Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 21:28:00 (4972)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég hlýt næstum að þakka fyrir það að fá að taka nú til máls vegna þess að fjöldi þingmanna hefur vottað það að ég bað hér um orðið fyrst allra eftir að framsögumaður, hæstv. utanrrh., hóf mál sitt í gær og nú er komið á tíunda tíma daginn eftir. Það er sannarlega virðingarvert að ég skuli fá að hefja hér mál mitt.
    Hæstv. forseti. Hér hafa farið fram að mörgu leyti áhugaverðar umræður og margt skynsamlegt komið fram í þeirri umræðu og skal ég reyna í máli mínu að endurtaka ekki það sem ég var sammála um í máli manna. Ég hef þess vegna tekið þann kost að renna í gegnum þessa miklu skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur hér lagt fram og mun reyna að koma inn á þau atriði sem mér finnst skipta meginmáli. Það fór þó svo að ég staldraði strax við þriðju línu í inngangi þessarar miklu skýrslu, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á þeim tæpu fjórum áratugum, sem liðnir eru frá stofnun lýðveldisins, hafa höfuðmarkmið íslenskrar utanríkisstefnu verið í því fólgin að tryggja sjálfstæði landsins og aðgang þess að útlendum viðskiptamörkuðum og tryggja og varðveita yfirráð yfir auðlindum þjóðarinnar.``
    Fyrsta spurning mín hlýtur því að vera: Hvað eru auðlindir þjóðarinnar?
    Í annars ágætri ræðu sinni í gær kom hv. 10. þm. Reykv. inn á auðlindir jarðarbúa og talaði um náttúru jarðarinnar. Sú náttúra er því aðeins auðlind að mennirnir geti umgengist hana og þess vegna er ég ósammála hv. 10. þm. um það hvað sé hin raunverulega auðlind jarðarinnar. Það er að sjálfsögðu maðurinn sjálfur, hamingja hans og velferð. Nú veit ég ekki hvort þetta var of mikið fyrir hæstv. utanrrh. en ég mundi mælast til þess að ég fái að sjá til hans þó að ég virði það af sérstökum ástæðum að hann gangi hér um gólf þar sem mér er kunnugt um að hann á erfitt með að sitja. En ég vænti þess að hann hlýði á mál mitt þar sem ekki eru fleiri ráðherrar viðstaddir þessa mjög svo mikilvægu umræðu. En það mætti

gjarnan koma oftar fram í umræðum á Alþingi fyrir hvern við erum að berjast, hvers velferð við erum að tryggja. Þess vegna held ég að umræðan ætti að snúast um sjálfstæði og öryggi þeirrar einu sönnu auðlindar sem Íslendingar eiga sem eru Íslendingar sjálfir. Þetta hygg ég að sé mjög mikilvægt atriði að menn íhugi áður en lengra er haldið, og ekki síst í umræðunni um Evrópubandalagið og Evrópskt efnahagssvæði sem ég mun koma að síðar.
    Síðan segir hæstv. utanrrh. í inngangi sínum að með tvíhliða samningum og með þátttöku í alþjóðlegu viðskiptasamstarfi, þar á meðal í EFTA og GATT hafi stjórnvöld komist að hagstæðum kjörum í viðskiptum við aðrar þjóðir og það er mikið til í því. En menn taka eftir ,,með tvíhliða samningum``. Síðar í skýrslunni er lögð áhersla á ,,tvíhliða viðræður við Bandaríkjamenn um varnir þjóðarinnar`` og svo framvegis. En þessir ,,tvíhliða samningar`` sem hafa gefið svo góða raun virðast ekki hafa orðið hæstv. utanrrh. að fyrirmynd þegar kemur að þeim samningum sem hér hafa verið gerðir að umræðuefni.
    Við stöndum auðvitað á mjög erfiðum tímum og það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður sagði, það er mjög erfitt að horfa fram á veginn og reyna að gera sér grein fyrir í hvers konar veröld við lifum á næstu árum, að ég tali nú ekki um á næstu öld. Þegar ég var mjög ung las ég bók sem hefur orðið mér eftirminnilegri en margar og jafnvel flestar aðrar erlendar bækur en það var bók Stefans Zweig ,,Veröld sem var`` í ágætri þýðingu Ingólfs Pálmasonar. Bókin lýsti veröld sem var að lokinni heimsstyrjöldinni. Sannleikurinn er sá að ég hygg að við séum í svipuðum sporum núna og Stefan Zweig var þegar hann reit þessa merku bók sína. Við lifum í algerlega nýrri Evrópu. Í þingmannaheimsókn sem ég fór í til Tékkóslóvakíu fyrir nokkrum dögum, sem ég mun aðeins koma inn á síðar, var þessi bók mér mjög ofarlega í huga því að mér fannst ég standa í ,,veröld sem var``. Það er auðvitað ekki vandalaust að bregðast við nýrri veröld á nokkurra áratuga fresti eins og við, sem á þessari öld lifum, höfum orðið að gera og forfeður okkar.
    En ég ætla að snúa mér fyrst að Evrópuumræðunni. Hér er sorglegt að sjá hversu fáir eru viðstaddir vegna þess að mér er ekki grunlaust um að fjölmargir hv. þm. hefðu gott af að fá smásagnfræðilega yfirferð um hvað erum við að ræða um. Ég ætla þess vegna að gerast svo djörf að fara aðeins ofan í upphaf efnahagssamvinnu Evrópuríkja. Hafi menn ekki tíma til að sitja þennan þingfund þá er að minsta kosti hægt að lesa þá yfirferð í þingtíðindum.
    Þegar síðari heimsstyrjöldinni lauk vaknaði mikill áhugi á samvinnu ríkja og er tilkoma ýmissa fjölþjóðasamtaka á fyrstu árunum eftir stríð til marks um þennan áhuga. Í Evrópu varð Efnahagssamvinnustofnun Evrópu OEEC til árið 1945, sem síðar varð Efnahags- og framfarastofnun Evrópu OECD árið 1960, og Evrópuráðið 1949. Sama gildir um Kola- og stálbandalagið sem stofnað var árið 1951 og Efnahagsbandalagið og Kjarnorkubandalagið sem stofnuð voru 1957. Tvær meginástæður ollu myndun þessara bandalaga og skal reynt að gera þeim nokkur skil því að erfitt er að ræða þessi mál án þess að geta sögu þeirra að nokkru.
    Í fyrsta lagi kom til veik efnahagsleg og pólitísk staða Vestur-Evrópuríkja eftir heimsstyrjöldina. Þessi ríki höfðu glatað fyrri valdastöðu og stóðu nú í skugga Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sem voru hernaðarlega og efnahagslega miklu sterkari en misjafnlega illa farin ríki Vestur-Evrópu. Menn töldu að eina leiðin til að tryggja efnahagslega velmegun og tæknilega framþróun til jafns við Bandaríkin væri aukin samvinna ríkjanna. Endurreisn hagkerfis ríkjanna eftir eyðileggingar stríðsins og bætt lífskjör almennings væru undir því komin að ríkin efndu til efnahagslegrar samvinnu. Í því sambandi töldu menn að frjáls og hindrunarlaus viðskipti væru öruggasta leiðin til að tryggja hagvöxt og bætt lífskjör. Því verður ekki neitað að Evrópubandalagið og Fríverslunarbandalagið EFTA hafa gegnt veigamiklu hlutverki í efnahagslegri --- og ég sagði efnahagslegri --- endurreisn Evrópu og verið að nokkru forsenda fyrir bættum lífskjörum íbúa aðildarríkjanna ásamt efnahagsaðstoð Bandaríkjamanna, af Marshall-aðstoðinni sem flestir þekkja.
    Önnur meginástæða fyrir ríkjasamvinnunni var sterkur vilji manna til að koma í veg fyrir frekari styrjaldir milli ríkja Evrópu. Reynsla Evrópubúa af tveimur heimsstyrjöldum, sem hófust í álfunni og þar fóru meginátökin fram, var á þann veg að engan fýsti að eiga það á hættu að til slíks kæmi á ný. Menn yrðu að lifa saman í friði. Skapa yrði forsendur til þess að stríðsátök milli ríkja Evrópu yrðu ekki aðeins ólíkleg heldur óhugsandi. Mikilvægt skref í þá átt var sameining Evrópuríkja í eina efnahagslega heild. Margir bundu einnig vonir við að samhliða eða í framhaldi af slíkri efnahagssamvinnu kæmi til pólitísk sameining ríkjanna í álfunni sem mundi tryggja enn frekar varanlegan frið þeirra í milli. Sú hugsun var skiljanlegri þar sem landamæri höfðu flust til eftir styrjaldir og þjóðerni því óljóst meðal þjóða sem þrátt fyrir allt höfðu samt sterka þjóðerniskennd. Pólitísk sameining hefur engin orðið meðal ríkja Evrópubandalagsins og hvert ríki hefur að mestu haldið pólitísku fullveldi sínu. Eða hafa þau það? Inn á það verður komið seinna. En hin nána efnahagslega og pólitíska samvinna sem átt hefur sér stað milli ríkja Evrópubandalagsins hefur vissulega gert hugsunina um vopnuð átök milli þeirra óraunverulega, a.m.k. að sinni.
    En vitanlega var það ekki samvinnuhugsjónin ein sem réð ferðinni. Stofnun Evrópubandalagsins styrkti einnig pólitíska stöðu hinna einstöku ríkja í Evrópu. Frakkar litu efalaust á Evrópubandalagið sem tæki til að tryggja Frakklandi ákveðna forustu meðal Evrópuþjóða. Vestur-Þjóðverjar og Ítalir þörfnuðust nýrrar tiltrúar annarra Evrópuríkja og minnstu ríkin í bandalaginu, Holland, Belgía og Lúxemborg eygðu leið til að hafa áhrif á gang mála í álfunni með þátttöku sinni í bandalaginu. Þá þjappaði kalda stríðið ríkjum Vestur-Evrópu saman í andstöðunni við Sovétríkin og Bandaríkin hvöttu þess vegna mjög til pólitískrar og efnahagslegrar samvinnu milli ríkja Vestur-Evrópu.
    NATO var hinn hernaðarlegi armur slíkrar samvinnu og um hernaðarbandalagið var meiri eining milli ríkjanna en um efnahagssamvinnu. Nokkuð skorti nefnilega á að samkomulag væri um hvernig efnahagssamvinnan skyldi vera og því tókst ekki að mynda efnahagsbandalag sem hefði innan vébanda sinna flest ríki Evrópu. Þess í stað mynduðust tvær meginblokkir í Evrópu. Evrópubandalagið sem var samband sex ríkja og Fríverslunarsamtök Evrópu sem var upphaflega sjö ríkja samsteypa en síðar urðu ríkin níu. Þessi tvö bandalög voru ljóst dæmi um ólíkar hugmyndir manna um samvinnuna.
    Þegar grunnurinn var lagður að núverandi Evrópubandalagi með stofnun Kola- og stálbandalags Evrópu árið 1951 voru stofnríkin sex talsins. Belgía, Frakkland, Ítalía, Holland, Lúxemborg og Vestur-Þýskaland. Þessi sömu ríki stóðu síðan að myndun Efnahagsbandalags Evrópu og Kjarnorkubandalagsins árið 1957, en þessi þrjú bandalög eru uppistaðan í Evrópubandalaginu. Árið 1973 bættust þrjú ríki í hópinn en það voru Bretland, Danmörk og Írland. Ríkisstjórn Noregs hafði tekið þátt í umræðum um inngöngu en meiri hluti Norðmanna hafnaði aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Árið 1983 urðu Grikkir aðilar og Spánn og Portúgal gengu í bandalagið árið 1986. Sumir telja að Evrópubandalagið eigi enn eftir að stækka. Austurríkismenn og Tyrkir hafa þegar sótt um inngöngu og vonast til að gerast aðilar fyrir aldamót. Eins og allir þekkja hafa farið fram umræður innan allra EFTA-ríkjanna sem ekki eru aðilar, þ.e. Finnlands, Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Sviss. Og nú hafa Austurríkismenn tekið ákvörðun um að sækja um aðild.
    En eiga þessi ríki auðvelda innkomu í Evrópubandalagið? Því fer fjarri. Á fundi sem haldinn var í Genf 16. mars sl. þar sem voru saman komnar EFTA-nefndir EFTA-ríkjanna flutti Marcelino Oreja, formaður allsherjarnefndar Evrópuþingsins, fyrirlestur. Hann er fyrrverandi utanríkismálaráðherra Spánar og fyrrverandi aðalritari Evrópuráðsins. Hann gerði grein fyrir stöðu hinna tólf ríkja Evrópubandalagsins og sagði að tólf ríki væru hámark eins og uppbygging Evrópubandalagsins væri núna. Evrópubandalagið gæti ekki tekið við fleiri ríkjum nema með gjörbreytingu á uppbyggingu bandalagsins. Þegar Oreja hafði lokið máli sínu áttum við þingmenn kost á að spyrja hann spurninga. Ég spurði hann þá hvort hann væri hér með að segja okkur það svo að dæmi væri tekið hvort Íslendingar ættu einhverja von um að komast inn sæktu þeir um aðild á morgun. Oreja svaraði því alveg hreinskilnislega: Nei, slíkt kæmi ekki til greina. Mér varð þá litið á sessunaut minn, norska fulltrúann, og spurði því hvort sama gilti um Norðmenn og hann taldi það einnig. Hann útskýrði fyrir okkur að valdakerfi Evrópubandalagsins væri á þann veg að óhugsandi væri að ríki bandalagsins gætu sætt sig við inngöngu smáríkja á borð við Möltu, Kýpur, Ísland og Liechtenstein og þar gæti komið til greina að búa þyrfti til samsteypur hinna litlu ríkja, eins konar ,,búketta``, blómvendi smáríkja. Má hugsa sér hversu fáranleg samsetning það væri að Ísland, Malta, Liechtenstein og Kýpur yrðu eins og eitt ríki í þessari miklu ríkjasamstæðu. Slíkt er auðvitað fráleitt með öllu.
    Síðan hafa komið upp miklir árekstrar milli Evrópuþingsins annars vegar og Evrópubandalagsins hins vegar. Mér finnst oft --- og ekki veit ég nú hvort hæstv. utanrrh. heyrir mál mitt --- að allar fréttir, allar upplýsingar um þessi mál séu meira en misvísandi. Og svo er einnig um þá skýrslu sem hér liggur fyrir. Þess vegna vildi ég óska þess, þrátt fyrir alla umræðu um sparnað í utanlandsferðum þingmanna og ráðherra, að sem allra flestir hv. þm. ættu þess kost að fara suður fyrir Alpafjöllin og heyra hvernig rætt er um þessi mál þar. Ég skal þess vegna ekki eyða fleiri orðum um það að vitanlega er Evrópubandalagsaðild ekki á dagskrá og það hafa sem betur fer ráðherrar ríkisstjórnarinnar staðfest hér og síðast hæstv. forsrh. sem klappaði hæstv. utanrrh. á kinnarnar með högg í huga í gærkvöldi. En þökk sé honum fyrir það.
    En hvað þá með EES? Menn hafa rætt hér að þeir viti ekki hvernig eigi að bregðast við þessu, hvernig Evrópa verði eftir tvö til þrjú ár. Að mínu viti skiptir það nákvæmlega engu máli. Ef menn eru á móti aðild Íslendinga að Evrópubandalaginu þá hljóta þeir líka að vera á móti samningi um Evrópskt efnahagssvæði og af hverju? Af því að bæði vinna á nákvæmlega sömu forsendum og sú ein forsenda nægir mér til að vera á móti hvoru tveggja, en hún er sú að þjóðþing aðildarlandanna afsala sér valdi sínu. Menn hafa verið að jagast um það hér hvort svo sé. Suður í Genf og suður í Brussel er sú umræða löngu liðin. Þar viðurkenna menn að sjálfsögðu að vitaskuld er þarna komið yfirþjóðlegt vald sem tekur vald af viðkomandi þjóðþingum. Ef við yrðum aðilar að hvoru sem væri yrðum við tilneydd að breyta hundruðum laga sem við höfum sjálf sett til að aðlaga þau að þeim lögum sem Evrópuþingið setur. Þetta nægir mér alveg. Ég þarf ekkert meira auk þess sem ég sé ekkert hvaða knýjandi nauðsyn kvelur mig til að gerast aðili að þessum samtökum. Það er satt að segja kyndugt að þeir sem mest hafa hamast og hæst hafa talað um miðstýrt skrímsli austantjaldslandanna dreymir nú um það eitt að búa til annað slíkt í Vestur-Evrópu.
    Það er mér eilíft ánægjuefni, það verður að segjast eins og er, að hlýða á hv. 3. þm. Reykv. tala um stjórnmál, einkum utanríkismál. Vegna þess að það er eins og hann hafi ekki opnað blað eða bók sl. 20--30 ár. ( ÖS: Fimmtán kannski.) Fimmtán kannski segir hv. þingflokksformaður Alþfl. Stundum eru ástæður þess sem gerist ljósari en margur heldur. Ég vissi nú ekki fyrr en hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, sagði mér það að ég hefði í öllu mínu pólitíska lífi verið hluti af neti alþjóðaheimskommúnismans. Þetta hef ég víst verið með því einu að vinna fyrir Alþb. Það vill nú svo til að ég hygg að hv. 3. þm. Reykv. hafi tíðar farið ferðir til austantjaldslandanna, m.a. Sovétríkjanna. Það vill nú svo til að þeir hafa ekki verið ánægðari með mig en svo að ég hef aldrei komið þangað, þannig að ekki get ég nú sagt að ég hafi verið í nánu samneyti við þá góðu herra. En það sem grínlaust skynsamur maður og vel gefinn maður og menntaður eins og hv. þm. Björn Bjarnason hefur ekki uppgötvað er að ,,fall kommúnismans`` eins

og hann segir, og það þarf eiginlega að skrifa þetta með sérstökum framburði, á sér ósköp einfalda ástæðu sem hefur í raun og veru ekkert með hugsjónir jafnréttis og bræðralags að gera. Nefnilega: Ástæðan fyrir hruni kommúnismans er einfaldlega sú sem við alþýðubandalagsmenn höfum alltaf vitað, að sósíalismi án lýðræðis er þverstæða sem ekki gengur. Þetta tvennt er óaðskiljanlegt ef byggja á þjóðfélag sem grundvallast á jafnrétti og bræðralagi. Höfuðmistök þeirra sem létu sig dreyma um að reka sósíalískt þjóðfélag eru að þeir gleymdu að lýðræði þarf að fara með. Af því súpa þeir nú seyðið. Hvort það er nú hin eina lausn þeirra ríkja sem nú standa í fullkominni upplausn að hoppa yfir í vestrænt samfélag eins og þau eru sum rekin hef ég jafnmiklar efasemdir um. Þetta hélt ég að væri öllu sæmilega menntuðu fólki nokkuð ljóst. Að lýðræði og sósíalískt þjóðfélag hlýtur að vera tvær greinar á sama meiði, annað er óhugsandi.
    Það hlýtur þess vegna að vera svar mitt við öllum þessum umræðum, sem eru löngu komin út í smáatriði sem um yrði að semja á miklu síðari stigum, að ég geri ekki mikinn greinarmun á hvort Ísland yrði aðili að Evrópsku efnahagssvæði eða Evrópubandalaginu á meðan það mál er óleyst að þjóðþingin haldi sjálfstæði sínu og rétti til að taka sínar ákvarðanir án þess að spyrja einhverja yfirstjórn suður í Brussel eða hvar sem hún annars er.
    Annað er að einnig má velta fyrir sér hvert er í raun og veru hlutverk Evrópubandalagsins og þá raunar líka samnings um Evrópskt efnahagssvæði. Eins og áður var minnst á var hið upphaflega hlutverk efnahagslegs eðlis. Kola- og stálbandalaginu var ætlað að tryggja sameiginlegan markað fyrir kol, járn og stál með því að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum milli ríkjanna. Krupp og aðrir slíkir lifðu styrjöldina af, þeir urðu að tryggja hag sinn áfram.
    Efnahagsbandalaginu var ætlað að vera alhliða markaðsbandalag sem tryggði óheftan flutning vöru, vinnuafls, þjónustu og fjármagns milli aðildarríkjanna og mótaði sameiginlega stefnu. Kjarnorkubandalagið átti svo að vinna að friðsamlegri nýtingu kjarnorku í þágu iðnaðar með samhæfðum rannsóknum á því sviði. Af þessu sést að Efnahagsbandalagið hefur haft víðtækust verkefni enda verið burðarásinn í þessu samstarfi. En þegar í inngangsköflum sáttmála, bæði Efnahagsbandalagsins og Kola- og stálbandalagsins, má sjá að hugmyndir voru uppi að frekari verkefnum svo sem pólitískri einingu aðildarríkjanna.
    Eins og sáttmálar Evrópubandalagsins bera með sér er efnahagssamvinnan tvíþætt. Í fyrsta lagi er Evrópubandalaginu ætlað að skapa eitt sameiginlegt markaðssvæði fyrir aðildarríki bandalagsins þar sem tryggður er frjáls flutningur á vöru, vinnuafli, þjónustu og fjármagni. Hins vegar er bandalaginu ætlað að móta sameiginlega stefnu á ýmsum sviðum efnahagsmála. Hvort tveggja hefur óneitanlega haft í för með sér ákveðið framsal á sjálfsforræði aðildarríkjanna. Um það deilir enginn lengur.
    Þarna er veikleiki fyrirætlana um ríkjasamband af þessu tagi falinn. Þessi skerðing á sjálfsforræði hinna einstöku ríkja er meginvandamál bandalagsins. Þó má segja að hin ýmsu aðildarríki geti ráðið miklu um hvernig með sameiginlegt vald bandalagsins er farið. Meðferð þess er í höndum ráðherra viðkomandi ríkisstjórna sem sitja í ráðherraráði bandalagsins.
    En auðvitað er þarna þegar hafin valdabarátta innan bandalagsins þegar að umsókn annarra ríkja en þeirra sem mestra hagsmuna eiga að gæta kemur. Menn hafa talað hér um Norðurlandasamvinnu og meðal annarra nokkrir sem ekkert um hana vita. En við þekkjum öll eðli Norðurlandasamvinnu og starfsemi Norðurlandaráðs. Sjálf átti ég sæti í ráðinu í fimm ár. Sú samvinna byggist á sameiginlegum hagsmunum íbúa Norðurlandanna og þar hafa náðst fram mikilvægar samþykktir um fjölmörg mál sem snerta daglegt líf borgaranna. Nægir að nefna afnám vegabréfa, sameiginlegan rétt til heilbrigðisþjónustu, atvinnu, atvinnuleysisbóta, tryggingabóta, auk margvíslegrar samvinnu á sviði menningarmála og vísindarannsókna. En ólíkt Evrópubandalaginu byggist norræn samvinna á þeirri grundvallarreglu að sjálfsforræði aðildarríkjanna sé óskorað, ráðið getur engin lög sett heldur er það vald alfarið í höndum þjóðþinga viðkomandi ríkja. Samræming löggjafar er í höndum þeirra og þeirra einna. Vissulega hefur ráðherranefnd ráðsins völd, en sérhver fulltrúi getur borið mál ráðsins undir þjóðþing sitt. Því er mikilvægur eðlismunur á þessum tveimur ríkjabandalögum sem vert er að gaumgæfa.
    Annað er einnig vert að íhuga og vík ég þá aftur að því sem ég sagði í upphafi. Hverjar eru þær auðlindir sem okkur ber að gæta? Norðurlandasamvinna byggðist aldrei fyrst og fremst á sameiginlegum hagsmunum í heimi stórfyrirtækja og viðskipta, heldur miklu frekar á hagsmunum hvers einstaks íbúa í daglegu lífi og þetta tvennt fylgist ekki alltaf að eins og við öll vitum. Þá byggist norræn samvinna ekki síður á mennt og menningu og sameiginlegum hagsmunum í þjóðlegri list og andlegri reisn. Þá getum við spurt sjálf okkur hvor ríkjasamvinnan hafi reynst farsælli, sú sem byggð var utan um viðskiptahagsmuni eða sú sem sneri að velferð borgaranna. Ef til vill er ekki sanngjarnt að bera saman aðstæður þeirra þjóða sem að stofnun Evrópubandalagsins og forvera þess stóðu, sem sumar lifðu í rjúkandi rústum styrjaldarinnar, og Norðurlandasamvinnu. En við skulum heldur ekki gleyma að stutt var aftur í fátækt Norðurlandaþjóða þegar Norðurlandaráð varð til. Eitt er víst að þjóðir Evrópubandalagsins eiga þó nokkra leið fyrir höndum til að ná því velferðarstigi sem við búum við á Norðurlöndum þó að okkur þyki enn margt á vanta hjá okkur. Lífskjör fara ekki endilega eftir heildarniðurstöðum viðskiptalífsins, heldur eru þau gjarnan í nokkru samræmi við þjóðlega vitund og reisn manna og þjóða. Þetta gengur hagfræðingum illa að skilja og þess vegna fá þeir oft ranga niðurstöðu þó að þeir leggi rétt saman. Sumir stjórnmálamenn treysta oft um of á þessa röngu niðurstöðu af því að þá skortir hugmyndir um hvers konar líf þeir ætla að búa fólki. Enginn skrifar góða bók nema hún byggist á hugmynd og stjórnmál án hugmyndar, hugsjónar eru

vond og vitlaus stjórnmál.
    ,,Engum Norðmanni líður betur þó að sex eða átta brauta þjóðvegur liggi beint frá Ósló til Brussel``, sagði Tore Houg í ágætri ræðu einu sinni fyrir nokkrum árum á fundi í Alþýðubandalaginu, ,,ef hinn almenni borgari kemst ekki leiðar sinnar nema að stofna lífi sínu í hættu.`` Slíkur þjóðvegur er fyrir fjármagn en ekki fólk.
    Sú bylting sem orðið hefur í Evrópu á síðustu áratugum á litla samleið með evrópskri hefð í tónlist, bókmenntum, heimspeki og myndlist. Hún er bylting í viðskiptum og fjármagnsflutningi fjármagnsins vegna. Eitthvað af þeim menningarheimi sem Evrópa byggðist á kann að hafa stiknað í gasklefum heimsstyrjaldarinnar en óeðlilega lítið fer fyrir þeim sem af komust. Byltingin er tæknileg, hún er yfirborðsleg, ég leyfi mér að kalla hana framfarir firringarinnar og meðaltalsins. Í slíkum heimi er sjálfsforræði þjóða og andleg reisn í hættu. Norræn samvinna hefur hingað til styrkt og eflt þjóðlega vitund aðildarríkjanna og þess vegna tel ég hana ótvíræðan sigurvegara í þessum samanburði mínum.
    Umtalsverð þáttaskil urðu að vísu í norrænni samvinnu þegar Danir urðu aðilar að Evrópubandalaginu og sú staða veldur ákveðinni truflun í starfinu. En þeirri staðreynd verður sjálfsagt ekki breytt og þess vegna er mikilvægt, eða hefði verið mikilvægt og ýmsir vonuðu, að Danmörk yrði kannski hlið sem hleypti áhrifum hins norræna velferðarríkis og hugmynda þess og þeirra ríkja inn á vegi Evrópubandalagsins. Sú hefur ekki orðið raunin og ég hygg að margir Danir séu núna að uppgötva að þeir hafa ekki náð nokkrum minnstu áhrifum innan Evrópubandalagsins og þess vegna ríkir auðvitað mikil óvissa þar í landi um þessar mundir.
    Ég tel þess vegna, og skal þá lokið umræðu um norræna samvinnu, að sterk norræn samvinna sé nauðsynlegri núna en nokkru sinni fyrr. Norðurlöndin verða að finna sér stað í nýrri og breyttri Evrópu því að Evrópubúar viljum við vera. En án alls hroka og með takmarkaðri auðmýkt tel ég okkur Norðurlandabúa eiga að halda áfram uppbyggingu hins norræna módels og slaka hvergi á kröfum okkar til þess að aðlagast minni kröfum Evrópubandalagsins. Við eigum ekki að slaka á kröfum um gæði matvæla, um heilbrigðisþjónustu, um nám og menntun, um verndun umhverfisins, eða um neitt það sem við höfum varið löngum tíma í að byggja upp og höfum hvergi nærri lokið við. Við eigum að standa saman um okkar norræna valkost í vinsamlegri samvinnu við allar þjóðir Evrópu og með fullri virðingu fyrir eigin þjóðerni og menningu.
    Í skýrslu utanrrh. er kafli sem heitir ,,Geta Íslendingar nýtt sér sérstöðu sína?`` En áður en ég vík að honum hlýt ég að líta á síðuna við hliðina en þar stendur:
    ,,Það er fræðilegur möguleiki að í raun verði unnt að tryggja áframhaldandi yfirráð yfir eigin fiskveiðiauðlindum, jafnvel innan vébanda núgildandi fiskveiðistefnu EB.``
    Það er eins og menn læri aldrei neitt. Auðvitað er þetta ekki hægt og það er einfaldlega ekki hægt vegna þess að Evrópubandalagið hefur sín eigin lög og þeim lögum verðum við að lúta. Og aldrei hefur verið um annað rætt en verði af samningum um Evrópskt efnahagssvæði muni nefnd sú sem á að annast samstarf Evrópubandalags og EES vinna á forsendum Evrópubandalagsins. Menn eru ekkert að skrökva til um það. Samvinnunefndin eða Joint Committee, eins og hún mun eiga að heita, mun verða að sætta sig við það að hún má segja álit sitt, en hún mun ekki ráða neinu. Það verður Evrópubandalagið sem ræður og því endurtek ég: Það er þess vegna sem ég er á móti hvoru tveggja þessara fyrirbæra. Ég get ekki hugsað til þess að Alþingi Íslendinga afsali sér sínu eigin sjálfsforræði. Það er þess vegna, og það er óhjákvæmilegt að minnast á það þó að það hafi verið gert meðan við vorum erlendis, að það hlýtur að vekja furðu og undrun sérhvers þingmanns að koma suður í Genf þar sem lögð er á borð okkar fundargerð þingforseta EFTA-ríkjanna þar sem koma fram ósköp einfaldar staðreyndir eins og þær að óhugsandi sé að Evrópskt efnahagssvæði gangi í gildi 1. janúar 1991. Það er í upphafi tekið fram að það sé óframkvæmanlegt og síðan gerir hvert ríki grein fyrir því af hverju það er ekki hægt. Ég ætla til gamans að rekja feril í slíkri ákvarðanatöku í Sviss en þingforseti þess var fyrstur á mælendaskrá, gerði fyrstur grein fyrir stöðu síns þings eða sinna þinga:
    Hann segir að það verði að samþykkja 60 sambandslög sem snerta mjög viðkvæm pólitísk mál. Þegar þjóðþingið og sambandsþingið hafa fjallað um þær samþykktir hvort í sínu lagi verður að slétta yfir allan ágreining um þessi mál. Þá fer málið til löggjafar í kantónunum, en þær eru þó nokkuð margar. Þegar því verki er lokið verður að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Menn ana því ekkert að slíkum málum í því landi.
    Sænski þingfulltrúinn segir að almenn umræða um málið fari fyrst fram um miðjan nóvember.
    Forseti norska stórþingsins segir að engin umræða fari fram þar fyrr en að lokinni fjárlagagerð og mætti tala um í byrjun október.
    Finnski þingfulltrúinn talar um að afgreiða þurfi 250 lagafrumvörp.
    En þá kemur íslenski þingforsetinn. Þar er nú ekki vandi á ferðum. Að vísu þarf að aðlaga um 200 lög en það er búist við því að það taki fjórar til sex vikur og því ætti að vera lokið fyrir lok 115. löggjafarþings sem verður 30. september. Þetta er auðvitað alveg með hreinum ólíkindum að sjá. En ég skal ekki hafa fleiri orð um það. Ég lýsi bara hneykslun minni yfir svo gjörsamlega ábyrgðarlausu hjali sem gerir okkur þingmönnum ekki auðveldara að ræða þessi mál á fundum þar sem við höfum átt fullt í fangi með að reyna að fylgjast með og taka þátt í umræðum af einhverju skynsamlegu viti. Ég vil mælast til þess að

menn vandi málflutning sinn betur á erlendum vettvangi en þetta ber vitni.
    Ég sé það að yfirferð mín um skýrslu hæstv. utanrrh. hefur gengið hægt og er ég aðeins komin á bls. 17, en ég get lofað því að ég fer hraðar yfir hér eftir. En hér er kafli sem heitir ,,Geta Íslendingar nýtt sér sérstöðu sína?`` --- Hvaða sérstöðu? Hvað halda Íslendingar að þeir séu? Hvers konar heimóttarháttur er þetta hjá reyndum stjórnmálamönnum? Hvað er Ísland úti í hinum stóra heimi? Það er eins og sveitaþorp í svissnesku Ölpunum. Jú, jú, sumir vita að það er til, fjölmargir vita það ekki. Og enginn veit eða þekkir nafn hæstv. utanrrh., haldi hann það. Þannig að heimurinn stendur ekkert á öndinni og bíður eftir að Ísland komi og gangi í samtök þjóða. Við megum þakka fyrir meðan þeir láta okkur í friði. Auðvitað hefur Ísland þar enga sérstöðu til nokkurs hlutar og það er auðvitað hlutverk okkar að verja þann sjálfsagða þjóðrétt sem við höfum. Lýðræði, þingræði og þjóðlegan rétt. Til þess höfum við verið kjörin hingað. Þannig að hjal um einhverja íslenska sérstöðu er svo gjörsamlega út úr kortinu að ég mælist til að það sé ekki verið að bera slíkt þvaður á borð fyrir okkur. Enda segir svo ráðherrann hér sjálfur, eða hver sá sem hefur samið þennan samsetning, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ekkert er því til fyrirstöðu að þróa viðskiptatengsl bæði til austurs og vesturs.`` --- Auðvitað ekki. Og það er auðvitað það sem við eigum að gera, þó að menn hafi talað hér af jafnlitlu viti um hin ófrjálsu viðskipti Sovétríkjanna og Íslendinga, sem ég hef aldrei vitað til að væru neitt ófrjáls. Ég hélt að menn hefðu sest niður og samið um að Sovétríkin keyptu síld eða ullartrefla eða eitthvað því um líkt og við keyptum olíu í staðinn. Og ég hef aldrei vitað til þess að það væri neitt ófrjálst við það, þó að hv. 3. þm. Reykv. virðist halda að menn hafi verið sendir þangað í böndum til að semja um slík samskipti.
    En, hæstv. forseti, það er kominn tími til að Íslendingar hætti þessum heimóttarskap og hætti að tala eins og roggnir sveitakallir úti í hinum stóra heimi af engri þekkingu en alveg ómældum hroka.
    Nú skal ég hlaupa yfir frammistöðu Íslendinga varðandi Evrópskt efnahagssvæði. Þau vinnubrögð eru auðvitað öll afskaplega slæm, lítið sem ekkert hefur verið gert til að uppfræða fólk, þjóðina sjálfa, sem skiptir nú allnokkru máli þó að þessir menn virðist ekki halda það, um hvað er hér á ferðinni, en einungis talað um Evrópskt efnahagssvæði eins og eitthvert lausnarorð sem það auðvitað er ekki.
    Síðan kemur kafli um Atlantshafssamstarfið. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, en auðvitað hefur NATO verið sams konar hagsmunasamtök og Evrópubandalagið hefur verið enda engin tilviljun að sömu ríkin hafa setið að. Það sem hefur auðvitað breyst, og er mjög athyglisvert að enginn skuli minnast á, er að Bandaríkin hafa æ minni ítök í Atlantshafsbandalaginu. Þess vegna er kyndugt í meira lagi að við skulum enn sitja hér uppi með bandarískan her og vitaskuld er löngu komið að því að upp verði tekinn til endurskoðunar samningurinn um varnir Íslands eins og hann heitir. En ég vænti þess að það yrði gert í tvíhliða samningum sem hæstv. utanrrh. er svo hrifinn af, alls staðar annars staðar en þegar kemur að Evrópusamsteypunni. Það er hins vegar mikill misskilningur ef hv. 3. þm. Reykv. heldur að alþýðubandalagsmenn beri kinnroða fyrir baráttu sinni gegn þátttöku Íslendinga í NATO og veru hersins hér á landi. Það er nú öðru nær. Fyrir þá baráttu og hana þrotlausa hafa Bandaríkjamenn ekki vaðið meira uppi en orðið hefur hér í landi. Þar höfum við að sjálfsögðu notið þess sem aðrar þjóðir, sem þeir hafa læst í klónum, ekki hafa notið, að hér býr sæmilega upplýst þjóð. Ég hygg að íbúar Púertó Ríkó hefðu verið betur staddir ef þeir hefðu búið við það almenna menningarástand sem hér ríkti þegar að þeim kom.
    Auðvitað er óeðlilegt, og ætti að vera óeðlilegt hvar í flokki sem menn standa í landinu, að hafa erlendan her áratugum saman. Enda skilst mér nú að helstu tæki þeirra og tól séu að týnast í burtu og eitthvað munum við hafa losnað við, ef ég hef rétt skilið, þegar sorgleg Persaflóastyrjöldin geisaði, a.m.k. voru einhverjar AWACS-vélar sendar af stað og menn hafa ekki séð ástæðu til að þær kæmu aftur eftir því sem ég best veit og vona ég svo sannarlega að þær geri það ekki. En auðvitað á hið háa Alþingi að vinna að því að hér verði ekki her enda vandséð hvar óvinurinn leynist þessa stundina. Varla er hann þar sem menn hafa hingað til haldið að hann væri. Verið gæti að hann kviknaði einhvers staðar annars staðar, ekki skal ég segja til um það.
    En ég skal, herra forseti, reyna að stytta mál mitt. Það er þó afar erfitt þar sem hér er um þykka og mikla skýrslu að ræða en ég skal reyna að tala um það sem menn hafa ekki talað um áður.
    Á bls. 23 er kafli sem heitir ,,Sáttmálsörk jarðar`` og hygg ég að þar sé nýyrði um að ræða og hreint ekki ljótt og skal ég ekki hafa á móti því. En það vakti athygli mína í ræðu hæstv. forsrh. í gær að hann taldi næstum óeðlilegt að hvenær sem farið væri að tala um utanríkismál væri farið að tala um umhverfismál. Fyrir mér er þetta þeim mun eðlilegra sem honum finnst það óeðlilegt vegna þess að það er auðvitað alheimsmál hvernig komið er fyrir nýtingu á auðlindum jarðarinnar. Þar verða Íslendingar auðvitað eins og allar aðrar þjóðir að vinna allt það sem þeir geta til þess að sú ofnýting og ill meðferð á móður jörð verði stöðvuð og menn reyni að skila einhverju aftur sem þeir hafa þaðan tekið. En hér er í upphafi minnst á ráðstefnu sem hefst í Río de Janeiro í júní nk. Þegar eru smásálir þjóðarinnar farnar að telja eftir farareyri þingmanna og ráðherra og embættismanna á þá ráðstefnu. Það verður að vera þeirra mál og ég er óhrædd við að ræða það. Vitaskuld eiga menn að sækja þessa ráðstefnu og vitaskuld eiga allir þingflokkar á hinu háa Alþingi að senda fulltrúa á þessa ráðstefnu og annað kemur auðvitað ekki til greina. Þess vegna lýsi ég hneykslan minni yfir einhverjum orðrómi hér á hinu háa Alþingi um að forsætisnefnd hafi ákveðið að einungis einn frá stjórn og annar frá stjórnarandstöðu sæki þetta þing vitandi það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem eru auðvitað þingmenn jafnframt munu flykkjast þangað og ekki skal ég heldur hafa á móti því. En svona vinnubrögð lætur auðvitað ekkert þjóðþing bjóða sér því að hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Hins vegar er sorglegt að við skulum þurfa ( Gripið fram í: Við förum bara öll.) já, það veitti ekki af, hv. 1. þm. Norðurl. v., að við færum þangað öll. En ég skal vera tilbúin til þess að taka þátt í sparnaði þjóðarinnar og segja að þar væri kannski til of mikils ætlast. En það er hins vegar þeim mun sorglegra að við skulum þurfa að sitja í höfuðborg þess lands sem nú mun vera að hreinsa til hjá sér með því að skjóta og myrða börn, betlibörn sem ekki eiga að saurga götur borgarinnar meðan hinir háu fulltrúar hinna ríku þjóða gista borgina. Auðvitað hefði átt að velja einhvern annan stað en þetta land sem er að eyðileggja regnskóga Suður-Ameríku, getur ekki boðið þegnum sínum betri kjör en svo að hundruð þúsunda barna búa á götunni og betla og selja sig og eru síðan hreinsuð af götunum eins og lausagöngufé og jafnvel á miklu grimmilegri hátt.
    En það er ágætt að tala um umhverfismál. En eitt er það mál sem hefur verið mikið viðkvæmnismál í þessu þjóðþingi nú um nokkurra ára bil og það er hvalamálið svokallaða. Hvað ætla Íslendingar að segja um það mál á þessari miklu ráðstefnu? Það hefur gengið afar illa að fá sjónarmið hæstv. umhvrh. sem ég hélt þó að væru nokkuð skýr því að ekki var hann í minnsta vafa áður en hann varð ráðherra, en þá var hann ákafastur manna að mótmæla banni á hvalveiðum. Ég var afar ósammála honum eins og ég hygg að alþjóð viti því að ekki gekk svo lítið á þegar verið var að reyna að verja þann málstað. Einkum og sér í lagi vegna þess að inn í hann blönduðust alls konar hlutir sem aldrei komu málinu neitt við. Það sem gerðist ósköp einfaldlega var það að Íslendingar höfðu um langt árabil verið aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þegar hundruð sérfræðinga í rannsóknum á hvalastofninum lýstu því við Alþjóðahvalveiðiráðið að þeir bæru ugg í brjósti um stofnstærð ýmissa hvalategunda brást ráðið þannig við að það taldi rétt að banna hvalveiðar um fjögurra ára skeið. Þau tilmæli gengu til hinna ýmsu þjóðþinga, aðildarríkja, m.a. hingað til Alþingis. Um það greiddum við atkvæði, við deildum um það og samþykktum það með mjög naumum meiri hluta, reyndar einu atkvæði. Alþingi Íslendinga samþykkti að mótmæla ekki banninu. Ég hygg að þar hafi aðild Íslendinga að gerð Hafréttarsáttmálans haft úrslitaáhrif. Hvað gerðist síðan? Áhrifamaður á hinum ýmsu stöðum þjóðfélagsins, stór fjölskylda sem síðan hefur hlotið nafnið ,,kolkrabbinn`` gerði athugasemdir og þá var skrattinn laus. Íslendingar fóru að fara einhverjar krýsuvíkurleiðir að því að klóra upp nokkrum hvölum. Auðvitað skipti þetta engu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins, svo sem ekki miklu máli eins og síðar kom í ljós fyrir það kjördæmi sem um var að ræða og allt var þetta mál Íslendingum til hinnar mestu háðungar.
    Íslendingar voru svo sem ekki einir í heiminum um þetta. Japanir treystu sér ekki til þess að samþykkja bannið, Norðmenn ekki heldur, Rússar ekki heldur, en við gerðum það. Við samþykktum að virða bannið og það var meginröksemd mín. Ég ber enga ást í brjósti til hvala umfram aðrar skepnur jarðarinnar. Ég vil heldur ekki að fílarnir í Afríku séu drepnir svo stofninn deyi út og það kemur mér við. En síðan ég hélt ræður mínar um þetta mál og vitnaði til regnskóga Suður-Ameríku og sagði að þeir kæmu mér jafnmikið við og þeim þjóðum kæmi hvaladrápið við sem byggju í löndum sem hvergi kæmu að sjó hlæja menn ekki lengur að þeim röksemdum. Það gerðu menn fyrir fimm árum.
    En þetta skal ég ekkert vera að rifja upp. Ég hef fengið minn skammt af hatri og ofsóknum vegna afstöðu minnar í þessu máli. Það hef ég aldrei látið á mig fá vegna þess að það er nú margsönnuð regla í hinu stjórnmálalega lífi að fyrir hvert tapað atkvæði fyrir það að standa á sannfæringu sinni fær maður annað og mér er alveg sama hvort atkvæðið það er.
    En nú stöndum við hér og nú er fram undan alþjóðleg umhverfismálaráðstefna og við höfum hér í salnum hæstv. umhvrh. Við deildum hart um þetta og höfum oft gert það og ég er ekki að efna til neinna illinda við hann. Ég hef átt við hann hina ágætustu samvinnu um ýmis mál, en það hlýtur að vera skylda hæstv. ráðherra nú þegar hann situr í þessari lykilstöðu að upplýsa mig og aðra hv. þm. um það hvað íslenska sendinefndin ætlar að segja ef hún verður fyrir árásum vegna hvalamálsins sem ég hygg hún hljóti að verða. Þrjár greinar í Hafréttarsáttmálanum koma sérstaklega inn á hvalveiðar og þar stendur einmitt að hvalastofnarnir séu alþjóðleg eign. Það er enginn Íslandshvalur til og hefur aldrei verið. Þess vegna skuldbinda þjóðirnar sem hafa samþykkt þennan sáttmála og undirritað að hafa samvinnu um hvalveiðar. Nú hafa loksins 51 ríki --- mér liggur við að segja druslast til að staðfesta þennan sáttmála, allt of langan tíma hefur tekið að staðfesta sáttmálann, af þessum sömu sökum. Eiginhagsmunasjónarmiðum. Og alþjóðleg samvinna getur ekki gengið og alþjóðlegir samningar eru einskis virði ef menn ætla að svíkja þá hvenær sem þeir sjálfir þurfa á að halda. Hefði hagsmunum Íslendinga verið einhver hætta búin? Nei, það var bara einn Íslendingur sem átti um sárt að binda --- Kristján Loftsson. Þar þótti mér miklum hagsmunum fórnað fyrir litla hagsmuni.
    Ég vona að Íslendingar beri gæfu til að lagfæra ímynd sína meðal þess fólks í heiminum sem hugsar af einhverri alvöru um umhverfismál og hæstv. ráðherra leiði nú sendinefnd sína að einhverri þeirri niðurstöðu sem getur verið Íslendingum sæmandi. Ég vil margítreka, vegna þess að öll orð mín um þetta mál hafa verið afbökuð á versta veg, að ég hef aldrei lýst því yfir að ég sé á móti hvalveiðum um alla framtíð. Aldrei. Ég hef aldrei sagt þau orð. Ég er hins vegar sannfærð um að hefðu þjóðir heims haldið þetta fjögurra ára bann væri löngu farið að veiða hval að nýju, eftir ákveðnum reglum og ég tala nú ekki um hversu illa þetta hefur bitnað á mönnum sem virkilega áttu hagsmuna að gæta hér á Íslandi, aðrir en Kristján Loftsson, sem voru hrefnuveiðimenn á Vestfjörðum. En í þetta mál hljóp þvergirðingsháttur og þrjóska

sem enginn gat viðurkennt. Þess vegna vil ég biðja hæstv. umhvrh. að lýsa mér svolítið inn í hug sinn hvernig menn ætla að taka á þessu máli.
    Ég heyri það í fréttum mér til ómældrar undrunar að nú sé setið að einhverju samningaborði eða viðræðuborði. Þar séu á ferðinni Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar. Og ég spyr: Síðan hvenær hafa Færeyingar og Grænlendingar eitthvert umboð til að efna til ríkjasamvinnu? Ég vildi að þeir hefðu það, en ég veit hins vegar að þeir hafa það umboð ekki. Það væri nú til þess að bæta gráu ofan á svart í þessu klúðri að menn færu að tala um það í alvöru að mynda eitthvert nýtt hvalveiðiráð með Grænlendingum og Færeyingum. Ég ætla a.m.k. að vona að Danir verði spurðir á meðan ástandið er eins og það er þar í landi hvort þetta sé með þeirra góða leyfi. En síður en svo hef ég á móti því að vinna með Færeyingum og Grænlendingum, það skal enginn skilja orð mín svo. En mér eru nokkuð ljósir þar kostir hins mögulega.
    Eitt er það atriði sem óhjákvæmilegt er að minnast á þegar við ræðum um Evrópu annars vegar og t.d. Norðurlönd eða þann hluta Evrópu þegar við tölum um meginland Evrópu og Norðurlönd. Stundum vill brenna við að menn reyna ekki að setja sig inn í hugsunarhátt annarra þjóða en meta málefni út frá íslenskum sjónarhóli. Þótt Íslendingar séu nú merkileg þjóð, og stundum að manni virðist nafli heimsins, er það nú svo að suður í Evrópu bjó fólk hundruðum og þúsundum ára áður en nokkurt kvikindi settist að á þessu góða landi. Þetta meginland á sér mjög langa og merka sögu, en eitt er það sem auðvitað setur svip sinn á meginland Evrópu og það er að þar eru þjóðamörk miklu óskýrari en þegar við erum að tala um þjóðir. Land eins og Rúmenía er t.d. engin þjóð. Ég átti þess kost, eins og líka er frægt orðið, árið 1971 að heimsækja þjóðþing Rúmena. Einn þriðji talaði ungversku, einn þriðji talaði þýsku og afgangurinn rúmensku. Þetta kalla ég ekki þjóð, enda var þetta engin þjóð fyrr en 1918. Við brostum auðvitað að því sem svona kommúnískum brandara að þjóðminjasafn Rúmena hófst með árinu 1918. En þegar við fórum að hugsa þá var það líklega bara alveg rétt hjá þeim. Þannig var það.
    Ástandið í Tékkóslóvakíu núna byggist auðvitað á því að Slóvakía og Bæheimur koma sér ekki saman. Það á sér sína sögu og ég er ósköp hrædd um að Íslendingar sem hæst tala um þessar þjóðir viti mest lítið um það sem býr að baki. Við vorum þar hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem ég hef reyndar ekki séð síðan, á ferð í boði Dubceks þingforseta þar og ég vil taka það fram að hv. þm. var hinn ágætasti ferðafélagi og bæði hygg ég að við höfum lært af þessari ferð. En við áttum m.a. fund með forseta þingsins, Dubcek, margfrægum manni, og fjölmörgum þingmönnum. Við sátum auðvitað á fundum mestan hluta þess tíma sem við dvöldum í landinu, en þó fór svo að við fengum dagstund til þess að fara á okkar eigin vegum út í borgina og höfðum þar mikinn og góðan leiðsögumann, tékkneska vinkonu mína sem er þar prófessor við háskólann í Prag sem gat svarað þeim spurningum sem vöknuðu við það sem fyrir augu bar. Ég hef miklar áhyggjur af þessari þjóð, þessari gömlu menningarþjóð sem einu sinni hýsti höfuðborg Evrópu, Prag, enda ber hún þess merki og er reyndar einhver fegursta borg sem ég hef augum litið og verður manni hugsað hlýlega til Habsborgara þegar maður sér það lifandi listasafn sem þessi borg er. Sem betur fer losnaði hún við að verða sprengd í styrjöldinni. Aðrar hörmungar voru látnar nægja. Í sýnagógu þar í borg eru nöfn 77.000 gyðinga, sem Þjóðverjar brytjuðu niður þegar þeir hertóku Bóhemíu, skrifuð á vegg. Í það eina skipti í sögunni varð Slóvakía sjálfstætt ríki og að mati þeirra Bæheimsbúa sýndu þeir Þjóðverjum fremur aðstoð en hitt. Þessi sár eru ekki gróin. Þetta hafði afdrifarík áhrif fyrir tékkneskt samfélag vegna þess að svo vildi til að meðal þeirra 77.000 gyðinga sem þarna voru aflífaðir var lunginn úr verksmiðjueigendum landsins og þegar þeir voru horfnir eða flúnir, sumir gátu sem betur fer komist undan, þá voru ekki menn til þess að reka þessar verksmiðjur og þar með fór það feiknalega ríkidæmi sem þessi þjóð bjó yfir í stríðsbyrjun meira og minna forgörðum og þessum, sem ég er hluti af, eins og hv. 3. þm. Reykv. segir, neti heimskommúnismans, ekki fórst þeim nú vel úr höndum að lækna þau sár.
    En í sumar standa Tékkar frammi fyrir kosningum. Eins og menn minnast voru kosningar þar fyrir tveimur árum og nú skulu þær fara fram aftur. Öllum þar í landi ber saman um að það ástand komi upp að engin leið verði að mynda ríkisstjórn. Slóvakar hafa neitunarvald í þinginu á mjög sérkennilegan hátt og stöðva þar öll mál og m.a. hafa þeir á þessum tveimur árum purkunarlaust stöðvað gerð stjórnarskrár þannig að landið hefur enga stjórnarskrá. Þess vegna er það í raun og veru órekanlegt í augnablikinu því að land sem hefur enga stjórnarskrá á afar erfitt með að setja lög. Lítið hefur farið fyrir þessari umræðu og í kafla í skýrslu hæstv. utanrrh. er ekki orð um þetta. Nú hef ég ekki komið til Rúmeníu í yfir tuttugu ár, aldrei til annarra austantjaldslanda því ég virðist ekki hafa haft mikið gagn af að vera hluti af þessu merka neti, en ef sannleikurinn sem hér kemur fram um Tékkóslóvakíu er jafnáreiðanlegur og hann er um önnur lönd sem hér er getið þá bið ég guð að hjálpa mér. Í skýrslu utanrrh. stendur: ,,Atvinnuleysi hefur verið lítið en búist er við að það fari ört vaxandi samfara tímabundnum samdrætti í utanríkisviðskiptum sem byggðust áður fyrst og fremst á vöruskiptum við önnur kommúnistaríki.``
    Ég get upplýst hæstv. utanrrh. og get lánað honum það hér á pappír ef hann svo kysi, auk þess sem ég sá það með eigin augum og heyrði í Tékkóslóvakíu, að á þessum tveimur árum hefur það lukkast að gera 500 þús. Tékka atvinnulausa. Það er almennt atvinnuleysi og örvænting í landinu. Landið er óvélvætt, það er ótölvuvætt, þingið er nýtt og það hafði satt að segja veruleg áhrif á okkur, hv. þm. Vilhjálm Egilsson og mig, að verða þess vör hversu yfirgengileg fáfræði ríkti meðal þingmanna. Svo eitt lítið dæmi sé tekið, þá spurðum við hvernig það mætti vera að samkvæmt OECD-skýrslum flyttu Tékkar inn

í þau lönd miklu meira en kæmi fram í útflutningsskýrslum Tékka. Enga skýringu höfðu þeir á því og grunur minn er sá að sumir þeirra hafi bara alls ekkert vitað hvað OECD var. Þingmaður einn fylgdi okkur hv. 5. þm. Norðurl. v. í hið undurfagra Smetanaleikhús, sem er einn af dýrgripum Pragborgar, og spurði ég hann meira í gamni en alvöru eftir allt einkavæðingarhjalið: Ég vænti þess að þetta fagra leikhús fái nú samt að vera ríkisrekið? Hann bara vissi ekkert um hvort það væri ríkisrekið og hann vissi ekkert hver rak það. Var því ekki mikið á þeim þingmönnum að græða og býst ég nú við að einhverjir ábyrgir þingmenn hafi verið valdir til þess vera leiðsögumenn fyrir svo merka einstaklinga sem þessa EFTA-þingmenn.
    En hver sem hefur tekið saman þessa samantekt um Tékkóslóvakíu getur fengið hér yfirlit sem EFTA-skrifstofan nestaði okkur með til Tékkóslóvakíu og ég er ansi hrædd um að þeir mundu hlæja hátt ef þeir sæju það sem íslenska utanrrn. hefur að segja um Tékkóslóvakíu. Þetta er með ólíkindum að sjá en það er eftir öðru sem menn voga sér að bera hér á borð, rangfærslur, misskilning, fordóma og heimóttarhátt og við höfum ekkert að gera við svona upplýsingar.
    Mér er ljóst, herra forseti, að ég hef haldið hér alllanga ræðu nú þegar og skal ég nú af virðingu við samþingmenn mína hlaupa yfir flesta kafla en ég vil aðeins fá leyfi til að minnast á örfá atriði í síðari köflum skýrslunnar. Ég kemst ekki hjá að víkja aðeins að því reginhneyksli sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar er og hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt árshlutauppgjöri 30. september 1991 nam tap á rekstrinum 136.000 þús. kr. og uppsöfnuð vanskil hjá Ríkisábyrgðasjóði námu 265.600 þús. kr. Erlend endurlán og vanskil við Ríkisábyrgðasjóð nema 3.570.800 þús. kr.``
    Það hefur orðið umræða um þetta fyrirtæki áður. En ég vil aðeins vekja athygli á að það er með hreinum ólíkindum að þeir hv. þm. sem að þessu máli komu og þeir embættismenn sem á því báru ábyrgð skuli fá að leika lausum hala á þennan hátt. Það er með hreinum ólíkindum. Þess vegna það er eins og í gamanleikriti að á sama tíma og þjóðin stendur frammi fyrir svona gríni er ekki hægt að bæta kjör hinna vinnandi stétta í landinu. Ætli það væri ekki ágætt að hafa þessa 3 milljarða til þess að laga þar svolítið til? En í þessu er eiginlega ekkert hægt að gera annað en hrista höfuðið og verður það látið nægja.
    Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, langar mig að koma aðeins inn á þróunarsamvinnu og ég skal ekki fara neitt almennum orðum um hana, enda er hún okkur til skammar. Framlög Íslendinga eru til háðungar fyrir þjóðina og það vitum við öll. En eitt atriði langar mig til þess að minnast á, sem kann að vera einhver misskilningur hjá mér en alla vega er ekki mér skiljanlegt, en það er hér lítill kafli um Namibíu þar sem sagt er að Íslendingar leggi til yfirmenn og sjái að nokkru leyti um rekstur hafrannsóknaskips sem Namibíumenn eiga og auk þess séu þar tveir íslenskir fiskifræðingar að störfum. Síðan er sagt að samstarfssamningur, sem hafi verið undirritaður og gildi til ársloka 1995, kveði á um markmiðin með samvinnu, skyldur beggja aðila, réttarstöðu og réttindi starfsmanna og fleira. Sagt er að verkefnið hafi að flestu leyti gengið vel eftir nokkra byrjunarörðugleika og líklegt sé að leggja verði aukna áherslu á aðstoð við þjálfun skipstjórnarmanna o.s.frv. Þetta stendur á bls. 135 en á bls. 180 er yfirlit yfir þróunaraðstoð Íslands og önnur frjáls framlög 1991 og 1992 sem hafa verið veitt eða eru ráðgerð eins og hér segir, og þar er Namibíusjóður Sameinuðu þjóðanna, UNFN, íslenskar krónur á árinu 1991 124 þús. en á árinu 1992 ekkert. Nú kann að vera að hér sé einhver skipulagsbreyting á ferðinni en ég átta mig ekki alveg á því hvert framlag Íslendinga er til þessa verkefnis þó að svo fallegum orðum sé um það farið.
    Ég hef þegar vikið að Norðurlandasamvinnunni og ætla ekki að gera það frekar að öðru leyti en því --- og harma ég nú að hæstv. sjútvrh. er horfinn úr salnum --- að ég vil minnast á það að um árabil eins og hæstv. umhvrh. veit hefur verið einhugur um það að sérstaka rækt bæri að leggja við Vestnorræna ráðið, efla samvinnu Grænlendinga, Færeyinga og Íslendinga. Það kemur því eins og högg framan í þá sem að þessu hafa unnið, ekki síst með það fram undan að ég hygg að hér eigi að vera ráðstefna þessara þjóða á þessu ári, að nú þegar Færeyingar eru s
vo sannarlega illa staddir skuli veiðikvóti skorinn niður, sem við höfum verið að rausnast við að veita þeim af frændsemi og vináttu, meira en það sem við skerum niður af kvóta okkar sjálfra. Ég hefði talið eðlilegt að þeir yrðu að lúta því sama og við höfum orðið að lúta til verndunar fiskstofna en mér finnst það meiri háttar smásálarháttur að fara að skera frekar kvóta þeirra Færeyinga þar sem þeir eru afar illa staddir og satt að segja jaðrar við að þjóðin sé gjaldþrota. Mér finnst þetta ekki bera vott um mikla frændsemi og enn einu sinni sannast það að það fara ekki alltaf saman orð og athafnir þegar samskipti þjóða eru annars vegar.
    Herra forseti. Það mætti auðvitað segja svo miklu meira um þessa skýrslu en ég skal láta máli mínu lokið. Ég vænti þess að nokkrum þeim meginspurningum sem ég hef hér lagt fram verði svarað og ég mun ekki hafa þann hátt á eins og sumir hv. þm. virðast gera að buna úr sér sinni eigin ræðu, spyrja ótal spurninga og hlaupa svo í burtu. Ég þakka hæstv. forseta þolinmæði hans meðan ég flutti mál mitt og þakka áheyrnina.