Útboð

116. fundur
Fimmtudaginn 02. apríl 1992, kl. 12:06:00 (5039)

     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svar hans. Þar kom það fram að hann og hans helstu samstarfsmenn hafi ákveðnar efasemdir um það að rétt sé að setja löggjöf um útboð og hann færði rök fyrir því. Ég skildi hann reyndar þannig að enn væri þetta í athugun og mér er það ljóst að það verður ekki af því á þessu þingi úr því sem komið er en vonast til að á næsta þingi muni hann flytja slíkt frv. En verði það ekki, þá á ég von á því að ég og fleiri þingmenn munum aftur huga að flutningi slíks frv. Og ég ítreka nauðsyn þess að setja lög um framkvæmd útboða.
    Það er staðreynd að menn hafa farið mjög frjálslega með þessi mál. Hæstv. viðskrh. nefndi í því sambandi kvartanir frá skipasmíðastöðvum sem er hárrétt hjá honum og þær hafa reyndar komið frá ýmsum fleiri aðilum. Það er mjög algengt í þeirri grein að menn nota lægstu tilboð til þess að pína niður verð hjá öðrum bjóðendum og jafnvel hjá aðilum sem ekki hafa boðið í viðkomandi verk. Menn hafa oft og tíðum gengið með lægsta tilboð á milli annarra aðila og sýnt það og sagt: Hvað viltu fara mikið niður fyrir þessa tölu? Og við slíkt er náttúrlega ekki hægt að una í viðskiptunum.
    Ég tek það skýrt fram að ég tel að með setningu laga um útboð sé ekki verið að svipta þá sem hlut eiga að máli neinum rétti til að ráðstafa eigin málum. Það er aðeins verið að setja leikreglur sem tryggja rétt þeirra sem starfa á útboðsmarkaði.
    Hæstv. viðskrh. nefndi dönsku lögin. Þau eru afskaplega opin. Þau eru nánast rammi og það er nú svo að danskir iðnrekendur og iðnaðarsamtökin hafa barist mjög fyrir því undanfarið að þau lög verði tekin upp og endurskoðuð og fyllt nánar út í þann ramma þannig að þeim sem starfa á útboðsmarkaði þar í landi finnst að þau lög séu allt of opin og þurfi að vera ítarlegri.
    Ég vil bara að lokum ítreka nauðsyn þess að sem fyrst verði sett lög sem hafa að geyma helstu grundvallarreglur um réttindi og skyldur þeirra sem starfa á útboðsmarkaði og ég vona að frv. um það sjái dagsins ljós á næsta þingi.