Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 02:23:00 (4990)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. hélt hér athyglisverða ræðu um Evrópubandalagið og eðli þess og ég ætla ekki að gera hana að umræðuefni. En hann kom í lokin að málflutningi framsóknarmanna í kosningabaráttunni um Evrópubandalagið, taldi þann málflutning hafa verið misheppnaðan og byggðan á misskilningi.
    Ég held að það sé að koma í ljós að sá málflutningur hefur alls ekki verið byggður á neinum misskilningi og málin séu að þróast þannig að það hafi verið full ástæða til að taka jafnvel dýpra í árinni. Við framsóknarmenn gengum til kosninga undir því merki að við vorum að reyna að ná samningum um Evrópskt efnahagssvæði með ákveðnum fyrirvörum sem við vildum halda til haga en nú, eins og menn hafa heyrt hér í þessari umræðu og eins á yfirlýsingum utan þings, eru fleiri og fleiri stjórnarliðar að hallast á þá sveifina að það eigi að sækja um aðild að Evrópubandalaginu, sumir segja fyrir áramót. Hins vegar heyri ég að hv. 5. þm. Norðurl. e. er ekki á þeirri skoðun og er það vel.