Akstur utan vega

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:47:00 (5031)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir og staðfesta margt af því sem hæstv. dómsmrh. sagði. Það þarf að gera ákvæði náttúruverndarlaga skýrari og styrkja þau í þessu efni. Ég hef óskað eftir því við formann þeirrar nefndar sem endurskoðar nú ýmis ákvæði náttúruverndarlaga að taka þetta mál sérstaklega til athugunar. Þar hefur orðalag ekki verið nægilega skýrt. Það þarf einnig að bæta reglur um það hvernig kærur eru settar fram vegna þessa athæfis, hvaða gögn þurfa að fylgja þeim o.s.frv. Þetta hefur reynst svolítið erfitt í framkvæmd þrátt fyrir að reynt hafi verið að gera ýmsar ráðstafanir til úrbóta í góðri samvinnu við dómsmrn. Það þarf líka að samræma störf sýslumanna um það hvernig tekið er á þessum málum og að tekið sé fljótt á þeim þannig að útlendingar sem uppvísir verða að brotum á þessum lögum verði ekki farnir úr landi áður en litið er á málin.
    Ég nefni það hér einnig að það er að taka til starfa starfshópur um framkvæmd aukins eftirlits, fræðslu, vegamerkingar og fleira í framhaldi af tillögum sem fram komu á ráðstefnu sem umhvrn., dómsmrn., samgrn. og fleiri aðilar gengust fyrir einmitt um þessi mál á sl. hausti eins og getið var.