Akstur utan vega

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:43:00 (5030)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að hér er um mjög mikilsvert viðfangsefni að ræða sem sannarlega er ástæða til að gefa gaum. Nefnd sem skipuð var í framhaldi af ályktun Alþingis tók til starfa en störf hennar féllu svo niður og mér er ekki kunnugt um að hún hafi starfað á síðasta ári.
    Mál hafa breyst á ýmsa vegu síðan þessi ályktun Alþingis var gerð 1988. Til að mynda hefur verið stofnað nýtt ráðuneyti umhverfismála sem eðlilegt er að fari með forustu í þessum efnum. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að koma þessum málum í nýjan framkvæmdafarveg og rétt að leggja þá nefnd niður sem átt hefur að vinna að þessum málum en ekki hefur gert það að undanförnu.
    Umhvrn. hefur haft mjög markverða og athyglisverða forustu í þessum málum. Það hafði frumkvæði að ráðstefnu sl. vetur í nóvembermánuði ásamt dómsmrn. og samgrn. þar sem ýmsar hugmyndir og tillögur komu fram, bæði að því er varðar verkefni á þessu sviði sem unnt er að framkvæma án lagabreytinga og eins að því er varðar nauðsynlegar lagabreytingar. Umhvrn. er að ýta úr vör starfshópi sem á að vinna að framkvæmdum þeirra atriða sem unnt er að koma fram án lagabreytinga. Í þessum starfshópi starfa Sigurður Þráinsson frá umhvrn. og Hjalti Zóphóníasson frá dómsmrn. og í honum eiga einnig að vera fulltrúar frá Vegagerð og Ferðamálaráði og í undirbúningi er endurskoðun á lögum um náttúruvernd undir forustu Höskuldar Jónssonar.
    Víðast hvar eru ákvæði, a.m.k. á Norðurlöndunum, um akstur utan vega ekki í umferðarlögunum sjálfum. Við höfum gengið lengra í því efni en aðrar þjóðir og er litið svo á að hér sé um að ræða verkefni á sviði umhverfismála og þeirrar löggjafar sem um þau efni gilda.
    Ég lít svo á að umhvrn. hafi tekið þessi mál föstum tökum og sé að koma þeim á framkvæmdastig með góðum og skipulögðum hætti og dómsmrn. mun leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu því að óneitanlega tengjast mjög ákvæði umferðarlaga og þau viðfangsefni sem hér er við að fást. Það hefur verið mjög gott samstarf á milli dómsmrn. og umhvrn. um þetta efni eins og önnur og ég vænti þess að með nýrri skipan á framkvæmd þessara mála verði komið á fastari skipan að því er varðar umferð utan þjóðvega og ekki síst á hálendinu sem er mjög viðkvæmt. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að þar þurfa menn að fara að með mikilli gát.