Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 00:27:00 (4980)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Það er að vísu nokkuð til í því hjá hv. 3. þm. Reykv. að að nokkru leyti var ég kannski að fjalla almennt út frá hans máli hér í dag og líka því sem hann hefur sums staðar annars staðar látið frá sér fara. Ég var að vísa dálítið almennt til hugmynda hv. 3. þm. Reykv. eins og ég hef skilið þær og meðtekið í gegnum tíðina, því það vill nú svo til að ég hef reynt að leggja mig nokkuð eftir því hvaða viðhorf hv. þm. hafi í þessum efnum, eins og aðrir, því að þetta málasvið læt ég mig nokkru varða.
    Hitt er svo þetta sem hv. 3. þm. endurtekur hér, og mér finnst satt best að segja svo broslegt að það sé yfir það hafið að svara því mikið --- að standa hér í ræðustólnum, setja sig hér í stellingar einhvers háyfirdómara. Hv. 3. þm. Reykv. virðist haldinn af því að hann sé einhver ,,Iudex Optimus Maximus`` utanríkismálaumræðu á Íslandi. Þetta er ofmat, hv. 3. þm. Reykv. Og þó svo að menn séu ósammála og hafi verið ósammála er ekki þar með sagt að í því liggi úrskurður um að annar aðilinn hafi rétt fyrir sér og hinn rangt. Svo einföld er tilveran ekki, hv. 3. þm. Reykv. Mér er að vísu ljóst að hv. 3. þm. Reykv. á ekki litasjónvarp, hann sér hlutina í svarthvítri mynd og hefur jafnan gert og gerir enn, samanber þessa dapurlegu staðreynd sem er mönnum vonandi orðin ljós hér á þinginu og þýðir ekki annað en taka tillit til að hv. 3. þm. Reykv. situr fastur í áratugagömlum hugsunarhætti í þessum efnum og kemst ekki upp úr því hjólfari. Það er dapurlegt. En þó að svo sé þá hefði maður vænst þess að hv. 3. þm. Reykv. hefði þroska til þess að meðtaka þá staðreynd að stundum eru menn ósammála. Og þá er það þannig.