Öryggi í óbyggðaferðum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:09:00 (5019)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Þann 22. febr. árið 1990 samþykkti Alþingi ályktun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að bæta öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum með því að samræma og setja reglur og lög eftir því sem við á og með því að skipuleggja fræðslu, ráðgjöf og upplýsingar til ferðafólks.
    Við undirbúning málsins verði haft samráð við samtök áhugafólks um ferðalög og slysavarnir.``
    Í nál. allshn. sem fjallaði um málið segir m.a. að nefndin telji að brýnt sé að þessu máli sé fylgt fast eftir. Nú eru liðin meira en tvö ár frá því að þessi tillaga var samþykkt hér á Alþingi og ekki hef ég orðið vör við að gerðar hafi verið viðeigandi ráðstafanir þó að það geti vel verið að það hafi verið gert.
    Við flm. þessarar tillögu, en það voru flm. úr öllum flokkum sem þá áttu sæti á Alþingi, lögðum áherslu á það að margar af þeim hugmyndum, sem settar voru fram og þyrfti að hafa í huga við endurskoðun, þyrftu ekki lagabreytinga við heldur væri þetta í mörgum tilvikum bara spurning um skipulagningu og samræmingu og setja reglur á grundvelli núgildandi laga.
    Við lögðum áherslu á að það þyrfti að auka fræðslu fyrir ferðamenn, bæði innlenda og erlenda. Við bentum á að eðlilegt væri að efla þá tilkynningaþjónustu sem nú þegar er starfrækt og jafnvel tilkynningaskyldu ef farið er á ákveðna staði, fáfarna og erfiða staði. Við bentum á að e.t.v. þyrfti að taka upp einhverjar tryggingar og það væri eðlilegt að hafa samráð við tryggingafélögin um það hvort möguleiki væri á að taka upp ferðatryggingar en víða erlendis er hægt að kaupa slíkar tryggingar þegar farið er inn á ákveðin svæði. Ég get tekið sem dæmi að þegar skíðamenn í Ölpunum fara á svæði sem eru talin hættuleg eða geta verið hættuleg, þá geta þeir keypt sér tryggingar kannski í einn dag eða um nokkurra daga skeið. Við töldum jafnvel að það þyrfti að setja ákvæði um það jafnvel í lög að hægt væri að banna ferðalög á ákveðin tiltekin svæði, ef um sérstakar ástæður væri að ræða, t.d. mikil snjóflóðahætta, óveður í aðsigi eða þess háttar.
    Til að fá upplýsingar um þetta hef ég spurt hæstv. ráðherra á þskj. 613 um hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til að bæta öryggi þeirra sem ferðast í óbyggðum.