að taka sér í heiminum, þessum erfiðu spurningum, á jafnafgerandi hátt og gert hefur verið í þessari umræðu. Kannski finnst mörgum að þeim sé auðsvarað en ég er ekki þeirrar skoðunar. Hv. 4. þm. Austurl. hefur látið þau ummæli falla í umræðunni að menn eigi ekki að vera með akademískar vangaveltur í umræðum eins og þessum, það eigi að tala skýrt og hafa hlutina á hreinu, en að mínum dómi er staða mála langt í frá einföld og ég tel að það sé ekki hægt að byrja umræðuna á því að skella öllu í lás jafnvel þótt maður viti hluta svaranna fyrir og hafi ákveðna afstöðu. Umræðan þarf að eiga sér stað og við þurfum að ganga að henni með opnum huga og skoða alla möguleika, jafnvel þótt við vitum svarið fyrir fram.
    Í skýrslu utanrrh. kemur fram ákveðin heimsmynd og að mínum dómi er sú heimsmynd öll miðuð við Evrópu og eins og þessi umræða sem hér hefur átt sér stað ber vott um þá snýst hér allt um Evrópu. Það hefur lítið verið minnst á atburðina í Austur-Evrópu eða þróunina þar. Menn hafa horft bæði með ánægju og nokkrum áhyggjum á það sem þar hefur verið að gerast og ég vil koma á framfæri þeim skoðunum mínum að það sé mjög mikilvægt að fylgjast með því sem þar er að gerast og að huga að því hvaða stuðning við getum veitt þessum þjóðum því mér finnst það hafa komið fram nú þegar að þar er ákaflega stutt í ýmiss konar einræðistilhneigingar. Það má minna á að blaðamenn hafa átt í nokkrum átökum við stjórnarherra, annars vegar í Rússlandi og hins vegar í Litáen þar sem menn þola illa hina frjálsu pressu. Þetta hefur gengið svo langt að heimssamtök blaðamanna hafa séð ástæðu til að grípa inn í og reyna að koma pressunni til hjálpar. Það er mjög stutt í að mönnum finnist að þeir geti og eigi að ráða því hvernig er skrifað og um hvað er skrifað.
    Við höfum líka séð það í austurhluta Evrópu og austur undir Asíu að stutt er í það að vopnum sé beitt. Þarna virðist alls staðar vera nóg af vopnum og menn grípa fyrst til þeirra og frekar til þeirra en að setjast við samningaborð. Við höfum horft upp á hin hörmulegu átök í Júgóslavíu. Þar hefur komið í ljós hversu þær alþjóðastofnanir og bandalög, sem við þó höfum, eru vanbúin til að taka á slíkum innanlandsátökum og koma til aðstoðar.

    Mig langar að vekja athygli á frásögn sem birtist í Morgunblaðinu sl. sunnudag um ferð til Tékkóslóvakíu sem ég veit ekki hvort þingmenn hafa lesið. Í rauninni var sú frásögn afar sorglegt dæmi um það hve fátt hefur breyst í landi, eins og Tékkóslóvakíu vegna þess að menn hafa ekki treyst sér eða ekki farið í það verk að hreinsa til í kerfinu og gamla ,,bírókratíið`` malar þar hægt og bítandi.
    Jafnvel í okkar heimshluta, í Evrópu, er afar fjölbreytt og mismunandi menning sem ber að varðveita og hugarfarið er mismunandi. Það kemur ekki síst fram í samskiptum þeirra þjóða sem nú takast á í austurhluta álfunnar.
    Í umræðunum hér í gær var forsrh. að því spurður og utanrrh. hver væri óvinurinn í ljósi þess sem sagt er í skýrslunni um nauðsyn öryggis- og varnarbandalags. Hverjum á að verjast. Hæstv. forsrh. svaraði því svo: ,,Óvinurinn er óvissan.`` Hann var þar að vísa til Austur-Evrópu og nefndi þau svæði þar sem vopn er enn að finna.
    Ég held að við eigum umfram allt að forðast að koma okkur upp nýjum óvinaímyndum í stað þeirra sem eru nýlega horfnar. Að mínum dómi ógna ríki Austur-Evrópu og hin fyrrverandi ríki Sovétríkjanna ekki heimsfriði, en þau þurfa vissulega á mikilli aðstoð að halda og það er einmitt þörfin fyrir aðstoð sem dregur mjög mikið úr hættu á átökum. Ég held sem sagt að engin ástæða sé til að óttast óvissuna í austri. En hitt er annað mál að þær þjóðir búa yfir miklum vopnabúrum og hættulegum og það er mikið framtíðarverkefni að semja um það hvernig frá þeim málum verði gengið og þá á ég ekki síst við kjarnorkuvopnin.
    Sú mikla þróun, sem átt hefur sér stað í afvopnunarmálum, hefur furðulítið komið við sögu í þessari umræðu. Á því sviði höfum við horft upp á mikla atburði gerast á undanförnum árum þar sem stórveldin hafa samið um fækkun, bæði kjarnorkuvopna og hefðbundinna vopna, svo og fækkun í herjum sínum og það auðvitað tengist hinum miklu breytingum í álfunni en þó er mikið verk óunnið, einkum í afvopnun á höfunum en það er auðvitað mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að árangur náist í þeim efnum.
    Hv. þm. Björn Bjarnason vék að því í dag að ekki væri mikið að marka ýmsar fjöldahreyfingar sem hefðu þrýst á t.d. í afvopnunarmálum en mín skoðun er sú að sú þróun, sem við höfum horft upp á á undanförnum árum, sé ekki síst að þakka friðarhreyfingum, hinum miklu fjöldahreyfingum sem beittu margvíslegum óhefðbundnum aðferðum til að hafa áhrif á ráðamenn og náðu stórkostlegum árangri. En auðvitað áttu breytingarnar í Sovétríkjunum ekki síður þátt í þessari ánægjulegu þróun sem sumir hafa kallað afvopnunarkapphlaupið.
    Eins og ég nefndi hér áðan horfir þessi skýrsla á heiminn út frá sjónarhóli Evrópu og áhyggjur koma hér fram um ástandið í austurhluta álfunnar. En mér finnst í rauninni furðulítið gert af því að horfa á þann heim sem kannski er okkur þar næstur og þá er ég að tala um svæði við sunnanvert Miðjarðarhaf og hinn arabíska heim. Að mínum dómi er þar helst að vænta óróa og þar er þegar mikill órói á ferð. Þar takast á miklir hugmyndastraumar. Þar hefur bókstafstrúarmönnum vaxið mjög fiskur um hrygg og við horfum þar líka upp á afleiðingar hins hörmulega stríðs við Persaflóa sem hefur skilið eftir sig mikil sár. Þar voru vopnin látin tala og efnahagsþvinganir fengu ekki að vinna sitt verk en síðan var skilið við í miðjum klíðum og harðstjórinn fær að sitja þar áfram.
    Ég held að mjög mikil ástæða sé fyrir Evrópubúa að beina sjónum að heimi Araba og reyna að skilja hvað þar er að gerast. Við þurfum að skilja að þetta er annar menningarheimur, þarna ríkir annar hugsunarháttur. Við eigum ekki að óttast þennan heim, við eigum ekki að búa okkur til nýja óvini á þeim slóðum heldur fyrst og fremst að reyna að skilja hvað þar er á ferð. Þetta tengist einum hluta hins múslímska heims sem er Tyrkland og ég get ekki látið hjá líða hér að minnast aðeins á Kúrda. Fáar þjóðir hafa sætt jafnhörmulegum örlögum og Kúrdar. Þeir urðu fórnarlömb Persaflóastríðsins og þeir sæta nú ofsóknum af hendi tyrkneskra stjórnvalda. Reyndar er það svo að það mál hefur komist í fréttir nú undanfarna daga vegna þess að keyrt hefur um þverbak. Gerðar hafa verið loftárásir á þorp Kúrda og þar eiga sér stað handtökur og ýmiss konar aðgerðir af hálfu lögreglu og hers en sannleikurinn er sá að þetta er daglegt brauð. Þrátt fyrir það að Tyrkir hafi undirritað ýmsa mannréttindasáttmála og séu aðilar að Evrópuráðinu er það staðreynd að í Tyrklandi eiga sér stað mikil mannréttindabrot. Ég vil ítreka það sem fram kom í umræðum í síðustu viku að íslensk stjórnvöld láti frá sér heyra varðandi málefni Kúrda og geri athugasemdir við tyrknesk stjórnvöld. Við erum í bandalagi með þessari þjóð, Tyrkjum, og okkur ber skylda til að gera athugasemdir og veita þeim ákúrur fyrir framkomu þeirra við Kúrda. Þess má minnast að þetta er ekki í fyrsta skipti sem tyrknesk stjórnvöld ganga á hólm við minnihlutahópa í sínu landi. Árið 1915 var gerð mikil og hörkuleg árás á Armena í Tyrklandi í þeim tilgangi að útrýma þeim. Nokkur hundruð þúsund Armenar sluppu yfir til næstu ríkja, m.a. komst hópur Armena alla leið til Bandaríkjanna og til skamms tíma hafa þeir verið að reyna að fá tyrknesk stjórnvöld til að viðurkenna þessa atburði en sú viðurkenning hefur ekki fengist enn þá svo ég viti. Tyrkir eiga sér því langa sögu hervirkja og þeir eru ekki mjög vel að sér í lýðræði og lýðræðishefðum. Það þarf virkilega að halda þeim við efnið í þeim málum.
    Ég vil aðeins nefna Palestínumálið og þá atburði sem þar hafa átt sér stað. Á bls. 52 í skýrslunni er vikið að málefnum Palestínu og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þá varð áframhald ,,Intifada``, andófs Palestínumanna gegn hernámi Ísralesmanna á Vesturbakka Jórdanar og Gaza-svæðinu, og skammsýnn stuðningur útlægrar forustu frelsissamtaka Palestínu, PLO, við

innrás Íraka í Kúvæt til þess að styrkja stöðu hófsamari leiðtoga Palestínumanna á herteknu svæðunum.``
    Mér þykir þetta nokkuð einkennileg túlkun. Ég veit ekki betur en forusta PLO hafi ítrekað reynt að leiðrétta þann misskilning að þeir hafi lýst yfir stuðningi við Íraka vegna innrásarinnar í Kúvæt. Þeir reyndu að beita sér í því máli til þess að koma í veg fyrir innrásina og þeir hafa svo sannarlega fengið að gjalda fyrir enda var mikill fjöldi Palestínumanna búsettur í Kúvæt. Mér þykir þessi afstaða sem hér kemur fram gagnvart PLO bera svolítinn keim af afstöðu Ísraelsmanna sem aldrei hafa viljað viðurkenna PLO en vilja fá hina hófsamari leiðtoga, eins og það er hér kallað, á herteknu svæðunum til þess að tala þeirra máli.
    Ég vil í þessu samhengi minna á samþykkt Alþingis frá 18. maí 1989 þar sem segir í síðustu setningu, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi telur að Ísland eigi að hafa vinsamleg samskipti við frelsissamtök Palestínu, PLO.``
    Þetta þýðir auðvitað ekki að samþykkja eigi allt sem gert er í þeim samtökum enda er það mikil flóra og ýmsar skoðanir þar á ferð en þetta mál er afar flókið og alveg lágmark að fara rétt með staðreyndir.
    Þá langar mig til þess að víkja hér nokkuð að þriðja heiminum og þróunarmálum. Við höfum horft upp á það á undanförnum áratugum, þrátt fyrir miklar framfarir í heiminum, að andstæður milli suðurs og norðurs eru stöðugt að aukast. Það er ástæða til þess að ætla að sú þróun, sem um margt er ánægjuleg, sem hefur átt sér stað í Evrópu verði frekar til þess að auka þennan mun en minnka. Það er vegna þess að Vesturlönd vilja gjarnan styðja ríki í Austur-Evrópu til framfara og menn óttast að þá muni um leið draga mjög úr stuðningi við þriðja heims ríkin. Þá óttast menn það líka að hin bættu samskipti austurs og vesturs verði til þess að þessar tvær fyrrverandi andstæðu blokkir sameinist sem eins konar lögregla heimsins. Það er þróun sem ber að varast og væri heldur til hins verra ef þróunin í Austur-Evrópu yrði til þess að auka vald hinna ríkari þjóða í heiminum.
    Þegar kemur að þriðja heiminum og afstöðunni til hans í skýrslunni er allt séð með augum Evrópu. Það er ástæða til að lýsa yfir ánægju með það hvernig hér er reynt að draga upp hin stóru vandamál sem við er að glíma í þriðja heiminum en þau eru séð frá sjónarhóli Evrópubúa. Í skýrslunni eru í fyrsta lagi nefndar GATT-viðræðurnar og áhrif þeirra en talið er að ef GATT-samningurinn kemst í höfn muni hann um margt hafa góð áhrif á stöðu þriðja heimsins, ekki síst vefnaðariðnað sem þar er víða mikill en þeir eiga erfitt með að koma sínum vörum á framfæri vegna ýmiss konar hafta í hinum iðnvæddu löndum. En það er nú svo að þarna sem víðar eru það hinar ríku þjóðir sem standa í veginum. Það eru fyrst og fremst Bandaríkin og Evrópubandalagið sem takast á í GATT-samningunum og koma í veg fyrir að þeir samningar náist og ekki síst Evrópubandalagið.
    Í öðru lagi er vikið að þróunaraðstoð hinna ríku landa sem hefur verið allveruleg en eins og hér er vikið að réttilega hafa vaknað mjög margar spurningar um gildi þessarar vestrænu aðstoðar vegna þess að það hefur komið í ljós að peningarnir fara meira og minna í hina vestrænu starfsmenn og skila sér í litlu auk þess sem aðstoðin hefur öll verið með vestrænum hætti og frá vestrænu sjónarhorni. Henni hefur fyrst og fremst verið beint að körlum og hefur oft á tíðum orðið til þess að raska mjög þeim samfélögum sem átti að hjálpa og þá til hins verra. Menn hafa verið að troða ýmiss konar vestrænum gildum upp á þjóðir þriðja heimsins.
    Þá er í þriðja lagi vikið að flóttamannastraumi frá þriðja heims ríkjum til Evrópu. Það vekur athygli okkar á því að þarna er um mjög alvarlegt vandamál að ræða sem þarf að taka á, ekki síst með samræmdri löggjöf Evrópuþjóða. Vissulega er við mikil vandamál að stríða í þriðja heiminum en auðvitað eru takmörk fyrir því hvað Evrópa getur tekið við af flóttamönnum. Ég vil nefna það að mér barst nýlega bréf frá Caritas, hjálparstofnun kaþólsku kirkjunnar. Ég veit ekki hvort öðrum hefur borist það en ég þykist vita að ég hafi fengið það vegna þess að ég er fulltrúi í Evrópuráðinu. Þar er einmitt verið að vekja athygli á nauðsyn samræmdrar löggjafar hvað varðar flóttamenn og innflytjendur. Ég vil enn skora á hæstv. dómsmrh., af því að ég sé að hann stendur hér í hliðarherbergi, að taka sig nú til og endurskoða hina íslensku innflytjendalöggjöf.
    Í fjórða lagi, þar sem verið er að ræða um vandamál þriðja heimsins, er vikið að spillingu náttúrunnar. Og mikið rétt, hún er veruleg í þriðja heiminum og ekki síst er þar um að ræða uppblástur og eyðingu skóga sem við höfum miklar áhyggjur af enda er þar verið að ganga á súrefnisforða heimsins.
    Síðast en ekki síst er vikið hér að heimi múslima og þar kemur fram að margir spá því að þar sé að finna og verði að finna eina helstu átakalínu heimsmála á næstu árum og áratugum. Eins og ég nefndi áðan tel ég að veruleg ástæða sé til þess að skoða þau mál mjög rækilega.
    Það sem ekki er nefnt vekur auðvitað athygli í þessu samhengi. Hér er t.d. ekki minnst á hina gífurlegu fólksfjölgun sem á sér stað í þriðja heiminum og er sennilega eitthvert alstærsta vandamál sem við er að glíma á jörðunni. Þar verður að nefna að ég tel að kaþólska kirkjan sýni í rauninni mikið ábyrgðarleysi í þeim efnum. Mér finnst það ábyrgðarleysi að halda fast í bókstafinn og horfast ekki í augu við vandamál og örbirgð heimsins og veita ekki sínu fólki upplýsingar og aðstöðu til þess að nota getnaðarvarnir.
    Ég býst við að ef þriðja heims ríkin væru beðin að svara þeirri spurningu hver væru þeirra helstu vandamál mundu þau nefna ýmislegt annað en það sem nefnt er í þessari skýrslu. Þar má nefna fátækt og

misrétti, m.a. misrétti milli karla og kvenna, sjúkdóma, ófrið og þjóðfélagsátök, vatnsskort og uppblástur, harðstjórn og pólitískar ofsóknir, heljargreipar fyrrverandi stórvelda heimsins á þeirra efnahagslífi og ýmislegt fleira. Þar með komum við að þeirri spurningu hvað við Íslendingar getum gert til þess að bæta ástandið. Ég get tekið undir þau orð sem fram koma í skýrslunni að aðstoð Íslendinga við þriðja heiminn sé skammarlega lítil. Við sem sitjum á Alþingi getum ekki skotið okkur undan því að taka á þessum málum og gera markvissa áætlun til þess að ná því takmarki sem Alþingi hefur samþykkt að skuli náð.
    Í þessu samhengi vil ég nefna konur í þróunarlöndunum sérstaklega og minnast á það að Íslendingar hafa þó lítillega komið þar við sögu. Hér er starfandi á landinu deild í samtökunum UNIFEM, sem er þróunarsjóður á vegum Sameinuðu þjóðanna, og nýlega hafa þær gert samning um yfirtöku á verkefnum Þróunarsamvinnustofnunar í kvennahúsinu í Mindelo á Grænhöfðaeyjum. Ég tel að þarna sé um að ræða verkefni af því tagi sem á að beina sjónum að, að aðstoða ákveðna hópa, reyna að finna hvað það er sem kemur að gagni. Til þess að upplýsa þingheim aðeins um þennan merkilega sjóð, UNIFEM, sem var stofnaður í kjölfar kvennaáratugs Sameinuðu þjóðanna, þá segir í fréttabréfi um þróunarmál frá því í febrúar 1992, með leyfi forseta:
    ,,Markmið UNIFEM er tvíþætt. Annars vegar að veita fjárhagslega og tæknilega aðstoð til samvinnuverkefna kvenna á sviði atvinnureksturs, fæðuframleiðslu, við orku- og drykkjarvatnsöflun ásamt heilsugæslu. Hins vegar að tryggja að jafnt tillit sé tekið til þarfa kvenna og karla í hinum ýmsum þróunarverkefnum.``
    Þessi samtök hafa stöðugt verið að færa út kvíarnar. Þar er nú mikið gert af því að reyna að tengja konur og umhverfismál saman og það hefur verið ákveðið að helga áratuginn sem nú stendur yfir, frá 1990--2000, efninu ,,Konur, umhverfi og þróun``.
    Það er nokkuð merkilegt hvað athygli þeirra sem talað hafa í þessari umræðu hefur lítið beinst að GATT-viðræðunum og það er kannski að finna skýringu á því hversu stutt er síðan GATT-slagurinn, eins og menn hafa kallað hann, átti sér stað hér í þingsölum, GATT-slagurinn 1992. Ég vildi gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvað sé að frétta af því máli og hvernig hann metur stöðu þessara samninga núna. Það er nýkomin fram skýrsla þeirrar nefndar sem landbrh. skipaði til þess að kanna áhrif GATT-samninganna á íslenskan landbúnað. Þar varð niðurstaðan nokkuð í þeim dúr sem sumir ræddu í þeirri umræðu sem átti sér stað að menn væru að draga upp allt of dökka mynd af áhrifum GATT-samningsins og ég vona svo sannarlega að það fari að draga til tíðinda í GATT-samningunum.
    Þá ætla ég að lokum að koma aðeins að hinu Evrópska efnahagssvæði og Evrópubandalaginu. Eins og ég nefndi í upphafi vil ég undirstrika það að öll þessi umræða þarf að vera opin og skoða þarf þessi mál frá öllum hliðum. Hér hafa menn lýst því yfir fjálglega að þeir hafi lesið bæði Rómarsáttmálann og Maastricht-samkomulagið og þekki þessa samninga út og inn. En það breytir auðvitað litlu þótt einstakir þingmenn, jafnvel allir þingmenn, hafi kynnt sér þessa samninga rækilega. Þjóðin þarf að vita hvað um er að ræða og það skiptir mjög miklu máli að þjóðin viti hverju er verið að hafna, því ég gef mér það að við höfnum aðild að Evrópubandalaginu, og það er í fyrsta lagi vegna sjávarútvegsstefnunnar, í öðru lagi vegna þeirrar miklu miðstýringar sem einkennir þetta bandalag og þetta er karlstýrt bandalag. Þar er hlutur kynjanna mjög fjarri því sem við þekkjum á Norðurlöndum. Og síðast en ekki síst vegna þess að í uppsiglingu er nýtt ríkjabandalag sem enginn veit enn þá hvert fer eða hvað mun af leiða.
    Ég er líka þeirrar skoðunar að við eigum að standa utan hins Evrópska efnahagssvæðis ef sá samningur verður að veruleika vegna þess að ég óttast það að ef við stígum fyrsta skrefið verðum við líka að stíga annað skrefið, þ.e. að aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði muni leiða okkur inn í Evrópubandalagið. Ekki vegna þess að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði ,,per se`` leiði til aðildar heldur vegna þess hve hann verður ófullnægjandi þegar til lengri tíma er litið. Það er verið að búa þarna til mikið bákn, ólýðræðislegt bákn og það er ekki bara hér sem menn láta í ljós efasemdir varðandi þennan samning heldur eru þær efasemdir ekki síður að finna innan Evrópubandalagsins og þá ekki síst á Evrópuþinginu. Þar segja menn: Við ætlum ekki að láta þessi EFTA-ríki segja okkur fyrir verkum. Við ætlum ekki að láta þau hafa áhrif á gang mála.
    Það kemur víða fram í því sem rætt er og ritað um hið Evrópska efnahagssvæði að þarna verður um þvílíkt skipulagsskrímsli að ræða að það mun ekki duga til lengdar. Menn munu fljótlega fara að glíma við framhaldið. Þar að auki þá hljótum við að velta því fyrir okkur hver okkar staða verður ef Norðurlöndin og Austurríki ganga í Evrópubandalagið og við stöndum ein eftir ásamt Liechtenstein, hugsanlega Sviss. En við skulum auðvitað ekki gefa okkur það að aðild að Evrópubandalaginu verði samþykkt í þessum löndum.
    Ég vil líka minna á það sem Willy Brandt sagði þegar hann var hér á ferð, líklega í hittiðfyrra. Hann var mjög að undrast umræðuna um Evrópubandalagið, hér sem annars staðar, og lýsti þeirri skoðun sinni að það mundi verða mjög ófullnægjandi fyrir ríkin á hinu Evrópska efnahagssvæði að verða að sæta lögum og samþykktum Evrópubandalagsins innan ramma samningsins en geta litlu ráðið um breytingar og framkvæmd. Minn ótti er því fyrst og fremst þessi: Þegar búið er að segja A þá verða menn að segja B. Auðvitað, eins og ég hef nefnt hér áður, veit ég ekki hver er þess umkominn að spá um það hvernig ástandið verður eftir 5--10 ár. Við skulum ekki gleyma því að auðvitað fylgja kostir bæði EES-samningnum og Evrópubandalaginu. Ég met hins vegar stöðuna þannig að gallarnir séu meiri eins og

málin blasa við.
    Ég verð að segja það að ég treysti mér ekki til þess að hafna aðild að Evrópubandalaginu um aldur og ævi. Ég get ekki gefið mér það að ekki muni verða breytingar eða við munum standa í þeim sporum að verða að gera eitthvað annað eða telja hagsmunum Íslands betur borgið á annan hátt þegar kemur fram á næstu öld.
    Mér finnst að umræðan eins og hún er að þróast sé að verða nokkuð svart-hvít og ég vil vara við því að menn festist í þeim sporum. Ég ætla að vitna í þá umræðu sem átti sér stað hér í gærkvöldi og í orð hv. 4. þm. Austurl. þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að hann hefði verið að líta á þessi mál, þ.e. Evrópubandalagið og EES ,,í þeirri vídd sem ber að líta á þau.`` Og hann komst einnig svo að orði: ,,Beislinu var smeygt upp á Svía og Finna.`` Mér finnst gæta nokkurs hroka í þessum ummælum og þingmaðurinn sé bæði að gefa sér það að hann hafi fundið hina réttu leið til að skoða þessi mál og í rauninni gefa sér það að eitthvert skrímsli sé búið að krækja klónum í Svía og Finna. Mér finnst í raun og veru að verið sé að gera mjög lítið úr hinni lýðræðislegu umræðu. Ég vara þingmenn við að tala svona. Við erum rétt í upphafi umræðunnar og við eigum að draga fram hér rök og mótrök.
    Hv. 4. þm. Austurl. komst líka þannig að orði að við stæðum frammi fyrir því hvenær valdinu og valdakerfinu á Íslandi leyfðist að draga Ísland að þessu samningaborði um aðild að Evrópubandalaginu. Mér finnst menn vera að draga þarna upp, eins og í GATT-umræðunni, heldur dökka mynd af ástandinu og ég held einfaldlega að pólitísk umræða um svo alvarleg mál eigi að fara fram með rökum en ekki slíkum stórfullyrðingum. Þetta ber nokkurn vott um samsæriskenningar um hin illu öfl sem alls staðar séu á ferðinni og gott og illt takist á en málin eru auðvitað ekki svo einföld. Við erum að ræða um kosti og galla og ég ítreka að ég tel gallana vera meiri en kostina. En ég vil að umræðan sé málefnaleg og lýðræðisleg og það er nú einu sinni partur af lýðræðinu að sætta sig við vilja meiri hlutans og það er hlutverk þjóðkjörinna þingmanna að ræða málin með málefnalegum hætti.
    Að lokum, herra forseti, sú framtíð sem ég vil sjá fyrir Ísland er sú að Ísland skipi sér í hóp þeirra þjóða sem tala máli friðar, mannréttinda, jöfnuðar og náttúruverndar í heiminum. Í því liggja hagsmunir okkar fyrst og fremst. Við erum ein örfárra þjóða í heiminum sem getum tjáð okkur hræsnislaust um stöðu heimsmála vegna þess að við höfum aldrei lýst yfir styrjöld á hendur nokkurri þjóð. Við virðum mannréttindi þokkalega vel og tilheyrum enn hinu norræna velferðarkerfi sem til skamms tíma hefur þótt til fyrirmyndar hvað sem um það mun verða. Þessa stöðu eigum við að varðveita um leið og við metum upp á nýtt þær ytri aðstæður sem við búum við og fram undan eru.