Utanríkismál

115. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 03:29:00 (5000)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Sá þingmaður sem hér talaði sagði að það væri sérkennileg útlegging af minni hálfu að láta í það skína að menn legðust gegn umræðu um Evrópubandalagið eða umræðunni almennt um þessi mál. Svo hefði ekki verið heldur hefðu menn hér, þá væntanlega alþýðubandalagsmenn öðrum fremur, óttast þá afstöðu sem glitti í hjá ráðherra. Ég held það fari ekki fram hjá neinum sem hefur hlustað á þá umræðu sem ég hef m.a. átt hér í við 4. þm. Austurl., sem er alþýðubandalagsþingmaður, að hann virðist óttast ansi mikið líka þá afstöðu sem hann telur glitta í hjá mér sem hér stend, þó að ég hafi margítrekað það að ég sæi ekki Evrópubandalagið sem fýsilegan kost og þó að ég hafi líka sagt það að Evrópska efnahagssvæðið væri það heldur ekki vegna þess að það væri skref í átt til EB-aðildar. Þetta hef ég sagt en það hefur ekki breytt því að þingmaðurinn hefur haldið því hér fram og í rauninni komið hér upp og nánast krafist þess að hér sé sagt skýrt af eða á, öðruvísi geti menn ekki rætt þessi mál. Þetta hefur ekkert farið fram hjá neinum.
    Þá hefur líka formaður Alþb. komið upp og sagt: Ég þekki Rómarsáttmálann, ég þekki Maastricht-samkomulagið. Við þurfum ekkert að skoða þessi mál nánar. (Gripið fram í.) Það dugir. Hann þekkir þetta.
    Mér finnst felast í þessu forræðishyggja. Ég held að þjóðin þekki ekki Rómarsáttmálann, þekki ekki Maastricht-samkomulagið og það þurfi að lýsa þessi mál upp og það þurfi að lýsa það upp hvað mundi ávinnast og hvað mundi tapast við aðild Íslands að þessu samfélagi Evrópu sem nú er að verða að veruleika þannig að þjóðinni sé þá ljóst, eins og ég hef sagt hér, ef við höfnum Evrópubandalaginu hverju hún sé að hafna og henni finnist ekki eins og hún sé snuðuð. Hún fái að fara í gegnum þessa umræðu og hún sé lýst upp hér á Alþingi.
    En hvað varðar ,,pólaríseringu`` í rökræðu þá er ég sammála því í sjálfu sér að hún er ekki skaðleg innan vissra marka en þegar menn setja sig gjörsamlega fasta í umræðunni og eru ekki tilbúnir til þess að hlýða á rök eða taka rökum þá er engin umræða í gangi, þá eru enginn ,,díalógur`` í gangi. Það væri afskaplega gott ef það gæti átt sér stað oftar hér á Alþingi að menn kæmu ekki bara í pontu og gæfu út yfirlýsingar heldur væri hér ákveðin umræða í gangi.