Akstur utan vega

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 11:50:00 (5033)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það efni sem hér er rætt hefur verið á mínu áhugasviði alllengi. Ég flutti þá tillögu hér á Alþingi sem leiddi til samþykktar og að nefnd hóf störf. Það var veruleg raun að vinna í þessari nefnd, ég var þar tilnefndur fyrir hönd míns þingflokks, því að það var byrjað þokkalega, unnið í tvo mánuði og síðan ekki söguna meir þrátt fyrir ítrekaðar óskir af hálfu nefndarmanna um að störfum yrði fram haldið.
    Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir áhuga hans á því að koma þessu máli á braut á ný og mér finnst eðlilegt það sem hér hefur komið fram einnig frá hæstv. umhvrh. að það verði þessi ráðuneyti og umhvrn. e.t.v. sem hafi þar forustu og haft verði samráð við dómsmrn. sem og önnur ráðuneyti sem í hlut eiga. Það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að taka þessi mál föstum tökum því annars endum við hér með Afríkuástand, svo að notuð sé ávísun á það sem þekkt er undir Afríkusafarí og þykir ekki til fyrirmyndar.