Vernd gegn innheimtumönnum

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:33:00 (5027)


     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég verð því miður að lýsa yfir nokkrum vonbrigðum yfir þeim maraþonlestri upp úr lögum sem hæstv. dómsmrh. fór með áðan. Í þessu máli liggur alveg ljóst fyrir að þeir sem seldu kröfurnar í upphafi skrifuðu öllum bæjarfógetum landsins bréf þar sem þeir bentu á það að þarna væri ekki farið að þeim samningi sem gerður hefði verið, þarna væri um lögbrot að ræða og það varð til þess að tiltekin embætti tóku þetta til greina. Á Sauðárkróki til að mynda bárust 14 mál, en eftir að hafa fengið gögn Þjóðlífs í hendur sá fulltrúi þess embættis ástæðu til að skipa lögfræðing fyrir allan hópinn og tekið var til varna í málinu. Öllum málunum var frestað og þar er búist við að innheimtuaðilinn verði dæmdur til skaðabóta.
    Varðandi rétt instaklinganna verð ég að ítreka það að ég tel að dómskerfið hafi brugðist þegar það gerist að einstaklingar eru ekki upplýstir um rétt sinn. Og það er þetta sem ég á við þegar ég segi að dómskerfið verði að huga að rétti þeirra sem að á að ganga. Fólk var dæmt til fébóta án þess að vera upplýst um rétt sinn til þess að áfrýja málinu til Hæstaréttar. Það er ekki fyrr en formaður Neytendafélags Akureyrar tekur málið upp af mikilli hörku að þetta kemur fram.
    Ég vil því ítreka það mjög ákveðið til hæstv. dómsmrh. að ég tel fulla ástæðu til þess að dómsmrh. beiti sér fyrir því --- það er jú dómsmrh. sem í flestum tilfellum hefur frumkvæði um þá löggjöf sem starfað er eftir --- að skerpt verði þau ákvæði sem menn hafa sér til varnar og sérstaklega að skerpt verði ákvæði um það að menn séu upplýstir um hvaða rétt þeir hafa.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, nefna að eftir að hafa skoðað þetta mál svolítið, það sem að baki býr og þá flækju á fyrirtækjum og sölum á viðkomandi kröfum fram og til baka, sér maður inn í heim sem mann hryllir við og það hlýtur að vera rík ástæða til þess fyrir yfirvöld dómsmála að kanna hvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að menn geti skotið sér undan ábyrgð með þeim hætti sem hér er um að ræða.