Utanríkismál

115. fundur
Miðvikudaginn 01. apríl 1992, kl. 22:44:00 (4975)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég harma að þurfa enn þá að hlusta á hæstv. umhvrh. segja það sama og hann sagði hér á árum áður þegar við deildum um afstöðu Íslendinga í hvalamálinu að mér séu hvalamál eitthvað sérstaklega hugstæð. Ég hefði haft alveg sömu afstöðu hvaða skepna sem í hlut hefði átt ef Íslendingar hefðu samþykkt að standa að alþjóðlegri samþykkt um að drepa hana ekki einhvern tíma. Ég vil í stuttu máli að Íslendingar standi við gerða samninga. Um það hefur allur minn málflutningur ævinlega snúist. Ég gleðst yfir því ef það skyldi komast einhver niðurstaða á um þetta mál meðal þjóða. Þetta hefur spillt mjög fyrir áliti Íslands erlendis og enginn hefur náttúrlega gert að sérstöku umræðuefni að milljarðar töpuðust fyrir þvergirðingshátt Íslendinga í hreinum sölusamningum og hrundum fiskmörkuðum vegna þessa klaufalega og kjánalega máls. En ég gleðst yfir því ef menn verða sammála um einhvern texta. Ég hlakka til að sjá um hvað sá texti er en ég mundi hafa talað jafnmikið um ef Íslendingar væru að svíkjast undan merkjum um hvað annað sem er. Menn notuðu hins vegar tækifærið til þess að þvæla þann málstað með einhverjum ,,hysterískum`` amerískum kerlingum sem tóku hvali í fóstur. Ég hef ekkert samband við það fólk og hef aldrei haft og var aldrei að tala um slík kjánalæti. Þau gerðu málstaðnum aldrei neitt nema ógagn.
    En ég sem sagt gleðst yfir því ef Íslendingar geta reist sig ofurlítið við eftir óttalega klaufalega frammistöðu í þessu máli.
    Ég er ekki sérfræðingur í málefnum Tékkóslóvakíu en ég veit nokkrar einfaldar staðreyndir sem ekki koma fram í skýrslunni eins og það að því verður ekki á móti mælt að það er hálf milljón manns atvinnulaus í Tékkóslóvakíu. Og maður þarf ekki nema að hafa augu í höfðinu til að sjá hvað er svo annað að gerast með því að vestræn menning heldur innreið sína en það er pönkfólk seljandi eiturlyf á hinu fagra Vacslavs-torgi. Mér er til efs að það hafi verið þar fyrir nokkrum mánuðum.