Fjöldi leiguliða og fullvirðisréttur

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:36:00 (5003)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Svör hæstv. landbrh. við tveim fyrstu spurningunum voru skýr og skilmerkileg, enda í sjálfu sér auðvelt að afla þeirra upp úr jarðaskrá eins og hæstv. ráðherra gat um. Þar vekur svo sem ekki margt athygli þeim sem kunnugir eru þeim málum en sú staðreynd er e.t.v. áhugaverð fyrir einhverja hv. þm. að hlutfall leiguliða er jafnhátt og raun ber vitni eða um 28%. Hins vegar voru svör hæstv. ráðherra

við 3. og 4. spurningunni nánast engin og það undrar mig að hæstv. ráðherra og landbrn. skuli ekki hafa á takteinum a.m.k. einhverjar upplýsingar, einhverjar vísbendingar að gefa um það hvaða hlutdeild leiguliðar á ríkisjörðum og á öðrum jörðum eiga í því að láta frá sér framleiðslurétt eða innleysa hann og fá greiðslu fyrir þó svo að þeir séu ábúendur á ríkisjörðum. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Er með þessu verið að segja að landbrn. hafi í raun og veru ekki í höndunum neinar upplýsingar um það hvar þessi aðlögun er á vegi stödd, hvað leiguliðana og jafnvel alla aðra bændur í landinu snertir? Hefur virkilega ekki enn farið fram neitt stöðumat á því hvar menn eru á vegi staddir varðandi innlausn fullvirðisréttar frá og með síðasta hausti, frá og með þeim tímamótum sem þá urðu? Ef svo er ekki, þá legg ég eindregið til að slíkra upplýsinga verði aflað því að það er ekki seinna vænna ef menn ætla ekki að renna algjörlega blint í sjóinn með það hvað þeirra bíður á komandi hausti þegar síðari niðurfærsla fullvirðisréttar fer fram.
    Ég lýsi miklum vonbrigðum með það að hæstv. landbrh. skuli í raun og veru ekki geta svarað neinu um tvær síðari spurningar þessarar fsp., hafandi þó haft til þess nokkurn tíma að undirbúa svörin. Auðvitað verður að taka því ef staðreynd mála er sú að landbrn. hafi engar upplýsingar um þetta í höndum eins og hér mátti skilja á máli hæstv. ráðherra. Sé svo, þá ítreka ég spurninguna: Er þess að vænta að fljótlega verði slíkar upplýsingar teknar saman þannig að menn viti hvar þeir eru á vegi staddir í þessum efnum? Eru einhverjar tæknilegar hindranir sem menn sjá í vegi fyrir því að taka saman slíkar upplýsingar í ljósi þess að öll slík viðskipti eru tilkynningarskyld til stjórnvalda, fara í gegnum búnaðarsambönd og eru tilkynningarskyld til stjórnvalda jafnharðan, öðlast ekki staðfestingu nema slíkar tilkynningar hafi átt sér stað m.a. vegna þess að ákveðnir aðilar eins og Landgræðslan hafa umsagnar- eða umfjöllunarrétt?
    Mér þætti vænt um ef hæstv. landbrh. gæti eitthvað reynt að bæta í svör sín sem engin voru í raun og veru við 3. og 4. spurningunni en koma þá hér og staðfesta það og játa hreinskilnislega ef svo báglega er ástatt sem ætla mátti að þar sé alls engin svör hægt að veita af hálfu ráðuneytisins.