Útboð

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:01:00 (5037)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort ég ráðgeri að flytja frv. til laga um útboð þar sem kveðið verði á um réttindi og skyldur þeirra sem starfa á útboðsmarkaði. Því er til að svara að málið er og hefur verið á dagskrá í iðnrn., m.a. vegna samþykkta Landssambands iðnaðarmanna um málið sem hv. fyrirspyrjandi nefndi. Það hefur enn ekki verið tekin ákvörðun um að flytja frv. en hér á landi hefur sú venja lengi gilt að í öllum meiri háttar útboðum hefur verið vísað í staðla um útboðsmál, einkum staðalinn ÍST-30 eins og hv. fyrirspyrjandi gerði hér grein fyrir áðan. Þessi staðall hefur að geyma allnákvæmar reglur um réttindi og skyldur aðila og það er litið svo á að staðallinn sé hluti af samningsskyldum útboðsaðila og þeirra sem bjóða samkvæmt útboði. Með þessum orðum er ég alls ekki að hafna því að til greina komi að setja einnig lög um málið. En staðreyndin er sú að sjónarmið aðila um slíka lagasetningu eru afar mismunandi, að sjálfsögðu allt eftir því hvort um er að ræða kaupendur eða seljendur vöru eða þjónustu. Ég hef fengið ítrekaðar kvartanir frá íslenskum skipasmíðastöðvum sem ég hygg að hv. fyrirspyrjandi muni vera kunnugur þar sem því er einatt haldið fram að rangt hafi verið staðið að útboði verka á þeirra sviði en hins vegar er mér ekki kunnugt um að menn hafi látið á þetta reyna, reyna á rétt sinn í slíkum tilfellum þótt umbúnaður útboðanna hafi verið í samræmi við staðalinn.
    Í Danmörku eru í gildi útboðslög frá árinu 1966 og mun Danmörk eitt fárra landa sem hefur lögfest slíkar reglur. Reglurnar sem lögfestar eru í þessum lögum í Danmörku eru um útboð í byggingar og aðra mannvirkjagerð og eru mjög líkar þeim sem í gildi eru hér samkvæmt staðlinum ÍST-30. Þar er fjallað um opin og lokuð útboð sem hér er fjallað um í þessum staðli og lögfestar sömu reglur og þar gilda, þ.e. fyrst og fremst að í opnu tilboði megi taka hvaða tilboði sem er en í lokuðu tilboði skuli taka lægsta tilboði eða hafna öllum. Þar eru settar reglur um opnun tilboða sem eru hliðstæðar því sem hér hefur lengi gilt og loks eru ákvæði um bann við samráði við tilboðsgerð en slík tilvik hafa hér á landi fallið undir verðlagslög og samkeppnislög og eru nú enn skýrar bönnuð í nýju frv. til samkeppnislaga sem mun birtast hér í þinginu í dag að ég hygg.
    Í stuttu máli er það niðurstaða samstarfsmanna minna í iðnrn. og viðskrn. að þeir telja óvíst að það

þjóni tilgangi að setja sérstök útboðslög nema þá að í slíkum lögum verði vísað til útboðsstaðla og lögð skylda á menn að fylgja þeim stöðlum. Ég er vissulega reiðubúinn til að hlusta á önnur rök í málinu og vildi nota þetta tækifæri til að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa málinu, bendi á að einnig á sviði Evrópuréttarins og Evrópustaðla eru þarna hlutir að gerast sem ég tel mikla ástæðu til að við fylgjumst með og hygg gott til samstarfs við hv. fyrirspyrjanda og aðra þingmenn um það mál ef það kynni að koma fyrir Alþingi.