Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 01:08:00 (4987)

     Árni R. Árnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir hv. þm. til hæstv. utanrrh. fyrir greinargóða og yfirgripsmikla skýrslu. En ég hef veitt því athygli eins og ýmsir fleiri að það hvernig hún er lögð fram er með þeim hætti að ekki er ljóst í byrjun umræðunnar hvort hún lýsir utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar ellegar upplýsingum, mati og skoðunum utanrrh. sjálfs. Þó verð ég að segja að það virðist ekki breyta miklu um það hversu skilvís eða markviss umræðan er.
    Í inngangi skýrslunnar kemur fram hver hafi verið höfuðmarkmið okkar utanríkisstefnu frá stofnun lýðveldisins, þ.e. að tryggja sjálfstæði landsins og þá um leið öryggi þess, að tryggja og varðveita yfirráð okkar yfir auðlindum þjóðarinnar og að tryggja aðgang okkar að erlendum viðskiptamörkuðum. Röð þessara markmiða virðist vera þessi í framkvæmd og kann það að hafa ráðist af samskiptum þjóðanna og ríkjanna í okkar heimshluta allt frá því að við hófum vegferð okkar sem lýðveldi.
    Hæstv. utanrrh. nefndi í inngangsræðu sinni hinn stóra hlut þeirra framsýnu stjórnmálaforingja sem mótuðu höfuðmarkmið, undirstöðuatriði og framkvæmd þessarar stefnu og ég tek undir orð hans. Þeir höfðu djörfung og framsýni til að móta ungri lýðræðisþjóð þá afstöðu og stefnu að gerast þá þegar virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna, í samskiptum, samstarfi og viðskiptum þjóða sem þannig vilja tryggja tilveru sína og sjálfstæði og með aðferðum gagnkvæms samstarfs ná því fram fyrir smáar jafnt sem stórar þjóðir. Þeir höfðu víðsýni til að hafna einangrun þrátt fyrir harða mótstöðu sem enn eimir eftir af, svo undarlegt sem það má vera í ljósi þeirrar reynslu sem þjóðin hefur síðan hlotið á þessu sviði og allar grannþjóðir hennar um allt norðurhvel jarðar. Fyrir smáþjóð, sem við vissulega erum, hvort heldur við teljum Ísland á miðju landakorti eða í jaðri þess, er mikilvægt að eiga traust samskipti við m.a. hina öflugri og stærri einstaklinga í samfélagi þjóðanna. Þar undir liggur í raun fjöregg smáþjóðar.
    Þeir sem lögðu grunninn að utanríkisstefnu okkar héldu vel á fjöreggi þjóðarinnar. Hún er í dag virkur þátttakandi í samstarfi þjóðanna í okkar heimshluta og í samstarfi þjóða um heim allan. Við eigum greiða leið að grannþjóðum okkar og fjarlægum þjóðum til viðræðna um hvers konar sameiginleg hagsmunamál, viðskipti, menningarsamskipti, öryggismál, umgengni við náttúru og auðlindir hennar, stjórnmál og félagsmál. Við erum ekki hornrekur án samneytis við aðrar þjóðir. Það höfum við þó séð af örlögum annarra þjóða, sem á svipuðum tíma og við völdu eða voru knúnar til að velja einangrun, að hún hefur leitt yfir þær hörmungar í kjörum þeirra á nær öllum sviðum mannlegrar viðleitni.
    Í skýrslunni, sem til umræðu er, er gerð grein fyrir þeim atriðum sem hæst ber í utanríkismálum frá okkar sjónarhóli, þar á meðal þeim stórviðburðum sem hafa orðið í stjórnmálum Mið- og Austur-Evrópu á síðustu þremur árum og enn er ekki séð fyrir endann á en hafa þegar gjörbreytt álfunni. Þar ber hæst pólitískt, félagslegt, efnahagslegt og umhverfislegt gjaldþrot Ráðstjórnarríkjanna og þeirra stjórnarhátta ofstjórnar, einangrunar og kúgunar sem þau voru dæmigerð fyrir en sem því miður eiga enn talsmenn í stjórnmálaumræðunni hér á Íslandi. Einnig ber hátt, og hæst í umræðunni hér á þingi, þær miklu breytingar sem orðið hafa og eru að gerast á samstarfi Vestur-Evrópuþjóðanna, innan Evrópusamfélagsins --- sem verður Evrópubandalag innan tíðar --- og EFTA, sem má með einföldum hætti rekja þannig á þessum sömu þremur árum sem samstarf ríkjanna innan Evrópubandalagsins er að taka mjög miklum breytingum með nánara samstarfi og sameiginlegri stefnumótun, og væntanlega sameiginlegri ákvarðanatöku í ýmsum og æ fleiri málaflokkum.
    Þá hafa nú tekist með samningamönnum þeirra og EFTA-ríkjanna samningar um víðtækt samstarf á sviði efnahagsmála og viðskipta, um aukin viðskipti og samstarf í öðrum málaflokkum. Þó ekki sé á þessari stundu ljóst hvort þeir hljóta staðfestingu verður vart síðar rætt um lakari kjör nokkurs ríkis, sem á að þeim aðild, í viðskiptum við þau sem hins vegar eru. Þá hafa nú þegar flest EFTA-ríkjanna ákveðið --- eða eru nú að fjalla um ákvörðun um --- að sækja um aðild að Evrópubandalaginu, þannig að okkar næsti heimur er að breytast.
    Okkur er ávallt brýn nauðsyn að fylgjast gjörla með þeim breytingum sem gerast með grannþjóðum og helstu viðskiptaþjóðum okkar og þá einkum með breytingum sem verða á samskiptum þjóðanna sem við eigum mest samneyti við á sviði stjórnmála, menningarmála, efnahagsmála og viðskipta. Þegar þær breytingar gerast ber okkur skylda til að vera vel meðvituð um ástæður og að meta jafnharðan áhrif og afleiðingar á afkomu okkar og tilveru, á okkar eigin hagsmuni og að meta til hvaða ráða við viljum grípa. Við getum ekki látið eins og umheimur okkar sé óbreytanlegur, mér virðast þó sumir hv. þm. álíta svo og bregðast hart við hverju sinni sem einhver tekur upp umræðu um ný viðfangsefni í samskiptum okkar við aðrar þjóðir vegna þessa breytanleika.
    ,,Stoppið heiminn, ég vil komast út`` er nafn á gamanleik um látæði fólks sem vildi losna frá síbreytilegum viðfangsefnum í breytandi heimi. Ræður og látæði þeirra hv. þm. sem það virðast vilja er því miður ekki jafnbroslegt, og það hlutskipti sem þeir virðast vilja íselnskri þjóð er ekki gæfulegt. Auðvitað hljótum við alltaf að ræða, meta og spyrja um stöðu Íslands í stjórnmálalegu og viðskiptalegu samstarfi Vestur-Evrópuþjóðanna, annað væri óskynsamlegt. Hver þáttur Íslands skuli vera í æ nánara samstarfi þeirra og hvernig best verði staðinn vörður um hagsmuni okkar, þegar helstu viðskiptaþjóðir tengjast mjög nánum böndum innbyrðis, er sú spurning sem á okkur hvílir að svara á næstu mánuðum og framvegis. Það er hlutverk okkar. Þeirri spurningu var aldrei og verður aldrei svarað til fullrar framtíðar. Samningur um Evrópskt efnahagssvæði mun ekki leysa okkur undan skyldum okkar til að fylgjast grannt með í síbreytilegum heimi, hvort heldur við skynjum hann sem flatan eða hnöttóttan. Hversu vel sem okkur kann að hafa tekist í verki af þessu tagi mun rás tímans úrelda það þegar frá líður.
    Til þessa höfum við lagt mesta áherslu á viðskiptafrelsi í samskiptum okkar við aðrar þjóðir og í gerð viðskiptasamninga við þær. Og til þess liggja tvær grundvallarástæður sem enn eru fyrir hendi: Frelsishugsjón, sem við erum að mestu sammála um, og hagsmunir okkar. Og af því höfum við reynslu að við frelsi í viðskiptum er hag okkar betur borgið en við hvers konar höft, bönn eða einokun, sem oft er komið á undir yfirskyni verndar. Sama sjónarmið getum við heimfært á samningana um Evrópska efnahagssvæðið og hugsanlega samninga okkar beint við Evrópubandalagið. Hagsmunum okkar er og verður betur borgið ef við höfum frelsi til að eiga jafnframt viðskipti við lönd utan þess, önnur Evrópulönd, Bandaríkin og önnur Ameríkulönd, Japan eða önnur Asíulönd. En við getum ekki á sama tíma hafnað viðskiptum við Vestur-Evrópu og þurfum því að haga samningum okkar þannig að við getum nýtt þá kosti sem fólgnir eru í legu landsins milli heimsálfanna, Evrópu, Ameríku og Asíu, og það virðumst við geta samkvæmt ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagsvæði.
    Reynsla okkar kennir að einangrun er okkar versti óvinur. Það er álit mitt að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé þrátt fyrir ókosti ásættanlegur vegna kostanna og að við Íslendingar eigum þess vegna að staðfesta hann af okkar hálfu. Þannig mun hagsmunum okkar betur borgið en með því að hafna honum. Mestu skiptir að við munum með samningnum fá verulega bætt viðskiptakjör á mörkuðum Vestur-Evrópu fyrir helstu afurðir okkar frá okkar öflugustu útflutningsgrein sem hefur á undanförnum árum mjög sótt inn á þessa markaði en á þar í harðri samkeppni við keppinauta sem nú njóta betri kjara af hálfu stjórnvalda þar og því mun samningurinn breyta. Samningurinn mun jafnframt gera kleift að fullvinna meira en verið hefur af sjávarafurðum okkar hér heima og flytja þannig á þessa markaði okkar.
    Samkeppnisstaða íslenskrar fiskvinnslu mun stórum batna með staðfestingu þessa samnings. Sjávarútvegur okkar hefur sætt slæmum kjörum á undanförnum árum og er ekki seinna vænna að hefja bætur á rekstrarskilyrðum hans og það verður gert með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Mikilvæg samskipti á öðrum sviðum, svo sem í menningar- og menntamálum og fleiri málaflokkum, komast á eðlilegan grundvöll með staðfestingu samningsins og því er einnig af þeirri ástæðu okkur til hagsbóta að staðfesta hann. Með honum verðum við ekki einangruð, við getum áfram gert viðskiptasamninga við önnur mikilvæg markaðssvæði og gætum þess vegna haslað okkur völl í alþjóðaviðskiptum á grundvelli sérstæðrar legu landsins. En á sama tíma virðist ekki eftir betri viðskiptakjörum að slægjast við Evrópubandalagið með öðrum hætti.
    Þó kostir virðist augljósir við aðild að Evrópubandalaginu er hitt líka ljóst að miklir ókostir blasa við. Núverandi fiskveiðistefna Evrópubandalagsins og gífurlegir hagsmunir okkar í auðlindum sjávarins eru algjörar andstæður, svo aðeins eitt sé nefnt af nokkrum atriðum.

    Starf Útflutningsráðs eykst mjög að mikilvægi með staðfestingu samningsins. Þá þegar þurfum við að leggja upp með skipulegt markaðsátak í Evrópu fyrir nýjar afurðir okkar, fullunnar neytendavörur, fiskinn á diskinn. Enn fremur þarf að efla mjög kynningu á ímynd Íslands meðal grannþjóða okkar í Evrópu og öðrum heimshlutum sem land heilbrigði, hreinlætis og gæða. Tengja þarf saman kynningarstarf og markaðsátak fyrir íslenskar fiskafurðir, ferðaþjónustu og ráðstefnuhald með áherslu á vetrartíma, heilsugæslu eða heilbrigðisþjónustu fyrir erlenda kaupendur og landbúnaðarafurðir. Ísland er í hópi þeirra landa sem viðhafa strangar hreinlætisreglur og eftirlit með framleiðslugæðum og nota lítið af utanaðkomandi efnum til ræktunar, fóðurgjafar og eldis. Við ástundum því hreinan landbúnað sem gefur afurðir sem falla undir hugtök og mælikvarða heilbrigðis, hreinlætis og gæða.
    Áherslubreytinga má vænta í samstarfi Norðurlandanna. Það mun markast af þeirri breytingu sem orðin er og er að gerast í samskiptum ríkjanna sunnar í álfunni og austan Eystrasalts. Það er fullkomlega eðlilegt að frændþjóðir okkar og grannþjóðir á Norðurlöndum veiti aukna athygli þeim breytingum og leiti eftir þátttöku í þeim, til að mynda til að tryggja viðskiptahagsmuni, öryggishagsmuni og ekki hvað síst umhverfishagsmuni sína. Vegna þessa má vænta nokkurra skila í samstarfi okkar við þær en þess verðum við að gæta sjálfir að verða ekki utangátta. Við eigum líka ríkra hagsmuna að gæta á þessum sviðum, að endurreisa fyrri sterka viðskiptamarkaði og við eigum stóra möguleika til nýrra viðskipta. Þeirra verður aðeins gætt með samneyti við þessar þjóðir og samtök þeirra, hvort heldur þau eru Norðurlandaráð, Eystrasaltsráð, Evrópubandalag eða enn önnur. Látum ekki einangrast.
    Aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu ásamt varnarsamstarfinu við Bandaríkin hefur verið einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar. Þær miklu breytingar sem orðið hafa í Evrópu og á samskiptum stórveldanna á síðustu árum hafa svo ekki verður um villst sýnt fram á réttmæti þeirra gjörða. Það samstarf er nú meðal burðarása í samtökum frjálsra þjóða sem eru þess umbornar að rétta fram styrk sinn og aðstoð til þeirra þjóða sem nýlega brutust úr helfjötrum kommúnismans og glíma nú við grettistak í uppbyggingu samgöngutækja, atvinnu- og efnahagslífs, þjóðfrelsis sem fólkið geti borið traust til, í stuttu máli félagslegra og efnalegra mannsæmandi lífskjara í líkingu við þau sem við teljum sjálfsögð mannréttindi. Þessar þjóðir vísa einmitt mjög til Atlantshafsbandalagsins sem helsta aðila til að veita þeim tryggingu fyrir öryggi og sjálfstæði, einkum meðan þær heyja þessa glímu ásamt baráttunni við að brauðfæða sig og klæða og hafa ekki á sama tíma afl til neins sem umfram er. Hvers konar ofstækis-, stjórnleysis- og einræðisöfl ala á sama tíma á óánægju og sundurþykkju íbúa og þjóðfélagshópa. Hætta á valdaráni getur enn verið raunveruleg hjá hinum nýfrjálsu þjóðum Mið- og Austur-Evrópu, þar eru enn mikil vopnabúr, m.a. búin kjarnorkuvopnum, og hver getur séð fyrir afleiðingar ef til valdaráns kæmi? Hlutverki Atlantshafsbandalagsins er síður en svo lokið. Það hefur gengið til móts við óskir þessara þjóða um að taka upp nýtt samráð um öryggi og stöðugleika í Evrópu allri og tekið að sér enn aukið hlutverk.
    Dregið hefur úr ágreiningi okkar um þátt Íslands í samstarfi Vesturlandaþjóða um öryggis- og varnarmál, við erum að mestu sammála þar um. Forsendur í Evrópu hafa sannarlega breyst en afstaða okkar getur að þessu leyti verið söm sem hingað til. Við teljum samstarf og samráð til góðs í skiptum þjóða og að nokkur samskipti í öryggis- og varnarmálum muni leiða til betri skilnings þeirra á áhorfsmálum hverrar annarrar, sem aftur dregur úr spennu í samskiptum þeirra. Þess vegna tel ég við hæfi að við höfnum ekki boði um aukaaðild eða áheyrn að Vestur-Evrópusambandinu nema því aðeins að í ljós komi að einhver óþolandi böggull fylgi skammrifi ellegar að þannig verði rekinn fleygur í samstarf okkar við Bandaríkin, en það samstarf hefur til þessa reynst okkur haldbetra en vinátta og frændsemi hinna sundurleitu þjóða á meginlandi Evrópu. Mér virðist á því sem skýrslan segir um þetta að ekki hafi verið svarað á annan hátt en þann að við bíðum átekta.
    Allt bendir nú til þess að umsvif varnarliðsins á Íslandi fari minnkandi, bæði almenn starfsemi og framkvæmdir. Sterkar raddir eru vestra um að minnka hlut Bandaríkjanna í varnarsamstarfi þeirra við Vestur-Evrópuríkin í Atlantshafsbandalaginu og víðar um heim. Bandaríkjamenn sjálfir hafa ríka ástæðu til að beina kröftum stjórnvalda að verkefnum heima fyrir og að öðrum verkefnum á sviði alþjóðamála og hafa ákveðið niðurskurð útgjalda til varnarmála bæði heima fyrir og erlendis. Þó má telja líklegt að eftirlitshlutverk varnarstöðvarinnar í Keflavík verði enn talið mikilvægt vegna legu landsins milli meginlandanna, við einstæða siglingarleið inn á Atlantshafið og við flugleiðir um það norðanvert. Viðbúnaður mun væntanlega minnka og það hlutverk taka breytingum við endurmat á stefnu bandalagsins um viðbúnað eða flutninga.
    Hæstv. utanrrh. bendir á að íslenskum starfsmönnum varnarliðsins hefur fækkað vegna ráðningarbanns. Hann greinir einhverra hluta vegna ekki frá því að þetta ráðningarbann tók við af öðru og í upphafi hins fyrra voru íslenskir starfsmenn varnarliðsins talsvert fleiri en hér kemur fram og skiptu tugum. Framkvæmd þessa banns sýnist beint að íslenskum starfsmönnum varnarliðsins og verður ekki séð að það umgangist vinnumarkað á Suðurnesjum og launþega þar af sömu virðingu og það hefur notið um 40 ára skeið sem traustur vinnuveitandi en óbilgjarn keppinautur um vinnuafl. Starfsmenn þess hafa í framkvæmd sætt strangari trúnaðarkröfum en almennt gerist vegna eðlis starfseminnar. Þeir hafa aflað sér sérhæfingar sem kemur þeim þó hvergi að notum annars staðar á vinnumarkaði hérlendis og njóta þess nú að engu við starfslok vegna fækkunar og samdráttar. Um áratugi hefur varnarliðið og umsvif þess í heild tekið til sín allt það vinnuafl sem það hefur þarfnast í krafti yfirburða yfir fábrotnum og veikburða atvinnuvegum á Suðurnesjum rétt eins og um landið almennt. Nú þegar þessi risi á litlum og fábrotnum vinnumarkaði Suðurnesja dregur að sér höndina reynist ekkert í farinu eftir fjóra áratugi. Hann hefur ekkert lagt til þróunar atvinnutækifæra sem gæti tekið við þegar takmarkið næðist, samdráttur í varnarstarfi. Hann hefur ekki lagt til endurhæfingar starfsmanna sinna, ekki til atvinnuleitar eða annarra sambærilegra verkefna, starfsmenn hans fá ekki upplýsingar um hvað fram undan er að þessu leyti fyrr en yfir þá ganga uppsagnir.
    Starfsmenn Íslenskra aðalverktaka og undirverktaka þeirra standa í sömu sporum. Neikvæð umræða um áratuga gamalt eignarhaldsfélag hefur brugðið neikvæðu ljósi á fyrirtækið allt, starfsemi þess og rekstrarárangur. Raunhæft og hlutlægt mat á upplýsingum um afkomu, árangur og uppbyggingu fyrirtækisins hefur ekki átt upp á pallborðið í umræðu fjölmiðla og ráðamanna og svonefndum athugasemdum hv. þm. um atkvæðagreiðslur í málum sem í engu snerta þessa verktakastarfsemi eða verk starfsmanna þar. Hefur þar því miður mest borið á gagnrýni og ásökunum á menn fyrir að fylgja úrskurði réttbærra aðila í skattheimtukerfi landsins, þ.e. réttra aðila að lögum um skattamál eignarhaldsfélagsins. Ákvarðanir stjórnvalda hafa mótað allt hið sérstæða og umdeilda fyrirkomulag verktöku við framkvæmdir á vegum varnarliðsins. Suðurnesjamenn og starfsmenn fyrirtækjanna hafa þar ekki komið nærri og hagsmunir þeirra hafa ekki verið hafðir í fyrirrúmi. Þegar núverandi fyrirkomulagi var komið á laggirnar mun það hafa verið nauðsynlegt til að Íslendingar gætu annast þessi verkefni. En síðan hefur mikið vatn til sjávar runnið og sitthvað tekið breytingum, m.a. tæknilegir burðir verktakafyrirtækja okkar.
    Fyrir fáum árum beitti ríkisvaldið sér fyrir þeim breytingum sem mest eru gagnrýniverðar og hafa valdið erfiðleikum í samskiptum okkar og samstarfsþjóða okkar um þessi verkefni. Í framhaldi af afskiptum ríkisvaldsins var komið að útborgun uppsafnaðs hagnaðar og arðs eftir fjögurra áratuga rekstur. Þá voru allir, sem hægt var að tengja starfsemi þessari undir sömu sök seldir, þeir græddu. Þeir hlutu því að hafa brotið lög --- eða hvað?
    Það er von að margir þeir sem stunda rekstur á eigin áhættu hér á landi telji sig olnbogabörn í umræðu þessa þjóðfélags. Ef þeim mistekst í ákvörðunum, fjárfestingar þeirra reynast illa og reksturinn sýnir tap þá heita þeir kjánar og þess vegna óalandi og óferjandi. Ef þeim tekst vel, fjárfestingar þeirra reynast ábatasamar og reksturinn skilar hagnaði --- einkum ef þeir geyma hagnaðinn í fyrirtækjunum og ávaxta hann með bestu kjörum og þeir græða á öllu saman, þá heita þeir illmenni og svikarar.
    Ekki hefur þess verið getið að hagnaður af starfsemi Íslenskra aðalverktaka er fremur lágt hlutfall af rekstrartekjum en umsvifin hins vegar talsverð. Hitt bætist við að fyrirtækið notar sína eigin fjármuni, það er ekki stórskuldugt og borgar því ekki stórfé í vexti, heldur hefur það vaxtatekjur af sínu rekstrarfé. Um skattskyldu af uppsöfnuðum hagnaði er ekki þingsins né heldur fjölmiðla að dæma. Málinu hefur verið skotið til réttra aðila, hvatvísi þingmanna og fjölmiðla hefur þar ekkert um að segja.
    Ég er þeirrar skoðunar að varnarliðsstarfsemin krefjist nýrrar athugunar á stöðu starfsmanna þess, einkum þeirra sem eru mjög sérhæfðir og mundu í sambærilegum stöðum hér teljast opinberir starfsmenn og stjórnendur. Það er jafnnauðsynlegt að taka stöðu Íslenskra aðalverktaka til endurskoðunar og hefja þær breytingar sem hæstv. utanrrh. segir í skýrslu sinni að hann hafi stefnt að á verktöku fyrir varnarliðið. Þá má heldur ekki útiloka að þetta best búna verktakafyrirtæki Íslendinga fái tækifæri til að hasla sér völl erlendis á alþjóðlegum verktakamarkaði, t.d. á vegum sama varnarsamstarfs annars staðar í Evrópu, jafnvel víðar. Starfsmenn þess hafa alla þá kunnáttu sem til þarf og orðspor fyrirtækisins fyrir tæknilega getu og gæðaeftirlit er óumdeilt. Um mótun hvors tveggja er eðlilegt að starfsmenn og aðilar sem teljast ábyrgir fyrir vinnumarkaði á Suðurnesjum fái upplýsingar fyrr en gerst hefur. Það er of seint.
    Gætum að því að tekjur okkar af starfsemi og framkvæmdum varnarliðsins á Íslandi hafa allar verið gjaldeyristekjur, í raun útflutningstekjur af vinnuafli, þjónustu, vörum og mannvirkjagerð. Það fáum við ekki bætt með því að tækjakostur og starfslið Íslenskra aðalverktaka bætist í hóp keppinauta á þröngum --- líklega að sinni ofsetnum --- verktakamarkaði hér innan lands. Ekki bætir það slæma aðstöðu þeirra starfsmanna sem þarna hafa unnið um árabil af trúmennsku og lagt fram sinn skerf til uppbyggingar þróttmikils verktakafyrirtækis sem lengst af var einstætt á Íslandi, allt þar til erlendir verktakar hófu þátttöku í innlendum verktakafyrirtækjum vegna virkjanagerðar og byggingar stóriðjufyrirtækis fyrir aldarfjórðungi eða ríflega það.
    Þegar kemur að frekari samdrætti í starfsemi varnarliðsins mun umferð um flugvöllinn væntanlega minnka nokkuð af þeim sökum. Ég tel einsætt að við nýtum okkur það tækifæri sem þá skapast og hefjum raunverulega markaðssetningu á þeirri aðstöðu sem flugvöllurinn er. Hann er hlið okkar að þremur heimsálfum á þrjá vegu til að eiga mikil viðskipti, í hvers konar atvinnugreinum, með hvers konar vörur eða þjónustu, við efnhags- og viðskiptasvæði handan þriggja heimshafa. Á hinn bóginn verðum við að gæta þess að eiga sem best samstarf við varnarliðið og meta það að þar er til aðstaða sem á margan hátt er betri, sterkari en við getum komið upp á skömmum tíma. Það getur átt við um björgunarstarf og til að mynda þá skyldu sem við hljótum að bera sem stjórnendur flugs, alþjóðaflugs yfir norðanvert Atlantshaf.
    Á hinn bóginn býr mér stundum við að spyrja hvort ekki komi að því innan skamms að nokkrar stofnanir sem sérkennilegar virðast vera innan starfssviðs utanrrn., þó undir varnarmál heyri að nokkru leyti, hvenær þær eigi að falla með réttu undir önnur ráðuneyti, svo sem Flugmálastjórn, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Fríhöfnin, löggæsla og tollgæsla. Ég fæ ekki séð að þessar stofnanir séu albundnar af varnarstarfseminni. Á hinn bóginn hlýt ég að segja, vegna þess að þetta kemur til umræðu, að mér þykir sérkennileg staðsetning nýbyggingar þeirrar sem verið er að reisa vegna stjórnstöðvar flugumsjónar á norðanverðu Atlantshafi. Mér þætti eðlilegast að hún hefði verið staðsett við Keflavíkurflugvöll.
    Virðulegi forseti. Ég átti þess kost í febrúar sl. að fara í hópi fleiri þingmanna úr Evrópu til Palestínu og kynnast lítillega ástandinu á hernumdu svæðunum. Í skýrslunni sem hér er til umræðu er nokkuð vikið að þessu máli svo og fjallar hún nokkuð um samskipti EFTA og Ísraels. Ástandið í Palestínu, þ.e. á þessum hernumdu svæðum, er frómt frá sagt afar slæmt. Palestínumenn eru af hernámsliði og stjórnvöldum Ísraels beittir misrétti og harðræði af ýmsu tagi. Um það má nefna nokkur atriði svo sem mjög uppáþrengjandi og ögrandi nærveru ísraelskra herflokka í varðstöðvum, á hæðum, á vegamótum, á gatnamótum, um öll þéttbýli, og víggirðingar þeirra inni í borgum, bæjum og flóttamannabúðum --- já, meira að segja í flóttamannabúðum, upptöku eigna af alls konar ástæðum, sem sumar samræmast ekki alþjóðasamþykktum, slæma meðferð á föngum og á börnum, meðferð á flóttamönnum sem ekki samræmist samþykktum þeim sem Ísrael og við ásamt fleiri þjóðum höfum undirgengist, mismunun í húsnæðismálum, aðskilnað og mismunun á rétti þjóða og trúfélaga, um atvinnu, um útflutning eigin afurða, um fiskveiðar, um vatn, um skilríki.
    Meðal menntastofnana Ísraela fer greinilega fram verulegur heilaþvottur eða innræting því að við heyrðum æsku Ísraels halda því fram að það hafi gefið Palestínumönnum land í flóttamannabúðum. Við eigum öll væntanlega að vita betur. Palestínumenn hafa búið þetta land í þúsundir ára. Nýlendustefna og landnám Ísraels á ræktarlöndum Palestínumanna í einkaeign er geigvænleg og eru enn frekari brot á þeim samþykktum sem eiga við um hernumin lönd og hernumdar þjóðir. Bann við fjölmiðlum, félasmiðstöðvum hvers konar og undarlegar vega- og götumerkingar þar sem hvergi er getið bæja eða byggða Palestínumanna, aðeins bæja og byggða Ísraelsmanna, er meðal fjölmargra atriða sem sýna fram á niðurlægjandi framkomu gyðinganna við aðra íbúa þessa lands.
    Svo virðist vera að þrátt fyrir aðild Ísraels að Sameinuðu þjóðunum komist það upp með að virða ekki samþykktir allsherjarþings þess og öryggisráðs um málefni Ísraels og Palestínu, þrátt fyrir að hafa sérstaklega við inngöngu í samtökin lýst yfir að það mundi gera svo. Einnig virðist vera að þrátt fyrir að Ísrael sé meðal þeirra ríkja sem hafa staðfest fjórða Genfarsáttmálann um meðferð hernuminna svæða og hertekins fólks, og sérstaklega yfirlýst að það muni virða hann í einu og öllu, þá virði það ekki ákvæði hans --- og komist upp með það. Mér virðist það mikið álitamál hvort við eigum að beita okkur fyrir fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Ísraels meðan þannig stendur. Mér er ljóst að ef við hverfum frá afstöðu okkar og beitum okkur aftur gegn samningsgerð þá höfum við snúið við blaðinu því við höfum áður gert viðskiptasamninga við ríki sem hafa beitt þegna sína misrétti, ekki virt mannréttindi og haldið löndum heilla þjóða herteknum. Þannig var um Ráðstjórnarríkin og ekki klígjaði okkur við viðskiptasamningum við þau. Við höfum líka átt aðild að fríverslunarsamningum við ríki sem ekki hafa hreinan skjöld í þessum efnum.
    Við höfum haldið því fram að við blöndum ekki saman viðskiptakjörum og mannréttindabaráttu. En við höfum líka tekið þátt í viðskiptabanni á ríki sem hefur hegðað sér líkt og Ísrael, það heitir Suður-Afríka. Vegna þessa hef ég ekki komist að niðurstöðu um það hvor afstaðan muni vera stefna okkar í þessu efni og hverjar forsendur hennar, og lái mér hver sem vill.
    Virðulegi forseti, ég þakka aftur skýrslu hæstv. utanrrh. og greinargóða ræðu hans er hann mælti fyrir skýrslunni, en einkum þátttöku og svör hæstv. forsrh. í umræðum um skýrsluna og læt hér með máli mínu lokið.