Sala á veiðiheimildum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:00:00 (5014)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka fram vegna ummæla síðasta ræðumanns að samkvæmt mínum skilningi var þetta ákvæði aldrei sett fram með það fyrir augum að sveitarfélög færu að kaupa útgerðir eða kvóta í stórum stíl þannig að það á þess vegna ekki að koma nema takmarkað við fjárhagsstöðu einstakra sveitarfélaga. Ég lít þannig á að þetta ákvæði sé til þess að sveitarfélögin hafi tíma til þess að hafa milligöngu um það að aðilar í viðkomandi sveitarfélagi sem eru í útgerð og fiskvinnslu geti nýtt sér þennan forkaupsrétt. Hitt er hættuleg braut að mínu mati sem hefur verið farið út á að nokkru að undanförnu að sveitarfélögin fari út í atvinnustarfsemi í útgerð og fiskvinnslu langt umfram þær heimildir sem eru í raun í lögum varðandi slíka starfsemi sveitarfélaga. (Gripið fram í.) Ef menn skoða lögin um sveitarfélögin þá hafa sveitarfélögin í raun ekki lagaheimildir til þess að fara út í slíka hluti.