Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 01:38:00 (4988)

     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér er til umræðu er allviðamikið plagg og tekur á mörgu með nokkuð misjöfnum hætti. Í umræðunum hafa verið tekin fyrir allmörg atriði í þessari skýrslu sem ég sé ekki ástæðu til að fara út í en ég mun hér í tiltölulega stuttu máli ræða nokkur atriði sem mér finnst ástæða til að fjalla nokkru nánar um. Og ég ætla að byrja á því að ræða um þann þátt skýrslunnar sem fjallar um tengsl okkar við Evrópu og þær vangaveltur sem er að finna í skýrslunni um hið Evrópska efnahagssvæði, þá óvissu sem ríkir um þann samning og þær vangaveltur sem þar er að finna um það hversu varanlegt það samkomulag mundi verða.
    Í umræðunum um þessa skýrslu hefur mikið verið spurt um það hvort stefna ríkisstjórnarinnar í EES-málum hafi breyst eða ekki. Ég ætla ekki að fjalla mikið um það. Hæstv. forsrh. hefur tekið það mjög skýrt fram að svo er ekki og raunar má finna þess stað allvíða að hæstv. utanrrh. er einnig þeirrar skoðunar. Hann ítrekar það í skýrslunni oftar en einu sinni að um óbreytta stefnu sé að ræða.
    Hins vegar get ég ekki neitað því að það vekur athygli mína að í þessari skýrslu er lögð sérstök áhersla á þá óvissu um örlög samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem nú ríkir. Þar að auki er mikið um vangaveltur um það hvers virði samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er og hvaða þýðingu hann muni hafa í framtíðinni. Það er rétt að taka það fram að slíkar efasemdir hafa komið fram á þessum stað áður, en hingað til hefur það einkum verið hlutverk hæstv. utanrrh. að leggja áherslu á það að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði hafi einmitt gildi þótt aðrar EFTA-þjóðir en Íslendingar gengju í Evrópubandalagið. Í skýrslunni er þess vegna að finna áherslubreytingar þar sem ráðherrann sjálfur kemur fram með miklar vangaveltur um það hvert gildi þessi samningur hafi, og sú áherslubreyting hlýtur að

vekja spurningar um hver sé tilgangurinn með þessum vangaveltum um veikleika Evrópska efnahagssvæðisins og samningsins þar um einmitt nú á þessu augnabliki.
    Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. að hann taldi að með þessum hætti hefði honum tekist að þjappa efasemdarmönnum saman um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Ég hef miklar efasemdir um að það hafi tekist og fer ekkert í grafgötur með það. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að það er mjög mikilvægt að um þetta mál fari fram hér í þinginu opin og víðtæk umræða því að þetta mál er mjög mikilvægt. Ég vil einnig taka það fram að mér finnst að það skipti miklu máli að menn reyni að fjalla um þá þróun sem á sér stað í Evrópu með opnum huga, fordómalaust og gangi þessa göngu með það í huga að efna til málefnalegrar umræðu en fari ekki þessa leið eins og krossfarar. Mér finnst að slíkt hafi komið nokkuð fram í máli hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifs Guttormssonar, sem hefur vakið athygli á sér í þessari umræðu fyrir ofstækisfullan málflutning og einkum og sér í lagi fyrir árásir hans á hv. 10. þm. Reykv. og fleiri talsmenn Kvennalistans sem hafa lagt áherslu á það í umræðunum að fara með málefnalega umfjöllun um þetta mál. Það ber að gæta varfærni í svona máli, það er veruleg hætta á því að hér verði mikill ágreiningur um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þessi ágreiningur er nánast alls staðar þar sem hann er til umfjöllunar, það er líka ágreiningur um þessi mál á Norðurlöndunum. Þessi ágreiningur er djúpstæður á Íslandi. Og þó að segja megi að þessi ágreiningur sé vafalaust óumflýjanlegur hér á landi þá getur hann orðið skaðlegur og því djúpstæðari sem hann er þeim mun skaðlegri verður hann. Hann getur leitt til óstöðugleika í utanríkismálum, og fyrir þjóð sem lifir og hrærist í utanríkisviðskiptum skiptir miklu máli að gæta varfærni á þessu sviði stjórnmálanna. Utanríkisviðskipti skipta miklu máli fyrir Ísland, utanríkisstefnan er einn af hornsteinum þjóðlífsins og það er þess vegna mikilvægt að ná eins víðtækri samstöðu um þetta mál og hægt er. Þessi orð eru sögð í þeim tilgangi að brýna það fyrir þeim sem um þennan samning fjalla og almennt um tengsl Íslendinga við önnur lönd að leita sáttaleiða til þess að fikra sig áfram í skilningi á eðli þessa samnings og áhrifum hans á líf og störf þjóðarinnar. Þetta er skylda okkar og það er þá skylda þeirra sem í ríkisstjórninni sitja og umfram allt skylda hæstv. utanrrh.
    Mér er það vel ljóst eins og sjálfsagt öðrum þingmönnum að þessi samningur snertir við djúpum strengjum í brjósti flestra Íslendinga, um það vitna raunar viðbrögð þeirra sem samningurinn laðar að sér og einnig hinna sem hann hrindir frá sér. En ég tek það líka fram að um það vitna þó líka og kannski einkum og sér í lagi sá stóri hópur Íslendinga sem viðurkennir af lofsverðri hreinskilni að hann viti ekki nógu mikið um þennan samning til að taka afstöðu til hans. Slík varfærni er óvenjuleg í þessum yfirlýsingaglaða nútíma. Hún bendir til þess að þetta mál sé í augum almennings mikilvægt álitamál sem krefst skoðunar og yfirvegunar. Það er því mikil nauðsyn á opinskárri og málefnalegri umræðu um stöðu Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi. Í þessari umræðu þurfum við að fjalla um samningsaðila EFTA-þjóðanna, Evrópubandalagið, í ljósi þess hvernig tilurð þess bandalags hefur orðið, hver voru upphafleg markmið með þessu samstarfi Evrópuþjóðanna og hvernig það hefur þróast. Þessar umræður mega ekki einfalda um of þann flókna veruleika og á margan hátt mótsagnakennda veruleika sem þetta ríkjasamband er. Þarna er um að ræða ríkjasamband sem er deigla, það breytist hratt og það er allt annað en einfalt mál að átta sig á því hvað þar á sér stað.
    Ég held ég verði þó að taka það fram sérstaklega að tilurð Evrópubandalagsins má fyrst og fremst rekja til þess hvernig landamæri eru dregin í Evrópu og hvernig þessi landamæri, sem eru dregin þvert á menningu, þjóðmenningu og tungu, hafa orðið uppspretta styrjalda og átaka í Evrópu, ekki aðeins á þessari öld heldur og á öldum áður. Það hafa raunar staðið óslitið átök í Evrópu öldum saman, sem eiga rætur að rekja til þess að landamæri hafa verið dregin í Evrópu með stríði, blóði og þjáningum þvert á þjóðmenningu og þvert á tungumál. Ef við lítum til þess að Þýskaland varð til í þremur meiri háttar styrjöldum, að allt frá því á tólftu öld hafa landamæri Frakklands orðið til í gegnum stríð ellegar samninga í lok blóðugra átaka, ef við lítum til þess að allar helstu menningarþjóðir Evrópu eiga mjög sára reynslu, aldagamla reynslu, sem tengist átökum um landamæri, þá er það raunverulega ekki að undra þótt sú tíð hafi komið að Evrópuþjóðirnar hafi leitað eftir leiðum til að leysa þessi viðkvæmu mál, sem tengjast landamærum og landamæradeilum, með öðrum hætti en þjóðríkin hafa getað. Það er ekki að undra þó að þessar þjóðir hafi leitað eftir því að finna lausn, að finna leið til þess að tryggja þjóðveldi sitt og sjálfstæði, jafnvel með því að fórna hluta af fullveldinu, vegna þess að hvað eftir annað hafa þessar þjóðir staðið frammi fyrir þeim möguleika að verða að fórna fullveldi sínu tímabundið vegna þessara sérkennilegu aðstæðna sem hafa verið öldum saman í Evrópu.
    Frakkar eru ein af þeim þjóðum sem áttu verulegan þátt í því að mynda Evrópubandalagið. Rétt áður en fundurinn í Maastricht var haldinn kom fram það viðhorf hjá François Mitterand, forseta Frakklands, að Frakkar væru reiðubúnir til þess að fórna hluta af sínu fullveldi til þess að tryggja bætt og aukið samstarf Evrópuþjóða. Þetta er í raun og veru kannski ekki að undra þegar tekið er tillit til þess að á sl. tæpum 200 árum hafa Frakkar þrisvar sinnum misst tímabundið fullveldi sitt vegna styrjaldarátaka í Evrópu sem tengjast landamæradeilum og sem hafa verið magnaðar upp með kröfum þjóðarbrota.
    Hvar sem litið er í Evrópu eru landamæri dregin þvert á þjóðernishópa. Innan Frakklands er að finna Baska, sem einnig eru á Spáni, þar er að finna Korsíkubúa sem finna til samkenndar með Ítölum. Innan landamæra Ítalíu eru íbúar Aosta-dalsins sem tala frönsku og hafa lengi vel fundið til samkenndar með Frökkum og hafa allt fram á þennan dag haft áhuga á því að berjast fyrir sjálfstæði, en tala nú ekki lengur um það vegna þess að þeir telja hagsmunum sínum borgið innan Evrópubandalagsins.
    Ef við lítum til annarra landa þá eru Ungverjar í Rúmeníu, þeir munu vera í Tékkóslóvakíu líka. Það eru Pólverjar víða í heiminum en þeir eru í öllum nágrannalöndum Póllands. Það eru Pólverjar í Litáen. Og öll þessi þjóðarbrot eru nokkurs konar púðurtunna í Evrópu.
    Tilgangurinn með Evrópubandalaginu var sá að reyna að finna lausn á þessu mikla vandamáli sem hefur hvað eftir annað tekið Evrópu blóð og skaðað stórlega evrópska menningu. Draumurinn á bak við Evrópubandalagið er í raun og veru mjög flókinn en hluti af þessum draumi og kannski sá mikilvægasti er draumurinn um frið. Og þær hugmyndir sem menn komu fram með og mótuðu Efnahagsbandalagið, í upphafi þess ferils, urðu til strax eftir seinni heimsstyrjöldina.
    Evrópa er hins vegar ekki eingöngu í dag draumur um frið. Evrópa er líka á vissan hátt draumur um að fá að búa við og rækta sína eigin þjóðmenningu. Ég hef stundum hugsað til þess að það mundi örugglega fara eins fyrir Evrópubandalaginu og fór fyrir Sovétríkjunum ef það misvirti og vanvirti þjóðlega menningu. Því hefur verið haldið fram hér í umræðunum um þetta mál, sem tengjast núna skýrslu hæstv. utanrrh., að þjóðríkin í Evrópu séu dauð og Evrópa gangi á hlut þjóðlegrar menningar. Þessi fullyrðing er mótsagnakennd á vissan máta vegna þess, eins og ég sagði raunar áðan, að ríkin í Evrópu eru ekki hrein þjóðríki, þau eru það að mjög takmörkuðu leyti. Mjög margir hópar telja hag sínum vel borgið innan Evrópubandlagsins vegna þess að þeir telja sig verndaða fyrir þjóðríkinu, fá frið til þess að iðka sína menningu, tala sitt tungumál.
    Það er t.d. ekki ýkja langt síðan að það var efnt til uppákomu í Týról. Þar voru annars vegar Austurríkismenn, sem tilheyra ekki Evrópubandalaginu enn þá, og hins vegar Ítalir. Þessir Ítalir voru að vísu þýskumælandi, en þetta fólk fann til samstöðu og átti þá ósk heitasta að Austurríki gengi inn í Evrópubandalagið til þess að það fengi frið til að iðka sína menningu, tala sína tungu í friði fyrir þjóðríkinu --- innan ramma Evrópubandalagsins. Þannig fer það ekki milli mála að í augum margra er Evrópubandalagið griðland fyrir ákveðna þjóðernishópa, ákveðna tungumálahópa. Ég held að það sé alveg ástæðulaust að horfa fram hjá þessari staðreynd, því ef menn gera það þá vanmeta þeir Evrópubandalagið.
    Það hefur einnig komið mjög skýrt í ljós að margir líta á Evrópubandalagið sem sérstakt griðland fylkja og héraða, sem heldur jafnvel aftur af miðstýringaráráttu þjóðríkjanna. Ég hef lesið fjölmargar greinar eftir stjórnmálamenn í Evrópu sem leggja mikla áherslu á þetta. Og það fer ekkert milli mála að þetta viðhorf er að finna mjög víða í Evrópu. Löndin í Þýskalandi hafa á vissan hátt blómstrað innan Evrópubandalagsins. Það hafa í raun og veru héruðin í Frakklandi gert líka. Þess ber líka að geta að innan Evrópubandalagsins koma fram þau sjónarmið að það geti táknað vissan blómatíma fyrir smáríkin. Ég held að það sé alveg rétt að kalla hér fram ákveðna þætti í þessum flókna veruleika, sem Evrópubandalagið er, vegna þess að mér hefur fundist að í máli mjög margra ágætra þingmanna sem hér hafa tekið til máls hafi komið fram takmarkaður skilningur á því hversu flókin heild þetta er.
    Það kom t.d. mjög skýrt fram í máli Ólafs Ragnars Grímssonar að hann taldi að Evrópubandalagið ynni gegn hagsmunum þjóðríkjanna. Og það sem væri í raun og veru að gerast í Austur-Evrópu væri það að þjóðríkin hefðu steypt veldi sósíalismans og nú væri kominn tími þjóðríkjanna þar og Evrópubandalagið væri ekki í takt við tímann. Evrópubandalagið múraði sig inni á meðan aðrir væru að brjótast út úr múrum. Hann gaf í skyn, þessi ágæti þingmaður, að Evrópubandalagið væri að þessu leyti hálfgerð tímaskekkja.
    En hvað hefur verið að gerast hjá hinum nýfrjálsu þjóðríkjum í Austur-Evrópu? Vissulega er það rétt að upp úr rústum sósíalismans hefur risið mikil þjóðernisstefna. En sú þjóðernisstefna bankar nú stíft á dyr Evrópubandalagsins. Ríkin knýja á dyr þessa lokaða virkis, sem múrar sig inni, og hvers vegna gera þau það? Það er vegna þess að þegar Sovétríkin hrundu þá leystist úr læðingi nákvæmlega sams konar vandi í Austur-Evrópu og Evrópubandalagið hefur að hluta til leyst í Vestur-Evrópu. Það var eins og þar lykist upp eins konar askja Pandóru, full af sjúkdómum, vandamálin sem höfðu verið til fyrir 1914 komu aftur í ljós, þau lifnuðu. Og þessi einfaldi veruleiki, sem hefur ríkt í Evrópu á dögum kalda stríðsins, var horfinn og menn neyddust þá til þess að horfast í augu við raunveruleikann í Evrópu, allan þennan flókna og mótsagnakennda raunveruleika sem er að sjálfsögðu staðreynd Evrópu fyrir austan alveg eins og fyrir vestan. Þessar þjóðir gera sér mætavel grein fyrir því hvaða hættur eru þarna á ferðinni og þær snúa sér til þeirra stofnana sem þær sjá að geta boðið upp á einhvern stöðugleika. Þær snúa sér til Evrópubandalagsins. Þær hafa einnig áhuga á samstarfi við NATO. Og það er vegna þess að þótt tími þjóðríkisins sé að vissu leyti eða einhverju leyti upp risinn aftur þá hafa þessi þjóðríki innan sinna vébanda mikil vandamál sem þau telja að Evrópubandalagið geti leyst, geti hjálpað þeim að leysa.
    Þetta er nú m.a. það sem ég held að sé nauðsynlegt að taka til athugunar þegar menn reyna að átta sig á því hvort Evrópubandalagið sé fyrirbæri sem á sér framtíð eða hvort það er fyrirbæri sem stendur gegn hinni eðlilegu þróun Evrópu. Ég er þeirrar skoðunar að Evrópubandalagið eigi sér mjög sterkan tilverurétt og muni styrkjast af sjálfu sér, þó að ég sé ekki viss um að það muni halda áfram á þeirri miðstýringarbraut sem það hefur verið á. Það vill nefnilega svo til að innan ríkja Evrópubandalagsins eru mjög skiptar skoðanir um það hvort Evrópubandalagið sé að þróast í hagstæða og eðlilega átt eða ekki. Það er alveg ástæðulaust að horfa fram hjá þessum flókna veruleika sem er til í Evrópu, það er alveg ástæðulaust að horfa fram hjá því að innan þjóðþinga Evrópubandalagslandanna er víða mikil gagnrýni á þessa

þróun og hún kemur að mínu mati til með að aukast ef nokkuð er.
    Í umræðunni um tengsl okkar við Evrópubandalagið og um hinn Evrópska efnahagssamning hefur að mínu mati ekki verið nægilega rætt um fullveldi almennt og hvernig þjóðir leitast við að tryggja sér fullveldi nú til dags. Það hefur ekki farið fram nægileg umræða heldur um ný viðhorf til fullveldisins. Þessi nýju viðhorf tengjast mjög mikið þeirri staðreynd að í nútímalegum viðskiptaheimi, þar sem þjóðir byggja tilveru sína og efnahag að mjög miklu leyti á utanríkisviðskiptum, þá verður uppruni ákvarðana í æ ríkari mæli utan landamæra hvers þjóðríkis. Ákvarðanir sem snerta örlög þjóðríkja eru teknar í auknum mæli utan landamæranna og eru flókið samspil, taka langan tíma, það er langt ferli sem þar á sér stað, og ríkin hafa með ýmsum hætti leitast við að tryggja fullveldi sitt með því að efna til verulegs samstarfs ríkja í millum.
    Þetta er kannski mótsagnakennt í augum þeirra sem vilja horfa á þetta mál, og gera það of einfalt, hvernig er hægt að afsala sér hluta af fullveldinu til þess að tryggja fullveldið. En það er nú samt þetta sem þjóðir Evrópubandalagsins hafa verið að gera. Þær hafa freistað þess að fara þessa leið. Umræðan um fullveldisafsal hér, eða meint fullveldisafsal, hefur um of einkennst af því að því hefur verið slegið fram, nú síðast hér í dag og raunar líka í umræðunni í gær, að þau ríki sem hafi gengið inn í Evrópubandalagið hafi afsalað sér fullveldi sínu og sjálfstæði. Þetta hefur komið fram í máli a.m.k. þriggja hv. þm. Alþb. Og ég verð að segja eins og er að mér finnst full ástæða til að vara við málflutningi af þessu tagi.
    Ef menn líta svo á að þær þjóðir sem nú mynda Evrópubandalagið hafi afsalað sér fullveldi sínu og sjálfstæði með því að ganga í bandalagið þá verða menn að svara því hvað það þýðir í raun og veru. Eru menn reiðubúnir til þess að tala á öðrum vettvangi en hér heima í þessum tón? Eða er þetta málflutningur sem er eingöngu til heimabrúks? Eru þeir þingmenn, sem fullyrða í þessari umræðu um Evrópubandalagið að þjóðirnar í bandalaginu hafi afsalað sér fullveldi sínu og sjálfstæði, reiðubúnir til þess að segja þetta á erlendum málþingum? Eru þeir reiðubúnir til að halda þessu fram við fulltrúa erlendra ríkja? Hafa þeir gert það? Hafa þeir haldið þessu fram á erlendum málþingum við fulltrúa erlendra ríkja? Og ef svo er að þessir ágætu þingmenn hafa þessa afstöðu í raun og nota hana ekki eingöngu til heimabrúks, heldur líka á erlendum vettvangi, hvað þýðir það í þeirra augum ef þessi þjóðríki hafa glatað sjálfstæði sínu og fullveldi með því að ganga inn í Evrópubandalagið? Eigum við þá að slíta stjórnmálasambandi við þau? Hver er merkingin í þessari umræðu?
    Þetta eru allt saman spurningar sem verða áleitnar þegar svo djúpt er tekið í árinni eins og t.d. hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði í umræðunni um þessi mál fyrr í kvöld. Það þarf að svara því hvernig menn líta á þessi mál í heild, hvort menn líta svo á að þau ríki sem mynda Evrópubandalagið hafi í raun og veru afsalað sér fullveldi sínu og sjálfstæði. Og þá hljóta þeir sem þannig tala að taka afleiðingunum af þeirri afstöðu sinni.
    Þetta er einkum og sér í lagi mikilvægt vegna þess að með þessu móti er hægt að tengja inngöngu í Evrópubandalagið nánast svikum við öll þau gildi sem flestir menn vilja hafa í heiðri, þ.e. sjálfstæði síns eigin þjóðríkis og fullveldi. Ég hef ekki orðið var við það að fulltrúar þeirra þjóða, sem eru í Evrópubandalaginu og ég hef átt þess kost að ræða við, hafi litið svo á að þeir hafi glatað fullveldi sínu, hreint ekki. Þeir hafa ekki litið svo á og mundu sennilega fyrtast ef slíkur málflutningur væri uppi. Þeir hafa hins vegar viðurkennt það að þeir hafi afsalað sér hluta af fullveldi sínu. Það er viðurkennt.
    Mér finnst nauðsynlegt að í þessari umræðu sé reynt að varpa ljósi á eðli þessa ríkjasambands fordómalaust. Það er mjög mikilvægt vegna þess að þegar við ræðum um sérstöðu Íslands þá skiptir eðli Evrópubandalagsins náttúrlega mjög miklu máli og eðli þeirra samninga sem við erum að gera við þetta bandalag með samfloti við EFTA-þjóðirnar.
    Ísland hefur í samningaviðræðum um Evrópska efnahagssvæðið markað sér mjög skýra sérstöðu. Og það hefur í raun og veru legið fyrir alveg frá upphafi samningaferilsins að Íslendingar hafa í þessu máli mjög mikla sérstöðu. Sérstaðan endurspeglast nánast í öllu samningaferlinu því að þeir hafa áskilið sér þann rétt frá upphafi --- og gera það enn --- að undanskilja mikilvægustu auðlindir þjóðarinnar fjárfestingu erlendra aðila. En þessi frjálsa fjárfesting er einmitt eitt af grundvallaratriðum í samningunum um Evrópska efnahagssvæðið. Að þessu leyti föllum við mjög illa að þeim veruleika sem þarna er verið að bjóða upp á. Það er viðurkennt í sjálfum samningaviðræðunum að þetta samrýmist mjög illa okkar hugmyndum um það hvernig við viljum haga okkar samningum við aðrar þjóðir. Þess vegna höfum við tryggt okkur fyrirvara í öllum grundvallaratvinnugreinum okkar, þ.e. í sjávarútvegi, í orkuframleiðslu, og það hafa einnig verið settir fyrirvarar á vissum tíma um landakaupin.
    Ég get ekki annað en fjallað um þann fyrirvara örlítið nánar vegna þess að hann hefur orðið tilefni til umræðna hér í þingsölum, einkum og sér í lagi af hv. 7. þm. Reykn., sem þreytist ekki á því að minnast á það að frá fyrirvara um landakaupin hafi ekki verið gengið nógu rækilega, en það hafi ætíð verið mikið áhugamál Framsfl. að ganga vel og rækilega frá þeim málum.
    Það vill nefnilega svo til að í kosningabaráttunni síðast fór Framsfl. fram undir merki sem sjálfur formaður flokksins, hv. 7. þm. Reykn., reisti flokknum, en upplýst var eftir kosningarnar að var byggt á misskilningi. Það var varaformaður flokksins sem upplýsti það eftir kosningarnar að sú áhersla sem Framsfl. lagði á það að við værum að kjósa um hvort við ætluðum inn í Evrópubandalagið eða ekki hefði verið byggð á misskilningi. En að sjálfsögðu var það ekki fyrr en eftir kosningarnar þannig að í kosningabaráttunni gekk flokkurinn fram undir merki sem var byggt á misskilningi og þar af leiðandi var hann í kosningabaráttu veifandi röngu tré frekar en öngvu, eins og oft vill nú verða.
    Mér er það mjög minnisstætt að í kosningabaráttunni í Norðurl. e. sögðu frambjóðendur og þingmenn Framsfl. að Framsfl. hefði gengist fyrir lagasetningu þar sem það hefði verið sérstaklega tryggt að útlendingar hefðu ekki sama rétt og Íslendingar til þess að kaupa land. Og um þetta var nokkuð deilt. Ég man að ég deildi talsvert á þennan málflutning og fullyrti það að þvert á móti hefði Framsfl. opnað á það að útlendingar gætu keypt hér land. Þessu var kröftuglega mótmælt af þingmönnum og frambjóðendum Framsfl.
    Nú vill svo til að sumarþingið hafði ekki staðið lengi þegar formaður Framsfl., hv. 7. þm. Reykn. Steingrímur Hermannsson, upplýsti þingheim um það að einmitt þessi löggjöf, sem hefði átt að tryggja réttindi Íslendinga til þess að kaupa land umfram réttindi annarra, hefði alls ekki verið sett. Hann veittist meira að segja, ef ég man rétt, að hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir að hafa ekki gengist fyrir löggjöf um þetta efni. Þarna var þá komið í ljós í sambandi við þessi mál allsérkennilegt sambandsleysi milli þingmanna Framsfl. í Norðurl. e. og formanns flokksins þar sem formaðurinn kvartaði undan því að lög, sem ættu að tryggja Íslendingum rétt umfram útlendinga til kaupa á landi, hefðu ekki verið sett, en framsóknarþingmenn í Norðurl. e. hældu sér af því að þessi lög hefðu verið sett.
    Að sjálfsögðu var þarna um að ræða lög sem heita lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, og lög um breytingar á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem framsóknarþingmennirnir í Norðurl. e. höfðu verið að hæla sér af að hafa sett til að tryggja rétt Íslendinga í þessum efnum. Misskilningurinn var byggður á því að þessi lagasetning var rýmkunarlagasetning í staðinn fyrir að hafa þrengt þennan kost, alveg öfugt við það sem þingmenn flokksins höfðu haldið fram í umræðunni.
    Þessi lög, sem sett voru, boðuðu þá breytingu að skilyrðin fyrir því að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi, þar með talið veiðirétt, vatnsréttindi eða önnur fasteignaréttindi, eru ekki lengur að vera íslenskur ríkisborgari. Eftir löggjöf þá sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar stóð fyrir er nú nægilegt að hafa átt lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár til að geta keypt landeignir. Flokkurinn hafði þar af leiðandi ekki staðið vörð um sérréttindi Íslendinga í sambandi við landakaup heldur hafði hann opnað þennan möguleika til landakaupa erlendra manna hér á landi.
    Hins vegar liggur nú fyrir þinginu frv. til laga um breytingu á jarðalögum, nr. 65 1976, með síðari breytingum. Flm. eru Elín Líndal, Steingrímur Hermannsson og Jón Helgason. Með því frv. er verið að þrengja þennan rétt erlendra aðila nokkuð. Hér er því komið það frv. sem framsóknarmenn höfðu hælt sér mest af að þeir hefðu sett lög um til þess að tryggja rétt Íslendinga til landakaupa umfram aðra menn. Það er raunar leitt að flm. þessa lagafrv. skuli ekki vera þrír þingmenn Framsfl. úr Norðurl. e., það hefði kórónað þennan málflutning allan.
    Ég orða þetta sérstaklega hér vegna þess að mér hefur fundist þessi málflutningur ekki sæmandi, ekki síst vegna þess að umræðan um þessi mál var mjög í brennidepli í þessu kjördæmi og Framsfl. gerði sig að sérstökum varnaraðila fyrir Íslendinga í þessu máli og taldi sig hafa tryggt þeirra forréttindi umfram aðra. Og hvers vegna geri ég þetta að miklu máli hér og nú? Jú, það er vegna þess að ég er sammála framsóknarmönnum um það að landið sé ein af þeim auðlindum sem við eigum að tryggja forréttindi Íslendinga til. Ég er sammála þeim um það.
    Það hefur verið sagt að það sé misskilningur að halda að útlendingar bíði í biðröðum eftir því að kaupa land á Íslandi, en það er ekki efnisatriði málsins. Það skiptir engu máli hvort menn standa í biðröðum eða ekki. Við eigum að tryggja rétt Íslendinga til að nýta sitt land og það fólk sem býr hér á Íslandi á að hafa þar rétt umfram annað fólk til þeirra hluta. Þetta er hluti af okkar auðlindum og við eigum að ganga tryggilega frá þessu. Það hefur ekki verið gert enn þá og ég legg sjálfur áherslu á að það verði gert í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að þó að ég hafi lagt áherslu á það að menn reyni að sýna því skilning hvers eðlis Evrópubandalagið er og reyni að átta sig á þeim flókna veruleika sem þar er að finna, þá er ég þeirrar skoðunar að Íslendingar geti ekki gengið inn í Evrópubandalagið eins og það er nú, og hef miklar efasemdir um að það bandalag tryggi okkur neina þá hagsmuni sem við munum sækjast eftir. Ástæðan fyrir því er kannski fyrst og fremst sú að þau vandamál sem ég vék að hér í upphafi máls míns og tengjast því hvernig þjóðríki og hvernig landamæri eru dregin í Evrópu, þau vandamál sem Evrópubandalagið er í raun og veru að leysa í þessum efnum --- og hefur gengið prýðilega að leysa, satt best að segja --- þau vandamál snerta ekki Íslendinga. Staðan hér á Íslandi er öll önnur. Við eigum ekki neinna þeirra hagsmuna að gæta innan Evrópubandalagsins sem eru í neinni líkingu við það sem Evrópuþjóðirnar hafa. Ég tel að með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið getum við tryggt nauðsynlega hagsmuni Íslendinga en tek það fram að þeir fyrirvarar sem settir hafa verið eru nauðsynlegir og það þarf að ganga betur frá fyrirvaranum um landakaupin því að hann snertir íslenska hagsmuni mjög verulega.
    Virðulegi forseti. Það er nú allmikið liðið á nóttina og þó að þessi skýrsla utanrrh., sem er viðamikið plagg, gefi tilefni til mjög verulegra umræðna þá ætla ég ekki að lengja umræðuna hér í nótt. Ég fæ eflaust tækifæri til þess að blanda mér í hana nánar síðar og læt hér lokið máli mínu.