Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 03:27:00 (4999)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ja, nú verð ég að svíkja loforðið frá því áðan, en ég ætla bara að fullvissa hæstv. utanrrh. um það --- og það tók ég reyndar fram í fyrri ræðu minni hér í kvöld, sem ég verð því miður að gruna hæstv. utanrrh. að hafa ekki heyrt alla eða numið eins og þó var lofað að hann gerði fjarstaddur í öðru herbergi, og vil ég minna hæstv. utanrrh. á þá þolinmæði sem við sýndum erfiðum aðstæðum í Alþfl. með því að leyfa honum að vera fjarstaddan umræðuna hér lengst af kvöldi. --- En ég tók einmitt skýrt fram í minni ræðu þegar ég fjallaði um Evrópubandalagið og eðli þess að ég hefði fulla samúð með hæstv. utanrrh. að eiga viðskipti við það bandalag og ég skildi vel þá erfiðleika sem hann lenti í í þeim efnum og það fer alveg heim og saman við reynslu mína af Evrópubandalaginu sem ég rifjaði einmitt upp í því sambandi, t.d. þau kynni sem ég hafði af því fyrirbæri í gegnum þátttöku í GATT, Úrúgvæ-viðræðunum.
    Að öðru leyti þakka ég hæstv. utanrrh. fyrir umræðuna og svörin og tel að hann sé búinn að standa sig nokkuð vel miðað við allar aðstæður og langan dag og leggja á sig þessa vöku og þetta líkamlega erfiði. En hitt verð ég að segja að það hryggir mig að hæstv. utanrrh. skuli ekki í ljósi breyttra aðstæðna vera tilbúinn til að endurskoða þessa fullkomlega óeðlilegu verkaskiptingu hvað varðar forræði samgöngumála á Suðurnesjum og vil enn biðja hæstv. utanrrh. að velta því fyrir sér hvort ekki séu brostnar þær röksemdir, hafi þær einhvern tímann einhverjar verið, að afmörkun svonefndra varnarsvæða skuli endilega liggja nokkur hundruð metra utan við, eða reyndar ekki utan við heldur í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar í staðinn fyrir að liggja innan við hana og væri þá vandinn leystur og forræði mundi þá sjálfkrafa færast undir samgrn.