Vernd gegn innheimtumönnum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:22:00 (5024)

     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Svonefnt Þjóðlífsmál hefur vakið verðskuldaða athygli í umtali á landinu í síðustu viku. Þar hafa óprúttnir innheimtumenn komist upp með að féfletta hrekklausa samborgara og að nokkru leyti notið fulltingis dómsyfirvalda við þá iðju. Að minnsta kosti hafa þar til kvödd yfirvöld ekki séð ástæðu til þess að grípa í taumana og stöðva þennan verknað þrátt fyrir að kærur um skjalafals og margháttuð lögbrot innheimtumannanna hafi legið fyrir. Ég vil taka það skýrt fram að það er ekki Þjóðlíf sem stendur að þessum innheimtum.
    Hér er um að ræða mjög alvarlegt mál sem snertir fjölda einstaklinga sem bæði hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni og ekki síður tilfinningalegum skaða. Ég hef því borið eftirfarandi fsp. fram við hæstv. dómsmrh.:
    ,,Hyggst dómsmrh. grípa til einhverra aðgerða til verndar almennum borgurum gegn innheimtumönnum sem virðast beita réttarkerfinu til að ná fé út úr saklausu fólki, sbr. fréttir af slíku athæfi í fjölmiðlum í síðustu viku í tengslum við innheimtu áskriftargjalda tímaritsins Þjóðlífs?``
    Ég vil taka það skýrt fram að Lögmannafélag Íslands hefur beðið hæstv. dómsmrh. um aðgerðir í þessu máli og hliðstæðum þar sem þeir telja sig ekki hafa vald á slíku. Og ég ítreka að það hlýtur að vera hlutverk réttarkerfisins í aðra röndina að vernda hinn almenna borgara gegn aðferðum af þessu tagi, ekki síst þar sem flest bendir til að hér sé farið út fyrir ramma laganna og lögum beitt á allan hátt til þess að verja þá sem raunverulega standa að þessari innheimtu.
    Það er vissulega rétt og hefur verið bent á það að réttarkerfið hljóti að horfa blint á lögin en það má samt aldrei fara svo að úr því verði siðblinda. Það þýðir að grafið verður undan réttarkerfinu og tiltrú almennings rýrð og það má ekki gerast.
    Ég vil að lokum ítreka það að fyrir heiðarlegt og grandvart fólk sem hefur staðið í skilum með allt sitt á sinni ævi er það gífurlegt áfall að verða fyrir því að vera dæmt til fébóta að ósekju.