Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 03:25:00 (4998)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var ekki laust við að það hlakkaði svolítið í hv. seinasta ræðumanni yfir því að samningsaðila okkar um hið Evrópska efnahagssvæði hefur gengið böslulega að standa við samninginn fyrir sitt leyti, að efna samninginn sem þeir hafa gert. Nú veit ég að hv. þm. er maður sanngjarn og réttsýnn. Mér kemur því í hug að taka dæmi af bónda, t.d. loðdýrabónda, sem gert hefði samning í góðri trú við landbrh. um sín mál og talið sig í skjóli þess samnings eiga von á verulegum fjárhæðum, en nú kæmi á daginn að samningsaðilinn, landbrh., efndi ekki samninginn eða hefði ekki getað efnt hann eða hefði farið út yfir samningsumboð sitt. Þætti þá hv. þm. það réttlátt að hlakka mjög yfir óförum bóndans sem hefði orðið fyrir þessum hremmingum?
    Að öðru leyti ætla ég að svara spurningu hv. þm. um hvort ég væri reiðubúinn til að breyta gildandi lögum og reglum um verkaskiptingu í íslenska stjórnkerfinu að því er varðar Keflavíkurflugvöll. Svar mitt við því er mjög einfalt: Skoðun mín er óbreytt. Svarið er nei.