Sala á veiðiheimildum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 10:48:00 (5009)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég ber hér fram fsp. sem er á þskj. 585 og er til sjútvrh. um sölu á veiðiheimildum. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hafði sent þessa fsp. inn en þar sem hann hefur nú horfið til síns heima og aðalmaður tekið sitt sæti á þingi, en fyrirspyrjandi er varamaður, þá ber ég fram þessa fsp. Fsp. hljóðar svo:
    ,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að ákvæði 11. gr. laga nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, um forkaupsrétt sveitarfélaga verði breytt á þann veg að sveitarfélög hafi í öllum tilvikum forkaupsrétt þegar um er að ræða sölu á veiðiheimildum skipa út úr byggðarlagi?``
    Það er öllum alþingismönnum kunnugt að þær varnir sem hafa verið settar við flutningi veiðiheimilda á milli byggðarlaga eru veikar. Það var þó reynt að gefa sveitarfélögunum kost á forkaupsrétti á veiðiheimildum ef skip væru seld milli byggðarlaga og það er enginn vafi á því að það var ásetningur löggjafans þegar þessi ákvæði voru sett í lögin að þetta ættu að vera forkaupsréttarákvæði til þess að koma í veg fyrir að veiðiheimildir flyttust á milli byggðarlaga. En menn áttuðu sig ekki á því að veiðiheimildir eru flytjanlegar á milli skipa. Það er sem sagt heimilt að flytja veiðiheimildir á milli skipa og í framkvæmdinni hefur það komið fram að menn hafa fundið leiðir til þess að flytja veiðiheimildir án þess að selja skip og þar af leiðandi hefur forkaupsréttur sveitarfélaganna ekki verið til staðar ef menn hafa viljað beita þessari aðferð.
    Menn hafa líka fundið upp þá aðferð að með því að kaupa hlutafé í fyrirtækjum, í hlutafélögum sem eiga skip og veiðiheimildir, þá hafa menn séð fram á það að geta flutt starfsemi hlutafélagsins á milli byggðarlaga. Ég held að það sé ýmislegt fleira sem hafi líka orðið öðruvísi í framkvæmdinni heldur en menn hafi ætlast til. Sumt hafa menn kannski ekki rætt en ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi fram hvort stjórnvöld hyggist bregðast við og tryggja það sem löggjöfin ætlaði sér í upphafi, þ.e. að sveitarfélögin ættu forkaupsrétt á veiðiheimildum.